Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008
29.6.2008 | 23:42
Stelpusnillingar
Í gær tóku Stelpurnar okkar í Þór/KA á móti Sindra frá Höfn í Hornafirði í Vísabikarkeppni KSÍ. Þeim leik lauk með öruggum sigri Stelpnanna okkar 4-0. Í liði Sindra eru a.m.k. þrír leikmenn sem hafa leikið með Þór. Þótti gaman að sjá einn leikmanna Sindra lék með höfuðfat merkt Þór. Gaman að fá Sindra stúlkur í heimsókn. Þær fá plús fyrir fína baráttu og heiðarlegan leik í alla staði. Sendum Hornfirðingum hlýjar kveðjur úr kuldanum héðan.
Síðar um daginn brugðum við Sædís okkur vestur á Sauðárkrók. Eins og ég hef áður getið voru barnabörnin þar að taka þátt í Landsbankamótinu í knattspyrnu. Þrátt fyrir að veðrið léki ekki beinlínis við þátttakendur og gesti fór allt vel fram og allir skemmtu sér hið besta. Þetta er í fyrsta skiptið sem þær Margrét Birta og Elín Alma taka þátt í knattspyrnumóti.
Hjá krökkum skiptast á skyn og skúrir. Þeim gekk vonum framar og eru við aðstandendur þeirra afar stolt af þeim, nema hvað? En í raun hjá svona ungum krökkum skipta úrslit ekki öllu máli, heldur að hafa gaman af. Samt sem áður er greinilegt á hegðun sumra foreldra að þeir kunna sig ekki. Halda mætti á hegðun þeirra, öskrum og óviðeigandi athugasemdum um andstæðinga liðs síns að þeir átti sig ekki á tilgangi lífsins.
Liðið hjá þeim systrum gekk vonum framar og eftir fyrri dag höfðu þær unnið sig upp í hæsta styrkleikaflokk og spiluðu þar í úrslitakeppni seinni daginn. Luku keppni í verðlaunasæti, en fyrstu fjögur liðin fá verðlaunapeninga.
Stelpurnar voru með hópnum nær allann tímann á meðan við foreldrar, afi, amma og Sædís héldum til hjá þeim heiðurshjónum Mörtu Sigtryggsdóttir og Jóni Ósmann Magnússyni. Var stjanað við okkur gestina með þvílíkum hætti að maður var og er orðlaus. Marta og Jónsi takk kærlega fyrir okkur.
Sem sagt mikil og skemmtileg stelpuhelgi að baki. Þvílíkt gaman að vera umlukin svona mörgu snillingum af hinu kyninu, takk fyrir mig stelpur. Ný vika að hefjast og verða næstu dagar mjög annasamir þar sem við Jói tengdasonur erum á fullu við að undirbúa næsta Pollamót sem hefst n.k. föstudag.
Fróðleikur dagsins: Séð allt, gert allt, man ekki helminginn af því.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.6.2008 | 11:52
Skítkalt hagkerfi
Varð hugsað til þess þar sem ég horfði á leik Þórs og KA í gærkvöld nær dauða en lífi úr kulda - já er nema von. Munið þið eftir því að svartsýnasta fólkið sagði fyrir uþb 3-4 árum síðan þegar landsbyggðinni blæddi á sama tíma og höfuðborgarsvæðið blés út vegna ofþenslu hagkerfið hitnaði og hitnaði ...... og ofhitnaði? þá sagði fólk ,, já það verður nú skellur þegar hagkerfið kólnar og við fáum harða lendingu". Ríkistjórnin þáverandi sagði ,,Bull og vitleysa og hættið þessu svartsýnis rausi hér er allt í fúlsvíng og ekkert breytir því". Eins og Guðni sagði ,,hér drýpur smjör af af hverju strái". En úrslit leiksins ekki í samræmi við væntingar. En bæði lið fá + frá mér fyrir ágætis leik þrátt fyrir gríðarlega erfiðar aðstæður og ekki síður stuðningsmannahópar beggja liða - frábærir, flott stemming.
Nú aftur að efnahagskerfinu, við erum lent, hörð lending. Hagkerfið kólnar og kólnar samt er ekkert að, eða hvað?. Ofkólnunin er svo mikil að þetta er meira að segja farið að hafa áhrif á veðurfarið. Kuldinn læðir sér út um alt. Maður getur varla hætt sér út úr húsi nema dúðaður, og hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í þessu? Eigum við að þurfa bíða eftir nýjum veðurstofustjóra? hann kemur ekki til starfa fyrr en í janúar.
Gamalt máltæki segir ,,neyðin kennir naktri konu að spinna" og annað ,,brennt barn forðast eldinn". Á kannski ekki við mig nú. Alla vega af hegðun minni að dæma er ekki svo. Dreif mig kl. 06.00 í morgun út í Krossanesborgir, skoða fuglalíf og mynda. Sá mér til skelfingar að snjóað hafði í fjöll niður fyrir miðjar hlíðar. Þetta er nottla geggjun, ekki satt? Krossanesborgir eru perla. Gríðarlega mikið fuglalíf og gróðursælt feiknalega mikil. Krossanesborgir eru friðland og þar verpa að því er mér skilst uþb 30 fuglategundir. Þetta svæði er laust við sóðaskap og slæma umgengni og til fyrirmyndar. En við bílaplan eitt þar sem menn leggja bílum sínum áður en haldið er í göngutúr um þessa perlu má þó sjá leiðinlega sóðaskap. Hverjir sem eiga hlut að máli hætta sér vonandi ekki inn á friðlandið fyrr en þeir hafa lært að ganga vel um.
Þessi ferð er bara undirbúningur fyrir næsta fótboltaleik. Þarf að halda blóðrásarkerfinu heitu, dugir ekki að láta það kólna eins og hagkerfið. Í dag taka stelpurnar okkar á móti Sindra frá Höfn í Hornafirði í Vísabikarkeppni KSÍ. Stelpurnar okkar í Þór/KA leika í úrvalsdeild en kynsystur þeirra frá Höfn leika í 1. deild. Fyrirfram búist við sigri Þór/KA sem eru jú á pappírum með talsvert mikið sterkara lið en Sindri. Spyrjum að leikslokum, áfram Stelpur í Þór/KA.
Nú fyrir skömmu hringdi Margrét Birta á afa sinn og tilkynnti honum að liðið hennar hafi unnið fyrsta leikinn á Landsbankamótinu sem fram fer á Sauðárkróki. Mikil gleði hjá þeim systrum. Já við Sædís ætlum að bregða undir okkur fjórum dekkjum seinni part dags og bruna á Krókinn. Getum þá séð síðari daginn í mótinu. Kannski maður ætti að skella nöglunum undir?
Málsháttur dagsins: Betra er að vera ógiftur en illa gifturBloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.6.2008 | 01:04
Fótbolti
Stutt og lagott blogg. Naut þess í dag að horfa á kvennalandslið Íslands taka Grikki í gegn. Liðið færist hægt og hægt nær takmarki sínu að komast á EM. Ekki hægt annað en að vera stoltur af þessum hetjum. Samt pínu fúll að Rakel Hönnudóttir skildi ekki fá tækifæri í dag. Tel hana allt of góða til þess að verma varamannabekkinn. En þetta er í raun merki um hversu gríðarlega sterkt þetta landslið er orðið. Segi enn og aftur Áfram ísland.
Eftir að hinum bráðskemmtilega landsleik lauk tók næsta skemmtun við þ.e. EM þar sem Spánverjar tóku Rússa í karphúsið og rassskelltu þá. Verð að játa að ég hélt eiginlega með Rússum í þessari viðureign en Spánverjar spiluðu hreint út sagt frábæran leik og verðskulduðu svo sannarlega að komast áfram.
Í dag fara barnabörnin mín tvö þær Margrét Birta og Elín Alma í sína fyrstu keppnisferð í fótbolta. Þær fara á Landsbankamót sem haldið verður á Sauðárkróki um helgina. Gréta amma ætlar að skjótast á Krókinn strax í kvöld en afinn fer á laugardag þegar leik hjá Stelpunum okkar líkur, sem og Sædís er laus úr vinnu. Þá munum við bregða undir okkur fjórum hjólbörðum og renna á Krókinn.
Þær systur eru afar hamingjusamar með nýju dressin sín. Keppnisgallar, utanyfirgallar og regnstakkar allt í stíl merkt með félaginu þessu fallegar Þórsmerki. Mikið vatn er nú runnið til sjávar frá því að sumir voru litlir. Þá var það ekki á hverjum degi sem manni bauðst að klæðast svona fallegum búningum.
Og meira af fótbolta. Í kvöld fer fram leikur Þórs og KA í 1. deildinni. Innbyrðis leikir Þórs og KA eru mjög sérstakir. Það skiptir litlu máli hvort liðið er talið sterkara þegar þau mætast í svona slag þarna er barist til síðasta svitadropa. Hef trú á mínum mönnum. Áfram Þór.
Dagurinn mun þó byrja eins og venjulega þ.e.a.s. með kaffi í Hamri með félögunum. Mikið gaman og mikið fjör.
Að lokum sendi ég frændsystkinum mínum þeim Anítu og Ævari Má síðbúnar afmæliskveðjur en þau áttu afmælið 25. júní. Hrönn og Gústi til lukku með ,,krílin"
Málsháttur dagsins: Góðan varning vantar sjaldan kaupandaBloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.6.2008 | 00:11
Skiptir stærðin máli?
Var boðið á siglingu í kvöld á Húna II. Elli P. tók upp á því að bjóða fjölskyldu sinni, vinum og vandamönnum á siglingu á Húna í tilefni þess að tvö af barna börnum hans urðu stúdentar í vor. Það var með glöðu geði sem ég þáði boðið enda er fjölskylda annars stúdentsins mér afar kær. Lilja Ákadóttir er annar stúdentinn. Hún er dóttir mikils vinar míns sem lést langt fyrir aldur fram aðeins 37 ára að aldri. Lilja er þriðja í röðinni af fjórum systkinum og um leið sú þriðja sem fær hvíta kollinn. Nú er aðeins sonurinn eftir en hann hefur nám í M.A í haust. Brynjar er mikill námsmaður og verður gaman að fylgjast með honum. Það er sorglegt að vinur minn kæri hann Áki Elísson skuli ekki geta tekið þátt í þessu. En við vitum að hann fylgist með úr fjarlægð, það er ljóst.
Siglingin sem tók nærri tvo klukkutíma var mikil og góð skemmtun. Ekki einvörðungu fékk fólk fræðslu um staðhætti og sögu hins upprunalegu Akureyri heldur var rennt fyrir fiski. Sjóstöng var græjuð og hófst kapphlaup um hver yrði mesta aflaklóin. Tveir þorskar voru dregnir, ein ýsa og ein lýsa. Hræddur um að blessuðu fiskarnir hefðu fölnað í samanburði við skepnuna sem hann Ívan vinur minn dró og ég birti mynd af í síðustu færslu.
Það er samt kunnara en frá er að segja að í þessum málum er eins og svo oft áður þá er það ekki stærðin sem skiptir öllu. Annar þorskurinn og ýsan þóttu alveg nægilega stór til þess að lífi þeirra var ekki þyrmt. Munu að sögn báðir fiskarnir enda í maga Cesars sem er heimilis kötturinn í Borgarsíðunni hjá Bryndísi og börnum.
Þetta er í þriðja sinn sem ég fer í slíka sögusiglingu á Húna II og vil ég nota tækifærið og hvetja alla sem hafa tök á að bregða sér í slíka siglingu þegar og ef tök eru á. Þetta eru algerlega snilldar uppátæki hjá forráðamönnum þessa skips. Ekki skemmtir að báturinn er orðin hreint út sagt mjög glæsilegur enda vel við haldið núna. Var tekin allur í gegn í vetur og er ekki að sjá að þar fari rúmlega 40 ára gamalt skip. Húni II á vonandi eftir að vera mikil bæjarprýði hér á Akureyri um ókomin ár. Svona fyrir þá sem ekki vita þá var þessa glæsilega skip smíðað hér á Akureyri í skipasmíðastöð KEA.
Ég vil minna fólk á að ef myndirnar virðast óskýrar þá endilega smellið á myndirnar og þá munu þær birtast í fullum gæðum.
Varð hugsað til þess í kvöld að sitthvorum megin við nafnið Húni II eru myndir af Hvítabjörnum. Nú eru menn og konur farin að sjá Hvítabirni út um allar koppagrundir. Fólk er hætt að þora fara í útilegu nema hafa með sér alvöru rifla sem geta fellt hin verstu óargadýr.
Sá að búið er að auglýsa starf veðurstofustjóra laust til umsóknar. Vonandi sækir mikið af hæfu fólki um starfið og tryggi okkur hér norður á hjara veraldar gott veður á næstu árum. Það er náttúrulega ekki nokkurt vit að hafa menn þarna við stjórnvölin sem aldrei geta reddað okkur á landi elds og ísa mannsæmandi veður.
Fróðleikur dagsins: Fótstigum var bætt við reiðhjól árið 1839.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.6.2008 | 23:15
Góð fyrirmynd?
Eins svo margir landsmenn fékk ég póstkort frá Vodafone. Þar upplýsa þeir að þeirra framlagt til orkusparnaðar sé að bjóða landsmönnum upp á fría notkun reiðhjóla í sumar. Þú ferð bara á næsta sundstað og nærð þér í hjól og málið er dautt. Fallegt kort, góð hugsun. Rúsínan í pylsuendanum er p.s. sem er neðst á kortinu þar segir orðrétt ,,Svo manstu að fara varlega og nota hjálm!".
Ef grannt er skoðað þá er myndin á póstkortinu af starfsmanni Vodafone úti að hjóla. Og hvað ætli sé nú athugavert við þá mynd? Hvar er hjálmurinn? Hvaða auglýsingastofa útbjó og markað sett þetta? Þvílíkur aulagangur svo ekki sé dýpra í árina tekið. Boðskapurinn er góður en sýnir samt ekki gott fordæmi. Eiga ekki allir að nota hjálm? Og það sem meira er að sagt sé að ákveðið tryggingafélag komi að þessu framtaki með því að leggja til hjálma. Ætli þeim sé sama hvort þeir sem fara út að hjóla noti hjálma eður ei?
Skrapp á föstudagskvöldið í göngutúr í Krossanesborgir, friðland við Akureyri þar sem fuglalíf er afar fjölskrúðugt. Krossanesborgir er hreint út sagt yndislegur staður. Eins og venjulega var maður með myndavélina á lofti.
Og þrátt fyrir að frekar napurt hafi verið í veðri þá bara dúðaði maður sig. Gekk um og naut þess að vera í þessu magnaða umhverfi á þriðja klukkutíma. Tók aðeins 127 myndir af fuglalífinu sem og sólsetrinu í kringum miðnættið. Þreytist seint á því að mynda sólsetur. Það er nefnilega þannig að það er svo margbreytilegt og fer eftir skýjafari.
Ég heillast mest af sólsetri í heiðskýru. En á föstudagskvöldið var afar þungbúið veður og láskýjað. Við þær aðstæður verða litabrigðin með ólíkindum. Næstum creepy, en samt eitthvað við það og ögrandi að taka myndir.
Horfði í gær að landsleik Íslands og Slóveníu í undankeppni EM í knattspyrnu kvenna sem fram fór á laugardalsvelli. Stelpurnar okkar eru algerlega frábærar og unnu stórann sigur á Slóvenum 5-0. Rakel Hönnudóttir fyrirliði Stelpnanna okkar í Þór/KA kom inná í leiknum sem varamaður og var óheppinn að skora ekki en hún átti skot í þverslá. Hún stóð sig frábærlega. Við Þórsarar teljum okkur eiga mikið í Ástu Árnadóttir sem nú leikur með Val og fór á kostum líka í leiknum og vakti mikla athygli fyrir skrautleg innköst. Ásta er uppalin í Þór og var t.a.m. kjörin íþróttamaður Þórs árið 2002.
Í dag fórum við í heimsókn til Ívans og Dagnýju vinafólks okkar. Var verið að halda snemmbúið afmæli sonarins. En þau hjónin eru á leið úr landi og ætla sér að sleikja sólina í Kanarí. Þegar við renndum í hlaðið í Hraungerðinni tók húsbóndinn á móti með óvenjulega breiðu brosi. Hann hafi brugðið sér í veiði í Skjálfandafljótið snemma morguns og krækti í einn vænan fisk. Reyndist skepnan vera 14 punda fiskur feitur og fallegur. Veiddur á ......... veit ekki hvað en veiðimaðurinn svaraði þessari spurningu aldrei til fulls. Hvað er málið, maðkur eða fluga? Kannski var maðki beitt á fluguna, hver veit? Nei Ívan þessi mikla aflakló sem er þó öllu reyndari í að fiska á 2000 tonna togurum hefur örugglega tekið þetta kvikindi á netta flugu, það bara hlýtur að vera.
Í lokin langar mig að benda ykkur á að smella á myndirnar til þess að sjá þær í bestu gæðum. Að -öðrum kosti sjá þær koma hálf óskýrar.
Fróðleikur dagsins: Árið 1562 var karlmaður grafinn upp sex klst. eftir greftrun, eftir að einhver hafði séð hann anda við jarðarförina. Hann lifði í 75 ár til viðbótar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.6.2008 | 00:37
Áttu múffu?
Auðvitað er ég sannur Íslendingur, nema hvað? Þótt úti sé skítakuldi og varla hundi út sigað spígsporaði ég í miðbæinn á 17. júní. Fyrst um daginn og hlýddi á æskulýðskór Glerárkirkju þenja raddböndin. Krakkarnir klikkuðu ekki frekar en fyrri daginn. Snilld og aftur snilld. Söngur þeirra yljaði manni svo sannarlega um hjartaræturnar.
Um kvöldið hélt ég aftur í bæinn aðallega til þess að hlusta á hina bráðskemmtilegu hljómsveit sem heitir hinum frumlega nafni ,,Hvanndalsbræður". Þessir snillingar eru engum líkir. Það er ekki hægt annað en skemmta sér þegar þeir stíga á stokk.
Uppgötvaði hversu andsk... það var kalt úti þegar ég ætlaði að halda heim á leið. Einhvern vegin var eins og lappa skarnirnar ætluðu ekki að hlýða. Var lengi að koma þeim af stað. Dofin og í raun frosin fastur en hafðist á endanum. Á heimleið stöðvaði ég bílinn við Hamarsklappirnar og gekk í áttina að styttunni af Helga magra og Þórunni Hyrnu smellti af mynd, drungaleg og lýsandi.
Hitti granna í dag. Nokkuð langt um liðið síðan við hittumst svo við tókum tal. Granni vatt sér að mér í búðinni í dag og sagði hátt og skýrt ,,jæja Palli minn ertu búinn að fá þér eina Múffu?". Ég lét á granna og endurtók ,,Múffu?. Þú veist sjálfsfróunarmúffan sem allir eru að tala um... Já þú meinar sagði ég, nei hvíslaði ég. ,,Hvað á ekki að fá sér eina?" sagði granni.
Talsverð þögn...... ég var ekki viss hvernig ég átti að tækla þetta. Eeeeeeeee nei ég...... ,,Hva þorir þú ekki að fá þér eina eða þorir þú ekki að viðurkenna að þú sért búinn að fá þér eina?" sagði granni, það hlakkaði í honum.
Áfram vandræðaleg þögn. ,,Feiminn?" sagði granni. Ég tók á mig rögg og sagði nei hver andsk.... er þetta ég á konu mannfjandi. En þú ert náttúrulega búinn að fjárfesta í öllum pakkanum? sagði ég. Það kom skrítin svipur á granna og áður en hann gat sagt meira sagði ég ,, ert þú þá hættur núna með Lóu fimmboga?". ,,Asni" sagði granni og tók á rás.
Brá mér á völlinn í kvöld þrátt fyrir skítakulda og ausandi rigningu. Mínir menn í Þór tóku á móti Val í Vísabikarnum í kvöld. Eftir jafnan og skemmtilegan leik tókst Val að skora sigurmarkið á lokasekúndum leiksins og unnu þar 0-1 sigur. Engin skömm að tapa fyrir Val enda eru þeir jú Íslandsmeistarar í knattspyrnu.
Vonandi fer þessu fjandans kuldakasti að linna og sólin fari að brosa á ný. En það er huggun harmi gegn að ef að hér er norðan átt og skítakuldi er líklegt að veðrið í höfuðþorpi Íslands sé með skársta móti. Sé svo þá er þetta í góðu lagi.
Fróðleikur dagsins: Mesti kuldi sem mælst hefur á Jörðinni er 70°C, en það var í Síberíu.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.6.2008 | 10:03
Kona dagsins
Fyrir nákvæmlega 85 árum leit þessi kona fyrst dagsins ljós. Hún fæddur Skagfirðingur. Hún ólst upp hjá fósturforeldrum sínum vegna erfiðleika í föðurhúsum. Hún var tvíburi og aðstæðurnar höguðu því þannig að hún var sett í fóstur en tvíburasystir hennar ólst upp hjá foreldrum sínum. Tvíburasystir hennar lést úr berklum aðeins 18 ára gömul.
Hún bjó til að byrja með í Skagafirði en fluttist til Akureyrar ásamt eiginmanni og tveimur dætrum sínum árið 1959, sú eldri 8 ára en sú yngri tveggja ára. Þessi kona vann öll störf sem til féllu á lífsleiðinni til að draga björg í bú ásamt eiginmanni sínum. Á seinni árum ævi sinnar eftir að hún misstu eiginmanninn tók hún að sér ýmisleg störf og sinnti þeim eins og sannur hershöfðingi. Dreifing blaða t.d. Morgunblaðsins ásamt vinkonu sinni, Helgarpóstsins meðan hann var og hét, skúringar á skrifstofum Morgunblaðsins ásamt miklu sjálfboðaliðsstarfi hjá Sálarrannsóknarfélagi Akureyrar. Ég er að sjálfsögðu að tala um tengdamóðir mína sálugu Elínu Sigtryggsdóttir sem lést langt fyrir aldur fram fyrir 13 árum þá 72.
Elín átti gríðarlega marga vini enda hafði hún einstaklega gott viðmót og ljúf í allri umgengni. Elín kunni að hlusta þegar á þurfti að halda og lá ekki á liði sínu ef til hennar var leitað. Konan mín, börnin mín systkini Elínar og vinir, allir sakna hennar. Fyrir þá sem ekki þekktu þá væri of langt mál að telja hér upp alla hennar kosti, því þá yrði þetta að einskonar framhaldssögu, það væri kannski bara allt í lagi og hver veit nema svo eigi eftir að vera síðar.
Elínu kynntist ég fyrst þegar ég var barn u.þ.b. 12 ára gamall þegar ég gekk í stúku en þar var þessi heiðurskona ,,Æðsti Templar" Þá grunaði mig ekki að þessi kona ætti eftir að verða tengdamóðir mín. Ég náði sem sagt að þekkja þessa konu náið í 22-23 ár og fyrir þau er ég þakklátur.
Þennan dag árið 1973 gekk Ólöf Helga eldri dóttir Elínar og Theódór í hjónaband og sendi ég þeim heiðurshjónum góðar kveðjur í tilefni dagsins. Þetta er orðið hið myndarlegasta hjónaband hjá þeim turtildúfum 35 ár til hamingju enn og aftur.
Fróðleikur dagsins: Gott er að týna og verða feginn að finna afturBloggar | Breytt s.d. kl. 10:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.6.2008 | 10:42
Svínvirkar
Það er alltaf að koma betur og betur í ljós hversu vel þessar nýju og bráðsnjöllu reglur bæjarstjórans á Akureyri varðandi aldurstakmörk á tjaldstæðum í bænum og annað í þeim dúrnum til að koma í veg fyrir útihátíðastemmingu þegar eitthvað er um að vera. Þetta svínvirkar. Hvað ætli bæjarstjórinn taki nú til ráða - banni bíladaga, hver veit?
Málsháttur við hæfi: Seint er að herklæðast þegar á hólminn er komiðErfið nótt á Akureyri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
14.6.2008 | 10:15
Því ég er komin heim......
Þá fer að ljúka rúmlega viku löngu bloggfríi. Fórum til Þýskalands fimmtudaginn 5. júní og dvöldum þar í viku. Fengum að fljóta með æskulýðskór Glerárkirkju sem hélt í æfinga- tónleika- og skemmtiferð til Þýskalands. Komum svo til Akureyrar í gærkvöld.
Þegar búið verður að taka upp úr töskum, þvo af ferða rikið gíra sig niður og ná áttum verður bloggað um daginn og veginn eins og venja er.
Læt fylgja með þessari ,,Ör" færslu eina mynd sem tekin var af æskulýðskór Glerárkirkju þegar kórinn steig á svið í Lególandi í Þýskalandi og söng fyrir gesti og gangandi.
Málsháttur dagsins: Ekki þarf að verjast ef enginn sækir áBloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.6.2008 | 00:00
Þrumufleygur
Það er handagangur í öskjunni þessa daganna. Styttist í Þýskaland. Skrapp í Lönguhlíðina og fríkka aðeins upp á sandkassann hjá krökkunum. Blessaður kassinn hefur greinilega fengið misjafna meðferð hjá fyrri eigendum. Nokkrar skrúfur hér og hvar, nýjar lamir og svo í lokin borið á hann viðarolía og gripurinn eins og nýr - eða allt að því.
Sædís tók sig til og brá sér í fótbolta með Jón Páli. Hann sýndi fádæma snilli í boltanum. Halda á lofti, þvælt fram og aftur svo Sædís stóð eins og frosin. En þó kom fyrir að hann þvældi svo að hann sjálfur vissi varla hvað varð af boltanum.
Nú eins og ég sagði þá sýndi hann ágætis takta. Boltatæknin gefur góð fyrirheit um það sem koma skal........... vonandi. Alla vega segi ég bara Pele hvað? Set inn eina mynd af stráksa þar sem hann spyrnir knettinum af stakri snilld, sannkallaður þrumufleygur.
Ef eitthvað verður svo úr þessum hæfileikum sem afinn þóttist sjá í dag verður stóra spurningin þessi ,,hverjum verður það að þakka? Mun Sædís eigna sér þetta eða......? bíðum og sjáum hvað setur.
Á meðan sá stutti sýndi tilþrifin í boltanum létu stelpurnar fara vel um sig í buslulauginni. Greinilegt að þeim þótti ekkert leiðinlegt að flatmaga í sólinni þar sem þær möruðu í hálfu kafi. Þær létu sér í léttu rúmi liggja þótt litli bróðirinn hefði alla þessa athygli frá afa og Sædísi við tuðrusparkið.
Ekki svo að skilja að þær fái ekki næga athygli öllu jafna svo ekki hefðu þær þurft að vera mikið afbrýðissamar.
Ég og frúin keyptum slatta af stjúpum mold og tilheyrandi. Græjað í potta sem fara á leiðin hjá tengdaforeldrunum eins og venja er í sumarbyrjun ár hvert. Eitthvað ratar svo í potta og ker sem skreyta svo hér heima við.
Komst því miður ekki á völlinn í kvöld þar sem mínir menn í Þór léku gegn KS/Leiftri í Vísabikarnum. Fyrsti leikurinn hjá mínum mönnum á Akureyrarvellinum í sumar. Varð að sitja hundleiðinlegan húsfund. Mínir menn lönduðu sigri 1-0. Að sögn var leikurinn leiðinlegur og lítt fyrir augað svo að ekki var af miklu að missa.
En annað kvöld leika Stelpurnar okkar í úrvalsdeild kvenna gegn Breiðabliki. Er þetta jafnframt fyrsti leikur þeirra á Akureyrarvellinum í sumar. Þar munum við feðgar ekki láta okkur vanta enda fréttaritarar fyrir liðið. Þar ætla ég að planta mér niður við hliðarlínuna og reyna fyrir mér við ljósmyndun, sjáum til hvernig það tekst til. Ef þið viljið lesa ítarlega umfjöllun um leikinn þá lesið pistil sem við birtum á heimasíðu Þórs í kvöld.
Pæling dagsins: Ef sá sem haldinn er margskiptum persónuleika hótar að fremja sjálfsmorð, er það þá skilgreint sem gíslataka?Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
336 dagar til jóla
Bloggvinir
Tenglar
Flickr myndasíður
- Palli Jóh Hér birti Palli Jóh uppáhaldsmyndirnar sínar.
- Dagga -flikkar
- Runólfur
- Svanný
- Rúnar Haukur
- Merkjamanni
- Þórólfur Sveinsson
- Þórður Halldórsson
- Bói Flickr
- Ívan flikkar
- Sigfríður Guðný
Íþróttaklúbbar.
- Íþróttafélagið Þór
- Manchester City
- Chicago Bulls
- Arsenal fyrir Sölla
- Knattspyrnusamband Íslands
- Körfuknattleikssamband Íslands
- Karfan.is
Áhugaverðar síður.
- Pólitíkin
- Gunnar Ísfirðingur
- Hallandsnes
- Ljósstaðafólkið
- Samfylkingin á Akureyri
- Ungir jafnaðarmenn á Akureyri
- Skúli miðill
- Vísisblogg hjá Gunnari Th. Afbrags góður bloggari.
- Gummi Odds í Ameríku Doktor í smíðum
- Valberg og Steinun blogga
- Palli Jóh á Youtube Myndbönd Palla Jóh
Fjölskyndan bloggar.
Nýjustu færslur
- 4.4.2012 Myndbands- og myndablogg
- 14.3.2012 Smá uppfærsla
- 24.12.2011 Gleðileg jól
- 1.8.2011 Á lífi
- 25.4.2011 Að leika við hvurn sinn fingur
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 1
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 28
- Frá upphafi: 190695
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 25
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar