Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Þú ert bara ekki nógu klár!!!!!

Þennan dag árið 1980 var brotið blað í Íslandssögunni - heimssögunni. Frú Vigdís Fimbogadóttir var kjörin Forseti Íslands - fyrsta konan sem þjóðkjörni kvenforseti í heiminum.  Vigdís landi og þjóð til mikilla sóma og getur hin íslenska þjóð verið stolt af frú Vigdísi. Til hamingju íslendingar.

Þennan dag árið 1980 var annað blað brotið í sögunni þótt örlítið minna hafi farið fyrir þeim viðburði. Þá kom í heiminn tengda frændi minn hann Pálmi Ólafur. Hann er því 27 ára í dag og sendi ég honum afmæliskveðjur í tilefni dagsins.

Búinn að reka niður hæla og mæla út fyrir stækkun á sólpalli við húsi - framkvæmdir í vændum. Þetta verður að vera vel undirbúið ef vel á að vera. Barnabarn mitt horfði á hvar afi var búinn að merkja svæðið og spurði ,,afi hvað er þetta"?. Ég leit á barnið (tæplega 7 ára) gáfulegum augum og sagði ,,ég ætla stækka sólpallinn og reisa nýjan skjólvegg og svo......." Ungur nemur gamall temur.

Barnið horfði á listaverkið smá stund og svo á afa sinn og sagði ,,hvernig þá"?. Ég fór að útskýra á eins gáfulegan og einfaldan hátt fyrir barninu hvernig þetta á að líta út að framkvæmdum loknum. Barnið leit aftur á mig  mjög gáfulegum augum og sagði ,,afi þú getur ekki smíðað þennan sólpall". Nú aflverju spurði ég, hvað er því til fyrirstöðu?. Barnið leit á mig og sagði (ég greindi hálfgerða depurð í röddinni) ,,afi þú ert ekki nógu klár".

Tíminn stóð kyrr nokkra stund, ég vissi varla hvað ég átti að segja. Ég velti því fyrir mér hvort það gæti verið að barnið hefði eitthvað til síns máls? Var eggið nú farið að kenna hænunni (í þessu tilfelli hananum) og tími komin til að hlusta?

Því ekki ég fékk flugu í höfuðið - snjalla hugmynd. Þar sem þessi fyrirhugaða framkvæmd hefur komið af stað talsverðum verkkvíða hjá mér ákvað ég að nýta mér þetta, ég var komin með bandamann. Seinna sama dag gekk ég til komu minnar (ömmu barnsins) og sagði ,,ég get ekki smíðað þennan sólpall við verðum að ráða smið til verksins, eða í það minnsta einhvern nægilega kláran. Konan mín (amma barnsins) horfði forundran á mig og sagði ,,hvað ertu að segja maður"?.

Ég lýsti fyrir henni samskiptum okkar og barnsins og sagði ,,svei mér þá ef það er ekki bara talsvert mikið til í þessu". Eitt augnablik var ég farin að halda að ég hafi verið að vinna stórsigur í þessu svokallaða sólpallsmáli. Konan mín (amma barnsins) leit á mig og sagði ,,Palli tekur þú svona mikið mark á barninu hún er ekki nema sex ára"?. Hún er nú að verða sjö sagði ég." Þetta er útrætt mál þú smíðar þennan sólpall og ekkert múður og hana nú" sagði kona mín (amma barnsins).

Ég helti kaffi í könnuna og settist niður eins og sprungin blaðra. Kona mín (amma barnsins) leit á mig með þessu móðurlegu augnaráði eins og hún  gerir stundum þegar þarf að hífa upp geðið hjá afa barnsins og sagði ,,veistu Margrét Birta (afa og ömmu stelpan umrædda) kom til mín fyrr í dag og sagði ,,amma ég var að stríða afa og sagði að hann væri ekki nógu klár til að smíða sólpall". 

Svei mér þá ég þori ekki að spyrja barnið að því hvort þetta sé rétt að hún hafi sagt ömmu sinni þetta. Ég þori heldur ekki að gefa í skyn við konuna mína (ömmu barnsins) að hún sé bara að plata mig. Ég reyni heldur að sigla milli skers og báru líta á að kannski hafi barnið bara verið að stríða afa sínum. Það liti líka miklu betur út fyrir mig. Já kannski er ég bara svona klár að ég get vel smíðað þennan fjand..... sólpall.

Mér sýnist ekki skipta nokkru máli hvaða sjónarhorn ég nota þegar ég met málið, ég er dæmdur til að hætta þessu fjand.... drolli  og láta hendur standa fram úr ermum og smíða þennan sólpall.,

Nú svo var brotið blað í gærkvöld - KR vann leik.

Að lokum er vert að minna fólk á að í kvöld er leikur á Akureyrarvelli. Þá taka mínir menn í Þór á móti Þrótti úr Reykjavík á Íslandsmótinu í knattspyrnu karla. Allir á völlinn  og ekkert múður. Áfram Þór alltaf, allstaðar.

Fróðleikur dagsins: Einkaritari Abrahams Lincoln hét Kennedy að eftirnafni. Einkaritari Johns F. Kennedy hét Lincoln að eftirnafni.

Gargandi snilld.

Gargandi snilld og ekkert annað. Nú er bara ná þeim í Laugardagshöllina aftur. Þegar þessir snillingar spiluðu í höllinni forðum var ég fjarri góðu gamni - í stofufangelsi hjá ,,gamla" Fíra sem ekki taldi stubbinn nægilega fullorðin til að sækja þessa kynngimögnuðu samkomu. Þetta kalla ég fréttir í lagi, og ef af verður þá ........Ó - jehhhhh.

Fyrri fróðleikur dagsins: Mark Twain fæddist árið 1835, sama dag og halastjarna Halleys birtist. Hann dó sama dag og hún birtist aftur, árið 1910.
mbl.is Led Zeppelin að snúa aftur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vá skildi maður ná að toppa þetta?????

giftingarhringurÍ dag eru hvorki fleiri né færri en 19710 dagar - 2808 vikur - 648 mánuðir = 54 ár frá því að ættarhöfuðin mín mamma og pabbi gengu í það heilaga. Án efa hefði þetta aldrei geta gengið svona vel sem raunin er á nema fyrir þær sakir hvað börnin þeirra voru ofboðslega þægileg og viðráðanleg í uppeldinu. Hver sem ástæðan er full ástæða til þess að óska þeim innilega til hamingju með þennan áfanga.

Þegar maður reynir að hugsa til baka og kannski gera sér í hugarlund hve langur tími þetta er - þá bara gengur það ekki. Til þess er maður einfaldlega ekki nógu gamall. Aftur á móti færðist bros yfir andlitið á mér við þessa tilhugsun því Dóri STÓRI bró ætti að geta leitt hugan að þessu til þess er hann karl greyið nægilega gamall Smile

Heldur er manni brugðið þessa dagana vegna veðurfarsins. Í morgun var það mitt fyrsta verk að líta á dagatalið og athuga hvort ég væri staddur í réttum brandara? Farið að hilla undir lok júní og hitinn rétt skríður yfir frostmarkið þegar ég fór út rétt fyrir kl. 07:00. Þetta er náttúrulega algert hneyksli að bjóða uppá þennan fjanda 5-6 gráðu hiti að morgni dags - hver stjórnar þessu eiginlega, ég bara spyr.

Fróðleikur dagsins: Fullnæging svína varir í u.þ.b. 30 mínútur.

Má komandi kynslóð taka ákvörðun um mál sem mín kynslóð má ekki gera??

flutningarEr að pæla í því hver rökin eru fyrir því og eða hver fann upp á þeirri endaleysu að segja að mín kynslóð verði að fara varlega í að virkja til þess að komandi kynslóð geti haft val um að virkja eður ei? Þarf komandi kynslóð ekki að hugsa eins og mín kynslóð? Getur verið að komandi kynslóð megi bara vaða út í hvaða vitleysu sem er og þurfi ekki að taka tillit til komandi kynslóða? Dálítið beyglað, ekki satt?

Nú styttist óðfluga eins og óð fluga í að ég þarf að láta hana endanlega frá mér - íbúðinni í Borgarhlíð. Er í óða önn að hjálpa leigjendunum að koma sér út - út í gám. Afhendi svo nýjum eiganda íbúðina n.k. sunnudag. Það verður eftirsjá í þessari elsku, þarna áttum við margar ljúfar minningar. Meðan á útburði (flutningum) stendur eiga einhverjir eftir að kvarta undan bakverkjum, lúnum fótum og þreyttum höndum og þjást af miklum verkkvíða. Ef að líkum lætur má heyra stunur hér og hvar þar til allt verður af staðið.

Nú verð ég að sigla milli skers og báru til að halda bloggvinum mínum ánægðum. Anna Bogga mín yndislega frænka tekur gleði sína vegna þess að pólitískum bloggfærslum hefur fækkað svo mjög, það er gott að geta glatt. Aðrir hafa af því gaman að lesa mína klikkuðu pólitísku vangaveltum, þótt ekki séu þeir alltaf sammála. Ég reyni nú af fremsta megni að gera öllum til hæfist til að þeir haldi nú áfram að heimsækja bloggið mitt.

Fróðleikur dagsins: Allir hafa ljósmyndaminni. Sumir eru bara ekki með filmu.

Þvílíkt sjónarspil.

Sólsetur.Á miðnætti í gærkvöld fór ég út í Krossanesborgir sem er í útjaðri Akureyrar til þess að njóta þess sjónarspils sem sólsetur getur verið. Það er nokk sama hvar maður fylgist með sólsetri það er alltaf fögur sjón óháð staðsetningu. Ég er kannski ekki besti ljósmyndari í heimi en ég smellti af slatta af myndum og setti nokkrar inn í myndaalbúmið (Dýralíf - Náttúran) og endilega njótið með. Hef verið að setja inn myndir í albúmin af hinum ýmsu atburðum.

Stelpurnar í Þór/KA öttu kapp við stórlið KR í Frostaskjólinu í kvöld og máttu sætta sig við 5 - 1 tap. Talsverður getumunur er á þessum liðum svo að kannski má segja að þetta hafi ekki verið svo slæm úrslit.

Margir hafa haft af því talsverðar áhyggjur hvernig ,,granni" minn ræðst á mig með skrítnum uppákomum. Það er hins vegar algerlega óþarft að hafa af þessu nokkrar áhyggjur því ég hef mikið gaman af þessu skrítnu samtölum míns og granna. Granni er einn af þessu sérkennilegu karakterum í okkar nútímalega samfélagi sem gerir lífið bara fjölbreyttara. Hann er skemmtilega undarlegur og til þess að hrekja hann ekki frá mér læt ég hann njóta nafnleyndar. Með því móti næ ég að segja ykkur frá samtölum okkar af og til. Ef ég hins vegar kjaftaði frá er hætt við því að hann hætti að reyna ergja mig.

Er að reyna manna mig upp í að hefja framkvæmdir við gerð á sólpalli með skjólvegg og öllu tilheyrandi. Var búinn að lofa frúnni að hefja framkvæmdir fljótlega svo að ekki er mikið lengur til setunnar boðið og trúlega verð ég að hefjast handa ekki mikið seinna en alveg strax. Ég hugga mig þó við það að hönnun á þessu tréverki er hafin svo að segja má með sönnu ef eitthvað er að marka máltækið góða ,,hálfnað verk þá hafið er" sé verkið hafið í það minnsta á teikniborðinu.

Fróðleikur dagsins:  Sjaldan fellur róninn langt frá flöskunni.

Þú ræfilsdruslan.....

pallieinn2Ég fór í Bónus í gær og þar rakst ég á ,,granna" ég sá á svipnum á honum að ekki var von á góðu. Hann vatt sér að mér og sagði með þjósti ,,þú ert nú meir hálfvitinn..... hver heldur þú að trúi því að þú getir keypt einkaþotu og Frerrari? Þú ræfilsdruslan sem ekur um á Skoda og býrð í lítilli parhúsíbúð?". Hann starði á mig eins og ég hafi framið glæp.

Áður en mér tókst að svara nokkru þá bætti hann við og sagði ,, og það sem meira er þú auglýsir þetta á netinu ha á þessari bloggsíðu þinni - þú ert nú meiri bjáninn". Ég opnaði munninn og ætlaði að reyna bera hönd fyrir höfuð mér en þá hóf ,,granni" upp raust sína aftur og sagði ,, Ég er alveg sannfærður um að sagan um Palla sem var einn í heiminum var samin um þig. Farðu nú að þroskast og horfast í augu við veruleikann Palli minn og sættu þig við að þú eignast aldrei einkaþotu og Ferrari. Þú munt áfram aka um að Skoda druslu hér eftir sem hingað til".

Fólkið í búðinni var farið að horfa á okkur. Hvað er í gangi mátti lesa úr augum fólksins sem vissi ekki hvaðan á það veðrið stóð. ,,En ég get sagt þér...... " sagði ég en þá sagði granni ,,já ekkert enn þú ættir að skammast þín að blaðra svona ábyrgðarlaust og koma inn ranghugmyndum hjá fólki". Granni gekk af stað innar í búðina. Ég hóf upp raust mína og kallaði hátt og snjallt á eftir honum ,, þú skalt ekki tala illa um Skodan minn hann er nú elegance útgáfa og vigtar þung uppí Ferrari sá bíll á ekki að vera endilega elegance. Granni snérist á hæl og þrusaði í burtu. Já þau eru skrítin þessi samtöl okkar granna, það má nú segja. En ég bíð eftir þeim degi að ég hitti á granna í góðu og jákvæðu skapi. Hvort sem draumar mínir rætast eður ei, þá er það í það minnsta ekki vandamál ,,granna". Ég held áfram að njóta lífsins eins og segir í ljóðinu góða ,,ljúft er að láta sig dreyma......"

Þegar ég lít í spegil þá finnst mér eins og ég sé enn tvítugur. Þegar ég lít á börnin mín er mér kippt niður á jörðina, þá átta ég mig á því að ég er ekki tvítugur. Ég hugga mig þó við að það er þó huggun harmi gegn að það sjáist á börnum hve aldurinn færist yfir mig.

giftingÍ dag eru liðin heil 7 ár frá því að frumburður minn gekk í það heilaga. Heils 7 ár frá því að hún kasólétt gekk upp að altarinu og sagði þetta afdrifaríka JÁ. Þetta er jú gangur lífsins og ég er örugglega ekki einn um að standa í þessum sporum, eða hvað?

Ég óska dóttir minni og tengdasyni til hamingju með daginn. Þessi 7 ár hafa verið viðburðarrík í lífi þeirra á margan hátt. Þau hafa framleitt þrjú yndislega börn sem ég nýt til fullnustu að vera með í tíma og ótíma. Þau hafa flutt erlendis til þess að mennta sig og heim aftur. Dóttirin náði sér í stúdentspróf og sjúkraliðamenntun og tengdasonurinn komin með mastersgráðu, greinilegt að þau sitja ekki auðum höndum. Þetta er fólk sem lætur drauma sína rætast og það er vel. Ég samgleðst þeim og segi til hamingju með daginn krúttin mín.

Að lokum - ég las um daginn um frásögn af hörmulegu slysi þar sem sagt var ,, klippa þurfti farþegann út úr bílnum....." og í fyrirsögninni sagði að viðkomandi væri alvarlega slasaður. Ef eitthvað er að marka það sem blaðamaðurinn skrifaði þá skil ég vel að viðkomandi sé slasaður ef það þurfti í raun og veru að klippa viðkomandi út úr bílnum. Í minni einfeldni hélt ég að venjan væri að klippa bílana utan af fólkinu.....

Ég hef þó miklar áhyggjur af stóraukinni tíðni í umferðinni. Og láir mér hver sem vill þegar ég segi ykkur að mér finnst því miður oftar en ekki eins og frumskógarlögmálið sé komið af fullum þunga í umferðina þ.e.a.s. á götuna, það er sorglegt.

Fróðleikur dagsins: Velgengni virðist oft vera einfaldlega að þrauka eftir að aðrir hafa gefist upp.


Ég læt ekki bjóða mér þetta lengur

ChallengerNú hef ég fengið algerlega nóg. Ég læt ekki bjóða mér þetta lengur. Ég hef ákveðið að láta gamlan draum rætast, og það eins fljótt og auðið er og ekki mínútunni seinna en.

Það er auðvita ekki nokkurt vit í því að láta sig hafa það að ferðast með handónýtum flugfélögum sem bjóða manni bara upp á gamla riðkláfa sem hanga saman á málningunni og lyginni einni saman. Ég ætla segja skilið við Rörin, þristana, fjarkana og guð má vita hvað þessi skrapatól heita.

Ég ætla leyfa mér þann munað eins Björgólfur Thors, Jón Ásgeir og fleiri nýríkir gæjar sem voru enn að leika sér í sandkassa þegar ég var kominn á sjóinn og raka saman seðlum.

Ég hef ákveðið að fjárfesta í einni lítilli þotu, svo einkaþotu. Ég er búinn að ákveða að fá mér Challenger 604 líkt og Bjöggi gerði. Hans er víst 1999 svo ég ætla splæsa í eina 2001 og ekki mínútunni eldri, bara alls ekki.

Er nokkur ástæða til þess að vera með einhvern smáborgarahátt þegar hægt er að vera flottur á því? Þegar þetta verður allt um garð gengið verður þá nokkur ástæða til þess að aka um á Skoda?

KaggiNú verð ég að fara fylgjast með á hvernig bílum þessir gæjar aka um á og fá mér einn slíkan eða tvo. Eða verða þeir ekki að vera tveir? til að vera sannkallaður sentilmaður gef ég konunni einn, svona frúarbíl, ég held það barasta. Hef alltaf verið veikur fyrir rauðum bílum, eins og sést á þeim eðalvagni sem ég hef ekið um síðan í desember 2003. Rauður skal hann vera og trúlega Ferrari, alltaf verið veikur fyrir þeim og er einn af örfáu bílategundum sem ég hef enn ekki látið eftir mér að eignast. Kannski eitthvað í þessa veruna, hver veit?

Og til þess að berast nú ekki of mikið á þá er ég að pæla í því að skipta ekki yfir í stærra og dýrara hús, það gæti bara alið á öfund og kallað á óþægilega öfund samborgara minna. Það er jú eitt af því sem ég vil og reyni að forðast.

Af sérstökum ástæðum ákvað ég fremur að blogga um drauma mína fremur en annað sem mér er hugleikið dagsdaglega, og ekki orð meir um það.

Fróðleikur dagsins: Vænghaf Boeing 747 þotu er lengra en fyrsta flug Wright bræðra.  


Lengdin skiptir öllu

Nú hefði verið gott að vera búið að lengja flugbrautina á Akureyri.... þá hefði verið hæg heimatökin að lenda Geimskutlunni Atlantis hér. Eitthvað gengur illa að finna gott veður í henni stóru Ameríku til þess að lenda þessu ferlíki - hér er hins vegar alltaf gott veður.

En um þetta þarf víst ekki að ræða meir því Sturla taldi ekki ástæðu til að setja pening í þetta verk - ég treysti nú á Kristján L. Möller og hver veit nema skutlan koma hingað þótt síðar verði Wink

Slagorð dagsins: Ég gat ekki gert við bremsurnar í bílnum þínum, svo ég hækkaði bara í flautunni.
mbl.is Atlantis kann að verða lent í Kaliforníu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þær verðskulda athygli.

Vil byrja á því að óska Íslensku þjóðinni til hamingju með kvennalandsliðið í knattspyrnu. Glæsilegur 5 - 0 sigur, sem var síst of stór hjá þeim - húrra.   

Sá einnig að áhorfendur á leiknum hafi verið mun fleiri en á seinasta landsleik hjá karlaliðinu. Kemur mér ekki á óvart því kvennaliðið er að standa sig með prýði og verðskuldar athygli á sama tíma og karlaliðið er í tómu tjóni og eðlilega nennir fólk ekki að eyða tíma sínum í að horfa á slíka hörmung sem þar hefur verið boðið uppá.

Fróðleikur dagsins: Mesti fjöldi sem hefur komið á einn körfuboltaleik er 800.000 manns. Það var á Ólympíuleikvanginum í Aþenu, þann 4. apríl 1968.

Tímamót

ThorsmerkiÓhætt er að segja að dagurinn í dag sé stór í sögulegu tilliti fyrir íþróttahreyfinguna á Akureyri. Bæjaryfirvöld og Akureyrarliðin Þór og KA undirrituðu nýjan uppbyggingar- og framkvæmdasamninga. Aðal uppbyggingin mun fara fram á íþróttasvæði Þórs þar sem fullkomin frjálsíþróttavöllur verður byggður þar sem Landsmót UMFÍ verður haldið 2009.

Aðal keppnisvöllur Þórs verður gerður upp þannig að hann verður sem nýr og afar fullkominn. Milli knattspyrnuvallarins og frjálsíþróttavallar verður byggð svokölluð A- stúka sem tekur 1000 manns í sæti fyrir knattspyrnuvöllinn en 200 - 300 manns í sæti fyrir frjálsíþróttavöllinn stúkan verður yfirbyggð að fullu.

Þá mun Akureyrarbær sjá um að gera fullbúið æfingasvæði á hinu svokallaða ,,Sunnuhlíðartúni" þar verður afgrit svæði sem að flatarmáli er á stærð við Bogann. Svæði norðan Bogans verður einnig lagar og gert klárt til æfinga strax.

HamarÞá mun Akureyrarbær styrkja Íþróttafélagið Þór um 26 milljónir sem bætur fyrir það land sem fer undir frjálsíþróttavöllinn og fara þeir fjármunir í endurbætur á Hamri félagsheimili Þórs, en Hamar þarfnast töluverða lagfæringa nú þegar.

Þegar þessum breytingum líkur getur Íþróttafélagið Þór farið að leika heimaleiki sína í knattspyrnu á sínum eigin heimavelli. Óhætt að segja að manni sé strax farið að hlakka til að fara á leiki á Þórsvellinum þar sem hjartað slær.

Meir úr íþróttum. Heldur er farið að syrta í álinn hjá vesturbæjar stórveldinu KR sem í kvöld tapaði enn einum leiknum og sitja þeir nú sem fastast á botni úrvalsdeildarinnar. KR hefur leikið 7 leiki tapað 6 og gert 1 jafntefli skorað 5 mörk og fengið á sig 14. Er næsta víst (eins og Bjarni Fel myndi segja) að nú hlýtur að vera farið að hitna undir stólnum hjá Teiti. Kannski eru KR-ingar bara sáttir við þetta og þess vegna ekki að huga að breytingum, hver veit?

Fróðleikur dagsins: Betra er seint en aldrei.


Næsta síða »

Höfundur

Páll Jóhannesson
Páll Jóhannesson

Akureyringur, eiginmaður, pabbi, afi, Þórsari,  jafnaðarmaður, City - fan og Áfram Þór alltaf, allstaðar.

Hafi einhver áhuga að senda mér tölvupóst þá sendið á pallijo@internet.is

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

270 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband