Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Umhverfisslys eða er þetta í lagi?

Er rusl það sama og rusl. Vissulega fer það eftir því hver mælir og hvaða hagsmuni viðkomandi hefur hverju sinni.  Ef grannt er skoðað má fullvíst telja að ekki sé til það heimili eða vinnustaður í landinu sem er laust við að geta fallið í það að hafa óþarfa rusl sem löngu ætti að vera komið í endurvinnslu eða á hauganna. En það sem einum finnst rusl er ekki þar með sagt að allir séu á sama máli og öfugt. 

Hvað um það. Samt kemur fyrir að maður kemur á þá staði þar sem vart er hægt að finna nýtilega hluti og í raun allt er á kafi í rusli. Sumir kunna að geyma rusl þannig að af því sé ekki teljandi sjónmengun. En svo eru aðrir sem láta sér fátt um finnast og kaffiæra umráðasvæði sitt í rusli og drasli þótt þeir nánast búi við hliðina á þeim sem hafa atvinnu af því að útrýma rusli.

Í bæjarlandi Akureyrar er t.a.m einn vinnustaður sem er gott (eða í raun VONT) dæmi um slíkt þ.e. þar sem allt er á kafi í rusli og drasli og nýtanlegir hlutir í miklum minnihluta. Þetta er eftir því sem mér virðist vera Steypustöð Akureyrar. Ég keyri vikulega framhjá þessu svæði til að fylgjast með þróuninni þar. Fækkar ruslinu eða eykst það? Staðreyndin er sú að ruslinu fækkar ekki því miður. Alltaf bætis við hauginn. Í september 2009 fór ég með myndavélina og smellti af myndum þar og myndasyrpan hér að neðan er úr þeim leiðangri. 

Slys 01

Við innkeyrsluna. Þokkalegt eða hitt þó heldur. Sjáið skiltið næst á myndinni þar eru upplýsingar um götuheiti símanúmer og fleira. En skiltið fjær........ kem að því síðar. Sjáið þetta

Slys 02

Eru miklar líkur á að þessi tæki fari aftur í umferð og komi að endurreisn hins nýja Íslands? veit ekki, eða þetta

Slys 03

Jarðýtur og veghefill sem einhvern tíma lögðu sitt af mörkum, varla lengur eða?

Slys 04

Frá götunni niður að verksmiðjusvæðinu þar sem Aflþynnuverksmiðjan blasti þessi sjón við. Snyrtilega raðað rusl - en í dag hefur heldur betur bæst við. Leið mín lá að lóðarmörkum þessa athafnasvæðis að norðanverðu. Næsta lóð þar er Hringrás sem er fyrirtæki sem hefur þann starfa að tæta niður stál og alls kyns málma og koma  því í endurvinnslu erlendis. Þeir hafa þann starfa að viða að sér rusli og koma því frá. En aftur að lóðarmörkunum þ.e. steypustöðvarmegin.

Slys 05 

Nýtilegt? eða

Slys 06

Þetta....

Slys 07

Hann er enn á 6 hjólum og hver veit nema hann eigi eftir að fjúka í gegnum skoðun hjá Frumherja sem er ekki langt undan?

En í alvöru ég er ekki að grínast. Munið hér í upphafi minnist ég á skilti við innkeyrsluna með upplýsingum um staðsetningu, símanúmer og annað sem er nauðsýnlegt að hafa vilji maður skipta við umrætt fyrirtæki. En ég nefndi annað skilti og á því voru athyglisverðar upplýsingar, sjáið þetta

Slys 08

Takið eftir því sem stendur á skiltinu. Bannað að taka efni úr námunni án þess að tilkynna það á skrifstofu og greiða fyrir. Skiljanlegt. En neðst: LOSUN ÚRGANGSEFNA ER BÖNNUÐ. Grín. Veit ekki. En kannski eðlilegt að menn hafi sett þessi skilaboð við innkeyrsluna enda allt sem bendir til að maður sé að aka inn á ruslahauga. 

Ég er næsta viss um að ef ég færi á næstu dögum eða misserum inná svæðið og bæði um tilboð í steypu, verði mér ekki tekið með opnum örmum og boðin vinaafsláttur af öllum viðskiptum... eða?

Er þetta hægt? hvað er til ráða? Ég mun fara á næstu dögum aftur á stjá með myndavélina og þá fáið þið að sjá hvernig málin hafa þróast frá því í september 2009. 

Þangað til næst málsháttur dagsins

Einn metur það illt sem annar metur gott.


Flottar stelpur og stoltur afi

Það er dásamlegt að geta mitt í öllu amstri að geta farið og notið lífsins meðal barna-barnanna í leik og  starfi. Meðan menn gleyma sér við að tæta hver annan niður og ausa óþverra í allar áttir, fór ég í dag í íþróttahús Glerárskóla. Þar var heilmikið fimleikafjör eða svokallað Akureyrarfjör. Tvö af elstu barnabörnunum mínum þær Margrét Birta og Elín Alma voru að keppa og afi var sko mættur með myndavélina.

Báðar stóðu sig eins og sannar hetjur. Margrét Birta átti frábæran dag og náði 3. sætinu og kom heim með bronsið. Glæsilegt hjá henni. Elín Alma átti einnig frábæran dag þótt ekki kæmist hún á verðlaunapall. Þær vita báðar að það geta ekki allir unnið í einu. En Elín Alma fór þó líka heim með pening enda fengu allir hinir verðlaunapening fyrir þátttökuna. 

Skemmtilegur dagur. Hér eru svo nokkrar myndir af þessum gimsteinum. 

Fim skvísa

Margrét Birta á jafnvægisslánni

Tilþrif

Tilþrif hjá Elínu og þjálfarinn lifir sig í hlutverkið og tekur þátt

Stökk

Elín Alma í lokastökkinu

Lokið

Margrét Birta að ljúka við æfingar á slá

Bronsstelpa

Margrét Birta með bronsið um hálsinn. Greinilega stolt, og þið megið trúa því að afi var stoltur.

þangað til næst

Fróðleikur dagsins: Hvað ætli maður eigi að segja ef Guð hnerrar?


Heiðurskona

Ég hreinlega má  til með að stinga niður puttum á lyklaborð í dag. Ekki svo að skilja að það sé í einhverri neyð eða kvöð. Með glöðu geði ætla ég að fara örfáum orðum um konu dagsins Ólöfu Helgu Pálmadóttir mágkonu mína. Þennan dag fyrir margt löngu, þó ekki svo mjög leit þessi heiðurskona dagsins ljós fyrsta sinni og það ku hafa gerst á Sauðárkróki. 

Fyrstu ár ævi sinnar bjó hún Lýtingsstaðarhreppi en þaðan lá leiðin til Akureyrar. Ólöf Helga flutti svo fljótt til Reykjavíkur eftir að hún hafði lokið skólagöngu á Akureyri þ.e. eftir gagnfræðaskólann. Nam svo þau fræði  sem í ,,gamla" daga voru kölluð ,,Fóstra" en í dag heitir það víst Leikskólakennari. Ólöf Helga er mikill jafnréttis sinni og annt um starf sitt og velferð skjólstæðinga sinna og í dag hvarflar það ekki að mér að kalla hana fóstru, ekki einu sinni í gamni. 

Helga starfar við fag sitt og hefur verið Leikskólastjóri í mörg herrans ár við góðan orðstír. Hún ásamt manni sínum mikil golfáhugamanneskja. Og það er nákvæmlega það sem þau hjónin ætla ásamt vinum að nota næstu daga í. Fljúga á vit ævintýranna á morgun og svo verður golfað frá morgni til kvölds. Flott hjá þeim. 

Helgu er gott heim að sækja hvernig sem á það er litið. Þegar mann ber að garði er manni tekið með þvílíkum látum rétt eins og maður sé einhver kóngur. Kóngur er maður ekki en manni líður þannig þegar maður ber húsa hjá þeim hjónum. Og ekki er gestrisnin minni þegar maður sækir þau heim í sumarbústaðinn sem er kenndur við Hlíðarenda. Sælureitur. 

Helgu er margt til lista lagt. Hún er feiknalega góður hagyrðingur og er snögg að berja saman stökur og alls kyns kvæði og ljóð. Já góður penni. Um Helgu væri hægt að skrifa langa, langa lofræðu, en það bíður betri tíma. 

Ólöf Helga

Hér er svo mynd af afmælisbarni dagsins sem tekin var fyrir tæpum þremur árum á 50 ára afmæli systur hennar. 

 Hlíðarendi

Þessi mynd er tekin við sumarhúsið þeirra - Hlíðarendi

Helga, til hamingju með daginn og vonandi verður golfferðin hjá ykkur hjónum ógleymanleg. 

Málsháttur dagsins: Ekki er til setunnar boðið þá herlúðurinn gellur


Mikið burrrrrrað

Það var mikið burrrrað í dag í Lönguhliðinni þegar haldið var upp á 5 ára afmæli Jón Páls sem er næst yngsta barnabarnið okkar hjóna. Reyndar er 8. mars afmælisdagur hans en þá bara hentaði ekki að vera með veislu....  Sá stubbur er mikill bílakarl og í flestum hans leikjum er mikið burrrað. Bílar... smáir, stórir, í öllum regnbogans litum, jeppar, fólksbílar, trukkar, vörubílar, rútur, kappakstursbílar...... bara nefna það Brrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrr.

þema dagsins í afmæli Jóns Páls var að sjálfsögðu bílar og allt sem viðkemur bílum. Meira segja kökurnar báru þess merki. ,,Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni" Dagga með kökur af öllum stærðum og gerðum, já mikið lagt í. Greinilegt að þarna eru erfðin að koma í ljós. Talandi um erfðir þær geta náð aftur í ættir. Það er nefnilega svo að Palli afi Jóns Páls var forfallinn bílagutti og er í raun enn. 

Enn, dagurinn snérist um Jón Pál sem stendur á tímamótum, afi svona gamall og nú bættist einn putti við. Jebb maður er að verða stór. 

5 ára

........... sjáið bara FIMM ...... 5. 

Veisluborð

Veisluborð þar sem þemað var tengt bílum ..... Cars

Blásið

........  svo var blásið

Og að sjálfsögðu opnaðir pakkar... eins og alltaf á afmælum

Fylgst með

Og Einar Geir frændi fylgist með úr hæfilegri fjarlægð.....

Áhugamál veislugesta voru af margvíslegum toga og eins og sjá má tikkuðu Elín Alma og Sölmundur á svipuðum nótum... fótbolti og spenningurinn í algleymingi....

Spenna

Já hér er ekkert kynslóðabil. 

Takk fyrir daginn Jón Páll. Og málsháttur dagsins mun vonandi eiga vel við í framtíðinni hjá honum þegar hann fer að þeysast um heiminn á 2, 4,6,8,10, eða hvað mörgum hjólum sem hentar hverju sinni

Málsháttur dagsins: Verður sá sem víða fer vísari þeim sem heima er


Gerast aðdáandi Nova - eru menn ekki örugglega að grínast með þetta?

Á feisbúkk rembast menn eins og rjúpan við staurinn við að búa til aðdáendaklúbba og bjóða vinum og  grandlausum vandamönnum að gerast aðdáendur. Misgáfulegt. Ég fell af og til í þessa bölvaða vitleysu og adda sumu, en fúlsa við öðru. Að undanförnu hef ég fengið boð um að gerast aðdáandi símafyrirtækisins Nova. Já Nova. Mér er spurn veit ekki fólk hver á þetta umrædda fyrirtæki? Skringilegt að sama fólk og getur verið í viðskiptum við Nova skuli leyfa sér að bölva Íslenskum stjórnvöldum vegna Icesave reikninganna. Væri afar holt fyrir fólk að kynna sér hverjir eiga Nova og hverjir stofnuðu og eru í raun eigendur Icesave. Ég veit ekki með ykkur en þetta finnst mér vægast sagt undarlegt.

UNDARLEGT - veðrið hér á landi er víst undarlegt eða hegðun veðurguðanna. Alltaf ýmist í ökkla eða eyra. Og þó. Sviptingarnar í veðrinu eru með ólíkindum.  Í vetur hefur a.m.k. í ,,Höfuðborg hins bjarta norðurs" ýmist er vetur, vorar, haustar eða veturinn minnir á sig með pompi og prakt örar en manni hefði grunað - já í einni árstíð. Grýlukerti myndarleg myndast þegar sól hækkar á lofti og réttu aðstæðurnar eru til staðar. Þetta hefur einmitt verið þannig á undanförnum dögum. Þá er gaman að bregða sér út með myndavélina.

Gr�lukerti

Grylukerti

Þegar barnabörnin eru annars vegar er maður gjarnan með myndavélina innan seilingar. Maður vill ekki missa af hinu og þessu, alltaf að reyna festa á kubb einhver augnablik sem aldrei aftur koma. Í vikunni var yngsta barnabarnið í heimsókn hjá ömmu og afa og þá bar það til tíðinda að hún fékk í fyrsta sinn hið eina og sanna mjólkurkex. Eins og sjá má í augum barnsins að það er engu líkara en hún hafi himin og jörð sér að höndum tekið. Myndavélin inna seilingar og afi skaut.

Fyrsta kexið

Laugardagur til lukku er gott og gilt máltæki. Var búinn að heita mér því að blogga ekki framar um pólitík. Veit ekki hvort þetta telst alvarlegt brot á því heiti en ég verð að fara í smá línudans. Þjóðaratkvæðagreiðsla í dag - JÁ eða NEI. Er í vanda. Ef ég ætti að vera sjálfum mér samkvæmur þá sýni ég lýðræðinu virðingu og mæti á kjörstað og nota atkvæðið mitt. En ef ég á að vera heiðarlegur gagnvart sjálfum mér fer ég hvergi og sit heima. Ef hugur minn mun reynast svo klofinn að ég fer á kjörstað - skila ég auðu. En ómögulegt er að segja þegar maður er ekki bara klofinn heldur marg klofinn er ómögulegt að segja hvað gerist. Alla vega - þessi þjóðaratkvæðagreiðsla er í mínum huga eintómt fjandans bull og vitleysa öllum til skammar - Öllum.

Hvað um það lífið heldur áfram og aftur skollið á bann á pólitísku bloggi hér. Næsta blogg verður trúlega á morgun og mánudag. Á morgun verður haldið upp á 5 ára afmæli Jóns Páls næst yngsta barnabarn míns en hann á afmæli á mánudaginn. Svo hann fær blogg tvo daga í röð. Síðasta mynd dagsins er af stráksa þar sem hann er að máta gleraugun hans afa

Gleraugnaglámur

Meira síðar

Málsháttur dagsins: Ekki fylgir ætíð bjargræðið burðum hraustum.


Höfundur

Páll Jóhannesson
Páll Jóhannesson

Akureyringur, eiginmaður, pabbi, afi, Þórsari,  jafnaðarmaður, City - fan og Áfram Þór alltaf, allstaðar.

Hafi einhver áhuga að senda mér tölvupóst þá sendið á pallijo@internet.is

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

244 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband