Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Hvað myndu þeir gera?

Harmleikurinn í Austurríki þar sem geðsjúklingurinn Josef Fritzl hefur lagt sína eigin fjölskyldu í rúst er hroðalegri en orð fá lýst. Hvað getur maður sagt? Er mannvonskunni í þessum heimi engin takmörk sett?

Krónan sveiflast og svei mér þá ef maður hefur það ekki á tilfinningunni að allt sé að fara til fjandans. Skondið samt að heyra í stjórnarandstöðunni hrópa á Alþingi. Hvað ætli þeir Guðni, Guðjón og Steingrímur myndu gera ef þeir sætu við stjórnvölinn? Hvernig stendur á því að í öllum þeirra hrópum og köllum þá koma þeir aldrei með neina skýringu á því hvað hægt sé að gera?

Getur verið að ástæðan sé sú að þeir vita ekkert hvað á til bragðs að taka fremur en ríkisstjórnin og Seðlabankinn, er það ekki málið? - ég er viss um það. Ég hef svo sem ekki heldur skýringar á reiðum höndum enda þarf ég þess ekki þar sem ég sit ekki á hinu háa Alþingi né er blýantsnagari í Seðlabankanum og get á engan hátt haft áhrif.

Dropinn sem fyllti glasiðTek þátt í ljósmyndakeppni með nokkrum félögum. Við eigum það allir sameiginlegt að eiga allir eins myndavélar og alvarlega veikir af ljósmyndadellu. Erum innbyrðis með ljósmyndakeppni til að hvetja hver annan til dáða og læra hver af öðrum. Í seinustu viku var þemað ,,Vatn". Ég sendi inn þessa mynd sem birtist með þessari færslu og sú mynd bar sigur úr bítum.

Engin verðlaun í boði enda er þessi keppni meira í gamni en alvöru. Tilgangurinn sem sagt að hafa gaman af og reyna læra hver af öðrum.

Þótt félögum mínum hafi þótt myndin sú besta þá fékk ég þær athugsemdir með myndinni að bakgrunnurinn hafi þvælst örlítið fyrir þeim. Það má vel vera að annar bakgrunnur hefði fallið betur?

En ég tók aðra mynd sem ég var mikið að spá í að senda inn í stað þessara myndar. Hún hefði ekki náð betri árangri þar sem hinn vann, en  bakgrunnurinn var talsvert öðruvísi svo hver veit?

Detta dropar

Hvort sem þessi mynd hefði plummað sig eður ei skalt ósagt látið.

Allt annar bakgrunnur þar sem notast er við Kókómjólkurfernu sem bakgrunn. Klói fær kraft úr kókómjólk, en ætli Klói drekki vatn? spyr sá sem ekki veit.

Engu að síður finnst mér þessi mynd ekki síðri en sú fyrri, kannski betri og í raun kemur eitt og annað í ljós ef hún er skoðuð nánar.

Ef fólk smellir á myndina til að fá hana í fullri stærð og skoðar hana nánar kemur margt forvitnilegt í ljós. Ef dropinn er skoðaður nánar sem er rétt ofan við höfuðið á Klóa má sjá höfuðið á Klóa í gegnum dropann.

Væri kannski hrokafullt að segja að ég hafi einmitt verið að bíða eftir því augnabliki, en svo var þó ekki. Var þó alltaf að reyna fanga dropa en að sjá í gegnum hann höfuð Klóa gerir myndina bara skemmtilegri fyrir vikið.

Best að hætta þessu sjálfshóli og snúa sér örlítið að öðru. Fundur í körfuboltastjórn í gærkvöld. Þar sit ég sem ritari. Þótt körfuboltavertíðinni sé lokið er undirbúningur að næsta tímabili hafinn. Góður árangur í vetur gefur mönnum byr undir báða vængi og stefnan er að gera betur næsta vetur.

Prófin að byrja í framhaldsskólum, sem og í Háskólanum hér á Akureyri. Það þýðir talsvert meira um barnapössun á barnabörnunum. Ekkert væl yfir því. En mikið að gera þegar þau eru öll komin í hús og lært í hverju horni.

Í blálokin hefur því miður komið í ljós að litli drengurinn hennar Anítu frænku brenndist meir en menn héldu í upphafi. Vonandi fer þó allt betur en á horfðist og verður fólk bara bíða, vona og nýta sér að senda litla kút og fjölskyldu hans hlýja strauma.

Fróðleikur dagsins: Á árunum 1931 til 1969 hlaut Walt Disney 35 Óskarsverðlaun.


Gleði og sorg

Lokahof2008_8Fór á lokahóf körfuknattleiksdeildar Þórs í gærkvöld. Mikið um dýrðir og mikið gaman. Íþróttafólkið verðlaunað fyrir frammistöðu sína á íþróttavellinum. Nokkuð góð mæting eða um 80 manns sem komu saman og áttu stórskemmtilega kvöldstund. Góður matur borin á borð að hætti Greifamanna grillað lamb, grís og kjúlli með tilheyrandi. Jói tengdasonur háði sína fyrstu orrustu sem veislustjóri og leysti það bara fjandi vel.

Skelli hér svo inn einni mynd af fjölmörgum sem ég tók á lokahófinu. Myndin er af mömmu minni og Dagbjörtu dóttir minni. Fyrir þá sem ekki vita er nefnilega faðir minn hann Jóhannes Hjálmarsson heiðursfélagi í Íþróttafélaginu Þór.

Fyrr um daginn fór ég ásamt Sölmundi og horfðum á kvennalið Þór/KA í B- deild Lengjubikarsins. Öttu þær kappi við Reykjavíkur Þróttara. Skemmst er frá því að segja að stelpurnar í Þór/KA unnu stóran 6-0 sigur. Skemmtilegur leikur. Vilji fólk lesa meir af leiknum og frá lokahófinu sem og sjá myndir þá endilega kíkið á www.thorsport.is. og njótið.

Þegar við fórum í Bogann hafði ég fylgst með mínum mönnum í City í leik gegn Fulham. Þegar ég yfirgaf skjáinn voru mínir menn með 2-0 forystu. Var því dálítið mikið hissa þegar svo í ljós kom að þeir töpuðu 2-3. En eins og ég sagði í gær, maður spyr að leikslokum.

Akurey1Fékk fréttir af því í dag að minn gamli skipstjóri og útgerðarmaður og góðvinur Haukur Runólfsson frá Höfn í Hornafirði er látinn. Haukur lést í gærkvöld 79 ára að aldri. Hauki kynntist ég fyrst árið 1975 þegar ég fór fyrst á vetrarvertíð hjá honum á Akurey SF 52. Var einnig þess aðnjótandi að búa heima hjá fjölskyldu hans árið 1976. Haukur háði vonlausa baráttu við illvígan sjúkdóm sem að lokum hafði betur. Ég votta fjölskyldu Hauks mínar dýpstu samúð. Með honum er fallinn góður drengur.

Og til heiðurs Hauki skelli ég inn mynd af líkani af Akurey SF sem ég smíðaði fyrir fáum árum. Akurey er bátur sem ég var á hér um árið 1975 aftur 76 og svo árin 1983-1984. Þetta var bátur með góða sál. Seinast þegar ég var á bátnum var Jón Haukur Hauksson skipstjóri en hann er eldri sonur Hauks. Var einnig á bátnum með yngri syni Hauks honum Runólfi Jónatan. Þeim dreng kynntist ég mæta vel og er hann mikill gæðapiltur.

Málsháttur dagsins: Sérhver dygð heiðrar þann sem hana iðkar

Áfram stelpur

Óhætt er að segja að mikið sé um að vera hér og þar og allstaðar. Eitthvað fyrir alla konur og karla. Dagurinn í dag er stútfullur af afþreyingu. Á Brúnni í London fer fram stórleikur í ensku úrvalsdeildinni þar sem heimamenn í Chelsea taka á móti Englandsmeisturum Man.Utd. Vinni gestirnir er titilbaráttan nánast lokið. Nái heimamenn að sigra heldur spennan áfram. Út frá fótboltanum, sem skemmtun bara verða heimamenn að vinna. Skemmtilegast er og verður þegar titlar vinnast ekki fyrr en í blálokin, allra vegna.

Mínir menn eru ekki í neinni titilbaráttu í úrvalsdeildinni að þessu sinni. En um liðna helgi varð Manchester City Englandsmeistari ungliða, gott hjá þeim. Í dag taka þeir á móti Lundúnaliðinu Fulham sem er vægast sagt í vondum málum. Fulham er í næst neðsta sæti úrvalsdeildarinnar og þurfa sárlega á sigri að halda til að eyja von um að halda sæti sínu í úrvalsdeild. En þeirra bíður erfitt verkefni þar sem City hefur aðeins tapað þremur leikjum á heimavelli í vetur gegn Arsenal, Everton og Chelsea. Svo að ef allt fer eftir bókinni ættu City-menn að hafa sigur, en við skulum spyrja að leikslokum, Áfram Manchester City.

Ætla skjótast í Bogann í dag og sjá úrvalsdeildarlið Þór/KA kvenna í knattspyrnu taka á móti Þrótti úr Reykjavík í B-deild Lengjubikarsins. Við Sölmundur höfum tekið að okkur að skrifa um leiki liðsins í sumar með svipuðum hætti og við gerðum fyrir körfuboltann hjá Þór. Spennandi tímar framundan hjá þessu unga og efnilega liði. Á bak við það lið er stór hópur þ.e. kvennaráð sem skipað er kraftmiklu fólki af báðum kynjum sem er að lyfta Grettistaki þar. Liðið er þjálfað af tveimur snjöllum knattspyrnumönnum þeim Dragan Stojanovic og Siguróla (Mola) Kristjánssyni. Áfram stelpur í Þór/KA.

Í kvöld verður svo mikið um dýrðir í Hamri félagsheimili Þórs. Körfuboltamenn loka skemmtilegum körfuboltavetri með hefðbundinni uppskeruhátíð. Ef að líkum lætur verður mikið fjör og mikið gaman. Körfuboltamenn og konur munu troða upp með ýmis skemmtiatriði. Íþróttafólkið verður verðlaunað fyrir frammistöðu þeirra inni á vellinum, sem og aðrir sem koma að rekstrinum með öðrum hætti, fá í.þ.m. hlý orð í eyra og kannski viðurkenningar, hver veit? Ég ásamt minni frú og Sölmundur Karl munum mæta fersk og skemmta okkur. Þá mun Jói og Dagga mæta með og gleðjast. Jói sem verið hefur kynnir á leikjum liðsins í vetur verður veislustjóri, geri ráð fyrir því að hann leysi það verk af höndum með fumlausum hætti eins og honum einum er lagið.

Fróðleikur dagsins: Árið 1896 áttu Bretland og Zanzibar í stríði í 38 mínútur.

Eins og sjálfdauð rolla sem varð fyrir bíl

Rós.Það er komið sumar sól í heið skín....... Vil byrja á því að óska lesendum bloggsins gleðilegs sumars og þakka veturinn.

Gömul þjóðtrú segir að ef vetur og sumar frjósi saman viti það á gott sumar. Hér á árum áður setti fólk gjarnan út skál með vatni til að sjá að morgni dags hvort svo hafi orðið. Gerði þetta stundum sjálfur en ekki í ár. Alla vega byrjar dagurinn með þeim hætti að það er ekkert sem bendir til að frosið hafi í nótt. Samkvæmt þjóðtrúnni ættum við þá ekki gott sumar í vændum. Gef þessari þjóðtrú langt nef og trúi að við eigum gott sumar í vændum.

Sigþór frændi minn sem er píparinn í ættinni mætti fyrir allar aldir með rörtöngina ásamt ýmsum öðrum græjum á lofti. Hafði staðið lengi til að setja upp þrýstijafnara á kaldavatnslögnina. Nú er það búið og óþarfa högg og sláttur í pípulögnum úr sögunni.

Grillum í kvöld íslenskt fjallalamb. Dagga og fjölskylda koma og hjálpa okkur við að gera því góð skil. En af því að við ætlum að byrja sumarið á því að grilla lamb og snæða verður fróðleikur dagsins í boði  fyrrum knattspyrnumanns sem var á keppnisferðalagi með liði sínu. Var liðið að snæða lambakjöt og eitthvað var vinurinn óánægður með hvernig það bragðaðist og sagði þessi fleygu orð  

,,Þetta er eins og sjálfdauð rolla sem, varð fyrir bíl”


Af hverju þegir hún, eins og hann?

Flott brosMáltækið segir ,,ýmist í ökkla eða eyra". Það getur verið stutt á milli sorga og gleði. Um helgina missti elsta barnabarnið fyrstu barnatönnina og skartar nýju og öðruvísi brosi um stundar sakir. Var búin að bíða talsvert eftir þessu. Það undarlega er að hún varð ekki vör við það strax og tönnin finnst ekki. Kannski tannálfurinn hafi verið á undan og látið hana hverfa, hver veit. Venjan í okkar fjölskyldu er sú að setja fyrstu barnatönnina sem dettur undir koddann og svoSkarð kemur þessi blessaður tannálfur og framhaldið...... Finnist ekki þessi blessaða tönn þurfa foreldrarnir að tækla nýtt ástand, gaman af þessu. Litla systir hennar pælir talsvert í þessu en virðist samt ekkert ætla fara á límingunum og er undrandi á þessu tilstandi hjá stóru systir, hvað er svona merkilegt við að missa tönn? Áhugaverð pæling hjá henni. Hún stendur eins og venjulega álengdar og lætur lítið fyrir sér fara. Hún veit að þetta er nokkuð sem á eftir að koma hjá henni og tekur bara á því þegar þar að kemur.

Skrapp í gær í Seljahlíðina. Þar fóru klippurnar á loft og sá fullorðni fékk sína hefðbundnu klippingu sem einhvern tíman hefði kallast ,,næstum allt af". Ekki svo að skilja að það þurfi mikið til að allt fari af en það má ekki. Sá gamli verður jú að líta vel út. Já líta vel út.... Eftir því sem hann segir sjálfur er hann í virtri leynireglu og þar vill hann líta út eins og maður en ekki útigangsmaður. Þessi leyniregla er svo leynileg að maður veit nánast ekkert hvað er í gangi. Hvað geri þið þarna? af hverju mega ekki konur vera á fundum með ykkur? hann þegir og segir ekkert. Setur upp undarlegan og dularfullan svip og segir þú verður að ganga inn til að komast að öllum leyndardómunum. Má ég þá segja öllum frá........? spyr ég......... nei þú segir nákvæmlega engum frá..... Kannski þetta sé ekkert fyrir mig ef ég þarf að þegja?

Hrönn ,,litla" systir þegir eins og gröfin um hvaða nám það sé sem hún er að pæla í. ,,Það kemur bara í ljós þegar þar að kemur" segir hún og setur upp undarlega svip og verður dularfull. Hvað veldur, af hverju getur hún þagað? ætli hún sé í þessari reglu með þeim gamla, veit ekki en.... hlakka til að fá að vita hvað hún ætlar sér.

Ýmist í ökkla eða eyra, stutt á milli hláturs og grátur og allt það. Litli frændi minn hann Ívan Freyr sonur Anítu frænku minnar sem er systurdóttir mín og býr suður með sjó eða nánar tiltekið i Njarðvíkurborg var fyrir því óláni að fá yfir sig sjóðandi heitt vatn og brenndist illa á fótum. Litli snáðinn hlaut 2. stigs brunasár á tám beggja fóta sem og á ristum. Sem betur fer lítur allt út fyrir að sárin séu minni en horfðist á í upphafi. Vonandi mun þetta ekki há honum í framtíðinni, en ljóst er þó að hann muni bera ör á fótunum. Við höldum í vonina að máltækið góða ,,allt er got sem endar vel" muni eiga við þegar upp verður staðið. Sendi þeim öllum baráttukveðjur og held áfram að senda þeim hlýjar hugsanir.

Horfði á sjónvarpsþáttinn Kompás í kvöld. Eftir að hafa horft á þáttinn þá velti ég því fyrir mér hvernig maður fái sig til þess að væla yfir smámunum sem margur glímir við. Þvílíkt æðruleysi hjá þessu fólki sem þar var tekið fyrir. Ef þetta ætti ekki að vera manni næg hvatning til þess að horfa björtum augum til framtíðar og þakka fyrir það sem maður hefur og á. Auðvitað á maður að ganga út í hvern dag þakklátur fyrir það sem maður hefur. Ég bara má til með að taka mér þetta fólk og sérstaklega þennan dreng til fyrirmyndar, bara má til.

BílóÍ lokin kemur læt ég svo fylgja með eina mynd sem ég tók af Jón Páli í dag hér á sólpallinum þar sem kappinn naut lífsins með bíla í ró og næði. Sá stutti neitar að taka niður húfuna þrátt fyrir mikla sól og talsverð hlýindi. Greinilegt að hann kann að haga seglum eftir vindi og klæða af sér hitann.

 

Málsháttur dagsins: Svo er frágangurinn sem fingurnir er unnu.

Frábærir tónleikar

Afmælistonleikar5Annasöm helgi að renna sitt skeið. Horfði á föstudagskvöldið á bandið hans Bubba. Ágætis skemmtun, fyrirsjáanleg úrslit. Tveir góðir söngvarar en að mínu mati sigraði sá betri. Dottað yfir öðru í imbanum. Spaugstofan stóð fyrir sínu. En, enn og aftur sama sagan, þeir þurfa ekkert að brillera til þess að manni finnist þeir standa sig með ágætum. Sá loksins bíómynd í gærkvöld með Rowan Atkinson þar sem hann lék alvarlegt hlutverk. Flott mynd.

Afmælistonleikar9Í dag var svo vægast sagt mikið að gera. Afmælistónleikar í Glerárkirkju. Óhætt að segja að þeir hafi staðið undir væntingum. Ríflega 300 manns komu sáu og hlýddu á stórkostlega listamenn þenja raddböndin. Álftagerðisbræður og Konnararnir ollu engum vonbrigðum. Þeir fluttu hverja perluna á fætur annarri eins og þeim einum er lagið. Í lok tónleikanna létu þeir tónleikagestina rísa úr sætum og syngja með sér lagið ,,Undir bláhimni". Það var geggjað. Konnararni og Álftagerðisbræður ásamt tónleikagestum fá 10 af 10 mögulegum í einkunn. Verð að gefa tengdasyninum stóran plús fyrir flotta kynningu í upphafi tónleika.

Aðeins að boltanum. Í gær héldu stelpurnar úr Þór/KA suður yfir heiðar og kepptu við Aftureldingu í  Lengjubikarnum. Skemmst er frá því að segja að norðan stúlkur unnu 0-5 sigur og eru efstar í keppninni. Flott hjá þeim.

Mínir menn í Manchester City fengu í dag Hermann Hreiðarsson og félaga í Porstsmouth í heimsókn í dag. City vann 3-1 sigur og það sem meira er að Hermann okkar Hreiðarsson lét reka sig af velli fyrir brot og á yfir höfði sér allt að þriggja leikja bann. Ekki gott fyrir þennan Eyjapeyja. Gat ekki horft á þennan leik þar sem hann bar uppá sama tíma og tónleikarnir og vinir mínir í City reyndu allt hvað þeir gátu ti að hliðra fyrir og færa leikinn en allt kom fyrir ekki. Hef það fyrir satt að það sé Hemma og félögum að kenna. En allt í góðu.

20.april Grill 010Deginum slúttað svo með því að fara heim og grilla. Komu mamma og pabbi og Anna ,,stóra" systir en þau voru einnig á tónleikunum.

Lamb, svín og kjúlli með maís og jarðeplum rataði á glóðirnar. Þessu gerði fólk ágæt skil. 

Set svo inn eina mynd sem ég tók af þeim fullorðna þar sem hann fór út á sólpall eftir matinn saddur og sæll með bokku í hönd.

Bara til að fyrirbyggja allan misskilning þá var ekkert hættulegt í bokkunni sem sá fullorðni tók sér í hönd og dreypti á. Enda þótt svo hefði verið þá er hann þekktur fyrir hófsemi af hæstu gráðu svo þetta hefði hvort eð er orðið í góðu lagi.

Málsháttur dagsins: Það er stutt brú milli klókinda og lymsku.

Álftagerðisbræður og Konnarar - þú mætir.

Brjálað að gera enda tónleikarnir að bresta á. Nú er um að gera drífa sig í sitt fínasta púss og mæta á Tónleikana í Glerárkirkju með Álftagerðisbræðrum og Konnurunum.

auglysing

Sjáumst.


Álftagerðisbræður og Konnararnir - þú mætir

Veðrið leikur við landann. Maður hoppar og skoppar út um allar koppagrundir eins og belja að vori. Reyndar hoppa ég ekki  mikið í orðsins fyllstu, en hugurinn ber mann hálfa leið. En kannski limaburðurinn minn,  minni á belju á vori, hver veit? Á gamla blogginu sem ég var með á blog.central.is var ég með svæði sem ég kallaði ,,Vísnahorn Páls afa". Þar birti ég margar vísur eftir Pál heitinn afa. Ég hlaut ekki þá náðargjöf að yrkja vísur. Mamma og pabbi eru liðtæk í þessari list. Og nú er svo komið að Jói Mar ,,litli" bró stekkur fram á vísnasviðið og hendir fram hverri perlunni á fætur annarri. Er svo komið að manni er svaraði í bundnu máli, sem er bara snilld. Flottar vísur og greinilegt að þessi list hefur a.m.k. fallið honum í skaut. Hver veit nema maður komi með vísnahorn Jóa? væri í.þ.m. vel við hæfi. Hvet Jóa til að halda þessu áfram - go Jói go.

auglysingÍ kvöld var talsvert um að vera í Hamri. Þar var verið að taka í notkun nýja aðstöðu sem hefur hlotið nafnið Friðriksstofa. Þar er gufubaðs- og nuddpotts aðstaða með sjónvarpi og öllu tilheyrandi lúxus. Þá var einnig tekin í notkun svonefnt þjálfarasetur þar sem þjálfurum gefst kostur á að koma með íþróttahópa og lið til þess að horfa á fræðsluefni eða leiki sem teknir hafa verið upp. Þarna er stefnt að því að þegar fram líða stundir verði til mikið safn fræðsluefnis úr öllum greinum íþrótta. Og að lokum er gaman að segja frá því að Ragnar Sverrisson kaupmaður í JMJ gaf Íþróttafélaginu Þór fullkomið hjartastuðtæki sem staðsett verður í Harmi til taks ef eitthvað ber út af. Ragnar sagði við þetta tækifæri að sér væri þetta ljúft og skylt að gefa félaginu tækið en um leið vonaðist hann til að aldrei þyrfti að koma til að nota þurfi tækið, það vona að sjálfsögðu allir.

Ætla nota tækifærið og minna fólk á Afmælistónleikana sem körfuknattleiksdeild Þórs stendur fyrir og verða í Glerárkirkju sunnudaginn 20. apríl og hefjast kl 16:00. Gæti þó farið að auka tónleikar verði settir á sem myndu hefjast kl. 18:00. Við sjáum til. En víst er að það verður gaman að hlusta á þá Álftagerðisbræður og Konnaranna koma saman og hefja upp raust sína.

Ég held að þetta sé viðburður sem óhætt er að mæla með að fólk mæti á. Aðgangseyri er kr. 2500 sem getur ekki talist hátt verð fyrir svona viðburð.

Föstudagur á morgun með föstu liðum. Kaffi í Hamri eins og vanalega alla föstudaga.

Fróðleikur dagsins: Betra er að ganga of langt en standa í stað.

Veldur reiðhjólanotkun svifriksmengun?

Bloggaði í gær um að vorhugur væri í fólki. Það er engin lygi. Maður opnar vart útvarpið án þess að heyra að rætt sé um svifrik hér og þar og allstaðar, nagladekk eða loftbólur, heilsársdekk....... eða guð má vita hvað. Maður er komin með samviskubit af því að eiga þátt í að slíta þessum andsk... götum. Hvað er til ráða? ætli maður myndi svifrik á því að hjóla, stunda göngutúra? rafskutlur sem auglýstar eru í gríð og erg?

Vorþrif

 

 

 

 

 

 

 

 

Með hækkandi sól og þegar snjórinn er á hröðu undanhaldi og snjóruðningar bráðna hægt og bítandi fylgir því mikil drulla og sóðaskapur. Veit ekki með ykkur en stundum læt ég þetta fara í taugarnar á mér svona pínulítið. Þótt veðrið sé fallegt er þetta skítugt veðurfar. Maður kemst varla milli bílaþvottastöðva án þess að bílinn verði.......

Hvað með það. Tók mig til og þreif hann hátt og lágt í dag. Tjöruþvottur, ryksuga sleiktur stuðaranna á milli. Þetta hafði smitandi áhrif. Dagga sem var í heimsókn með krakkana tók sig til og réðist á sína japönsku drosíu í gegn. Jón Páll var alveg að fíla þetta uppistand allt saman í kringum bílanna. Afi bíla, afi bíla..... Sá stutti var orðin rennandi blautur, sæll og ánægður með lífið þegar þvottinum var lokið. Fékk að hjálpa til - enda ekki seinna vænna að fara kenna honum réttu handtökin.

Fundur í kvöld í safnaðarheimilinu þar sem undirbúningur að Þýskalandsför æskulýðskórsins er að komast á lokastig. Löngum og ströngum vetri að ljúka í þeim málum en þó umfram allt skemmtilegum vetri. Verður mikið um dýrðir þegar hópurinn fer til Þýskalands í byrjun júní.

Körfuboltinn rúllaði í kvöld. Ég sem hafði vonast til að ÍR - ingar myndu koma á óvart og slá Keflvíkinga út, stóðu ekki undir mínum væntingum. Þeir sprengdu sig á fyrstu tveimur leikjunum þar sem þeir komust í 2-0. En í raun geta þeir borið höfuðið hátt. Verður gaman að fylgjast með rimmu Snæfells og Keflavík í úrslitum. Vona að Snæfellingar nái að klára og vinna sinn fyrsta Íslandsmeistaratilill í körfubolta. Það yrði sigur fyrir íþróttina að fá nýtt nafn skráð í sögubækurnar.

Fróðleikur dagsins: Sjaldan er konan reið eftir reið.


Kraftur í kellu

Það er klárlega komin vorfiðringur í fólk. Með hækkandi sól og ört hækkandi hita hverfa snjóruðningar hægt og bítandi. Nagladekkin fjúka brátt og sett í geymslu. Sjá má fólk út um allar trissur pjakka í snjóruðninga og þannig reyna flyta fyrir bráðnun. Lundin léttist á fólki, nema hvað?

Horfði á beina útsendingu í gærkvöld frá leik Snæfells og Grindavíkur í undanúrslitum í Íslandsmótsins í körfubolta. Hélt á tímabili að Grindvikíngar væru að klára leikinn. Heimamenn voru höfðu þagnað þegar liðið var komið 19 stigum undir í 4. leikhluta. Gaupi sagði ,,nú eru lömbin þögnuð hér í Fjósinu" eins og íþróttahúsið í Stykkishólmi er kallað. En hann hafði vart lokið við að segja þetta þegar Snæfellsliðið hrökk í gagn og þaggaði niður í Gaupa. Æsispennandi lokamínútur og framlenging og Snæfell er komið í úrslit. Flott hjá þeim.  Svo er bara bíða og sjá hvort það verði ÍR eða Keflavík sem komast í úrslitaleikinn gegn Snæfelli.

Verð að játa að ég er dálítið spenntur. Auglýsingar um næsta Kompás sjónvarpsþáttinn gefa til kynna að einhver sori sé þar í gangi. Eru glæpamenn á bak við þessa fyrirhuguðu olíuhreinsunarstöð? Er þetta ráðlegt að rjúka út í þessa framkvæmd? Væri kannski betra að finna eitthvað minna í sniðum og ráða vel við án þess að flytja inn erlent vinnuafl til að vinna fyrir okkur? Ég veit ekki en ætla gefa þessu auga og eyra í kvöld.

Las á bloggi Hrannar systur minnar að hún sé aftur farin að spá í að fara í skóla. Ekki svo langt síðan hún lauk námi með stæl. Ég tek ofan fyrir henni og ef hún hyggur á frekara nám þá set ég upp hatt og tek hann svo ofan fyrir henni. Greinilegt að með aldrinum færist bara kraftur í þessa ,,litlu" systir - go Hrönn go.....

Málsháttur dagsins: Lempinn maður hefur lykil að annars vilja.

Næsta síða »

Höfundur

Páll Jóhannesson
Páll Jóhannesson

Akureyringur, eiginmaður, pabbi, afi, Þórsari,  jafnaðarmaður, City - fan og Áfram Þór alltaf, allstaðar.

Hafi einhver áhuga að senda mér tölvupóst þá sendið á pallijo@internet.is

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

243 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband