Leita í fréttum mbl.is

Þórssigur

Annasamur dagur að baki og frekar einkennilegur fyrir okkur Þórsara. Við fylgdum góðum vini til grafar í dag. Peter Jones sem lést þann 11. mars s.l. var lagður til sinnar hinstu hvílu. Góður drengur hann Peter og munum við Þórsarar sakna hans mikið. En söknuður eftirlifandi eiginkonu hans og fjölskyldu er mikill. Við eru þakklátir fyrir að hafa fengið að njóta krafta þessa mæta manns.

Fagn1Í kvöld fór svo fram gríðarlega mikilvægur leikur hjá körfuboltaliði Þórs. Við fengum bikarmeistara Snæfells í heimsókn í lokaumferðinni. Þór þurfti sigur til að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni og Snæfell þurfti sigur til að eiga von á að hreppa 4. sætið af Njarðvík að því gefnu að þeir töpuðu sínum leik. Mínir menn í Þór unnu sannfærandi sigur á Snæfelli 88-78 og Njarðvík lagði Grindavík og því er 4. sætið þeirra. Óska Hrönn litlu systir og Gústa til hamingju. Við Þórsarar dönsum sigurdans fram eftir nóttu enda komnir í úrslitakeppnina í fyrsta sinn síðan 2000.

Gæti bloggað um himinhátt bensín verð og annað sem ríkur upp úr öllu valdi á þessum síðustu og verstu sem tæmir veski manns hraðar en orð fá lýst. Dettur í hug eins og segir um Lukku Láka ,,skjótara en skugginn".

Hvað um það meira um eitthvað síðar.

Málsháttur dagsins: Ekki skýlir skugginn þá skinið er bjart

Sjónarhæð var það heillin

SjónarhæðEkki kom svarið við spurningunni um hvert húsið er sem spurt var um né hvaðan myndin er tekinn. Húsið er Sjónarhæð og stendur við Hafnarstræti 63. Myndin er tekin af bílastæðinu neðan Samkomuhússins. Húsið er byggt árið 1901. Það ku hafa verið ensku trúboði að nafni Frederic Harry Jones sem lét reisa þetta hús. Hann stofnaði söfnuðu sem kenndur er við Húsið.

HjalteyriEkki er öll vitleysan eins þó vitlaus sé eða mis. Á miðnætti s.l. fór ég út ásamt Rúnari Hauk félaga mínu og höfðum við viðhaldið okkar með. Lá leiðin út á Hjalteyri þar sem við hugðumst mynda norðurljósin. Eitthvað létu þau á sér standa en við félagarnir vorum þar útfrá þar til klukkan var að vera 03:00. Sonurinn á heimilinu lét þau orð falla að nú væru menn orðnir endanlega vitlausir. Það verður bara hafa það.

Hjalteyri2Skrapp í morgun ásamt Margréti Birtu í heimsókn í Seljahlíðina. Ég fór í karlaathvarfið til að aðstoða skipasmiðinn en Margrét Birta endaði í tölvunni með langömmu sinni og Ragnari Þór frænda sínum. Eitthvað þurftu þau að kíkja á leiki og myndir.

Peningamarkaðurinn á algjöru flippi þessa daganna. Engin veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér ef hann á hlutabréf fé bundið í áhættusömu fjárfestingum. Sem betur fer er maður blessunarlega laus við að burðast með áhyggjur af sínu eigin peningum, ekki mikil hætta á að þeir rýrni mikið í bankabókum og digrum sjóðum. Vona samt að allt fari nú ekki til fjandans.

Að lokum minni ég ykkur á að til að sjá myndirnar stærri þá klikkið á þær til að fá þær í fullri stærð.

Málsháttur dagsins: Ekki fylgir ætíð bjargræðið burðum hraustum.

 


Kona gærdagsins

Ólöf HelgaAnnasamur dagur í gær kom í veg fyrir blogg. Ekki svo að það sé einhver dauðasök. En dagurinn í gær var fyrir margra hluta sakir merkilegur. Það fyrsta er að mágkona mín og heiðurskonan, leikskólastjórinn, eiginkona, móðir svo fátt eitt sé nefnt, Ólöf Helga átti afmæli. Ef maður ætlaði að koma öllum hennar kostum og góðu eiginleikum sem hún býr yfir í þessari bloggfærslu yrði hún lengri en góðu hófi gegnir. Það skiptir hins vegar ekki nokkru því þeir sem þekkja þessa konu vita hvaða kosti hana prýða og það er það sem skiptir öllu.

Alla vega var nóg um að vera hjá henni á hennar eigin afmælisdegi og geri  ég ráð fyrir því að hún hafi átt ánægjulega dag með sínu fólki. en þar sem hún býr í höfuðborginni létum við hjá líða að skjótast suður og fagna með henni. Þá skal þess getið að Kristófer fóstur sonur Pálma Ólafs(sem er sonur Ólafar Helgu) á einnig afmæli þennan dag. Til hamingju með gærdaginn bæði tvö.

Barnapössun, nema hvað? Er alvarlega að hugsa um að koma á fullsköpuðu dagheimili og hljóta titilinn dagpabbi eða jafnvel dag-afi Tounge. Meðal þess sem gert var með barnabörnunum var að fara og skoða sig um í hinni nýju búð sem Rúmfatalagerinn var að opna. Mikil örtröð vægast sagt. Engu líkara en fólk hafi aldrei orðið vitni af opnun á nýrri búð.

IMG_0856Með hækkandi sól lifnar yfir öllu og lundin léttist, nema hvað? Á þannig dögum er full ástæða til að sendast með myndavélina út og suður og reyna fanga augnablik sem ná athygli manns. Ég ásamt nokkrum félögum sem eiga allir alveg eins myndavélar stöndum fyrir keppni innbyrðis ein mynd á viku þar sem fyrirfram er ákveðið þema. 

Fyrsta myndin sem ég sendi inn í umrædda keppni var tekin í Sangerðisbótinni sem er smábátahöfn hér á Akureyri. Þemað var frost. Ég sendi inn mynd sem ég tók af bát sem heitir því frumlega nafni Smugan. Myndina kallaði ég ,,Beðið átekta" Eins og glöggt sést á þeirri mynd er ekki farið mikið á sjó yfir vetrartímann á þessu fleyi og frá leitt farið á þann stað sem nafnið vísar til, ekki smuga.

13-15.mars 101Nú þegar vorfiðringur er komin í mannskapinn þessa daganna gerði ég mér far niður í Sandgerðisbót og myndaði umræddan bát aftur en við ólíkar aðstæður.  Myndin sem ég tók af þessum bát í dag kalla ég þá einfaldlega ,,Til í slaginn".

Eins og sést þá er myndin tekin á svipuðum stað en þó ekki alveg. Það gefur til kynna að með hækkandi sól hefur eigandinn í.þ.m. hreyft bátinn eitthvað og hver veit nema menn hafi rennt fyrir fiski? Ef minni mitt svíkur ekki þá ku þessi bátur hafa hlotið þetta nafn hér um árið þegar Íslenskir togarar hófu veiðar í Smugunni forðum daga við lítinn fögnuð frænda okkar í Noregi.

En eins og lesendur hafa eflaust tekið eftir þá er undirritaður dálítið mikið upptekin með viðhaldinu sínu. Sumir pirrast yfir því, öðrum stendur á sama, sumir hvetja mann til dáða. Aðal atriðið er að meðan ég hef gaman af og fjölskyldan verður ekki fyrir of miklu áreiti tel ég þetta í góðu lagi.

GetraunÍ lokin set ég inn eina mynd sem ég tók í gær og nota sem einskonar getraun. Myndin er af húsi sem gaman væri að vita hvort fólk áttar sig á. Hvaða hús er þetta og hvar stendur myndasmiðurinn þegar myndin er tekinn?

Ekki verða þó nein sérstök verðlaun í boði annað en heiðurinn á því að vera fyrstur að svara spurningunni. Verð þó að taka fram að Sölmundur er ekki gjaldgengur í þessa keppni þar sem hann segist þekkja öll hús í bænum eftir að hafa unnið hjá Póstinum. Og að auki komst hann í myndaalbúmið til að sjá og átta sig á aðstæðum.

Fróðleikur dagsins: Frá 30 ára aldri byrjar maðurinn að minnka.


Snilldar konur

Stundum er sagt að það sé mikið að gera á stóru heimili. Ekki svo að skilja að mitt heimili sé stórt í fermetrum talið en nóg samt að gera, sem hefur bitnað á því að lítill tími hefur verið fyrir blogg. Margir fundir í Íþróttafélaginu Þór s.s. aðal- og framkvæmdastjórn og körfuboltastjórn þar sem ég er ritari í þeim öllum. Fundað með UFA og forráðamönnum bæjarins varðandi uppbyggingu á svæðinu okkar. Var spurður að því hvort ekki styttist í að ég færi með svefnpokann niður í Hamar.

Barnapössun hefur verið meiri síðustu daga en venja er til vegna sérstakra ástæða í fjölskyldunni hjá Jóa og Döggu. Fór í skólann í gær og horfði og hlutstaði á bekkinn hennar Margrétar Birtu spila og syngja, mikið gaman og mikið fjör. Elín Alma var einnig mikið í sviðsljósinu í uppfærslu með sínum bekk sem er liður í árshátíð skólans.

Mínir menn í körfunni fóru í gærkvöld og kepptu við Grindvikínga í körfunni. Sigur Þórs hefði þýtt að liðið hefði tryggt sér sæti í úrslitakeppninni. En tap sem varð staðreynd þýðir að það ræðst ekki fyrr en í lokaumferðinni hvort liðið kemst þangað eður ei, bíðum og sjáum hvað setur. Og meir af íþróttum því leikmaður Þórs/KA hún Rakel Hönnudóttir sem komin er í A- landslið kvenna skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í vikunni. Þessi stelpa er enn eitt dæmið um gott unglingastarf hjá Þór. Við Þórsarar erum hreint út sagt ferlega stoltir af okkar konu. Það sem meira er að Ásta Árnadóttir sem nú leikur með Val og átti stoðsendinguna á Rakel er uppalinn í Þór og var m.a. kjörin íþróttamaður Þórs árið 2002 flottar stelpur. 

Í morgun þurftu þær Margrét Birta og Elín Alma ekki að mæta í skólann fyrr en kl. 10:00. Öllum gefin kostur á að sofa ögn lengur en venjulega vegna árshátíð skólans sem lauk í gær. Þetta þótti þeim skvísum ekki ónýtt að fá að fara með afa í kaffi í Hamar. Það er stundir sem þeim þykir gaman af.... svona afa kaffi hjá Þór.

Kristján Möller eða KLM eins og við köllum hann hefur tekið af skarið og sett Vaðlaheiðargöng á vegaáætlun. Þetta er hið besta mál og þykist ég viss um að norðlendingar almennt séu sáttir. Þó er ekki almenn ánægja með þessa ákvörðun og þá sérstaklega í höfuðborginni.

Hannes Hólmsteinn prófessor og aðdáandi Davíðs Oddssonar nr. 1 var dæmdur í Hæstarétti í gær. Ætla ekkert nánar út í þá sálma en ég el þá von í brjósti mér að hann læðist einhvern daginn inn á bloggið mitt og vitni í mig en gleymi sér. Ég lögsæki hann og fæ kannski tíkall. Hannes er hissa segist ekki hafa átt að þekkja leikreglunar, lögmaðurinn hans enn meira hissa. Lögfræðingar beggja deiluaðila hrósa sigri. Svona er Ísland í dag.

Fróðleikur dagsins: Þann 18. febrúar 1979 snjóaði í Sahara eyðimörkinni.

Dapurlegt

Horfði á fréttaskýringaþáttinn Kompás í kvöld. Er óhætt að segja að frásögn foreldra unga drengsins sem lést í þessu hörmulega bílslysi í vetur hafi hreyft við manni. Vona svo innilega að sökudólgurinn, hver sem hann er finnist ekki bara foreldrana vegna, heldur allra vegna og ekki síst hans sjálfs vegna.

Gladdist yfir því í kvöld að Akureyri Handboltafélag sem er í 50% eigu Þórs lagði hið sterka lið Stjörnunnar í kvöld. Greinilegt að liðið er á réttri leið eftir frekar dapurt gengi framan af vetri.

Meistaradeildin í kvöld. Ekkert þar sem kom á óvart. Ríflega miðlungs gott enskt lið spældi Inter enn og aftur. Greinilegt að ítalski boltinn er einfaldlega langt frá því að vera í sama klassa og sá enski. Alla vega átti topplið Ítala engan möguleika á að koma sér áfram og eins og spilamennska þeirra gegn Liverpool var, eiga þeir ekkert heima í svona keppni.

Og þar sem sól fer hækkandi á lofti með hverjum deginum léttist brúnin á fólki hér og hvar og lundin með. Vorfiðringur farin að gera vart við sig þótt enn sé talsvert í vorið samkvæmt almanakinu.

Málsháttur dagsins: Margur er engill í orði en djöfull í verki.

Sjáið nýju brjóstin mín.

Las frétt um að Bensi Sig hafi belgt sig á fundi hjá KEA þar sem hann hefur setið í mörg ár í stjórn m.a sem formaður. Bensi gekk út og er hættur. KEA sem á fullt af aurum sem þeir vita ekkert hvað þeir eiga gera við ákváðu m.a. á þessum átaka fundi að gefa Flygil í Menningarhúsið Hof. Það léttir á hjá Akureyrarbæ enda skilst manni að húsið sé að verða dýrara en nokkurn hafði órað fyrir.

Skáksnillingurinn Borís Spasskí er staddur hér á landi, sem er í sjálfu sér ekki til frásögur færandi. Hann upplýsti þó landslíð um að vinur sinn Bobby Fischer hafi aldrei verið mikið fyrir það að vera í sviðsljósinu og forðast fjölmiðla. Jahá hvenær komst Spasskí að þessari staðreynd? Hvar hefur hann eiginlega verið? Þetta vissi allur heimurinn fyrir og hefur vitað lengi, kannski hefði átt að láta karlinn vita af þessu fyrr?

,,Hæst ánægð með nýju brjóstin" ja hérna og endemi. Hér er vitnað í orð Kelly Rowland (hvers svo sem í ósköpunum hún er) eftir að hún fór í brjósta stækkun. Þessi ,,bráðskarpa" kona sagði m.a. ,,ég var hundþreytt á því að passa ekki í bolina mína". Kannski hefði verið hagkvæmara fyrir hana að venja sig á að kaupa föt sem passa? hvað ætli hún geri ef bolirnir hlaupa í þvotti? láta taka sílikonið úr túttunum? og það sem meira er hvað ætli hún myndi gera ef hún keypti óvart og stóra húfu á sig?

JónPállBlásaÍ dag var haldið upp á afmæli Jón Páls. Tertur, kökur og góðgæti af ýmsu tagi var borið á borð. Eins og venja var nægt til að fóðra í aðra veislu ef því hefði verið að skipta. Greinilegt að engin átti að fara svangur út frekar en fyrri daginn. Alla vega engin megrun í dag.

Litli kútur tók upp gjafir í erg og gríð og leiddist ekki við að rífa og tæta utan af pökkunum.

JónPállÞyrlaPlaymobil leikföng voru greinilega vinsæl á þessum afmælisdegi. Þyrla, sjúkrabíll, löggubíll og lögreglustöð með öllu tilheyrandi.

Þegar hann var tveggja ára þá var vandamál að fá hann til að taka upp allar gjafirnar. Þegar búið var að opna þann fyrsta þá átti bara að fara leika sér hitt gat beðið.

Í dag þurfti ekki að hvetja litla kút til að ráðast á þann næsta. Hann er orðin það stór og hafði vit á því að biðja strax um þann næsta.

Fróðleikur dagsins: Ég barðist ekki fyrir því að vera efstur í fæðukeðjunni til þess að gerast grænmetisæta.


Gleði og sorgir.

MöðruvallakirkjaÞessi dagur hefur verið mjög sérstakur fyrir margra hluta sakir.  

Í dag var borin til grafar stórfrændi minn Bragi Viðar Pálsson. Bragi var jarðsettur frá Möðruvallakirkju í Hörgárdal. Bragi var mikið ljúfmenni í alla staði og hvers manns hugljúfi. Braga verður ávallt minnst þannig. Missir Hafdísar og sona þeirra hjóna og barnabarna er mikill. Á krossinum sem prýðir leiði Braga er skráð eftirfarandi fyrir neðan nafnið hans ,, Hver minning er dýrmæt perla" það er vel við hæfi.

Það var falleg stund í athöfninni í dag og snerti hjörtu margra að heyra þegar sungin var sálmur við ljóð eftir Páll afi minn sáluga og faðir Braga og hljóðar svo:

Þú alheims drottinn, sem öllu ræður, ávallt að kvöldi þess ég bið. Þú látir hætta að berjast bræður, en bætir og göfgir mannkynið. Svo ófrið í heimi loksins linni, því lífið er allt í hendi þinni. lagið er eftir Dimitri Bortniansky.

Hvíl í friði kæri frændi.

NafnarÞennan dag fyrir þremur árum leit yngsta barnabarn mitt dagsins ljós. Jón Páll sem er sonur elstu dóttur minnar á sem sagt afmæli í dag. Litli snáðinn gerir sér enga grein fyrir sérkenni þessa dags. Það er eins og gefur að skilja erfitt að halda uppá afmæli sama dag og fjölskyldan fylgir ættingja til grafar. Það rifjaðist upp fyrir okkur að afi minn Páll Friðfinnsson (sem var pabbi Braga Viðars) var borin til grafar á afmælisdegi Dagbjartar dóttur minnar móður Jón Páls.

Um kvöldið fórum við ásamt Döggu og fjölskyldu og tengdaforeldrum hennar út að borða á Greifann. Notaleg kvöldmáltíð eftir snúinn dag.

BlásturÁ morgun á svo að halda veislu til heiðurs litla kút enda ekki hægt að koma því við í dag af eðlilegum ástæðum. Gera má ráð fyrir því að þar verði margt um manninn og margar girnilegar kræsingar á borð bornar eins og Döggu er von og vísa.

Myndin hér til hliðar er tekin í kvöld á Greifanum. Afmælisbarnið fékk í eftirmat ísrétt sem skreyttur var með kerti. Þótti litla kút þetta ekki leiðinlegt enda er ís í miklu uppáhaldi hjá honum og tók hann hressilega til matar síns. Í dagslok var afmælisbarnið orðið vægast sagt þreytt. Og vísast ekki verið mikið mál að koma honum í draumalandið ef að líkum lætur.

Málsháttur dagsins: Snemma beygist krókurinn sem verða vill.

Fínn sigur í kvöld.

Óhætt að segja að þessi dagur hafi verið annasamur. Öll barnabörnin veik svo að amma og afi urðu að hlaupa í skarðið og líta eftir hópnum. Afinn gaf sér þó tíma til þess að skreppa í Hamar og hitta kaffikarlana fékk til þess góðfúslegt leyfi  hjá ömmunni og börnunum.

Fundur seinnipart dags með stórsöngvara einum sem er að undirbúa fjáröflunartónleika með körfuboltadeildinni. Stefnt að því að hafa tónleika í Glerárkirkju seinni partinn í apríl. Eru þetta einskonar afmælistónleikar þar sem að í febrúar eru liðin 50 ár frá stofnun körfuboltadeildar í Þór.

Í kvöld var svo leikur í körfuboltanum þar sem Fjölnismenn komu í heimsókn. Fjölnir situr á botni úrvalsdeildarinnar og er fallið og leikur í 1. deild að ári. Fór svo að Þór vann nokkuð stóran og öruggan sigur á andlausu Fjölnisliðinu 106-81. Maður hafði á tilfinningunni að Þórsliðið hefði ekki neinn sérstakan áhuga á að sigra með meiri mun. Það var bara í góðu lagi. Þór situr eftir leikinn í 8. sæti úrvalsdeildarinnar með 18 stig og á ágætis möguleika á að komast í 8. liða úrslitakeppnina. Þó er ekkert fast í hendi og tveir leikir eftir. Leikur á útvelli gegn Grindavík og heimaleikur gegn Snæfelli, við sjáum til.

Málsháttur dagsins: Oft er duglausastur sá sem er orðhvatastur.

Enga samkeppni takk fyrir

Fílan liggur yfir Mílan í Mílanóborg eftir að kjúklingarnir úr Arsenal, sem komu sáu og sigruðu Evrópumeistara AC Milan, sem áttu engin svör við leik Englendinganna. Sá einnig fyrri leik liðanna og eftir að hafa séð þessa tvo leiki er greinilegt að AC Milan átti ekkert erindi í svona sterka keppni - ekkert.

Gísli Marteinn og félagar í borgarstjórn Reykjavíkur vilja enga samkeppni í fluginu, enga. Iceland Express fær ekki lóð í Vatnsmýrinni svo hið gamal gróna flugfélag situr áfram eitt að kjötkötlunum. Kannski þetta sé liður í að svæla flugvöllinn úr Vatnsmýrinni þ.e. svæfa alla samkeppni og drepa innanlandsflugið endanlega og þá þurfa menn ekki að taka pólitíska ákvörðun um að afdrif flugvallarins. Sýnir enn og aftur að stjórnmálamenn á Íslandi skortir kjark til að taka ákvarðanir þeir vilja bara að hlutirnir gerist einhvern vegin og þannig að engin þurfi að svara fyrir gjörðir sínar, aldrei.

ElinAlma_veikElín Alma lagðist í rúmið veik. Til að hagræða í heimilishaldi mömmu, pabba, afa og ömmu var tekin ákvörðun um að sú stutta tæki veikindin út heima hjá afa og ömmu. Það er alltaf ákveðin sjarmi fyrir krakkana að fá að gista hjá afa og ömmu og ekki síst þegar svona stendur á. Aftur á móti getur þetta valdið því að afbrýðissemi brýst út hjá sumum. Sem hefðu alveg vilja vera líka veikir.

Sem betur fer þá jafna þeir veiku sig fljótt og sama má segja um þá sem hefðu gjarnan vilja vera veikir til að njóta sömu forréttinda þeir jafna sig á afbrýðinu fyrr en seinna og málið er dautt.

Annars er í sjálfu sér allt í góðu gengi. Björn Jón frændi minn sem býr á Höfn í Hornafirði á afmæli í dag. Runólfur félagi minn sem býr einnig á Höfn dansar vafalaust uppá borðum og fagnar sigri Arsenal, svipað og gert er á mínu heimili þar sem sonurinn er forfallinn Nallari eins og hann kallar aðdáendur Arsenal. Þá má gera ráð fyrir því að pabbi gamli geri slíkt hið sama, sem og tengdasonurinn. Ekki meira um Nallara að sinni.

Fróðleikur dagsins: Atli Húnakonungur er talinn hafa verið dvergur.


Ritstífla eða....

Kannski ekki beint ritstífla, alla vega lítur það út fyrir að svo hafi verið. Svo sem nægt tilefni hafi verið til að blogg. Á fimmtudagskvöldið fóru mínir menn í körfuboltaliði Þórs í Borgarnesið og léku þar við heimamenn í Skallagrími. Sóttu þeir gull í greipar heimamanna og lönduðu sanngjörnum sigri og komu heim með tvö stig. Þar með gulltryggðu þeir sæti sitt í úrvalsdeildinni og stigu mikilvægt skref í áttina að sæti í úrslitakeppninni.

Föstudagurinn hófst eins og venjulega með því að fara í kaffi í Hamar félagsheimili. Málin rædd á víðum grunni og þau leyst í eitt skiptið fyrir öll. Skrapp svo í athvarfið hjá þeim fullorðna og nokkur handtök tekin með honum í smíðinni sem þar stendur yfir, óhætt að segja að nú hilli undir verklok. Spurning hvort sjósetningin verður með hefðbundnum hætti?

Laugardagsmorgun var haldið áfram við smíðin eða allar götur þangað til sá fullorðni þurfti að bregða sér frá til þess að fylgjast með sínum mönnum í Arsenal í imbanum. Fyrir okkur feðga þ.e. sá fullorðni, mig og Sölla liðin okkar stóðu sig ekki nægilega vel. Að sögn Arsenal manna voru þeirra menn heppnir að ná jafntefli gegn Aston Villa. Mínir menn í Manchester City fengu botnlið Wigan í heimsókn og náðu ekki að landa sigri og þurftu að sætta sig við markalaust jafntefli. Þyrfti að eiga nokkur vel valin orð við Svein Jörund stjóra og hrista aðeins upp í þessu hjá honum, komin tími á sigur.

Ættarhöfuðin þ.e. mamma og pabbi komu svo í heimsókn og borðuðu með okkur kvöldmatinn. Hefðbundið hvítlaukslæri með tilheyrandi. Notaleg kvöldstund. Horfðum á Spaugstofuna, sem var hin ágætasta skemmtun. Verð svo að játa að restin af sjónvarpsdagskránni á báðum rásum skoraði ekki feitt hjá mér og verðskuldaði að ég hefði dottað mikið, en gerðist þó ekki.

Hvað sunnudagurinn á eftir að bera í skauti sér er ómögulegt að vita en vonum að hann verði í alla staði hinn ánægjulegasti fyrir alla.

Fróðleikur dagsins: Margur sefur yfir sig, sem vaknar ekki á réttum tíma.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Páll Jóhannesson
Páll Jóhannesson

Akureyringur, eiginmaður, pabbi, afi, Þórsari,  jafnaðarmaður, City - fan og Áfram Þór alltaf, allstaðar.

Hafi einhver áhuga að senda mér tölvupóst þá sendið á pallijo@internet.is

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

234 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband