Bloggfærslur mánaðarins, september 2008
30.9.2008 | 17:23
Mikill er máttur íslenskt efnahagslífs
Síbylja = allt þessari steindauðu ríkisstjórn að kenna sem hefur verið steinsofandi hún hefði átt að hlusta - Síbylja = Guðni Ágústsson. Bandaríski fjármálamarkaðurinn hruninn - Franski komin hálfur á kaf og mun ef að líkum lætur fara alla leið. Og allt er þetta lélegri efnahagsstjórn hinnar Íslensku ríkisstjórn að kenna ef tekið er mið af málflutningi Guðna Ágústssonar. Jesús Pétur og allir hans himna englar, ja mikill er máttur Íslensku krónunnar og íslenskt efnahagslífs. Ég yrði ekki hissa ef Frakkar og Bandaríkjamenn gerðu innrás á Ísland í refsingarskyni. Svart Pétur ruddist inn í bankann með byssuhólk í hvorri hönd.....= Glitnir, það gæti orðið afdrifaríkt því Davíð hefur örugglega klárað skotin í yfirtökunni á Glitni. Hvernig verjum við okkur þá - engin skot?
Annars er lítið sem ekkert að gerast í íslensku þjóðlífi sem talandi er um. Allt eins og blómstrið eina svo ég tek fyrir næsta mál á dagskrá = íþróttir.
Körfuboltavertíðin hófst í gærkvöld með því að mínir menn í Þór tóku á móti Stjörnunni i Poweradebikarnum í íþróttahöllinni. Skemmst er frá því að segja að mínir menn unnu Garðbæinga og slógu þá út úr keppninni. Þeir halda svo suður með sjó og mæta Íslandsmeisturum Keflavík í 8. liða úrslitum.
Bloggvinur minn flutti til Reykjavíkur af því að íþróttafélagið sem hann heldur með (fyrirgefið hélt með) og er staðsett á suðurbrekkunni á Akureyri varð gjaldþrota og þurfti aðstoð annarra til að komast á lappir. Þess vegna kaus hann að flytja til Reykjavíkur og setjast þar í helgan steins eins og hann orðaði það ,,Skítugu og menguðu Reykjavík". Ja hérna, heyr og endemi það er greinilega farið að hausta víðar en í veðrinu. Hann er reyndar komin á þann aldur að golfið ætti að fara henta honum og þá getur hann gengið i einhvern golfklúbbinn mér skilst að þar gangi sæmilega.
Speki dagsins: Öll él birtir upp um síðir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.9.2008 | 11:22
Haust
Sunnudagsrúnturinn í dag hófst á hæðinni ofan og sunnan við Krossanes þar sem byggingarframkvæmdir standa yfir vegna Aflþynnuverksmiðjunar. Eftir brösugt og skrykkjótt start þar sem verkataki og verkkaupi deildu varð að skipta út verktaka.
Loksins eru framkvæmdir komnar á fullt og nú sér maður breytingar dag frá degi. Hluti gamla verksmiðjuhússins var ekki rifið heldur verður það hluti af hinni nýju verksmiðju. Búið að steypa grunninn að nýju byggingunni og farið að reisa þar járngrind svo innan skamms og áður en maður veit af verður vafalítið húsið fokhelt. Áfram mun ég fylgjast með þessu og smella inn myndum af og til af framkvæmdunum. Það sem gleður augað er að búið er að fjarlægja allt brotajárnsruslið sem kaffærði svæðið með tilheyrandi sjónmengun.
Haustið er indælt á marga lund. Eitt af því sem er svo skemmtilegt við þennan árstíma er að fylgjast með öllum þeim litabrigðum sem náttúran tekur á sig og skreytir landið svo stórkostlega. Þetta er sá tími sem ljósmyndarar og listmálarar elska. Menn verða hafa stundum hraðar hendur því hlutirnir geta gerst hratt. Nú sem stendur eru litabrigðin hér alveg með ólíkindum. En maður gæti misst af því ef himnafaðirinn tæki upp á því að senda okkur hressilega snjókomu með tilheyrandi látum.
Kunningi minn sagði við mig um daginn ,,Palli nú er fjallið farið að riðga" ég horfði á hann eins og hann væri viðundur, sem hann er bara alls ekki. ,,Jú sjáðu haustlitirnir skreyta fjöllin svipuðum litum og ryðgað járn". Loks kviknaði á perunni hjá karli flott samlíking hjá félaganum.
Súlumýrar og Súlutindur hafa ávallt verið í talsverðu uppáhaldi hjá mér. Þess vegna var myndavélinni beint þangað. Súlur og Hlíðarfjall eru trúlega fyrir okkur hér norðan heiða svipað og Esjan hjá borgarbúum og jöklasýnin og Eystrahorn fyrir Runólf og félaga fyrir austan.
En auðvitað er það svo að hverjum finnst sinn fugl fegurstur, nema hvað? Sennilega er ekki til neitt sem heitir ljótt í náttúrunni okkar allt hefur sína sérstöðu. En það sem verður oft til að skemma fallega ásýnt náttúrunnar er rusl og drasl af mannavöldum sem við köllum sjónmengun, en er svo auðveldlega hægt að laga ef vilji er fyrir hendi.
Og á leið minni við að beina myndavélinni til fjalla var hneggjað á mig rétt handan vegarins. Myndin hér er tekin rétt sunnan við hesthúsahverfið neðan Lögmannshlíðarkirkjuna. Ég gekk yfir vegin og smellti mynd af fallegum hest svart/hvítur. Hvað skildi það kallast? Eru hestar ekki oft skýrðir eftir því hvernig þeir eru á litinn? Ég er fráleitt sérfræðingur í hestum og því er þessi færsla skrifuð í spurnarformi.
En blessuð skepnan gat ekki sagt til nafns eða vildi það ekki. En ef litið er til þess hvernig hann er á litinn þá gæti hann verið annað hvort KR - ingur eða þá hann komi úr Magna frá Grenivík. Og ef stuðst er við útskýringar eins ágæts bloggvinar míns þá hlýtur þetta hross að vera Magnaður frá Grenivík því hann er jú á landsbyggðinni.
Mínir menn í Manchester City leika í dag gegn Wigan á útiveli. Ég bara geri ráð fyrir því að þeir girði sig í brók eftir skellinn í vikunni sem þeir urðu fyrir þegar þeir lutu í gras í deildarbikarnum gegn 2. deildarliði. Þeir bara hljóta gera það.
Málsháttur dagsins: Það er bál ef blossar tveir brenna lengi samanBloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.9.2008 | 01:33
Ekki spámannlega vaxinn - hvað sem það nú þýðir
Það kom í ljós enn og aftur í dag að ég er hvorki spámannlega vaxinn (hvað sem það nú þýðir) né með spádómsgáfu. Innst inni vissi ég að FH myndi klára Íslandsmótið í knattspyrnu - þeir eru jú eina stórveldið í dag í Íslenskri knattspyrnu - hinir láta sig bara dreyma. Ég ól hins vegar þá von að Kristján Guðmundsson og lærisveinar hans í Kef tækju titilinn. Ekki vegna þess að ég haldi með þeim heldur bara til að dreifa þessu örlítið. En FH er vel að þessum titli komin þeir unnu fyrir honum - til hamingju Hafnfirðingar.
Ég ól þá von í brjósti mér að Íslenska kvennalandsliðið næði að leggja Frakka að velli ytra í dag. Ég tippaði á þau úrslit, en það fór á annan veg. EM draumurinn er þó ekki út enn. Liðið fær tækifæri í umspili og þar held ég að það takist. Greinilegt að stelpurnar æt.a sér að fara þessa frægu ,,Krísuvíkurleið" gott og vel þá bara klára þær þetta með þeim hætti. Áfram Ísland.
Var sjálfur ráðin sem ritstjóri www.thorsport.is fyrr í vikunni. Nú á að bretta upp ermarnar og halda áfram að efla þann vef og koma honum í fremstu röð. Höfum fengið mikið hrós víða að vegna þess hve vel uppfærður vefurinn okkar er og fyrir stöðugan fréttaflutning. Palli ritstjóri mun leggja mikið kapp í að gera góðan vef betri. Hef fengið nokkra góða pistla höfunda í lið með mér t.d. sjúkraþjálfara sem ætlar að vera með fróðleik um holla hreyfingu og teygjur, sérfræðing í mataræði sem ætlar að leiða fólk í allan sannleika um mikilvægi þess að neyta réttra fæðu samhliða góðri hreyfingu. Þá verða 2-3 aðrir pennar sem koma inn með ýmsan fróðleik. Á síðunni verður eitthvað fyrir alla hvort heldur sem þeir eru Þórsarar eður ei.
Mikið að gera í gær þ.e. laugardag. Lokahóf yngri flokka Þórs í knattspyrnu. Vegna þess hve margir iðkendur eru innan félagsins varð að tvískipta hátíðinni. Fyrri hluti dags var 6. 7. og 8 flokkur og sá síðari 3.4. og 5. flokkur. Svo á næstunni verður lokahóf meistaraflokka og 2. flokks. Í dag lét Valdimar Pálsson formaður unglingaráðs af formennsku eftir áralangt starf. Honum var veitt gullmerki félagsins. Þá var upplýst að stjórn félagsins hafi ákveðið að hið svokallaða Sunnuhlíðarsvæði verður alfarið ætlað yngri flokkum félagsins. Þar verður sett upp 250-300 manna stúka. Á því svæði getur unglingaráðið selt auglýsingar og sett upp og allur ágóði af þeirri sölu rennur óskipt til unglingaráðsins. Þá var einnig tilkynnt um hvaða nafn var valið úr samkeppni sem efnt var til fyrr í sumar. Hér eftir heitir völlurinn Lundurinn.
Beið spenntur eftir því að sjá fyrsta spaugstofuþátt haustsins. Verð að játa að aldrei losnaði um neina spennu. Þátturinn olli gríðarlegum vonbrigðum. Fátt sem vakti sérstaka athygli hjá mér. Kannski glott út í annað af og til ...... og þó. Vonandi hrista þeir af sér slenið í næsta þætti.
Málsháttur dagsins. Það loðir lengst í kerinu sem fyrst kemur í þaðBloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.9.2008 | 16:42
Verða það Keflvikíngar sem standa uppi sem sigurvegarar? ég held það
Halda mætti að ritstífla væri að hrjá suma þessa daganna. Svo er þó ekki. Mjög annasamt hefur verið og mikið að gerast. Smá tenging. Ég hef bloggað talsvert um gömul hús hér í bæ og þá andlitsupplyftingu sem þau hafa fengið og það hlutverk sem þau gegna í dag. Tryggvi Pálsson kemur þar talsvert við sögu og þá tengjum við. Tryggvi er annað af afmælisbörnum dagsins í dag hjá mér. Hann er 70 ára karlinn í dag - Til hamingju frændi. Hitt afmælisbarnið er föðursystir mín Stella Hjálmarsdóttir, sem er búsett í Svíþjóð og hefur verið það í rúmlega 30 ár. Henni líkar lífið vel og mun án efa ekki flytja til landsins aftur. Stella er 68 ára í dag til hamingju með það frænka.
Síðustu dagar hafa verið mjög annasamir svo ekki sé nú dýpra í árina tekið. Bloggvinur minn einn hefur af því áhyggjur að ég hafi lítið bloggað og þá helst lítið um boltann. Hann hafði reyndar skammað mig áður á sínu eigin bloggi og sagði þá ,,Palli þarftu að tengja bolta við allt?". Hann veit ekkert í hvorn fótinn hann á að stíga - halda, sleppa....
Það er eiginlega stund milli stríða í boltanum. Íslenski fótboltinn að hætta rúlla í bili og styttist óðum í að körfuboltinn taki að rúlla. Enski boltinn komin á fullt og óhætt að segja að nýir eigendur Manchester City hafa hleypt nýju lífi í leikmannamarkaðinn. Liðið hefur byrjað leiktíðina með krafti og um liðna helgi tóku þeir Hermann Hreiðarsson og félaga í Portsmouth í bakaríið 6-0. Ég samgleðst Hermanni fyrir það að hafa fengið að sitja á bekknum allan leikinn í stað þess að skrá nafn sitt á spjöld sögunnar með því að hafa tekið þátt í þessum rassskell. Ekki svo að skilja að þetta geti ekki hent fleiri klúbba, man ekki betur en mínir menn hafi mátt þola slíkt tap á síðasta tímabili - útrætt.
Bolti - í dag gæti ráðist hvaða lið verður Íslandsmeistari í knattspyrnu karla. Nái Breiðablik að taka stig af FH verða Keflvíkingar Íslandsmeistarar. Ég hef engar taugar til þessara liða, og þó. Kristján Guðmundsson þjálfari Keflavík var þjálfari Þórs á árunum 1999-2002 að mig minnir þ.e. 4 tímabil. Þess vegna vona ég hálfpartinn að þeir standi uppi sem sigurvegarar og einnig mjög gott að geta dreift titlunum aðeins. Man eftir því þegar Guðjón Þórðarson gafst uppá því verkefni að þjálfar Keflavík og Kristján tók við þá sagði ég við stuðningsmenn Kef ,,Kristján á eftir að verða ykkur drjúgur og koma ykkur aftur á þann stall sem þið viljið vera á". Margir suðurnesjamenn höfðu ekki trú á því - en ég segi nú ,,hvað sagði ég?" Og til að vera samkvæmur sjálfum mér þá er svo að vona að Fjölnir verði bikarmeistari og dollan fari í Grafarvoginn. Við sjáum til.
Málsháttur dagsins: Meðan bikarinn er fullur er málvinurinn hollurBloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.9.2008 | 11:31
Meira af gömlu húsi
Bloggfærslan um Strandgötu 13 dró dilk á eftir sér. Eftir að ég birti skrifin um húsið hafði Tryggvi samband við mig og kallaði mig á inn á teppið. Þegar til kom var ekki tilgangurinn að skamma strákinn heldur tjáði hann mér að hann hafi grafið upp myndaalbúmið sitt frá þessum tíma þegar húsið var gert upp.
Þegar Tryggvi kaupir húsið 1998 var ekki mikil bæjarprýði af því né nánasta umhverfi hússins. Húsið var bárujárnsklætt sem skipt var í tvenn með trélista fyrir neðan gluggaraðirnar á báðum hæðum. Og eins og kom fram í fyrra blogginu var kjallarinn hálf niðurgrafinn og lofthæðin ekki full. Á þessari mynd sést vel húsið við hliðina sem gekk undir nafninu Skálinn.
Ég sagði frá því að í húsinu hafi gætt flóð og fjöru. Það gerðist vegna þess að yfirborð sjávar varð oft hærra en gólfið í húsinu og þegar var stórstreymi þá flæddi inn í kjallara hússins. Þetta hefur í gegnum árin verið vandamál í mörgum húsum á Oddeyrinni. Man eftir því að þetta hafi verst í húsi sem Hjálmar afi og Óöf amma áttu sem stendur við Gránufélagsgötuna.
Tryggvi hóf strax handa við að gera upp húsið. Og þegar fyrsta áfanga lauk leit húsið svona út. Tryggvi hafði rifið Skálann sem var fyrir í framtíðaráætlunum hans. Eins og sést þá lokaði Tryggvi anddyrum hússins sem voru á stöfnum þess. Hann rak Fasteignasölu á 1. hæð hússins en á efri hæðinni hafði hann látið innrétta með litlum stúdíóíbúðum. Þar rak hann Hótel Stúdíóíbúðir. Sú starfsemi var starfrækt til ársins 2003.
Næsti áfangi: hækkun hússins. Tryggvi fékk leyfi bæjaryfirvalda til þess að lyfta húsinu á grunninum til þess að ná fullri lofthæð og hækka gólfflöt þess. Jafnfram sótti hann um að fá að stækka grunnflöt kjallarans til þess að auka notagildi hans. Þegar öll leyfi voru komin í hús var hafist handa við verkið. Hann fékk stóra bróðir sinn og þúsundfjala smiðinn Björgvin Pálsson til þess að vera yfirsmiður af þessu öllu.
Verkið var vissulega umfangsmikið enda húsið býsna stórt. Forsöguna þekkið þið úr fyrri færslu. Tæknin sem notuð og aðferðin sú sama og notuð er við smíði olíu- og lýsistanka. Eini munurinn er mismunandi form á viðfangsefninu, annað ferkantað og hitt sívalningur.
Menn voru skynsamir. Þekkingin var til staðar og menn höfðu gert slíkt áður þótt í smærra sniði hafi verið. Og auðvitað sækja menn sér þekkingu í smiðju annarra enda óþarfi að reyna finn upp hjólið aftur. Og þótt ekki sé hægt að nýta alla þætti hjá öðrum þá setja menn saman í eina heild það sem þeir hafa lært og tekið úr ýmsum áttum. Það kallast að þroskast, framför.
Á þessari mynd sést þegar búið er að lyfta húsinu upp í fulla hæð. Ef þið rýnið í myndina þá má sjá hús BSO hinum megin við Strandgötuna hús leigubílastöðvarinnar. Til marks um góðan undirbúning og fumlaus vinnubrögð þá þurfti einungis að leggja niður vinnu frá morgni dags og fram yfir kl. 13:00 sama dags vegna verksins. Á þeim tíma var húsinu lyft, allar lagnir og leiðslur teknar í sundur og settar saman að nýju eftir að lengt hafi verið í. Tryggvi sagði mér að það hafi verið sitt lán að hafa bróðir sinn hann Björgvin sem yfirsmið í allri þessari framkvæmd. Björgvin er maður sem virðist geta leyst nánast hvaða verk sem er að hendi. Maður af gamla skólanum, sem er vanur að takast á við hvaða verk sem er. Hjá mönnum eins og honum eru ekki til vandamál - bara verk sem þarf að leysa og þau leysir hann.
Í dag lítur húsið svona út. Þetta er fallegt hús þótt ekki sé það í upprunalegri mynd en það sem upp úr stendur er sú staðreynd að húsið komst í hendur manna sem hafa skilning á því að hægt sé að gera upp hús og halda þeim við. Þetta eru menn sem ganga til verka sinna af festu og ákveðni og leysa þau og ekkert múður.
Menn eins og Tryggvi eiga hrós skilið fyrir þeirra þátt í verndun gamalla húsa. Þetta leiðir hugann að því hvernig komið er fyrir húskofanum í Hafnastræti 98 sem frú Menntamálaráðherra friðaði. Hverju breytti það? Er einhver endurreisn hafin á því húsi? ætlar einhver - eða vill einhver gera það hús upp? Það læðist að mér sá grunur að það sé beðið eftir því að menn geti sótt í styrki í opinbera sjóði til að fara í verkið. Menn eins og Tryggvi og félagar eru því miður ekki á hverju strái og því fer sem fer. Tryggvi sótti ekki fé í opinbera sjóði til að gera sín hús upp. Hann gekk til verka strax og lét verkin tala.
Fyrir þá sem vilja eru fleiri myndir í myndaalbúminu sem heitir Akureyri sem teknar voru af framkvæmdunum við breytingu á Strandgötu 13.
Málsháttur dagsins: Fátt er svo fánýtt að ekki megi nokkuð af nýtaBloggar | Breytt s.d. kl. 13:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.9.2008 | 23:43
Meiri saga síðar
Í gær var í hófi í höfuðstöðvum KSÍ tilkynnt um hvaða leikmenn úrvalsdeildar kvenna hlytu viðurkenningar og hvaða þjálfarar væru bestir. Tvær stelpur úr Þór/KA voru valdar í úrvalslið 13. - 18. umferðar Landsbankadeildar þær Rakel Hönnudóttir og Mateja Zver. Þetta var frábær lesið meira um þetta á heimasíðu Þórs. Rúsínan í pylsuendanum var að stuðningsmenn liðsins voru kosnir þeir bestu. Þetta var og er stórkostlegt. Frábærir áhorfendur óska öllum aðstandendum liðsins til hamingju Áfram Stelpur í Þór/KA og þið stuðningsmenn.
Ég bloggaði svolítið um húsin í Strandgötunni sérstaklega hús nr. 13. Tryggvi stórfrændi minn sem á heiðurinn af því að þessi hús eru í eins góðu ásigkomulagi í dag og raunin er á hafði samband við mig. Hann færði mér myndir og fræddi mig um hvernig staðið var að uppgerð hússins nr.13. Þetta verður til þess að ég verða að blogga síðar enn meir um þessi hús. Búin að skanna inn myndir og þær mun ég bírta síðar með pistli.
Í nótt sem leið var Kári í aðalhlutverki víða um land. Kári blés hressilega og lét víða að sér kveða. Palli svaf af sér þessi læti, enda búið að ganga frá öllu vel og rækilega ZZZZZZZZZZZ.
Fróðleikur dagsins: Á eftir bolta kemur barn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.9.2008 | 09:00
Já fínt
Mikill snillingur hér á ferð og það verður fínt og bara gaman að fá hann til liðs við City. Þótt lítið hafi farið fyrir honum undanfarið þá trúi ég því að hann eigi eftir að blómstra hjá mínum mönnum.
Vertu velkomin.
Ronaldo segist fara til City | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2008 | 17:27
Sögustund um hús með sögu
Strandgata 13 brann til grunna árið 1906 og upp úr því var strax byggt nýtt hús sem stendur enn og byggingaárið er á því húsi 1907. Húsið er fyrir margra hluta sakir merkilegt. Húsið stendur á gatnamótum Strandgötu og Glerárgötu. Þar sem gatnamótin eru ekki hornrétt það er þar sem húsið stendur er hornið ekki 900 og þar af leiðandi húsið eilítið hornskakt viljandi.
Samkvæmt heimildum úr ,,biblíunni minni ,,Akureyri höfuðborg hins bjarta norðurs segir m.a. Jónas Gunnlaugsson hreppstjóri frá Þrastarhóli í Eyjarfjarðarsýslu, og Davíð Ketilsson verslunarmaður, áður bóndi í Miklagarði, Eyjafirði, reistu þar það hús sem nú sendur. Þar segir enn fremur ,,það er einkennilega skakkt í laginu því þess var krafist að það stæði samhliða báðum götunum sem það stendur við eins og ég lýsti hér að ofan.
Þegar ég var að alast upp var þetta hús illa útlítandi í mínum augum sökum ónægra umhirðu. Húsið var í niðurníðslu. Ljót skúrbygging við norðurgafl hússins var ekki til prýði. Þar var m.a. hjólreiðaverkstæði Hannesar. Þar áður hafði Karl Friðriksson verið þar með veitingastað sem hét Skálinn. Karl þessi var mikill frumkvöðull og athafnamaður þótt ekki hafi allar hugmyndir hans orðið að veruleika. Strandgata 13 var upphaflega tveggja hæða hús með niðurgröfnum kjallara, sem var til lítils nothæfur í annað en að safna rusli.
Árið 1989 keypti stórfrændi minn Tryggvi Pálsson rafvirki og fasteignasali húsið. Við það að Tryggvi eignaðist húsið öðlaðist húsið nýtt líf. Tryggvi gerði húsið upp og kom því í upprunalegt útlit. Fljótlega eftir að Tryggvi keypti húsið fór hann að hugsa um hvað hann gæti gert við kjallara hússins, þar gætti flóðs og fjöru. Tryggvi var vakandi og sofandi yfir þessu hvað var til ráða. Hann vissi að Páll faðir hans (afi minn) hafði áður verið frumkvöðull í þessum málum þar sem hann hafði lyft tveimur húsum til að gera neðri hæðir þess nýtanlegar. Páll afi hafði lyft Brekkugötu 5 og Hafnarstræti 97 þar sem áður var bókabúðin Huld en var rifið fyrir all mörgum árum. Páll afi hafði notað vörubílatjakka til verksins.
Tryggvi hafði eitt sinn verið vaktstjóri í Síldarverksmiðju á Bakkafirði í eitt ár og þá varð sá hann hvernig menn fóru að því að smíða olíu- og lýsistanka. Menn byrjuðu á toppinum og lyftu svo upp og byggðu undir. Lausnin var fundinn. Tryggvi reyndi að hafa upp á þessum manni sem var að vinna fyrir austann, en hann var látinn. Hann setti sig í samband við ekkju mannsins og hún kom Tryggva í samband við son sinn sem átti tjakkana sem notaðir voru við verkin. Úr varð að maðurinn leigði Tryggva tjakkana til verksins með því skilyrði að hann fengi að hafa hönd í bagga. Þetta var árið 1997. Tryggvi fékk leyfi yfirvalda til þess að stækka jarðhæðina og er hún um 50 m2 stærri að flatarmáli en eftri hæðirnar.
Teningunum var kasta þetta var lausnin. Tryggvi fékk til liðs við sig stóra bróðir sinn hann Björgvin Pálsson byggingameistara sem búsettur í Hrísey við að endurbyggja húsið. Húsið var allt tekið i gegn allt frá þaki og niður í grunn. Nú er neðsta hæð hússins með fulla lofthæð og ekki niðurgrafin. Það er gaman að geta sagt frá því að í öllu ferlinu þegar húsinu var lyft þá féll vinna niður í fyrirtækjunum sem í húsinu er aðeins fram að hádegi þess dags sem verkið var framkvæmt. Þeir opnuðu sama dag aftur og fólkinu var boðið upp á pizzu við opnun eftir hádegi. Menn voru vel skipulagðir þarna.
Tryggvi er sestur í helgan stein eins og stundum er sagt hann er löggiltur. Í dag starfa synir hans með sinn atvinnurekstur í húsinu. Tryggvi Tryggvason sá elsti er með Opus teikni- og verkfræði stofu áamt félaga sínum og Arnar Tryggvason með Fasteignasöluna Holt, sem hann tók við af föður sínum. Á jarðhæð hússins er veitingastaðurinn Krua Siam. Tryggvi seldi húsið árið 2003. En auk þessa þá gerði Tryggvi upp húsin að Strandgötu 7, 9, og 11 svo að þessi gamla og fallega götumynd sem þarna hefur varðveist er honum ansi mikið að þakk.
Strandgata 7, 9, 11, og 13 er gott dæmi um hvernig hægt er að gefa gömlum húsum nýtt líf og hafa yndi af. Þessi hús eru mikil bæjarprýði og á Tryggvi mikið lof skilið fyrir það að hafa gefið þessum húsum nýtt líf, nýtt hlutverk. Til að glöggva sig á gildi þess að þessi hús hafa varðveist í þessari mynd sést best þegar skemmtiferðaskip koma til Akureyrar þá má sjá ferðamenn í löngum röðum, já löngum standa og taka myndir af þessum glæsilegu húsum.
Seinasta myndin sem fylgir þessari ofur færslu er af einu húsi sem stendur neðar við götuna og er lýsandi dæmi um ljót hús í niðurníðslu og ætti að fara strax með stórvirka vinnuvél og jafna við jörðu. Þetta er engum til sóma, engum.
Málsháttur dagsins: Margur hefur ekki mikinn auð en mikla farsældBloggar | Breytt s.d. kl. 18:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.9.2008 | 22:30
Já sæll! nóg að gera
Gærdagurinn var afar annasamur svo ekki sé nú dýpra í árina tekið. Við feðgar fórum snemma morguns niður í Hamar félagsheimili Þórs og borðuðum morgunmat með Stelpunum okkar í Þór/KA. Svo var farið niður á Akureyrarvöll og seinasti leikur sumarsins kl. 13:00. Keflvíkingar komu í heimsókn. Suðurnesjamenn áttu harma að hefna frá því fyrr í sumar þegar Stelpurnar heimsóttu þær heim og unnu 0-5 sigur. Keflavísku stelpurnar hugðu kvitta fyrir þann ósigur. Þór/KA hefur verið á mikilli siglingu og var búið að tryggja sér 4. sætið í deildinni og hafði ekki í hyggju að láta í minni pokann fyrir gestunum að sunnan. Enda fór svo að Þór/KA vann sannfærandi 6-3 sigur þar sem drottningin okkar hún Rakel Hönnudóttir skoraði 4 mörk og tryggði sér silfurskóinn þar sem hún varð næst markahæst í Landsbankadeild kvenna. Það sækir að mér smá kvíði. Tímabilið búið og þetta lið, þessar stelpur og allir þeir sem starfa í kvennaráðinu hafa skipað svo stórann sess í lífi manns frá því í byrjun maí. En hvað um það það vorar áður en maður veit af og fer boltinn hjá þessum elskum að rúlla að nýju. Segi enn og aftur Áfram Stelpur í Þór/KA.
Og aðeins meira af íþróttum. Um helgina fór fram Greifamótið í körfubolta. Það var smærra í sniðum en venjulega. En hvað um það mótið fór fram engu að síður enda menn farnir að undirbúa veturinn að krafti.
Þórsliðið sem leikur í úrvalsdeild vann þetta mót nokkuð örugglega og vann alla sína leiki. Það er mikill hugur í mönnum og ætla menn sér að toppa árangur síðasta veturs. Þá fór liðið í 8 liða úrslit og féll úr keppni gegn Keflavík sem stóð uppi sem Íslandsmeistarar enda gat ekki annað verið fyrst þeim tókst að slá mína menn út. Hvað um það menn ætla sér stóra hluti í ár og fara lengra en síðasta vetur. Nú er rétt um mánuður þar til keppnistímabilið byrjar svo nú fer maður að setja sig í körfuboltagírinn.
Strax að leik loknum hélt liðið upp á lokin með grillveislu þar sem útlendu leikmennirnir okkar verða farnir af landi brott þegar lokahófið verður haldið. Ég varð að neita mér um þessa skemmtun enda annað sem beið - afmælisveisla tengdasonarins.
Jói og Dagga héldu heljarinnar partý af því tilefni að Jói verður 30 ára á morgun 15. sept. Veislan haldin í Lárusarhúsi, húsi Samfylkingarinnar á Akureyri, nema hvað? enda starfar Jói þar talsvert. Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni. Kökur og alls kyns krásir sem Dagga töfraði fram úr erminni.
Ég og Sædís í samstarfi við Döggu mættum með gítarana og tókum 3 sérvalin lög og spiluðum og sungum fyrir afmælabarnið og salurinn tók hressilega undir. Elín Alma kom síðar að málið við afa og sagði ,,afi af hverju syngjum við ekki afmælissönginn fyrir pabba?". Þvílíkur skandall að klikka á þessu. Og auðvitað var það gert með þvílíkum stæl að undir tók í fjöllunum. Af einhverjum ástæðum fékkst eldri systirin ekki til þess að syngja með, það var hennar mál. Sem sagt mikið húllumhæ fram eftir degi og langt fram á kvöld.
Verð að minnast á það að þennan dag á Dóri stóri bró afmæli. Eitthvað minna fyrir því hér norðan heiða enda býr karlinn í Mosfellsbænum, sem eitt sinn hét nú bara Mosfellssveit.
Er búin að gera nokkrar atlögur að því að ná myndum af Andanefjunum. Það tókst loks í vikunni. Náði ekki mörgum myndum en samt nokkuð góðum. Læt hér eina flakka með.
Nú ætti það að verða auðveldara að mynda þessar skepnur enda nú fjórar sem halda til að Pollinum. Maður veltir því fyrir sér hvað getur valdið því að þessar skepnur ílengjast hér? Sumir leiða að því getur að þær hafi flúið undan öðrum hvölum sér grimmari, hver veit? svo sem ekki vitlausara en annað. Svo gæti einnig verið að þessi dýr séu bara haldin óbilandi sýniþörf og vilji bara vera hér til að láta mynda sig? Nú svo segja trillusjómenn að pollurinn sé hálffullur af síld. Já blessað silfur hafsins. Þetta er svo sem ágætis tenging þ.e. þetta með silfrið þar sem ég byrjaði á því að segja ykkur frá því að Rakel Hönnudóttir hafi hlotið silfurskóinn, askoti er karlinn farin að tengja trekk í trekk.
Málsháttur dagsins: Hvað stoðar full kista ef kölski geymir lyklana?Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.9.2008 | 11:53
Þetta er búið
Nú er þessu lokið. Allt búið, eða þannig. Hverju er lokið? gætu einhverjir spurt. Knattspyrnusumrinu hjá Stelpunum okkar er að ljúka. Seinasti leikurinn í dag. Skemmtilegt knattspyrnusumar er á enda og árangur Stelpnanna okkar er framar vonum alla vega hjá okkur stuðningsmönnunum en kannski ekki hjá liðinu. Mig grunar að þær hafi vitað allan tímann að þetta myndi verða jafn gott og raunin er á. Í dag er seinasti leikurinn hjá þeim og mæta þær Keflavík hér á heimavelli og hefst leikurinn kl. 13:00. Seinast þegar þessi lið mættust á heimavelli Keflvíkinga þá unnu okkar stelpur sannfærandi 0-5 sigur. Hvernig fer í dag er ekki gott að segja en vonandi kveðja þær frábært sumar með sigri. En það breytir því þó ekki að úrslitin skipta engu máli með lokastöðu liðsins. Liðið er búið að tryggja sér 4. sætið í deildinni. Myndin sem fylgir þessari færslu er tekin af liðinu fyrr í vikunni af þessu frábæra liði. Á myndina vantar 3 frábærar knattspyrnuhetjur sem allar eru farnar til náms í Bandaríkjunum þær eru Alexandra Tómasdóttir, Jónína Ásgrímsdóttir og Rakel Hinriksdóttir. Vonandi koma þær allar ferskar til leiks næsta vor. Áfram Stelpur í Þór/KA.
Fór á völlinn í gær og horfði á mína menn í Þór taka á móti Haukum í 1. deild karla. Frekar bragðdaufur leikur og úrslitin eftir því. Leiknum lauk með jafnteli 1-1. Það helsta sem til tíðinda bar á þessum leik var að þetta var kveðjuleikur Hlyns Birgissonar hins ástsæla knattspyrnumanns. Hlynur á að baki nærri 300 deildarleiki. Hann hefur m.a. leikið Örebro í Svíþjóð og lék þar við hlið Arnórs Guðjónsen m.a. Hlynur er meðal Þórsara jafnan kallaður ,,Kóngurinn". Ekkert skrítið hann er sannkallaður Kóngur með stórum staf. Hlynur er þó ekki að kveðja félagið því hann er þjálfari margra yngri flokka og hefur náð frábærum árangri. Þá er hann einnig farin að skipta sér af félagsmálum innan Þórs. Það er gott. Því segi ég ,,Takk Hlynur fyrir þitt framlag til félagsins". Myndin sem fylgir þessu er tekin í leikslok í gærkvöld þegar honum voru færðar gjafir frá karlaráði og stjórn Þórs.
Í dag er mikið að gera. Fara á völlinn og horfa á Stelpurnar. Að því loknu tekur við annars konar gleðskapur. Jóhann tengdasonur minn verður 30 ára gamall á mánudaginn ætlar að halda upp á það með húllumhæ í dag. Hann heldur uppá þetta í Lárusarhúsi, nema hvað? Samfylkingarmaðurinn sjálfur. Jóhann er mikið ljúfmenni í alla staði. Fáa eða enga þekki ég sem búa yfir jafn miklu langlundageði og hann. Jóhann getur horft í augun á manni þegar allt ætlar að ganga af göflunum, hann bíður og starir rólyndis augum djúp í vitund manna og segir eitthvað afskaplega yfirvegað þegar maður dregur að sér andann til að gera sig tilbúin í næstu lotu. Ég ætla svo sem ekki að telja upp alla kosti Jóhanns hér. Þeir sem þekkja hann þekkja hans kosti. Þeir sem ekki þekkja hann þurfa svo sem ekkert að vita meir um hann, eða þannig. Alla vega Jóhann er hinn vænsti drengur og afar góður tengdasonur. Myndin sem fylgir þessari færslu er tekin af Jóhanni og fjölskyldu á Sauðárkróki. Þá var öll fjölskyldan þar vegna þess að þær Margrét Birta og Elín Alma voru að keppa á Landsbankamótinu í knattspyrnu. Og hér kemur ágætis tenging því þjálfari þessara barnabarna minna er engin annar en Hlynur Birgisson. Jói, Dagga og fjölskylda til lukku.
Málsháttur dagsins: Oft kemur sterkastur stormur úr blíðasta logni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
336 dagar til jóla
Bloggvinir
Tenglar
Flickr myndasíður
- Palli Jóh Hér birti Palli Jóh uppáhaldsmyndirnar sínar.
- Dagga -flikkar
- Runólfur
- Svanný
- Rúnar Haukur
- Merkjamanni
- Þórólfur Sveinsson
- Þórður Halldórsson
- Bói Flickr
- Ívan flikkar
- Sigfríður Guðný
Íþróttaklúbbar.
- Íþróttafélagið Þór
- Manchester City
- Chicago Bulls
- Arsenal fyrir Sölla
- Knattspyrnusamband Íslands
- Körfuknattleikssamband Íslands
- Karfan.is
Áhugaverðar síður.
- Pólitíkin
- Gunnar Ísfirðingur
- Hallandsnes
- Ljósstaðafólkið
- Samfylkingin á Akureyri
- Ungir jafnaðarmenn á Akureyri
- Skúli miðill
- Vísisblogg hjá Gunnari Th. Afbrags góður bloggari.
- Gummi Odds í Ameríku Doktor í smíðum
- Valberg og Steinun blogga
- Palli Jóh á Youtube Myndbönd Palla Jóh
Fjölskyndan bloggar.
Nýjustu færslur
- 4.4.2012 Myndbands- og myndablogg
- 14.3.2012 Smá uppfærsla
- 24.12.2011 Gleðileg jól
- 1.8.2011 Á lífi
- 25.4.2011 Að leika við hvurn sinn fingur
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 1
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 28
- Frá upphafi: 190695
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 25
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar