Færsluflokkur: Bloggar
26.4.2010 | 22:58
Með hækkandi sól
Það er óhætt að segja að með hækkandi sól léttist lundin og maður fer að láta hugann reika um komandi tíma með blóm í haga. Það styttist í garðverkin og mann fer að klæja í fingurna ýmist að spenningi yfir því að geta hafið störf í garðinum eða af verkkvíða. Þeir sem til þekkja vita að undirritaður er haldin illlæknandi eða ólæknandi ljósmyndadellu. Það verður oftar en ekki tilefni til göngu- og eða bíltúra um bæinn eða manns nánasta umhverfi. Maður leitar eftir áhugaverðu myndefni til að festa á kubb og vonar að maður nái MYNDINNI.
En hvort og hvenær myndin kemur gildir einu. Meðan maður hefur gaman af því sem maður gerir og reynir að bæta sig og gera betur er tilganginum náð. Það kemur fyrir að maður fer út að mynda með fyrirfram ákveðin verkefni en kemur svo heim mað allt annað. Um helgina fór ég niður í Sandgerðisbót og hugðist mynda lífið við og í smábátahöfninni. Afraksturinn var þessi, ekki alveg það sem til stóð að mynda. En meðferðarmaður minn í þessari ferð barnabarni Jón Páll hafði meiri áhuga á þessum hlutum sem urðu á vegi okkar í Bótinni
Afi flottur bíll.... Þótt litla manninum hafi þótt mikið til koma er óvíst að þessi kaggi fari aftur af stað. En maður skildi aldrei segja aldrei...
Vááá - afi .... Og þessi hver veit? hann er á dekkjum og alles vantar bara mótorinn og eitthvað smotterí annað, annars næstum klár.
Gamall Ski-doo sem löngu hefur lokið sínu hlutverki. Rifjar upp þá tíma þegar maður var unglingur og var að sjá fyrstu snjósleðana. Á heimleiðinni renndum við framhjá Glerárskóla og þar mátti sjá unda ofurhuga leika listir sínar á reiðhjólum...
Á hverjum degi fer ég á sama staðinn rétt ofan við Glerárskóla og mynda Þórsvöllinn til þess að sjá þróunina á vellinum, hvernig hann tekur sig eftir að hita var hleypt á kerfið. Í dag lítur völlurinn svona út
Og þessi
Sem sagt, þessi ljósmyndatúr sem átti að sýna mannlífið í smábátahöfninni endaði á allt annan veg. Það er hins vegar bara allt í lagi. Næst verður það mannlífið í bótinni, vonandi.
Þangað til næst
Fróðleikur dagsins: Á árunum 1931 til 1969 hlaut Walt Disney 35 Óskarsverðlaun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.4.2010 | 23:59
Sumarið er tíminn
Sumarið er tíminn ... alla vega á sumrin. Nú er blessaður veturinn að kveðja og á morgun mætir sumarið í öllu sínum veldi... alla vega samkvæmt dagatalinu. Blessunarlega lítur út fyrir að gosið í Eyjafjallajökli sé á undanhaldi. Ástandið í þjóðfélaginu er spennuþrungið og skrítið. Útrásarvíkingar í felum og þora ekki út fyrir hússins dyr - skal engan undra.
Ég þori hins vegar út fyrir hússins dyr enda með þokkalega hreina samvisku og í samanburði við suma sem nú skjálfa á beinunum vegna rannsóknarskýrslunnar hef ég svo hreina og hvíta samvisku að menn yrðu að skoða mig með rafsuðuhjálm á höfðinu.
Þótt sé farið að vora og sumarið á næsta leiti eru veðurguðirnir (ekki Ingó) enn að stríða okkur með því að skvetta aðeins úr klaufunum. Ef maður pirrar sig á slíkum smámunum væri manni holt að leiða hugann til þeirra sem búa í næsta nágrenni við gosstöðvarnar í Eyjafjallajökli. Miðað við þær hörmungar ættu við að hafa vit á því að þegja og þakka fyrir það sem maður hefur.
Í morgun brá ég mér í smá rúnt og alveg óvart var myndavélin með í farteskinu já ég meina það alveg óvart. Fyrsta myndefnið var Sigurhæðir (Hús skáldsins) og Akureyrarkirkja, vel við hæfi. Á Sigurhæðum bjó þjóðskálið mikla Mattías Jochumsson 1835 - 1920 og heiðursborgari Akureyrar.
Eilítið innar í bænum er svo að finna annað hús sem vekur jafnan athygli manna þ.e. Minjasafnskirkjan eins og hún er jafnan kölluð. Um hana er skrifað á vef safnsins ,, Kirkjan var upphaflega Svalbarðseyri en var flutt til Akureyrar þar sem hún stendur nú við Minjasafnið og er hún hluti af safninu í dag.
Aðeins austar í innbænum nánar við Leirunesti mátti sjá Tjaldinn leita sér ætis í fjörunni - hrollkalt en fuglinn lætur þetta ekkert á sig fá.
Síðasta myndin er af yngsta barnabarninu henni Hólmfríði Lilju. Það er hreint alveg magnað að lulla á gólfinu með henni og bíða eftir rétta andartakinu. Þessi mynd er lýsandi dæmi um hvenær maður hittir naglanna á höfuðið eins og stundum er sagt. Þó ég segi sjálfur frá - frábær mynd.
Þangað til næst
Gleðilegt sumar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.4.2010 | 20:51
Afi af hverju ertu að mála matinn?
Það er búið að vera líf og fjör hjá ,,gamla" settinu sem er þessa daganna í hlutverkum dagforeldra. Það er dásamlegt og enn meira spennandi þar sem börnin eru jú barnabörnin. Hjálpa til við heimanám, guði sé lof að börnin eru ekki komin lengra í skólakerfinu.... Fer að styttast í að lítil aðstoð verði að finna hjá gamlingjunum, enda gilda ekki alltaf þessi týpísku svör sem maður grípur til þegar manni verður svara vant þegar ungdómurinn kemur með snúnar spurningar og maður freistast til að fara í kringum hlutina án þess að gefa tæmandi svör.
Börnin koma oftar en ekki með skemmtilegar pælingar sem í raun eru svo djúpar að manni verður orðavant. Gott dæmi um slíkt poppaði upp um liðna helgi þegar tvö af barnabörnunum fengu að sofa hjá okkur þ.e. Margrét Birta og Elín Alma. Elín Alma var lögst upp í rúm og var að búa sig undir að fara í draumheima og sagði ,,Afi, hver fæddi Guð, þagði augnablik en bætti við eða kom hann bara?". Ég varð eðlilega hugsi smá stund en sagði svo ,, ég bara veit það ekki, hef aldrei hugsað út í þetta". Það fyrsta sem Elín sagði morguninn eftir við mig var ,, Afi ertu búinn að hugsa hver fæddi guð, eða kom hann bara?".
Önnur perla féll svo í dag þegar ég stóð við eldhúsbekkinn og var að pensla kjúklinginn með grillolíu sem átti að fara á grillið. Kemur þá ekki eitt barnabarnið (Jón Páll) til mín og segir ,,Afi af hverju ertu að mála matinn?". Er nema von að maður sé stundum slæmur innvortis ef maður er farinn að mála matinn?.
Frúin læddist út með vélina og skaut á karlinn einni mynd.
Í eftirmat fékk svo yngri kynslóðin íspinna sem algerlega féll í kramið. Og ekki laust við að yngsta barnabarnið Hólmfríður Lilja hafi notið þess út í ystu æsar að snæða þetta góðgæti hjá ömmu sinni.
Nammi namm.
Í gær tókum við smá bíltúr ég og Jón Páll og eins og svo oft áður var myndavélin með í för. Og við stöldruðum aðeins við í Strandgötunni neðan við líkamsræktarstöðina Átak en þar er listaverið Farið staðsett og vísar í áttina að flugvellinum. Sá stutti var alveg með það á tæru af hverju listaverkið var svona í laginu eftir að afi hafði útskýrt. Afi þetta er eins og flugvél og gerir svona....
Að lokum ein mynd sem tekin var af systrunum um síðustu helgi við leik. Þá hafði amma náð í dúkkudót sem heitir Bradz eða eitthvað álíka...... skiptir ekki öllu þótt við strákarnir séum ekki með það á hreinu
En veðrið þessa daganna gefur okkur enn og aftur tilefni til vera spennt og það er greinilega vor í lofti. Við Þórsarar tökum enga áhættu og erum búnir að kveika á hitakerfinu í Þórsvellinum enda viljum við hafa hann klárann þegar boltinn fer að rúlla. Hér að neðan eru tvær myndir af vellinum. Sú fyrri er síðan sl. fimmtudag daginn sem kveikt var á kerfinu og hin síðari tekin í dag.
Eins og þið sjáið gerast hlutirnir hratt. En taka verður með í dæmið að veðurguðirnir hafa verið duglegir við að leggja þessu verkefni lið með hlýju veðurfari og sæmilegri rigningu i einn dag.
Þangað til næst
Fróðleikur dagsins: New York hét eitt sinn New Amsterdam.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.4.2010 | 11:25
Myndablogg úr Höfuðborg hins bjarta norðurs
Í síðustu bloggfærslu velti ég því fyrir mér hvort rusl væri það sama og rusl. Mig grunaði reyndar að einhverjir myndu sjá þarna ýmislegt sem vart gæti talist rusl heldur væri þarna vel varðveittur fjársjóður. Góður bloggvinur minn (Gunnar Th) sem hefur mikið vit á öllu því sem er vélknúið benti á ýmislegt sem er vert að varveita og í gegnum orð hans mátti lesa ,,Það er ekki allt gull sem glóir". Ég tek undir hvert orð þessa bloggvinar míns. Stór hluti þess sem ég kalla rusl og er án efa hægt að koma aftur í betra ástand til varðveislu á rétt á sér, meðan annað er klárlega rusl. En ég og Gunnar erum greinilega sammála um að sjónmengun er af þessu og það væri vel hægt að geyma og varðveita stærsta hluta þess með skipulegum hætti og gera það þannig að ekki sé sjónmengun af.
Gunnar Th. er með afbrigðum skemmtilegur og snjall penni sendi mér einnig tölvupóst sem smá viðbót við athugasemdina og læddi þar í gegn spurningu hvort ekki væri farið vora hjá smábátamönnum á Akureyri. Ég tók mér því smá rúnt um Sandgerðisbótina og heimsótti svo athafnarsvæði Nökkva við Drottningarbrautina.
Í Sandgerðisbótinni er allt með kyrrum kjörum og lítið líf þegar mig bar að.
Fallegasta fley sem er verið að skvera til og gera kárt fyrir sumarið.
Þessir bíða en eru greinilega klárir í slaginn. Bara spurningin hvenær vorið kemur hjá eigendunum.
Hef áður birt mynd af þessum fallega og vel hirta bát, mynd sem tekin var að sumri til. Báturinn sem heitir Nói og ber eiganda sínum merki um góða umhirðu.
Fyrri margt löngu hafði ég birt mynd af lítilli kænu sem heitir Gunnar sem virðist hafa lokið sínu æviverki. Sá að þar hefur enn ekkert gerst og allt lítur út fyrir að hann bíði enn örlaga sinna, en hver veit.
Og Smugan enn á sínum stað.....
Leiðin lá þar næst á athafnarsvæði Siglingaklúbbsins Nökkva. Og þar er sama kyrrðin og í Bótinni. Enda ekki enn komið vor í ,,Höfuðborg hins bjarta norðurs" því þar er enn vetur, en vorið vonandi ekki mjög langt undan.
Eins og þíð sjáið er allt með kyrrum kjörum. En með hækkandi sól styttist óðfluga í vorið og þá á eftir að færast líf og fjör í þessi tvö athafnarsvæði, með ólíkum hætti þó. Í Sandgerðisbótinni er það eldri og reyndari kynslóðin sem lætur til sín taka en á athafnarsvæði Nökkva er það ungviðið. Þar hefja margir sjómannsferilinn og þá kemur í ljós hjá mörgum hvert krókurinn muni beygjast.
Skírdagur í dag og páskar á næsta leyti og aldrei að vita nema Palla gefist tími til að fara út að mynda. Það muggar svo það lítur út fyrir að myndefnið verði tengt snjó og vetri.
Þangað til næst
Málsháttur dagsins: Hnýsnin hefur augun bæði í bak og fyrir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.3.2010 | 21:30
Umhverfisslys eða er þetta í lagi?
Er rusl það sama og rusl. Vissulega fer það eftir því hver mælir og hvaða hagsmuni viðkomandi hefur hverju sinni. Ef grannt er skoðað má fullvíst telja að ekki sé til það heimili eða vinnustaður í landinu sem er laust við að geta fallið í það að hafa óþarfa rusl sem löngu ætti að vera komið í endurvinnslu eða á hauganna. En það sem einum finnst rusl er ekki þar með sagt að allir séu á sama máli og öfugt.
Hvað um það. Samt kemur fyrir að maður kemur á þá staði þar sem vart er hægt að finna nýtilega hluti og í raun allt er á kafi í rusli. Sumir kunna að geyma rusl þannig að af því sé ekki teljandi sjónmengun. En svo eru aðrir sem láta sér fátt um finnast og kaffiæra umráðasvæði sitt í rusli og drasli þótt þeir nánast búi við hliðina á þeim sem hafa atvinnu af því að útrýma rusli.
Í bæjarlandi Akureyrar er t.a.m einn vinnustaður sem er gott (eða í raun VONT) dæmi um slíkt þ.e. þar sem allt er á kafi í rusli og drasli og nýtanlegir hlutir í miklum minnihluta. Þetta er eftir því sem mér virðist vera Steypustöð Akureyrar. Ég keyri vikulega framhjá þessu svæði til að fylgjast með þróuninni þar. Fækkar ruslinu eða eykst það? Staðreyndin er sú að ruslinu fækkar ekki því miður. Alltaf bætis við hauginn. Í september 2009 fór ég með myndavélina og smellti af myndum þar og myndasyrpan hér að neðan er úr þeim leiðangri.
Við innkeyrsluna. Þokkalegt eða hitt þó heldur. Sjáið skiltið næst á myndinni þar eru upplýsingar um götuheiti símanúmer og fleira. En skiltið fjær........ kem að því síðar. Sjáið þetta
Eru miklar líkur á að þessi tæki fari aftur í umferð og komi að endurreisn hins nýja Íslands? veit ekki, eða þetta
Jarðýtur og veghefill sem einhvern tíma lögðu sitt af mörkum, varla lengur eða?
Frá götunni niður að verksmiðjusvæðinu þar sem Aflþynnuverksmiðjan blasti þessi sjón við. Snyrtilega raðað rusl - en í dag hefur heldur betur bæst við. Leið mín lá að lóðarmörkum þessa athafnasvæðis að norðanverðu. Næsta lóð þar er Hringrás sem er fyrirtæki sem hefur þann starfa að tæta niður stál og alls kyns málma og koma því í endurvinnslu erlendis. Þeir hafa þann starfa að viða að sér rusli og koma því frá. En aftur að lóðarmörkunum þ.e. steypustöðvarmegin.
Nýtilegt? eða
Þetta....
Hann er enn á 6 hjólum og hver veit nema hann eigi eftir að fjúka í gegnum skoðun hjá Frumherja sem er ekki langt undan?
En í alvöru ég er ekki að grínast. Munið hér í upphafi minnist ég á skilti við innkeyrsluna með upplýsingum um staðsetningu, símanúmer og annað sem er nauðsýnlegt að hafa vilji maður skipta við umrætt fyrirtæki. En ég nefndi annað skilti og á því voru athyglisverðar upplýsingar, sjáið þetta
Takið eftir því sem stendur á skiltinu. Bannað að taka efni úr námunni án þess að tilkynna það á skrifstofu og greiða fyrir. Skiljanlegt. En neðst: LOSUN ÚRGANGSEFNA ER BÖNNUÐ. Grín. Veit ekki. En kannski eðlilegt að menn hafi sett þessi skilaboð við innkeyrsluna enda allt sem bendir til að maður sé að aka inn á ruslahauga.
Ég er næsta viss um að ef ég færi á næstu dögum eða misserum inná svæðið og bæði um tilboð í steypu, verði mér ekki tekið með opnum örmum og boðin vinaafsláttur af öllum viðskiptum... eða?
Er þetta hægt? hvað er til ráða? Ég mun fara á næstu dögum aftur á stjá með myndavélina og þá fáið þið að sjá hvernig málin hafa þróast frá því í september 2009.
Þangað til næst málsháttur dagsins
Einn metur það illt sem annar metur gott.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.3.2010 | 21:28
Flottar stelpur og stoltur afi
Það er dásamlegt að geta mitt í öllu amstri að geta farið og notið lífsins meðal barna-barnanna í leik og starfi. Meðan menn gleyma sér við að tæta hver annan niður og ausa óþverra í allar áttir, fór ég í dag í íþróttahús Glerárskóla. Þar var heilmikið fimleikafjör eða svokallað Akureyrarfjör. Tvö af elstu barnabörnunum mínum þær Margrét Birta og Elín Alma voru að keppa og afi var sko mættur með myndavélina.
Báðar stóðu sig eins og sannar hetjur. Margrét Birta átti frábæran dag og náði 3. sætinu og kom heim með bronsið. Glæsilegt hjá henni. Elín Alma átti einnig frábæran dag þótt ekki kæmist hún á verðlaunapall. Þær vita báðar að það geta ekki allir unnið í einu. En Elín Alma fór þó líka heim með pening enda fengu allir hinir verðlaunapening fyrir þátttökuna.
Skemmtilegur dagur. Hér eru svo nokkrar myndir af þessum gimsteinum.
Margrét Birta á jafnvægisslánni
Tilþrif hjá Elínu og þjálfarinn lifir sig í hlutverkið og tekur þátt
Elín Alma í lokastökkinu
Margrét Birta að ljúka við æfingar á slá
Margrét Birta með bronsið um hálsinn. Greinilega stolt, og þið megið trúa því að afi var stoltur.
þangað til næst
Fróðleikur dagsins: Hvað ætli maður eigi að segja ef Guð hnerrar?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.3.2010 | 23:38
Heiðurskona
Ég hreinlega má til með að stinga niður puttum á lyklaborð í dag. Ekki svo að skilja að það sé í einhverri neyð eða kvöð. Með glöðu geði ætla ég að fara örfáum orðum um konu dagsins Ólöfu Helgu Pálmadóttir mágkonu mína. Þennan dag fyrir margt löngu, þó ekki svo mjög leit þessi heiðurskona dagsins ljós fyrsta sinni og það ku hafa gerst á Sauðárkróki.
Fyrstu ár ævi sinnar bjó hún Lýtingsstaðarhreppi en þaðan lá leiðin til Akureyrar. Ólöf Helga flutti svo fljótt til Reykjavíkur eftir að hún hafði lokið skólagöngu á Akureyri þ.e. eftir gagnfræðaskólann. Nam svo þau fræði sem í ,,gamla" daga voru kölluð ,,Fóstra" en í dag heitir það víst Leikskólakennari. Ólöf Helga er mikill jafnréttis sinni og annt um starf sitt og velferð skjólstæðinga sinna og í dag hvarflar það ekki að mér að kalla hana fóstru, ekki einu sinni í gamni.
Helga starfar við fag sitt og hefur verið Leikskólastjóri í mörg herrans ár við góðan orðstír. Hún ásamt manni sínum mikil golfáhugamanneskja. Og það er nákvæmlega það sem þau hjónin ætla ásamt vinum að nota næstu daga í. Fljúga á vit ævintýranna á morgun og svo verður golfað frá morgni til kvölds. Flott hjá þeim.
Helgu er gott heim að sækja hvernig sem á það er litið. Þegar mann ber að garði er manni tekið með þvílíkum látum rétt eins og maður sé einhver kóngur. Kóngur er maður ekki en manni líður þannig þegar maður ber húsa hjá þeim hjónum. Og ekki er gestrisnin minni þegar maður sækir þau heim í sumarbústaðinn sem er kenndur við Hlíðarenda. Sælureitur.
Helgu er margt til lista lagt. Hún er feiknalega góður hagyrðingur og er snögg að berja saman stökur og alls kyns kvæði og ljóð. Já góður penni. Um Helgu væri hægt að skrifa langa, langa lofræðu, en það bíður betri tíma.
Hér er svo mynd af afmælisbarni dagsins sem tekin var fyrir tæpum þremur árum á 50 ára afmæli systur hennar.
Þessi mynd er tekin við sumarhúsið þeirra - Hlíðarendi
Helga, til hamingju með daginn og vonandi verður golfferðin hjá ykkur hjónum ógleymanleg.
Málsháttur dagsins: Ekki er til setunnar boðið þá herlúðurinn gellur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2010 | 21:17
Mikið burrrrrrað
Það var mikið burrrrað í dag í Lönguhliðinni þegar haldið var upp á 5 ára afmæli Jón Páls sem er næst yngsta barnabarnið okkar hjóna. Reyndar er 8. mars afmælisdagur hans en þá bara hentaði ekki að vera með veislu.... Sá stubbur er mikill bílakarl og í flestum hans leikjum er mikið burrrað. Bílar... smáir, stórir, í öllum regnbogans litum, jeppar, fólksbílar, trukkar, vörubílar, rútur, kappakstursbílar...... bara nefna það Brrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrr.
þema dagsins í afmæli Jóns Páls var að sjálfsögðu bílar og allt sem viðkemur bílum. Meira segja kökurnar báru þess merki. ,,Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni" Dagga með kökur af öllum stærðum og gerðum, já mikið lagt í. Greinilegt að þarna eru erfðin að koma í ljós. Talandi um erfðir þær geta náð aftur í ættir. Það er nefnilega svo að Palli afi Jóns Páls var forfallinn bílagutti og er í raun enn.
Enn, dagurinn snérist um Jón Pál sem stendur á tímamótum, afi svona gamall og nú bættist einn putti við. Jebb maður er að verða stór.
........... sjáið bara FIMM ...... 5.
Veisluborð þar sem þemað var tengt bílum ..... Cars
........ svo var blásið
Og að sjálfsögðu opnaðir pakkar... eins og alltaf á afmælum
Og Einar Geir frændi fylgist með úr hæfilegri fjarlægð.....
Áhugamál veislugesta voru af margvíslegum toga og eins og sjá má tikkuðu Elín Alma og Sölmundur á svipuðum nótum... fótbolti og spenningurinn í algleymingi....
Já hér er ekkert kynslóðabil.
Takk fyrir daginn Jón Páll. Og málsháttur dagsins mun vonandi eiga vel við í framtíðinni hjá honum þegar hann fer að þeysast um heiminn á 2, 4,6,8,10, eða hvað mörgum hjólum sem hentar hverju sinni
Málsháttur dagsins: Verður sá sem víða fer vísari þeim sem heima er
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.3.2010 | 11:13
Gerast aðdáandi Nova - eru menn ekki örugglega að grínast með þetta?
Á feisbúkk rembast menn eins og rjúpan við staurinn við að búa til aðdáendaklúbba og bjóða vinum og grandlausum vandamönnum að gerast aðdáendur. Misgáfulegt. Ég fell af og til í þessa bölvaða vitleysu og adda sumu, en fúlsa við öðru. Að undanförnu hef ég fengið boð um að gerast aðdáandi símafyrirtækisins Nova. Já Nova. Mér er spurn veit ekki fólk hver á þetta umrædda fyrirtæki? Skringilegt að sama fólk og getur verið í viðskiptum við Nova skuli leyfa sér að bölva Íslenskum stjórnvöldum vegna Icesave reikninganna. Væri afar holt fyrir fólk að kynna sér hverjir eiga Nova og hverjir stofnuðu og eru í raun eigendur Icesave. Ég veit ekki með ykkur en þetta finnst mér vægast sagt undarlegt.
UNDARLEGT - veðrið hér á landi er víst undarlegt eða hegðun veðurguðanna. Alltaf ýmist í ökkla eða eyra. Og þó. Sviptingarnar í veðrinu eru með ólíkindum. Í vetur hefur a.m.k. í ,,Höfuðborg hins bjarta norðurs" ýmist er vetur, vorar, haustar eða veturinn minnir á sig með pompi og prakt örar en manni hefði grunað - já í einni árstíð. Grýlukerti myndarleg myndast þegar sól hækkar á lofti og réttu aðstæðurnar eru til staðar. Þetta hefur einmitt verið þannig á undanförnum dögum. Þá er gaman að bregða sér út með myndavélina.
Þegar barnabörnin eru annars vegar er maður gjarnan með myndavélina innan seilingar. Maður vill ekki missa af hinu og þessu, alltaf að reyna festa á kubb einhver augnablik sem aldrei aftur koma. Í vikunni var yngsta barnabarnið í heimsókn hjá ömmu og afa og þá bar það til tíðinda að hún fékk í fyrsta sinn hið eina og sanna mjólkurkex. Eins og sjá má í augum barnsins að það er engu líkara en hún hafi himin og jörð sér að höndum tekið. Myndavélin inna seilingar og afi skaut.
Laugardagur til lukku er gott og gilt máltæki. Var búinn að heita mér því að blogga ekki framar um pólitík. Veit ekki hvort þetta telst alvarlegt brot á því heiti en ég verð að fara í smá línudans. Þjóðaratkvæðagreiðsla í dag - JÁ eða NEI. Er í vanda. Ef ég ætti að vera sjálfum mér samkvæmur þá sýni ég lýðræðinu virðingu og mæti á kjörstað og nota atkvæðið mitt. En ef ég á að vera heiðarlegur gagnvart sjálfum mér fer ég hvergi og sit heima. Ef hugur minn mun reynast svo klofinn að ég fer á kjörstað - skila ég auðu. En ómögulegt er að segja þegar maður er ekki bara klofinn heldur marg klofinn er ómögulegt að segja hvað gerist. Alla vega - þessi þjóðaratkvæðagreiðsla er í mínum huga eintómt fjandans bull og vitleysa öllum til skammar - Öllum.
Hvað um það lífið heldur áfram og aftur skollið á bann á pólitísku bloggi hér. Næsta blogg verður trúlega á morgun og mánudag. Á morgun verður haldið upp á 5 ára afmæli Jóns Páls næst yngsta barnabarn míns en hann á afmæli á mánudaginn. Svo hann fær blogg tvo daga í röð. Síðasta mynd dagsins er af stráksa þar sem hann er að máta gleraugun hans afa
Meira síðar
Málsháttur dagsins: Ekki fylgir ætíð bjargræðið burðum hraustum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2010 | 07:31
Heiðursskvísur
JÁ SÆLL talandi um ökklann og eyrað. Annað hvort líður heim eilíf milli bloggfærslna eða ,,blekið" á tölvuskjánum ........ er vart þornað þegar maður bloggar á ný. En það kemur til af góðu. Í dag eiga tvær heiðurskonur afmæli og er bloggfærsla dagsins tileinkuð þeim.
Hefst þá hið eininglega afmælisblogg.
Hrönn ,,litla" systir fæddist jú þennan dag eins og gefur að skilja annars væri þetta ekki afmælisdagurinn hennar. Það var rétt upp úr miðri síðustu öld eða 1963 sumir myndu frekar segja á síðari hluta aldrarinnar. Látum liggja milli hluta. Hvað sem því líður. Aldurinn ber hún vel og engu líkara en hún yngist með hverju árinu sem líður. Fróðir menn segja þetta ættgengt og þekkt í hennar fjölskyldu. Hrönn væri hægt að segja margar, margar skemmtilegar sögur, nema hvað? enda afbragðs skemmtileg kona. Engar leiðinlegar sögur er að finna tengdar henni, enda aldrei leiðinleg. Ég hef þó heitið mér því að næst þegar við hittumst ætla ég að rifja upp söguna ,,af hverju veiðir þú ekki hauslausa fiska eins og .....". Já ég er viss um að þá verður hlegið.... HÁTT og lengi.
Hrönn býr ásamt fjölskyldu sinni langt frá æskuslóðum sínum og því verður ekki af því í þetta sinn að ég geri innrás í tilefni dagsins. Það bíður betri tíma. Myndin sem fylgir með er tekin í London 2008 þegar þau hjónin fóru þangað í skemmtiferð með okkur hjónum. Hef sagt það oft áður og segi það enn og aftur (sjaldan er góð vísa of oft kveðin) Þvílík snilldarferð.
Hitt afmælisbarn dagsins er Margrét Pálsdóttir tengdamóðir dóttur minnar. Magga er fædd á því herrans ári 1958 ásamt mörgu öðru stórmenninu. Magga er hið mesta ljúfmenni og afbragðs vinur vina sinna. Margir góðir kostir prýða Möggu og of langt mál væri upp að telja. Smitandi hlátur Möggu er einstakur það vita þeir sem hana þekkja en hinir vita ekki af hverju þeir missa. Hagleikskona í matar- og kökugerð. Líkt og hjá Hrönn væri hægt að segja margar skemmtilegar sögur enda skemmtileg kona t.d. þegar henni tókst ekki að koma sígnum fiski niður í börnin sín.... útbjó hún heimagerða pizzu daginn eftir og plokkaði sígna fiskinn á flatbökuna. Allir átu pizzuna með bestu list. Já ofan í krakkana skildi fiskurinn hvað sem hver tautaði og raulaði. Þá tísti í Möggu, já þessi smitandi hlátur sem áður er getið. Trúlega þurfti Magga ekkert að segja börnunum af hverju hún hló, þau hafa eflaust grunað hvað hafði gerst. Myndin sem hér fylgir með er af Möggu ásamt Jóni manninum hennar.
Í tilefni dagsins: Þær eiga afmæli í dag, þær eiga afmæli í dag. Þær eiga æfmæli báðar þær eiga afmæli í dag..... Stelpur báðar tvær Til hamingju með daginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
336 dagar til jóla
Bloggvinir
Tenglar
Flickr myndasíður
- Palli Jóh Hér birti Palli Jóh uppáhaldsmyndirnar sínar.
- Dagga -flikkar
- Runólfur
- Svanný
- Rúnar Haukur
- Merkjamanni
- Þórólfur Sveinsson
- Þórður Halldórsson
- Bói Flickr
- Ívan flikkar
- Sigfríður Guðný
Íþróttaklúbbar.
- Íþróttafélagið Þór
- Manchester City
- Chicago Bulls
- Arsenal fyrir Sölla
- Knattspyrnusamband Íslands
- Körfuknattleikssamband Íslands
- Karfan.is
Áhugaverðar síður.
- Pólitíkin
- Gunnar Ísfirðingur
- Hallandsnes
- Ljósstaðafólkið
- Samfylkingin á Akureyri
- Ungir jafnaðarmenn á Akureyri
- Skúli miðill
- Vísisblogg hjá Gunnari Th. Afbrags góður bloggari.
- Gummi Odds í Ameríku Doktor í smíðum
- Valberg og Steinun blogga
- Palli Jóh á Youtube Myndbönd Palla Jóh
Fjölskyndan bloggar.
Nýjustu færslur
- 4.4.2012 Myndbands- og myndablogg
- 14.3.2012 Smá uppfærsla
- 24.12.2011 Gleðileg jól
- 1.8.2011 Á lífi
- 25.4.2011 Að leika við hvurn sinn fingur
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 4
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 31
- Frá upphafi: 190698
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 27
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar