Færsluflokkur: Bloggar
28.9.2007 | 08:25
Tekinn
Ég stóð eins og þvara, vissi hreinlega ekki hvað ég átti að segja (verð þó afar sjaldan orðlaus) ég var einfaldlega hamsaður - eða tekinn eins og stundum er sagt.
Forsaga málsins er að báðar afastelpurnar voru í pössun hjá mér. Ég setti þeim stutt verkefni. Sú eldri (7 ára) átti að teikna mynd af afa við að hnoða pizzudeig, sú yngri (tæplega 6 ára) átti að teikna mynd af skólastofunni sinni. Þegar þessum verkefnum var lokið komu þær og sýndu afa myndirnar. Myndin hjá þeirri yngri vakti sérstaka athygli. Skólastofan auð, nokkur borð og stólar, kennaraborð. ,,Elín! Hvar eru krakkarnir? ég bað þig að teikna myndina frá því í skólanum í dag".
Barnið leit á afa dágóða stund, prakkaralegur svipur á barnsandlitinu bar merki um það sem koma skildi. ,,Afi! það eru frímínútur og allir úti". Hvað gat ég sagt? ekkert ég var tekinn. Þessi börn eru algerar perlur sem koma manni endalaust á óvart - skemmtilega á óvart.
Næ mér í hressilega andlega næringu á eftir þegar ég fer í kaffi niður í Hamar félagsheimili Þórs og hitti félaga mína í kaffiklúbbnum sem hittast alla föstudagsmorgna. Trúlegt má telja að eitt málefni verði efst á baugi í dag. Í kvöld er nefnilega seinasti leikur sumarsins hjá meistaraflokki karla í 1. deildinni, leikur gegn erkifjendunum af brekkunni. Ljóst er að ekki læt ég mig vanta á völlinn í dag fremur enn endranær.
Fróðleikur dagsins: Sir Winston Churchill skammtaði sjálfum sér 15 vindla á dag.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.9.2007 | 19:58
,,Ég myndi bara gera eitthvað annað"
Í dag vatt ,,granni" (sem ég hef stundum sagt ykkur frá) að mér og sagði ,,Palli minn nú hlýtur þú að vera stoltur af þínum mönnum á þingi og þessu fínu mótvægisaðgerðum þeirra vegna niðurskurðar á þorskkvótanum". ,,Granni" leit á mig stingandi augnaráði og aldrei þessu vant þá ætlaði hann sér ekki að segja meira fyrr en viðbrögð mín væru komin fram.
Það ríkti vandræðaleg þögn en ég rauf þó þögnina og spurði ,,jæja snillingur hvað myndir þú gera ef þú hefðir völd til þess að bregðast við þessum vanda?" - hvert myndir þú dæla þessum peningum sem ríkisstjórnin ætlar að setja í þetta verkefni? - setja fólkið sem hugsanlega missir vinnuna á atvinnuleysisbætur strax eða hvað myndir þú gera - ha ég vil fá svar núna. Ég krefst þess að þú komir með hina einu sönnu uppskrift til að leysa vanda fólksins. Og ég skal hafa strax samband við Kristján Möller vin minn og flokksfélaga og kynna fyrir honum hina einu sönnu fullkomnu lausn sem kjaftasakar á við þig þykjast hafa á reiðum höndum.
,,Granni" tútnaði út af bræði og augu hans stóðu á stilkum. Ég var ekki frá því að mér hafi tekist að æsa hann sem aldrei fyrr. Óþægileg þögn - ég rauf hana öðru sinni og sagði ,,ég vissi það þú hefur engin svör bara blaður sem ekkert er takandi mark á". ,,Granni" öskraði á mig og sagði ,,ég myndi gera allt annað en þessi fjandans ríkisstjórn, ALLT ANNAÐ, svo snérist hann á hæl og gekk sína leið. Ég gat ekki setið á mér og kallaði á eftir honum ,,glymur hæst í tómri tunnu" og gekk minn veg.
Ég held að það sé nokkuð sama hvar í sveit maður er settur, þessi vandi er flóknari og erfiðara að leysa en margan grunar. Ég er næstum viss um að það er nákvæmlega hvað stjórnvöld hefðu gert og muni gera það verður aldrei hægt að fara leið sem allir verða sáttir við. En eitt ættu allir að geta verið sammála um og það er að stjórnvöld gátu ekki gert eins og segir í auglýsingunni góðu ,,að gera ekki neitt".
En það er hins vegar deginum ljósara að afleiðingar niðurskurðar þorsk kvótans er gríðarlegar. Fólk blæðir víðsvegar um landið, og það er sárt. Verkefni stjórnvalda er að finna leið með atvinnulífinu út úr þessum vanda og okkar að trúa því og vona að þeim takist að stýra okkur inn í framtíðina á farsælan hátt. En hafi einhver eitthvað út á aðferðir stjórnvalda að setja, sem er jú í góðu lagi af því gefnu að viðkomandi hafi einhver svör og lausnir, en ekki segja bara - bara eitthvað, bara eitthvað leysir nefnilega engan vanda.
Fróðleikur dagsins: Morðingi Abrahams Lincoln flúði úr leikhúsi og náðist í vöruhúsi. Morðingi Johns F. Kennedy flúði úr vöruhúsi og náðist í leikhúsi.
![]() |
Samherji lokar vinnslustöð á Hjalteyri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.9.2007 | 10:31
Megas engum líkur.
Brá mér á tónleika með Megasi og Senuþjófunum á Græna Hattinum í gærkvöld. Skemmst er frá því að segja að þar varð engin fyrir vonbrigðum. Meistari Megas hefur greinilega engu gleymt. Þá verður að segjast eins og er að hljómsveitin Senuþjófarnir er bara tær snilld. Frábærir tónlistarmenn allir sem einn.
Var einstaklega gaman að hlýða á gamla smelli á borð við, Spáðu í mig, Krókadílamaðurinn, Ragnheiður Biskupsdóttir og fleiri gullmola í vægast sagt frumlegum útsetningum með tilheyrandi púðri frá hinum fingra fima Guðmundi Péturssyni gítarleikara. Þótt ég nefni Guðmund til sögunnar eiga félagar hans í hljómsveitinni engu minna hrós skilið fyrir frábæran tónlistarflutning. Maður getur gegnið að því vísu að vita ekki fyrirfram á hverju maður á von þegar Megas er annars vegar, en hitt er ljóst að maður getur gengið að því vísu að hann klikkar ekki frekar enn fyrri daginn. Megas og Senuþjófarnir fá 10 í einkunn af 10 mögulegum.
Mínir menn í Manchester City léku á útvelli gegn Fulham og lauk þeim leik með 3 -- 3 jafntefli. Mikill markaleikur svo að áhorfendur hafa eitthvað fengið fyrir snúð. Eru því mínir menn í City enn í öðru sæti úrvalsdeildarinnar, sem er bara allt í góðu lagi.
Hins vegar var dagurinn ekki jafn gjöfull hjá mínum mönnum í Þór. Knattspyrnuliðið lék á útivelli gegn Fjölni úr Grafarvoginum og máttu þola 2-0 tap. Aðeins einn leikur eftir hjá þeim í deildinni þ.e. heimaleikur gegn erkifjendunum af brekkunni.
Körfuboltalið Þórs sem sló Keflvikínga út úr fyrirtækjabikarnum s.l. fimmtudagskvöld skruppu svo í Hólminn og léku gegn firnasterku liði Snæfells. Þar lauk keppni minna manna í fyrirtækjabikarnum. En nú styttist óðfluga í að Íslandsmótið í úrvalsdeild hefjist en fyrsti heimaleikur Þórs verður hér heima þann 11. okt á móti ÍR. Palla hlakkar mikið til.
Fróðleikur dagsins: Þegar Albert Einstein lést dóu lokaorð hans með honum. Hjúkkan sem var hjá honum skildi ekki þýsku.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.9.2007 | 11:16
En, hvað með bakarann?
Kristján Möller sem er vandaður maður í alla staði, er meiri maður eftir að hafa beðið umræddan mann afsökunar. Þetta er nokkuð sem allir menn þurfa að kunna gera þ.e.a.s. biðjast afsökunar. Ég bíð enn eftir því að þeir sem komu öllu þessu fjandans klúðri af stað, geri slíkt hið sama. Það er ekki boðlegt að menn haldi áfram að hengja bakara fyrir smið. Ég vil sjá umræddan verkfræðing sem og alla aðra sem að þessu klúðri komu í upphafi fara á skeljarnar og biðja þjóðina afsökunar. Fremstan í flokki vil ég sjá þá kumpána Árna M. Mathíesen og Sturlu Böðvarsson sem eru jú þeir valdamestu og ættu að axla ábyrgð enda þeir sem mestu hafa ráðið í þessu endemis klúðri, og hana nú.
Fróðleikur dagsins: Það er skammgóður vermir að pissa í skóinn sinn.
![]() |
Kristján biðst afsökunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
20.9.2007 | 17:26
Saman safn af rugludöllum
Verð að játa að þetta er eitt það fáránlegasta, sem ég hef nokkru sinni lesið. Sagði ekki upp - var ekki rekinn en sameiginleg niðurstaða beggja aðila að hann hætti. Hvers konar endemis rugl er þetta? Hvað gerðist þá ef hann sagði ekki upp og félagið rak hann ekki, samt hættur?. Ef stuðningsmönnum Chelsea er ekki misboðið með slíkum yfirlýsingum þá hljóta þeir að vera jafnvitlausir og forráðamenn klúbbsins. Hvern eru þeir að reyna blekkja? Chelsea, Nourinho ásamt eiganda = saman safn af rugludöllum.
Fróðleikur dagsins: Þegar rússneski leiðtoginn Lenin dó úr heilasjúkdómi 21. janúar 1924 var stærð heila hans einungis fjórðungur af því sem hún var upprunalega.
![]() |
Chelsea: Mourinho var ekki rekinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.9.2007 | 20:08
Undarleg afgreiðsla framsóknar, og þó
Í gær afgreiddi bæjarstjórn Akureyrar uppbyggingasamning þá sem þau höfðu gert við Akureyrarfélögin Þór og KA. Það kom ekki á óvart. Hins vegar vakti það athygli að Jóhannes Bjarnason oddviti Framsóknarflokksins greiddi atkvæði gegn samningunum, hann sagði ,,ég er á móti því að Akureyravöllur verði lagður af". Það vekur enn meiri athygli í ljósi þess að fráfarandi meirihluti bæjarstjórnar lagði þær línur, og Jóhannes var merkilegt nokk, í meirihluta samstarfi fyrir sinn flokk með Sjálfstæðismönnum. Enn eitt dæmið um hve skrítin hjörð framsóknarmenn eru.
Það kom hins vegar ekki neinum á óvart að Listi Fólksins greiddi atkvæði gegn samningnum. Oddur Helgi Halldórsson oddviti þeirra lýsti því á félagsfundi í Íþróttafélaginu Þór fyrir tæpri viku að hann væri sáttur við þennan samning, hann er góður og ég ber fullt traust samninganefnd Þórs sem og stjórn félagsins, sagði Oddur. Hann bætti því hins vegar við að hann myndi prinsippsins vegna greiða atkvæði gegn þessu í bæjarstjórn. Þetta eru skrítin vinnubrögð en koma kannski ekki á óvart. Oddur Helgi hefur markað sér þá sérstöðu að vera á móti öllu, sem hann hefur ekki átt frumkvæði að. Þó vakti það athygli að hann sat ekki bæjarstjórnarfundinn sjálfur heldur sendi inn varamann fyrir sig.
Hins vegar greiddu bæjarfulltrúar VG samningnum sitt atkvæði. Þeir geta unnt öðrum þess að hafa átt frumkvæði og stutt gott málefni. Það kom mér á óvart - skemmtilega á óvart. Kannski hefði það ekki átt að koma mér á óvart því ég veit hvaða mann heiðursmaðurinn Baldvin Sigurðsson foringi þeirra VG hefur að geyma og ekki efast ég heldur um Kristínu Sigfúsdóttur.
Það skeður margt skrítið á Akureyri eins og dæmin sanna. Fyrir rúmum 20 árum var ákveðið að rífa handónýtan timburhjalla í miðbæ Akureyrar hús sem er og hefur verið lýti á miðbænum okkar. Nú þegar loksins á að rífa húsið vaknar húsfriðunarnefndin til lífsins og vill friða þetta hús. Af hverju er mér hulin ráðgáta. Ef varðveita á hús í skjóli þess að þau hafa sögu - þá ætti aldrei að rífa hús -ALDREI, öll hús hafa sögu. Ég er einn þeirra sem vill sjá þetta hús rifið og sjá nýtt hús rísa í staðin.
Brá mér á völlinn í gær og horfði á Þór og KA leika til úrslita í 2.flokki karla í knattspyrnu og fór leikurinn fram á Akureyrarvelli. U.þ.b. 700 manns lagði leið sína á völlinn og horfði á þessa erkifjendur etja kappi í frábærum knattspyrnuleik. Fór svo að Þór vann leikinn 1-0 og skoruðu þeir markið í fyrri hluta framlengingar. Frábær skemmtun.
Fróðleikur dagsins: Líf okkar er eins og sólargangurinn. Á myrkustu stundu markar fyrir dagrenningu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.9.2007 | 09:38
Rausnarlegt, ekki satt?
Ég sagði ykkur frá því í bloggfærslu fyrr á árinu að ég hafi fengið nóg smáborgarahugsunarhætti og ákveðið að kaupa mér þotu, eins og allt hitt ríka og fræga fólkið. Þotukvikindið er af tegundinni Challenger 604 árgerð 2001. Þegar ég fæ þetta kvikindi afhent hef ég ákveðið að gefa Háskólanum á Akureyri hana bara sísona smá styrkur. Og af hverju að gefa Háskólanum á Akureyri þotuna? jú mér skilst að kennarar við skólann séu sennilega með stærri viðskipavinum flugfélagsins á flugleiðinni Ak-Rey. Fyrir þann pening sem sparast gæti háskólinn ráðið til sín flugmann á þotuna, hagkvæmt ekki satt? Það er bara einn galli á gjöf Njarðar ég veit ekki hvenær ég fæ hana afhenta. Ég hef ekki fengið staðfestingapóst sendan frá framleiðandanum, þess efnis að vélin sé væntanleg í mínar hendur. Ekki viss hvað veldur en gruna að kannski ég hafi ekki greitt nægilega mikið fyrirfram.
En að öllu gamni slepptu þá ber að fagna stórhuga framtaki Róbert Wessman til Háskólans í Reykjavík. Þetta er algerlega frábært að auðmenn skuli renna blóð til skyldunnar og láta fé með þessum hætti renna til samfélagsins. Kannski að aðrir auðmenn sem eyða tug- eða jafnvel hundruðum milljóna í að fá erlenda fræga tónlistarmenn til að raupa í grobb- afmælisveislum sínum. Svo maður tali nú ekki um menn sem kaupa sér t.d. fótboltalið í svipuðum tilgangi einum að grobba sig. Kannski stóru bankarnir, sem vita ekki aura sinna tal svo mikið að þeir ná varla að halda utan um hversu hratt þeir græða ættu nú að fara að fordæmi Róberts og skreppa í heimsókn t.d. í Háskóla Íslands eða Háskólann á Akureyri.
Ég tek ofan fyrir mönnum eins og Róbert Wessman þótt ég viti hvorki haus né sporð á fyrir hans framtaki og hvet aðra slíka til að fara að fordæmi hans. En vissulega væri það gott ef þeir myndu dreifa aurunum þannig að ekki fari allt í sama grautarpottinn.
Fróðleikur þessa morguns: Andrew Johnson, eftirmaður Abrahams Lincoln, fæddist árið 1808. Lyndon B. Johnson, eftirmaður Johns F. Kennedy, fæddist árið 1908.Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.9.2007 | 10:33
Stór brjóst það er málið - á sjónum
Sigur hjá mínum mönnum í Manchester City gegn Aston Villa skaut okkur upp í annað sæti úrvalsdeildarinnar. Ósköp er nú notalegt að vita af liðinu þarna uppi, þar sem mér finnst það eiga svo vel heima.
Las á netmiðli eftir farandi ,,Stjórnarandstæðan í Ástralíu hefur gagnrýnt það að kvenkynssjóliðar í flota landsins geta nú fengið brjóstastækkanir á kostnað ríkisins". Að sögn talsmanns flotans sem varið hefur þessa ráðstöfun og segir að brjóstastækkanir séu gerðar af sálfræðilegum ástæðum en ekki til að að gera sjóliðana meira sexý. Í beinu framhaldi af þessu væri gaman að vita hvað þeir hyggjast gera fyrir karlkyns sjóliða, sem eru með minnimáttarkennd út af litlum ,,lilla ven?" - bara svona pæla.
Ég deili undrun minni með Þórbergi bloggfélaga og fyrrum skipsfélaga þar sem hann undrast á því að lögreglan skuli áminna veitingahúsaeigendur fyrir lögbrot Þórbergur segir ,,Er ég að skilja þetta rétt? Er lögreglan að áminna veitingahúsarekendur fyrir að brjóta lög? Er hægt að stunda lögbrot með áminningarétti? Eru þetta ekki eiginlega alveg makalaus vinnubrögð? Ég sem hélt að allir þegnar þessa lands væru jafnir fyrir lögum. Er ekki eitthvað veitingahús munaðarlaust?" Ég skil mæta vel undrun Þórbergs því ef hann sem skipstjórnarmaður hefði verið staðin að verki við að fiska í landhelgi (sem hann hefur vissulega aldrei gert) hefði hann ekki fengið aðvörun, hann hefði fengið stórann rassskell. Og ef Blöndóslögreglan gómaði mig á 105 er ég næsta viss um að þeir segðu ekki ,,þetta er allt í lagi Palli minn passuðu þig á því að gera þetta ekki aftur" eða hvað haldið þið?
Að öðru leiti er bara allt það besta að frétta héðan - kalt í nótt og haustið hellist yfir í allri sinni litadýrð o.þ.h.
Fróðleikur dagsins: Egyptar til forna þjálfuðu bavíana til að þjóna til borðs.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.9.2007 | 12:21
Ef þeir hefðu nú manndóm í sér til að.....
Í seinustu bloggfærslu hellti ég úr skálum reiðar minnar varðandi stöðu þess fyrirtækis sem eitt sinn hét ÚA og nú Brim. Gremja mín beindist gegn fyrrum bæjarfulltrúum Akureyrarbæjar sem seldu fyrirtækið, sem og núverandi eiganda.
Því miður er þetta fráleitt eindæmi. Ég hafði vart lokið við bloggfærsluna þegar fréttir bárust af því að forráðamenn HB-Granda drógu til baka þær fyrirætlanir þeirra að flytja hluta fyrirtækisins upp á Skaga. Það hefði jú verið sómi af því Skaginn er jú vagga hluta þess fyrirtækis. En því miður fyrir Skagamenn þá upplífa þeir nú rétt eins og við Akureyringar að þessum sægreifum er nokk sama, þeirra er mátturinn og ....... Myndin hér með þessari færslu lýsir þeirra hugsunargangi til fólksins. Því miður er þetta fráleitt eins og fyrr segir eindæmi og eigum við eftir að sjá eitthvað meir þessu keimlíkt á næstu misserum. Og þetta er þeim mögulegt þar sem þeir geta farið með og ráðstafað fisknum óveiddum í sjónum, auðlind sem þjóðin á en hefur ekki lengur yfirráðarétt yfir.
Körfuboltamót Þórs og Greifans stendur sem hæst og hófst með pompi og prakt á föstudagskvöld. Þórsliðið hefur þurft að leika allt mótið án sinna erlendu leikmanna vegna meiðsla. Gengið samt gott og öllum öðrum leikmönnum gefið tækifæri á að sína sig og sanna, enda um æfingamót að ræða. Vesturlandsliðin Snæfell og Skallagrímur leika til úrslita.
Þá tók Þórsliðið í fótbolta á móti Leikni í gær og varð 1-1 jafntefli niðurstaðan í frekar leiðinlegum leik sem fram fór í skítakulda og trekk. Leiðinda atvik setti leiðinlegan blett á leikinn þegar slakir dómarar létu einn leikmann Leiknis blekkja sig þegar hann lét sig falla í teignum með þeim afleiðingum að markvörður Þórs var rekin af velli. Var umræddur leikmaður að leika og lét líta út fyrir að markvörðurinn hafi hrint sér í jörðina. Hefði átt að veita honum óskarinn að launum fyrir flottan látbragsleik. En svona á ekki að sjást inná vellinum.
Mun planta mér niður fyrir framan sjónvarpið í dag og fylgjast með mínum mönnum í Manchester City þar sem þeir fá Aston Villa í heimsókn á City og Manchester Stadium. Villa menn verið á mikilli siglingu og unnið tvo seinustu leiki sína á sama tíma og City menn töpuðu tveimur seinustu leikjum sínum. Með hverjum sigurleiknum sem líður styttist í tapleik og á sama tíma þá styttist í sigur með hverjum tapleiknum, því vænti ég þess að City menn landi sigri í dag.
Ekki ósennilegt að maður gjói með öðru auganu á formúlu keppnina í dag í von um að rauðu Ferrari fákarnir komi sterkir til leiks og hleypi einhverri spennu í keppnina, þ.e.a.s. keppni ökumanna. En heldur hefur nú áhuginn á þessari íþrótt dalað á seinustu misserum, enda vantar aðalmanninn. Einhvern veginn er það svo að það mun taka langann tíma fyrir fólk að venjast lífinu í formúlunni eftir Schumacher. Má líkja þessu við það þegar kóngurinn sjálfur Jordan hætti í körfuboltanum, menn bíða og bíða eftir því að einhver nái að komast með tærnar þar sem hann hafði hælana.
Fróðleikur dagsins: Kasmírull kemur af geitum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.9.2007 | 12:02
,,Étið það sem úti frýs"
Þegar UA var selt á sínum tíma fékk ég hnút í magann, ég óttaðist að það gæti verið fyrsta skrefið að endalokum þess öfluga fyrirtækis. Ég óttaðist að í fyllingu tímans hyrfi fyrirtækið héðan frá Akureyri endanlega með breyttu eignarhaldi.
Hnúturinn sem ég hafði haft jókst verulega þegar ákveðið var að selja fyrirtækið í hendur núverandi eiganda. Gremja mín var enn meiri þar sem í boði var að heimamenn gætu eignast fyrirtækið, menn sem hefðu tilfinningar til fyrirtækisins og heimabyggðarinnar. Við þá var sagt ,,étið það sem út frýs" eða álíka.
Skipin hafa smá saman skipt um heimhöfn og nú er svo komið að skipsnöfnin sem enduðu á ,,bakur" er eitthvað sem unga kynslóðin þekkir ekki nema af afspurn og eða með því að fletta sögubókum.
Þær sögur ganga fjöllunum hærra að nú sé landvinnsla Brims á leið út úr bænum. Ef svo er hvað er þá eftir af þessu fyrirtæki? ekkert. Forráðamenn Brims hafa hvorki játað né neitað því að svo sé, af hverju? Það skelfir mig, mikið. Ef svarið væri að landvinnslan væri ekki á leið út úr bænum af hverju væru þeir að draga það að tilkynna okkur það? Ég óttast því miður að þögnin og drátturinn á svari boði slæm tíðindi fyrir okkur Akureyringa.
Verði þetta niðurstaðan mun ég ekki áfellast núverandi eigendur, bara alls ekki. Þetta er jú þeirra stefna að ég hef ávallt talið og hef nefnilega haft þessa tilfinningu allan tímann. En þeir bæjarfulltrúar sem þá stjórnuðu bænum og tóku þá afdrifaríku ákvörðun að selja (GEFA) fyrirtækið, þeirra er sökin. Þeir hafa ekki úr háum söðli að detta, en upp úr djúpri holu að skríða.
Ég vona og el þá von í brjósti mér að ég hafi svo ofboðslega mikið rangt fyrir mér varðandi framtíð landvinnslunnar hér á Akureyri og mér væri það ljúft og skylt að biðjast afsökunar á þeim hluta gremju minnar ef ég reynist hafa rangt fyrir mér.
Að öðru, sem er mikið skemmtilegra. Í gær spilaði úrvalsdeildarlið Þórs/KA kvenna sinn seinasta heimaleik í knattspyrnuleik í deildinni hér í sumar. Þar þurfti liðið að ná jafntefli til að tryggja sér áframhaldandi tilverurétt í efstu deild kvenna. Þær mættu liði ÍR og létu sér ekkert jafntefli duga heldur unnu sannfærandi 5-1 sigur og gulltryggðu sæti sitt í deild þeirra bestu, til hamingju stelpur. Greinilegt að þeir Dragan Stojanovic og Siguróli (Moli) Kristjánsson eru að gera fína hluti en þeir eru þjálfara þessa liðs.
Í kvöld hefst svo Greifamótið í körfubolta þar sem 8 lið taka þátt í þ.a.m. Íslandsmeistara KR. Þarna mæta að auki heimamanna í úrvalsdeildarliði Þórs, Tindastóll, Skallagrímur, KR, Snæfell og Fjölnir, 1. deildarliðin Valur og Breiðablik. Mótið hefst í kvöld kl.19:00 með leik Þórs og Skallagríms og verður sá leikur í íþróttahúsi Síðuskóla. Leikið verður í tveimur riðlum A-riðill í Höllinni í þeim eru; Snæfell, Tindastóll, Breiðablik og KR B- riðill: Skallagrímur, Þór, Fjölnir og Valur. Skora á fólk að koma og kíkja á leikina og hita rækilega upp fyrir veturinn.
Fróðleikur dagsins: Að stela hugmyndum frá einum aðila kallast ritstuldur. Að stela hugmyndum frá mörgum kallast -rannsóknarvinna.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
103 dagar til jóla
Bloggvinir
Tenglar
Flickr myndasíður
- Palli Jóh Hér birti Palli Jóh uppáhaldsmyndirnar sínar.
- Dagga -flikkar
- Runólfur
- Svanný
- Rúnar Haukur
- Merkjamanni
- Þórólfur Sveinsson
- Þórður Halldórsson
- Bói Flickr
- Ívan flikkar
- Sigfríður Guðný
Íþróttaklúbbar.
- Íþróttafélagið Þór
- Manchester City
- Chicago Bulls
- Arsenal fyrir Sölla
- Knattspyrnusamband Íslands
- Körfuknattleikssamband Íslands
- Karfan.is
Áhugaverðar síður.
- Pólitíkin
- Gunnar Ísfirðingur
- Hallandsnes
- Ljósstaðafólkið
- Samfylkingin á Akureyri
- Ungir jafnaðarmenn á Akureyri
- Skúli miðill
- Vísisblogg hjá Gunnari Th. Afbrags góður bloggari.
- Gummi Odds í Ameríku Doktor í smíðum
- Valberg og Steinun blogga
- Palli Jóh á Youtube Myndbönd Palla Jóh
Fjölskyndan bloggar.
Nýjustu færslur
- 4.4.2012 Myndbands- og myndablogg
- 14.3.2012 Smá uppfærsla
- 24.12.2011 Gleðileg jól
- 1.8.2011 Á lífi
- 25.4.2011 Að leika við hvurn sinn fingur
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.9.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar