Leita í fréttum mbl.is

Já sæll og vertu velkominn

Ég mun ekki setja mig upp á móti þessu ef af verður. Ég skal meir að segja leggja Svenna og félögum lið við að ná í kappann ef ég get á einhvern hátt.

Málsháttur dagsins: Mikið vill meira.


mbl.is Ronaldinho enn frekar orðaður við Man.City
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afmæli og leikhús.

NonniÍ dag er 1/2 öld liðin frá því að þessi heiðursmaður leit dagsins ljós fyrsta sinn. Hann er eiginmaður faðir afi ,,Leedsari" Þórsari og félagi og vinur vina sinna.

fimmtíu ára gamall ,,ERT EKKI AР GRÍNAST?" gæti einhver spurt ,,jújú ég er að grínast" en þá væri ég um leið að ljúga og það er ljótt.

Jón Andrésson tengdafaðir Dagbjartar dóttir minnar er fimmtugur í dag. Hann ætlar er með opið hús í dag á heimili sínu og þangað ætla ég klárlega að mæta um leið og þessari bloggfærslu er lokið.

Ferming Ólínu hópÉg læt fylgja með tvær myndir með þessari færslu. Báðar eru teknar í fermingarveislu yngstu dóttur hans um liðna helgi. Sú fyrri er klipp til úr hópmynd sem ég tók af honum í kirkjunni og sú síðari er tekin það sem hann er ásamt konu sinni henni Margréti Pálsdóttur og með þeim eru börn- tengdabörn og barnabörn. Fríður hópur ekki satt?

Þegar menn eiga og hafa svona fríðan hóp ættingja nálnægt sér þá eru menn á grænni grein. Til hamingju með daginn Nonni.

Ætla svo að venda kvæði mínu í kross í kvöld og bregða mér í leikhús með minni ekta frú. Þar ætlum við að sjá Dubbeldusch og vonandi verður maður ekki fyrir vonbrigðum.

Nóg af sinni.

Fróðleikur dagsins: Rússland og Bandaríkin eru aðeins 4 km frá hvort öðru þar sem styst er.

Af hverju segir engin neitt?

Eins og venjulega hófst dagurinn á kaffi í Hamri - málin rædd leyst og málið dautt. Brá mér þó fyrst til hárskerans míns til margra ára og lét skerða hár mitt. Er jafnaðarmaður en þó íhaldssamur á ýmsa lund. Til marks um það þá hef ég fylgt þessum prýðis klippara í sennilega 18 ár og á þremur stofum. Það hlýtur að vera merki um að maður sé sáttur við verkin hans.

Enn halda menn áfram að mótmæla himinháu bensínverði þrátt fyrir þá staðreynd að álögur á eldsneyti hér á landi er með því lægsta sem gerist miðað við nágrannalöndin okkar. Ef þetta ber árangur þá sætti ég mig við þetta.

Ég velti því þó fyrir mér hverju það sætir að á sama tíma og við Íslendingar höfum búið við eitt hæsta matvöruverð sem þekkist í hinum vestræna heimi og ENGIN segir neitt. Við getum sparað okkur hressilega í bensínkostnaði og tekið strætó, kostar ekkert hér á Akureyri. Við getum labbað, hjólað og sameinast með notkun bíla með vinnufélögum til að spara. En við hættum ekki að borða. Við sameinumst ekki í matarinnkaupum með fjölskyldunni í næstu íbúð. Meðan að veskin okkar tæmast hraðar og hraðar - verslanakeðjurnar fitna meir og meir, en engin segir NEITT commone.

Af hverju fer ekki fólk í mótmælagöngur fyrir framan Bónus, Hagkaup, Nettó og allar þessar matvöruverslanir? Finnst fólki það kannski ekki eyða nægum peningum í matarinnkaup? Er ekki fólki misboðið þegar það fer með 2-3 haldapoka út úr búðinni sem kostar 5-8 þúsund og klárast hraðar en mann langar að vita fyrirfram. Ég veit ekki með ykkur en mér blöskrar ekki lítið - heldur MIKIÐ. finnst komin tími á að mótmæla þessu enda spilar stærri rullu í mínu heimilisbókhaldi en eldsneytiskostnaðurinn, sem þó er vissulega ærinn. 

Einn fjölskyldu vinur okkar á afmæli í dag þ.e.a.s. hann Brynjar Elís Ákason. Brynjar er sonur Áka heitins vinar míns sem lést langt fyrir aldur fram og Bryndísar. Er Brynjar afar vel gerður strákur og klár í alla staði og verður gaman að fylgjast með honum á næstu árum enda afburða námsmaður. Brynjar klárar 10. bekkinn í vor og er ég klár á því að það verða ekki margar einkunnir hjá honum undir 9. Brynjar til hamingju með daginn.

Á morgun á svo tengdapabbi Döggu dóttir minnar afmæli, og það STÓRT. Nonni verður hálfraraldar gamall. Loksins kominn í fullorðins manna tölu. Verður opið hús hjá þeim hjónum og trúlegt að einhverjar kræsingar verði á borð bornar, þangað mun ég klárlega mæta.

Lét mig hafa það að horfa á Bubbabandið í kvöld. Eins og venjulega fannst mér Dalvíski pilturinn hann Eyþór bera höfuð og herðar yfir andstæðinga sína.

Útsvar spurningarþátturinn í kvöld ágætis skemmtun sem rennur hægt og rólega í gegn og án allra áreynslu. Nágrannaslagur milli Akureyringa og Fjallabyggðar.  Akureyringar unnu sætan sigur og komnir áfram.

Málsháttur dagsins: Sá sem hefur nóg skal láta sér það nægja.

Kjarklaus rektor

Þá er búið að leggja línurnar fyrir nemendur - allt í lagi að stela bara ef þú lofar að gera það aldrei aftur. Ætli rektor noti sömu aðferð við nemanda sem fer yfir strikið í öflun heimilda í ritgerðarvinnu?

Rektor segir vinnubrögð Hannesar hafa rýrt traust skólans. Hún slær á puttana á Hannesi eins og litlum krakka, kyssir svo á báttið og segir honum að gera þetta aldrei aftur og málið steindautt. Æ,æ,æ og æ mikið er nú þetta dapurlegt. Hafi vinnubrögð Hannesar rýrt traust skólans hvað segja menn við svona slydduskap að þora ekki að taka á manninum?

Speki dagsins er við hæfi: Að stela hugmyndum frá einum aðila kallast ritstuldur. Að stela hugmyndum frá mörgum kallast -rannsóknarvinna. (þetta er ritstuldur)
mbl.is Átelur vinnubrögð Hannesar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir út að aka með bros á vör og ekkert múður.....

Væri ég stuðningsmaður Arsenal hlyti ég að vera brjálaður vegna þessara úrslita. Þvílíkir yfirburðir Arsenal yfir gestunum frá Liverpool. Liðsmenn Liverpool sem voru eins og áhorfendur á þessu leik hljóta líta á þetta jafntefli sem stórsigur. En hvað um það Lundúnaliðið Arsenal á eftir að fara á Anfield og það verður bara sætara fyrir þá að klára rimmuna þar.

FSu er komið í úrvalsdeild, það hljóta að vera talsverð tíðindi í Íslensku íþróttalífi. Liðið er einungis  þriggja ára gamalt sem gerir þetta enn glæsilegra. Greinilegt að Brynjar Karl er að gera flotta hluti, ekki það að menn hafi ekki vitað fyrirfram að þar er snjall þjálfari á ferð.

Enn halda menn áfram að mótmæla háu eldsneytisverði á Íslandi. Þó rak mig eiginlega í rogastans þegar upplýst var í fréttum í gær að álögur á eldsneyti hér á Íslandi er með því lægsta sem gerist á norðurlöndunum og þótt víða væri leitað, hvað eru menn að væla. Allir út að rúnta og ekkert múður.

Vinn að fullu við að koma á tónleikum sem körfuboltadeild Þórs mun standa fyrir og eru áætlaðir 20. apríl. Þar munu leiða saman hesta sína eða raddbönd Álftagerðisbræður og ,,Konnararnir" þá verður gaman. Tónleikarnir eru haldnir í tilefni þess að 50 ár eru frá stofnun körfuknattleiksdeildar Þórs. Fundur þar að lútandi í hádeginu í dag.

Smíði líkans þess fullorðna af Snæfellinu EA 740 er nú nánast lokið. Skipið verður varðveitt á nýja matsölustaðnum Friðrik IV. Það er og verður vel við hæfi þar sem veitingastaðurinn er í gömlu húsi sem KEA átti og það sem meira er að Snæfellið var smíðað þ.e. orginalinn í skipasmíðastöð KEA. Einungis á eftir að setja saman glerkassa utan um listaverkið.

Málsháttur dagsins: Fátt er svo ónýtt að til einskis sé nýtt.


mbl.is Arsenal og Liverpool skildu jöfn, 1:1
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betra en kynlíf - ert´ekki að grínast?

Bob Dylan er góður, mikið rétt. Mig rak í rogastans þegar ég las haft eftir ákveðnum manni að honum þætti Bob Dylan betri en gott kynlíf. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort viðkomandi hafi sagt maka sínum frá þessu? Ef svo er mikið hlýtur kynlífið að vera snautt hjá þessum ólánsama manni. Commone þótt Dylan sé góður þá varla svo.....

Síðari leikur Þórs og Keflavíkur í 8 liða úrslitum úrvalsdeildar í körfubolta sem fram fór sunnudagskvöldið 30. mars var mikil og góð skemmtun. Allt leit út fyrir að öruggur sigur minna manna væri í uppsiglingu. Ekki fara hlutirnir alltaf eins og maður vill og kýs. Reynsla Keflvíkínga réði úrslitum á lokasprettinum og þeir lönduðu 3 stiga sigri og mínir menn eru þar með komnir í sumarfrí. Veturinn var hreint út sagt frábær út frá sjónarhóli körfuboltans og ég segi enn og aftur Áfram Þór allfaf allstaðar. Nú er bara að fara láta sér hlakka til fótboltasumarsins.

Bensín- og olíuverð hefur rokið upp úr hæstu hæðum og allt venjulegt fólk missir ráð og rænu þegar það nálgast bensínstöð svo ekki sé nú minnst á hvað getur gerst þegar það þarf að stoppa á bensínstöðinni til að kaupa vökvann. Landinn er búin að fá nóg, eða er það? hversu lengi endast menn við mótmælin? verðum við búin að gleyma þessu í næstu viku? mig grunar það. Ef við erum sannir Íslendingar þá verður allt fallið í ljúfa löð í næstu viku. Þótti skondið að heyra Sturlu Böðvarsson segja í kvöldfréttum þegar hann var spurður um hvort hugsanlegt væri að ríkisvaldið lækki álögurnar? Við þurfum að halda við vegunum og svo þurfum við að  reka sjúkrahúsin. Eigum við að taka peninga í gengum bensín og olíusölu til að reka sjúkrahúsin? Ríkissjóður fitnar almenningur svitnar, hvað er maður að væla?

1. apríl - gabb og plat hér og hvar og sumir þorðu varla að hreifa sig í ótta við að vera gabbaður. Veit ekki með ykkur en einhvern vegin var fátt um hrekki sé ég tók eftir að vöktu athygli mína. Í það minnsta tókst mér að komast í gegnum þennan dag án þess að vera gabbaður - að ég held, en hver veit kannski kemur eitthvað óvænt upp á morgun og...... hver veit?

Friðfinnur Lilli ,,litli" bróðir mömmu á afmæli þennan dag og svo hefur verið allar götur sl. 1943 þegar hann átti sinn fyrsta afmælisdag. Karlinn er orðin 66 ára og svei mér þá mér finnst hann líta út eins og hann hefur gert sl. 20 ár. Lilli er einn færasti húsasmiður og hagleiksmaður sem ég þekki hreint út sat snillingur. Ekki ólíklegt að það hafi hann erft frá föður sínum og afa mínu honum Páli Friðfinnssyni.

Málsháttur dagsins: Hafi ég pening í pungi hef ég mat í munni.

Hvaða kirkja?

Var einn á ferð úr höfuðþorpi Íslands til höfuðþorps landsbyggðarinnar í gær. Svo sem ekki oft sem maður er einn á ferð,  en því fylgja óneytanlega bæði kostir og gallar. Í gær komu kostir þess að vera einn á ferð um þjóðveg 1. Á Rás2 var mikið gert úr því að þá voru 30 ár liðin frá því að besti söngvari Íslandssögunnar lést, ég er að tala um Vilhjálm Vilhjálmsson. En hvað kemur það kostum þess að hafa verið einn á ferð í bílnum? Jú því lög í flutningi Villa hljómuðu stöðugt á rásinni og þá gat Palli sungið með og engin gerði neina athugasemd við það. Þegar maður heyrir Villa syngja langar mann alltaf að syngja með, en svo togast á mann að vilja ekki gera það til þess að njóta söngsins til hins fullnustu.

BifröstVar með myndavélina á lofti af og til. Veðrið ekki alveg upp á það besta en samt skotið einni og einni hér og hvar. Til að mynda var smellt af mynd heim að hinu mikla menntasetri á Bifröst enda þar ægi fagurt hvernig sem viðrar.

Þarna hafa margir sótt sína menntun úr öllum stéttum þjóðfélagsins. Þekki nokkra sem sóttu ,,gamla" Samvinnuskólann að Bifröst og hlutu góða menntun. T.d. vinkona okkar hjóna hún Dagný og heyrist mér á henni að þarna hafi verið gott að vera, góður skóli.

Hvað heitir kirkjanEn einnig datt mér í hug að endurtaka leikinn frá því fyrir stuttu þegar ég lagði fyrir ykkur getraun og bað ykkur að bera kennsl á ákveðið hús á Akureyri. Ekki kom svar við þeirri spurningu fyrr en ég upplýsti hvaða hús væri um að ræða.

Nú birti ég mynd af kirkju einni sem er staðsett stutt frá þjóðvegi 1 á leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur. Því spyr hvaða kirkja er þetta og við hvaða bæ stendur hún?

Úrslitakeppnin í körfubolta hófst í gærkvöld. Mínir menn hófu leik í ,,Sláturhúsinu" í Keflavík en það kalla þeir sitt íþróttahús. Skemmst er frá því að segja að mínir menn voru allt að því leiddir til slátrunar ef svo má segja. Töpuðu stórt. Þessi orrusta tapaðist en stríðið er ekki búið. Næsti leikur verður hér á Akureyri sunnudagskvöldið og þá geri ég ráð fyrir því að mínir menn hyggi hressilega á hefndir.

Horfði með öðru auganu á þáttinn hans Bubba Bubbabandið. Þátturinn allur hins leiðinlegasti. Allir söngvararnir sökkuðu að mínu viti þó norðanpilturinn Eyþór hafi verið einna skástur í gær en þó slappur. Verð þó að játa fyrir ykkur að dómarinn sem kemur frá Akureyri og kallar sig ,,Villa Naglbít" fer þó allra manna mest í taugarnar á mér. Kannski það trufli einbeitingu mína hvað ég læt hann fara í mínar fínustu. En alla vega fólkið sem tekur þátt í þessum þætti er allt ágætis söngvarar þótt ekki hafi þau hitt á góðan dag í gær.

Fermingarveisla í dag þar sem Ólína systir Jóhanns tengdasonar míns gengur í fullorðinsmanna tölu eins og stundum er sagt þegar krakkar eru fermdir. Vonandi verður þetta hinn skemmtilegasti dagur hjá henni og fjölskyldunni allri.

Meira síðar.

Málsháttur dagsins: Heilbrigður veit ei hvað hinn sjúki líður.

Spennandi keppni

ÍTakk fyrir góðan leik.kvöld hefjast 8 liða úrslit í úrvalsdeild karla í körfubolta. Mínir menn í Þór hefja leik suður með sjó þegar þeir sækja deildarmeistara Keflvikínga heim. Er þetta í fyrsta sinn frá árinu 2000 að liðið kemst í úrslitakeppnina. All flestir telja Keflvikínga nánast örugga áfram í undanúrslit. Ég ætla hins vegar að vona að mínir menn haldi áfram að sýna hvað í þeim býr og veiti deildarmeisturunum verðuga keppni. Sjálfur tel ég þetta ekki óvinnandi vígi fyrir mína menn.

Langar að benda fólki á að lesa upphitunarpistil  sem birtist á heimasíðu Þórsvarðandi leikinn gegn Keflavík þar sem m.a. er viðtal við Ágúst Guðmundsson hinn snjalla þjálfara sem kom Þór í 8 liða úrslit árið 2000. Nýr pistill mun svo birtast á síðunni á morgun þar sem heimaleikurinn gegn Keflavík verður krufinn. Heimaleikurinn verður sunnudagskvöldið 30. mars og hefst kl. 19:15 og fer sá leikur fram í íþróttahúsinu við Síðuskóla. Langar að benda fólki á að frítt verður á þann leik í boði Kjarnafæðis, gott hjá þeim.

Af eðlilegum örsökum hefur lítið verið bloggað síðustu daga en því verður kippt í liðin fljótlega meira á morgun.

Fróðleikur dagsins: Á morgun segir sá lati.


Pálmi í blaðavagninum.

TengdóMan einhver eftir Pálma Ólafssyni? jú vissulega eru margir sem kveikja strax á perunni, en ekki allir. En ef ég hefði spurt munið þið eftir Pálma í Blaðavagninum? þá hefðu allir kveikt á perunni strax. Í dag eru liðin 90 ár frá fæðingu þessa mæta manns, en hann lést þann 23. ágúst 1982 aðeins 64 ára gamall. Pálmi var fyrir margra hluta sakir mjög merkur maður. Hann stofnsetti skósmíðaverksmiðjuna Kraft hér á Akureyri upp úr 1940. Hann hóf blaðasölu á Ráðhústorginu á Akureyri um 1960 og starfrækti hana til ársins 1980 svona u.þ.b. Þá var hann verkstjóri hjá Akureyrarbæ til fjölda ára og stýrði þar m.a. götusópi þar sem í þá dag voru gangstéttir og götur sópaðar af fólki með venjulegum sópum. Pálmi var mikill baráttumaður fyrir réttindi fólks á vinnumarkaðnum enda var hann einn stofnenda Iðju verkalýðsfélag. Um Pálma er hægt að segja margar sögur af hans verkum og hver veit nema ég geri það við tækifæri. En um fram allt var þessi mæti maður tengdafaðir minn. Þann tíma sem við vorum samferða var góður. Ég er þakklátur fyrir það að hafa fengið að vera þessum manni samtíða þótt ég hefði vilja hafa hann lengur hér meðal okkar.

BorðhaldEins og búast mátti við var mikið um dýrðir hér í Drekagilinu í dag. Kalkúnn eldaður og það er ekki gert í einu vettvangi, heldur tekur það sinn tíma. Það er svo sannarlega þess virði að gefa sér þennan tíma sem til þess þarf enda þvílíkur snilldar matur. En umfram allt verður að hafa hugann við eldamennskuna svo þessi gæðamatur bragðist eins og best verður á kosið. Held alla vega að það hafi bara tekist með ágætum í dag. Alla vega var ekki annað að sjá á gestunum að svo hafi verið. Alls 13 gestir sem sátu til borðs. Buðum ættarhöfðunum mömmu og pabba, Döggu og fjölskyldu og með þeim kom Svandís systir Jóa og svo að lokum Rakel vinkona Sædísar.

BeðiðFyrr um daginn voru þeir Arsenal aðdáendur í fjölskyldunni sendir niður í Lönguhlíð til þess að horfa á sína menn etja kappi við Chelsea. Með þessu vildum við fá frið fyrir þeim meðan fuglinn væri eldaður og lifðum í þeirri von að þeir kæmu syngjandi og dansandi upp um alla veggi í leikslok. Þegar þeir mættu í matinn gaf svipur á andliti þeirra til kynna að óþarft var að spyrja um úrslit leiksins. Það lifnaði þó heldur yfir þeim þegar þeir hófu að snæða matinn. Enda matmenn miklir og fljótir að gleyma þegar góður matur er annars vegar. Eigum við að ræða úrslitin eitthvað nánar? held ekki.

SætarLæt svo fylgja myndir sem teknar voru af krökkunum í dag. Myndin hér að ofan sýnir barnabörnin með páskaeggið sem Palli afi og Gréta amma áttu og vildu þau ólm láta þau taka upp og kanna hvað væri inn í egginu t.d. Grunaði afa að þau væru einna helst spennt fyrir namminu fremur en öðru, en annað kom á daginn. Þau vildu bara vita hver málshátturinn væri og hann var svo ,, Sá árla rís verður margs vís". Myndin hér til vinstri er svo tekin af þeim systrum Elín Ölmu og Margréti Birtu með páskablómin enda ávallt til í að stilla sér upp fyrir afa sem ávallt er með myndavélina á lofti daginn út og daginn inn. Greinilegt að þessar stelpur eru upprennandi fyrirsætur.

Ætli maður láti svo þetta ekki duga að sinni.

Málsháttur dagsins: Ekki eru þeir allir ræðarar sem árina bera.


Allt á flot(i) en þó ekki skipið - enn sem komið er

Ég ólst upp við guðsótta og þeirri trú að ekki mætti vinna á föstudaginn langa. Samt er fólk vinnandi út um allar trissur. Og fyrst prestarnir mega vinna þá hljótum við hin að mega gera á þessari reglu einhverja undatekningu.

Í nótt fór að leka inn hjá þeim fullorðnu í Seljahlíðinni svo að húsráðendur urðu að hafa vaktaskipti á handklæðum og þ.h. búnaði til að þurrka reglulega upp bleytu svo ekki yrðu skemmdir innandýra. Fór í morgun og kíkti á. Þakrennur fullar af skít og drullu sökudólgurinn. Við feðgarnir höltruðum með tröppur og græjur á milli okkar og hófst vinna við hreinsun á þakrennu skrattanum. Kom í minn hlut að príla upp, enda vanur að detta Tounge

Snæfell EA og sá fullorðniÞví næst var tekið til hendinni við annars konar vinnu. Hobbý vinna við Snæfellið. Smíðinni fer brátt að ljúka og loks sér fyrir endann á þessu. Í dag var klárað að ganga frá og setja niður björgunarbátana. Þræða blakkir í davíðunum. Þá er búið að þræða allar blakkir í báðum bómum, þeirri í frammastri og þeirri í aftur mastri ásamt gils og tilheyrandi. Styttist í að farið verði að mála nafn og einkennistafi á skipið en búið er að setja KEA merkið á skorsteininn. Fljótlega setjum við svo ankerin á sinn stað enda allt að verða klárt. Ef að líkum lætur þá stefnir í að þessi smíðagripur verði varðveittur á matsölustað hér í bæ gestum og gangandi til augnayndis. Ætlar veitingamaðurinn í staðinn að láta smíða fallegan glerskáp utan um skipið.

NammiFjör hér í Drekagilinu í gær þar sem Dagga og Jói komu í mat með öll börnin. Með þeim kom Svandís systir Jóa og naut matarins með okkur. Eins og venja er þegar allir eru saman komnir er mikið fjör og mikið gaman. En þó skyggir á gleðina að húsmóðirin á heimilinu liggur í rúminu með flensuskít og nýtur ekki lífsins til fullnustu. Vonandi verður hún orðin spræk á páskadag þegar við snæðum þann stóra (kalkún). Þá verður enn fjölmennara þar sem Dagga og fjölskylda (þ.a.m. Svandís systir Jóa meðtalin) mæta ásamt mömmu og pabba. Þá trúi ég að verði stuð í Drekagilinu. Þessari færslu fylgir mynd af Jón Páli sem er að borða eftirréttinn (Ís) og eins og glöggt má sjá þótti honum ísinn ekkert slæmur og notaði hann í restina guðsgafflana til þess að ná hverju einu og einasta agni af diskinum. Eftir á þurfti vart að þvo skálina eftir hann.

Að öðru leiti lítið að frétta og lætur maður lítið fyrir sér fara. Beðið eftir næstu törn. Um næstu helgi hefst úrslitakeppnin í körfubolta og þá fá mínir menn það verkefni að spila gegn Keflavík. Ætlum við að mæta þeim af fullu krafti og láta deildarmeistarana finna til tevatnsins.

Þjóð- og bæjarmál bíða betri tíma enda lítið að gerast sem vert er að pirra sig á.

Málsháttur dagsins: Prestlaus sveit er sem saltlaus matur

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Páll Jóhannesson
Páll Jóhannesson

Akureyringur, eiginmaður, pabbi, afi, Þórsari,  jafnaðarmaður, City - fan og Áfram Þór alltaf, allstaðar.

Hafi einhver áhuga að senda mér tölvupóst þá sendið á pallijo@internet.is

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

234 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband