Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Ég er stoltur af þessu unga fólki....

landsfundurUm helgina tók ég virkan þátt í mínum fyrsta landsfundi Samfylkingarinnar. Ef ég ætti að koma öllu því til skila sem mér liggur á hjarta nú að fundi loknum yrði þessi bloggfærsla lengri en góðu hófi gengir. Því mun ég aðeins nefna fáeina punkta sem mér finnst vert að deila með ykkur lesendur góðir.

Samhugur, eining, bjartsýni og óbilandi trú á framtíðina einkenndi þennan frábæra fund. Það sem vakti hvað mesta athygli hjá mér var framganga ungliðana. Ungliðahreyfing Samfylkingarinnar er vel mönnuð af einstaklingum sem hafa mikla trú á sjálfa sig og framtíðina og var áberandi um helgina. Unga fólkið var duglegt að gefa kost á sér í ábyrgðarstöður innan flokksins og tel ég að þau hafi uppskorið eins og til var sáð.

Ef þetta unga fólk í Samfylkingunni er lýsandi dæmi um hvernig ung fólk í dag er yfir höfuð þá þarf maður ekki að kvíða framtíðinni, svo mikið er víst. Alla vega mun ég óhræddur leggja mitt af mörkum til þess að það muni ná völdum á komandi árum, og hana nú.

Þá verð ég að geta þess að þeir Þórólfur Árnason fyrrum borgarstjóri og Bjarni Ármannsson forstjóri Glitnis fóru algeralega á kostum í ræðum sínum um þeirra sýn á jafnrétti kynjana í stjórnunnarstöðum. Ætla ekki á neinn hátt að reyna endursegja þeirra ræður en þeir fá 10 af 10 mögulegum í einkun.

Á laugardagskvöldið var svo haldið mikið og glæsilegt lokahóf á Grand Hótel sem að sögn var allt hið glæsilegasta. Sölmundur hélt uppi heiðri okkar feðga þar því ég lét ekki sjá mig heldur hélt í smá fjölskylduboð hjá mágkonu minni sem hélt okkur dýrindis veislu.

Mínir menn í Manchester City máttu gera sér það að góðu að gera jafntefli við Liverpool í gær á heimavelli 0-0. Þannig sigla þeir nú nokkuð lignan sjó um miðja deild og hifa sig hægt og bítandi upp stigatöfluna. Næsti leikur minna manna verður gegn Arsenal og má þá trúlega gera ráð fyrir því að fjör verði á mínu heimili þá. Sonurinn, pabbi ,,gamli" og tengdasonurinn eru allir Arsenal aðdáendur, svo að það verður jú örugglega líflegt í Drekagilinu ef leikurinn verður sýndur beint.

Fróðleikur dagsins í boði Winston Churchill: Ég á það annríkt að ég hef engan tíma fyrir áhyggjur. 

 


Þá getur þú varla leyft þér að rífa kjaft.....

Ég hitti granna minn á förnum vegi í dag á svip mannsins gat ég ekki betur séð en hann væri með bros á vör og glotti við tönn. Ég dróg upp sparibrosið mitt, þetta sem ég verð að nota þegar ég hitti hann ,,granna" minn því hann á það til að koma manni á óvart. Ég vatt mér því að honum (með sparibros á vör) og spurði ,,liggur vel á mínum í dag ...hvað er að frétta?".

Eitt augnablik hélt ég að mér hafi tekist að reikna hann ,,granna" minn rétt út í dag....Rétt eins og hendi væri veifað stökk ,,granni" upp á nef sér og sagði ,,þessi helv... pólitík er að gera mig algerlega brjálaðann og það er enn einn mánuður í kosningar". Ég borga hæstu vexti í heimi....ha hæstu yfirdráttavexti sem völ er á...... bensínverð hærra en gerist nokkurstaðar á byggðu bóli ha..... og, biðlistarnir fyrir hjúkrun fyrir öldraða mömmu er svo löng að henni mun örugglega ekki endast aldur til þess að komast inn ha..... Gunna frænka öryrki sem er engin alki, hefur aldrei dópað og aldrei reykt samt lepur hún dauðan úr skel og hlutstar á Pétur Blöndal segja að ef öryrki sé í vandræðum þá sé hann annað hvort dópisti eða alki eða þá bara peningasukkari ha.... og Sissi bróðir þarf að greiða bankanum hæstu dráttavexti af yfirdráttarláni sem hann neyddist til þess að taka af því Lín greiðir ekki út námslánin út fyrr en eftir á… og svo vogar þú þér að spyrja mig hvort það liggi ekki vel á mér ha…… veistu ég er alveg snarbrjálaður og vil ekki heyra minnst á pólitík…. Heyrir þú það ha…..?

Eitt augnablik var ég orðlaus, hvað átti ég að segja… eða átti ég að þegja? Og ég sem minntist ekki einu orði á pólitík, aldrei þessu vant. Ég horfði í augu ,,granna” míns og reyndi að gera mér grein fyrri því hvað gera skildi. Ég ákvað að reyna og setti aftur upp sparibrosið (að ég held) og sagði minni silkimjúkuröddu ,, nú þú kýst þá varla þessa ríkisstjórn yfir þig aftur eða hvað ha……? Þú hlýtur að gera þér grein fyrir því að það eru fleiri flokkar í boði sem þú getur kosið ha….?

Augun í ,,granna” ranghvoldust og annað munnvikið titraði hann leit á mig hvössum augum og sagði með enn meira þjósti en áður ,, nei ég ætla ekki að kjósa í vor… og veistu það er sama rassgatið undir öllu þessum pólitíkusum…… ég mun skila auðu…. Granni snarsnérist og gekk af stað burt frá mér hann hvæsti hann hafði gengið stuttann spöl þegar hann snéri sér aftur við og kallaði til mín ,, veistu ég kaus ekki heldur seinast”  hann var greinilega í vondu skapi hann ,,granni” minn.

Þegar ,,granni” var komin í örugga fjarlægð frá mér kallaði ég til hans ,, ef þú hefur ekki kosið og ætlar ekki að kjósa nú þá hefur þú fengið þá ríkisstjórn sem þú verðskuldar og gætir setið upp með sömu martröðina aftur ef þú mætir ekki á kjörstað” og ,, fyrst þú tekur ekki þátt þá hefur þú ekki efni á því að rífa kjaft ha……Granni minn heyrð nákvæmlega það sem ég sagði en svaraði engu.

En ég er einn þeirra sem tek þátt og legg mín lóð á vogaskálarnar til þess að mín rödd og mínar þarfir fái hljómgrunn, og þar af leiðandi hef ég efni á því að rífa kjaft.Ég er virkur þátttakandi í stjórnmálum ýmiskonar og geri allt sem í mínu valdi stendur til að hafa áhrif. Það er nákvæmlega það sem við feðgar munum gera nú um helgina því við munum sitja landsfund Samfylkingarinnar og vera virkir þátttakendur í stefnumótavinnu sem þar fer fram. Leggju af stað snemma í morgunsárið og munum af að líkum lætur verða mættir í Egilshöll um eða upp úr hádeginu.

En eitt er víst  - ég misreiknaði mig hrapalega með geðslag ,,granna" míns í dag, ekki í fyrsta sinn og örugglega ekki í seinasta sinnið.

Fróðleikur dagsins: Ég hugsa aldrei um framtíðina hún kemur nógu snemma.

                        Albert Einstein.


Er slátrun leyfileg inná íþróttavellinum?

Hef oft velt því fyrir mér þegar ég les fyrirsagnir sem hljóða eitthvað á þessa leið ,,Andstæðingnum slátrað" eða ,,þeir niðurlægðu andstæðing sinn í leik...." þegar skrifað er um íþróttakappleiki í þeim tilfellum þar sem lið vinnur yfirburðarsigur á andstæðingi sínum.

Eitt sinn mátti t.a.m. lesa fyrirsögn þar sem körfuboltalið vann andstæðing sinn með rúmlega 100 stiga mun ,, ....niðurlægðu andstæðing sinn á öllum sviðum körfuboltans....." þarna áttust við úrvalsdeildarlið í körfubolta með atvinnumenn innanborðs annars vegar og 2. deildarliði hins vegar þar sem getumunur mjög augljóslega mjög mikill.

Er nema vona að maður spyrji sig þeirra spurninga ,, hvenær fer þessi svokallaði yfirburðarsigur fer að snúast upp í andhverfu sína?". Er það hinn eini sanni íþróttaandi að fara með eins stóran sigur af hólmi og framast er unnt?

Á lið, sem hefur svo mikla yfirburði að það nánast hefur í hendi sér hversu stór sigurinn verður að láta kné fylgja kviði og hafa sigurinn eins stórann og mögulegt er? Er það ekki orðið svipað og ef hnefaleikamaður fengi að halda áfram að berja andstæðing sinn sem liggur eftir í gólfinu rotaður?

Alla vega verð ég oft hugsi þegar þessi staða kemur upp í hinum ýmsu leikjum. Og ekki bara það heldur er ég hugsi yfir stóru feitu fyrirsögnunum sem fréttamenn nota. T.d. hvenær slátrar lið andstæðingi sínum? Ef ekki slátrun, aftaka, varla er það leyfilegt, eða hvað?

Þetta er það sem er mér efst í huga þessa stundina, hvað svo næst kemur í ljós.

Fróðleikur dagsins: Eins manns dauði er annars brauð.


Misgáfulegir sjálfskipaðir stjórnmálaspekingar - hvað hefur klikkað.....?

Misgáfulegir sjálfskipaðir stjórnmálaspekingar hamast við það að greina stöðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttir formann Samfylkingarinnar. Einn slíkur misgáfaður segir m.a. ,,Ingibjörg Sólrún í vanda - hvað hefur klikkað?". Þar vísar viðkomandi í skoðanakönnun Capacent þar sem kemur fram að Ingibjörg njóti ekki traust meðal stuðningsmanna annarra stjórnmálaflokka. Viðkomandi spekingur fullyrðir að engin geti dregið hans skýringu í efa á nokkurn hátt og klíkkir út með því að segja ,,Staðan er mjög einföld og þeir væru ekki veglegir stjórnmálaskýrendurnir sem myndu ekki meta stöðuna svona".

Það er vægast sagt afar athyglivert þegar menn snúa hlutunum svo rækilega á hvolf með því að líta svo á að það sé merki um veika stöðu Ingibjargar og Samfylkingarinnar í heild að andstæðingar flokksins og formannsins beri ekki fullt traust til hennar. Auðvitað bera andstæðingar Ingjbjargar og Samfylkingarinnar ekki fullt traust til hennar sem er eðilileg í ljósi þess að hún er raunveruleg ógn, því það er hún svo sannarlega. Að sama skapi lít ég á forystumenn stjórnarflokkana sem ógn við mig sem þjóðfélagsþegn. Ég væri fullkomlega brjálaður ef ég liti ekki svo á hlutina. Þeir hafa með fullkomlega óábyrgri stjórn kastað frá okkur öllu því sem kallast stöðugleiki í þessu þjóðfélagi og ekkert bendir til þess að annað verði uppi á tengingunum ef þeir halda velli að kosningum liðnum.  Þess vegna myndi ég gefa Geir (horfna) og Jóni Sig falleinkun ef ég yrði svo heppinn að komast í slíkt úrtak hjá Capacent þar sem ég væri beðin að leggja mat á formenn stjórnmálaflokkanna, nema hvað?.

Það sem skiptir höfuðmáli er sú staðreynd að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir nýtur fulls traust innan raða Samfylkingarinnar jafn hjá konu sem körlum. Fagra Ísland, Unga Ísland og Nýja atvinnulíf eru skýr dæmi um metnaðarfulla framtíðarsýn og skynsemi í stjórnun á landi voru er það sem mun koma ríkisrekstri á réttann kjöl aftur eftir 12. mai þegar Samfylkingin kemst í ríkisstjórn. Þetta er það sem skiptir máli en ekki hvað stuðningsmönnum stjórnarflokkana finnst um formanninn okkar.

Og mun ég að lokum gera fullyrðingu ónefnds að mínum og segi ,,Staðan er mjög einföld og þeir væru ekki veglegir stjórnmálaskýrendurnir sem myndu ekki meta stöðuna svona".

Manchester-CityVerð í lokin má ég til með að minnast á það að mínir menn í Manchester City unni mikilvægan sigur á Fulham á útivelli  1-3. Þar með er liiðið komið með 40 stig og er nú um miðja deild og vonandi búið að hrista falldrauginn endanlega af sér.

Fróðleikur dagsins: Margur gerir ráð fyrir þeim degi sem aldrei kemur.

Akurey SF 52 var mikið og gott fley.....

P4070064Bloggþurð hér á sér þær skýringar að ég brá undir mig betri fætinum og Skódanum og ók sem leið lá á suðvestur horn landsins og dvaldi þar um sinn. Dreif mig í kirkju í Keflavík í gær þar sem frænka mín lét ausa son sinn vatni og gaf honum nafn í leiðinni. Óska frænku minni og litla drengnum hennar til hamingju með nýja fína nafnið.

Af því að fyrirsögnin á seinustu bloggfærslu þótti að sumra mati ekki sanngjörn þá skal ég játa það að ekki hef ég trú á því að kennarar séu rustar og illmenni heldur þvert á móti ágætisfólk. En í fyrirsögninni fólst spurning en ekki fullyrðing. 

Akurey1Bloggarinn ,,Gunnar Ísfirðingur" , sem er afar skemmtilegur bloggari stakk upp á því að við gætum haft skipti á umræðum af og til... hann bloggi um pólitík og ég um skip og báta sem dæmi.  Og þar sem ég var sjómaður í 20 ár ekki af illri nauðsýn heldur af áhuga og ást minni á sjómennsku þá hef ég ákveðið að blogga smá um eitt tiltekið skip. 

Fyrsta skipið sem ég réði mig á hét Akurey SF 52 var 86. tonna eikarbátur smíðaður í Danmörku rétt upp úr 1960. Réði ég mig á þennan bát fyrst árið 1975 þá 17 ára gamall. Eigandi og skipstjóri þessa báts var Haukur Runólfsson, sem er og var hinn mesti ljúflingur. Stýrimaður hjá honum var STÓR frændi minn Sölmundur heitinn Kárason sem lést langt fyrir aldur fram.

Akurey var gott skip og þótti mér mikið vænt um hana og minnist þess tíma sem ég stundaði sjó á því skipi með miklum hlýhug. Akurey var gott sjóskip en stundum erfitt. Akurey þótti jú mikil veltukolla (eða slengjan eins og margir Hornfirðingar kölluðu bátinn), en Haukur sagði ávallt ,,jú vissulega veltur báturinn nokkuð en fyrir vikið er þetta gott sjóskip". Hann benti réttilega á þá staðreynd að báturinn hreinsaði sig fljótt og örugglega í vondum veðrum.

AkureyÉg var samtals 2 vetrarvertíðir, 2 humarvertíðir eina síldarvertíð (reknet) í bland við fiskitroll á þessu eðalfleyji. Þar sem ég átti aðeins ljúfar minningar af þeim tíma sem ég var til sjós á þessum bát minnist ég því eðlilega þess tíma með miklum hlýhug.

Akurey var fyrir allmörgum árum dregin á land á Höfn í Hornafirði og er þar enn. Því miður hefur þessum báti ekki verið haldið nægjanlega vel við eins og manni finndist að ætti að vera. Fór fyrir mörgum árum síðan austur á Höfn og skoðaði þá Akureynna þar sem hún liggur og hvílir lúinn kjöl á þurru landi. Því miður drabbast þetta ágæta fley niður og bítur tímans tönn hægt og bítandi á honum og mun eyða ef vinir mínir á Höfn standa aðgerðarlausir og horfa bara á.

Því ákvað ég að reisa um þetta fley minn eigin minnisvarða og smíðaði líkan af bátnum í hlutföllunum 1:25. Kjölur og bönd eru úr krossvið, skrokkur og dekk klætt með Linditré (sem er svo gott að hita og beygja).  Möstur eru rennd úr Mahony t.d. Líkanið er því u.þ.b. metri að lengd, hæð með möstrum 65 sm. Þess vegna set ég inn myndir af Akureynni og vona að þið lesendur góðir hafið gaman af. Myndin er tekin af líkaninu um jólin og því með ljósaseríu.

Í lokin ætla ég að henda inn pínulítlu um pólitík í tilefni frétta um vinsældir foringja stjórnmálaflokkana okkar. Þá segi ég enn og aftur og stend við það hvar og hvenær sem er og veit að ég mæli fyrir munn mjög margra þegar ég segi að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er glæsilegur foringi sem ég er stoltur af. Í blálokin óska ég Kristjáni Möller til hamingju með sígurinn í skíðakeppni þeirri er Íslensk Verðbréf efndu til í tilefni 20 ára afmæli fyrirtækisins. Kristján Möller hafði Kristján Þór fyrrum bæjarstjóra undir í keppninni og ef að líkum lætur þá bara einn af mörgum sem Kristján Möller mun vinna á nafna sínu Júlíussyni á næstu vikum.

Fróðleikur dagsins: Reynslan og sagan kenna oss það, að þjóðir og ríkisstjórnir hafa aldrei lært neitt af sögunni.

Níðast kennarar á nemendum sínum?

Af því að vinkona mín segist næstum hætt að lesa bloggið mitt af þeim sökum að ég skrifi of mikið um stjórnmál. Því hef ég ákveðið að blogga um næstum því ekki neitt að viti í þessari bloggfærslu.

En af því að þessi vinkona mín er menntuð sem kennari þá er ekki úr vegi að vekja athygli á því að samkvæmt nýrri könnum sem gerð var hér á Akureyri meðal nemenda í 8.-10. bekk þá segjast þeir verða oftar fyrir einelti af völdum kennara og starfsfólks skólans heldur en samnemenda. Ja ljót er ef satt reynist.

Ég verð að játa það að ég lendi í ferlegum vandræðum að blogga um eitthvað annað en stjórnmál þessa daganna. Því er nefnilega þannig varið að ef eitthvað er krasandi í dag þá tengist það pólitík.

Ég gæti þó hugsanlega bloggað eitthvað um hinn brjósgóða engil Önnu Nicole Smith því nóg er skrifað og slúðrað um hana þrátt fyrir þá staðreynd að hún er horfin til annarra verka, og þá þeirra verka sem mörg okkar hafa engan áhuga á að taka þátt í, enn sem komið er.

Þá gæti ég líka reynt að blogga eitthvað um forseta frúna okkar sem samkvæmt áræðanlegum heimildum er á heimleið eftir að hafa lent í alvarlegu slysi. Reyndar yrði það öllu áhrifameira heldur en að fjalla um engilinn Önnu Nicole Smith því á þeim er sá stóri munur að forseta frúin okkar er ekta en hin ekki.

Þá gæti ég bloggað örlítið um körfubolta því í kvöld varð fyrst ljóst hvaða lið mun fylgja okkur Þórsurum upp í efstu deild. En það er meir en mánuður síðan Þór tryggði sér sæti meðal þeirra bestu aftur. En vinkonu minni er örugglega slétt sama hvaða lið varð þess heiðri aðnjótandi að fá að halda í hendurnar á okkur upp um deild.

En í lokin og af því að ég hef fjandakornið ekkert geta bloggað að viti þá verð ég samt að skjóta einni ánægjulegri athugasemd inn á bloggið. Það er sú staðreynd að samkvæmt nýrri skoðanankönnun sem félagsvísindastofnun gerði um fylgi flokkana í norðaustu kjördæmi þá er Samfylkingin að vinna á og 3 maðurinn á lista flokksins á hraðri leið á þing. En betur má ef duga skal og nú er að bretta upp á ermarnar og koma Möggu Stínu sem er í 4 sæti listans inn, og hana nú.

Fróðleikur dagsins: Þú getur lokað augunum fyrir veruleikanum en ekki minningunum.

Þess vegna hef ég sem öryrki......

Arndís H. Björnsdóttir formaður baráttusamtaka eldriborgara og öryrkja ritar athygliverða grein í Morgunblaðið í dag. Yfirskrift greinarinnar er ,,Hvers vegna er nú knýjandi þörf á framboði eldriborgara og öryrkja?". Rekur hún með skýrum hætti aðgerðarleysi núverandi stjórnarflokka í þessum málaflokki, sem er aðal ástæða þess að þörf sé á sérframboði. Greinin er á margan hátt mjög athygliverð margt gott sem þar kemur fram. 

Ég er sammála Arndísi um að núverandi stjórnarflokkar hafa staðið sig afar illa í þessum málaflokki og um það eru allir sammála í það minnsta þeir sem eitthvað hafa kynnt sér þessi mál. En ég hef hins vegar uppi miklar efasemdir um ágæti þess að þessi samtök bjóði sérstaklega fram til Alþingis. Það að koma einum eða tveimur inn á þing breytir engu fyrir eldri borgara, engu fyrir mig, sem öryrkja og öll mín þjáninga systkyni sem hafa þann djöful að draga að vera  öryrkjar.

Ég tel hag eldri borgara og öryrkja sé best varið með því að ganga til liðs við stjórnarandstöðuflokkana og leggja þannig sín lóð á vogaskálarnar við að fella þessa handónýtu ríkisstjórn sem aldrei hefur og mun aldrei verða þekkt fyrir það að hafa mannúðarstefnu að leiðarljósi. Ekki er hægt að saka stjórnarandstöðuflokkana um að hafa ekki á undanförnum árum lagt málefnum þessa þjóðfélagshópa í lið á hinu háa Alþingi, aldrei.

Eigi rödd þessa þjóðfélagshópa að hljóma svo að eftir verði tekið þá væri besta leiðin að gera það innan stjórnmálaflokks sem hefur þennan málaflokk ofarlega á sinni stefnuskrá. Að mati margra sérfræðinga er sérframboð hvers konar það sem stjórnarflokkarnir hagnast hvað mest á, og ég vil ekki trúa því að það sé von þeirra og ósk, sem að þessu umrædda sérframboði standa, eða hvað?

Samfylkingin er sá stjórnarandstöðuflokkana sem leggur hvað mesta áherslu á málaflokk eldri borgara og öryrkja nú sem endranær. Í stefnuskrá Samfylkingarinnar kemur það berlega í ljós hversu hátt Samfylkingin gerir þessum þjóðfélagshópum hátt undir höfði, og það er vegna þess að þar á bæ gera menn sér fulla grein fyrir því að þessi þjóðfélagshópar hafa orðið undir í lífsbaráttunni á undanförnum árum.

Þetta er m.a. ein af ástæðum þess að ég sem öryrki, jafnaðarmaður sem þoli illa óréttlæti í lífinu snéri mér að Samfylkingunni, og það með stolti. Ég veit að þar er mínum málum best borgið. Einnig geri ég mér grein fyrir því að innan raða Samfylkingarinnar eru þingmenn sem hafa á undanförnum árum lagt þessum málaflokki lið á þingi og reynt af öllum mætti að opna augu stjórnarflokkana um stöðu þessa málaflokka. Jafnfram veit ég að þegar Samfylkingin kemst í þá aðstöðu að stjórna landinu (eftir 12.maí 2007) þá mun rödd minna þjáningasystkyna hljóma á Alþingi Íslands.

Þannig, og með þeim hætti er von um að eldri borgara og öryrkjar fá leiðréttingu, sem þeir hafa svo lengi, lengi beðið eftir því miður borin von ef núverandi stjórn heldur velli. Og einnig mun það nákvæmlega engu breyta ef sérframboð aldraða- og örykja heldur sínu til streytu, því miður.

Fróðleikur dagsins: Það er enginn vandi að verða gamall, vandinn er að vera gamall.

 


,,Á ég að trúa þessu Þorlákur...?" sagði Össur.

Samfylkingin stóð fyrir súpufundi í hádegi í dag á Hótel KEA. Fínn fundur og vel sóttur. Frummælendur voru þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össu Skarphéðinsson. Meðal þess sem fram kom á fundinum var almenn og mikil ánægja með stefnumóta vinnu Samfylkingarinnar í málefnum barna- og unglinga þ.e. Unga Ísland. Var mál manna að þar hafi Samfylkingin tekið frumkvæðið í þessum málaflokki og önnur framboð standi flokknum langt að baki. Mikið var rætt um málefni aldraða- og öryrkja, sem og samgöngumál í kjördæminu. Þorlákur Axelson sem hafði ákveðið að brjóta hefðina og spyrja ekkert út í evrópusambandið fékk þó svör við spurningum sem hann aldrei bar upp. Össur sá við honum. Össur stóð upp í lok fundar og sagði ,,ég ætla svara spurningu sem ég veit að brennur á vörum Þorláks Axelsonar en hefur þó ekki enn borið upp... ég trúi því vart að fundi eigi að ljúka án þess að Láki fái einhverja evrópu umræðu".

Fundarstjóri var hinn skeleggi alþingismaður og baráttujaxl Kristján Möller - maður sem ég vill sjá í sæti Samgönguráðherra eftir 12. maí.

Fróðleikur dagsins: Enginn er svo gamall að hann telji sig ekki geta lifað eitt ár í viðbót.

Fjörusigling Jóns Sigurðssonar

FiðlaÓnafngreindur kaupandi keypti í kvöld Stradivarius-fiðlu á uppboði í New York fyrir 2,7 milljónir dala, jafnvirði nærri 180 milljóna króna. Bara til þess að fyrirbyggja allan misskilning þá var það ekki Palli Jóh sem keypti gripinn. Hefði svo sem ekkert með þannig hljóðfæri að gera enda kann ég ekkert með það að fara.

Þá er það orðið ljóst að Framsóknarflokkurinn með Jón Sigurðsson í broddi fylkingar hefður tekið þá stefnu fyrir komandi alþingis kosningar að halda því til streitu að sigla þjóðarbúinu endanlega í strand. Hann vill virkja út um allar trissur halda áfram að reisa álverskmiðjur eins víða og hægt er að koma því við. Mér finnst málflutningur Jóns Sigurðssonar fínn - ég vona að hann haldi áfram þessu rugli, því þá er nokkuð ljóst að þeir ríða ekki feitum hesti úr næstu kosningum, enda eiga þeir það ekki skilið og hvað þá þjóðin.

Á morgun þriðjudaginn 3. apríl verður súpufundur með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Össuri Skarphéðinssyni á hótel KEA kl 12. Þarna gefst öllum áhugamönnum um stjórnmál að ræða málefni dagsins við formann flokksins og formann þingflokks Samfylkingarinnar. Er full ástæða til þess að hvetja fólk til þess að mæta á þennan fund. T.d. er tilvalið fyrir fólk að koma og ræða við þau um Unga Ísland - fjárfestum í fólki framtíðarinnar sem og Fagra Ísland.

Fróðleikur dagsins: Allir vilja lengi lifa en enginn verða gamall.

Kýrauga Rannveigar.

Vinir Hafnarfjarðar sem eru á móti stækkun álversins í Straumsvík báru sigurorð á andstæðingum sínum í bráðabana í gær, en ljóst er að ekki mátti það tæpara standa. Það vakti hins vegar athygli mína að heyra forstjóra Alcan Rannveigu Rist kvarta undan því að fjölmiðlar hafi ekki gætt nægilegs hlutleysis í kosningabaráttunni? Greinilegt að sjónarhorn Rannveigar forstjóra Alcan er afar þröngt - líkast því að horft sé út um kýrauga. Hvað sem öllu líður þá er ég þakklátur Hafnfirðingum að hafa sagt nei og gert þjóðinni þann greiða að leggja sín lóð á vogaskálarna gegn gengdarlausri stóriðjustefnu stjórnvalda.

Mikið að gera í gær á fleiri stöðum en í Hafnarfirði. Hér á Akureyri opnaði Samfylkingin kosningaskrifstofu í Lárusarhúsi. Mikið fjölmenni mætti á opnunina og greinilegt er að mikill hugur er í jafnaðarmönnum hér í kjördæminu okkar þ.e. norðaustur. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður mætti á svæðið og hélt fína og hnitmiðaða ræðu og brýndi vopnin.

Getraunastúss í Hamri eins og venja er til alla laugardaga. Horfði á Liverpool - Arsenal með öðru auganu (Þó ekki kýrauganu) sem sýndur var beint á stórum skjá í Hamri. Þar náðu ,,poolararnir" fram hefndum enda höfðu Arsenal farið illa með þá í þremur viðureignum fyrr í vetur. Fengu strákarnir úr bítlabænum uppreisn æru sinnar.

Mínir menn í Manchester City er á öruggri leið upp stigatöfluna eftir dapurt gengi á undaförnum vikum. Í gær heimsóttu þeir lið Newcastle og lögðu þá með marki gegn engu. Liðið situr nú í 13. sæti með 36 stig. Er þetta annar sigurleikurinn í röð og liðið að u.þ.b. að komast af bráðasta hættusvæðinu. Næsti leikur þeirra verður á heimavelli gegn Hermanni Hreiðarsyni og félögum í Charlton þann 6. apríl.

Fróðleikur dagsins: Ungir til dáða, gamlir til ráða.

« Fyrri síða

Höfundur

Páll Jóhannesson
Páll Jóhannesson

Akureyringur, eiginmaður, pabbi, afi, Þórsari,  jafnaðarmaður, City - fan og Áfram Þór alltaf, allstaðar.

Hafi einhver áhuga að senda mér tölvupóst þá sendið á pallijo@internet.is

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

243 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband