Leita í fréttum mbl.is

Vorið er komið og grundirnar gróa.....

VorkomaÞegar ég vaknaði í morgun hafði ég að orði við spúsu mína hvað það væri yndislegt að vaka upp við fuglasöng. Vorið er komið og grundirnar gróa...... og allt það. Mikið lá nú vel á karli, þetta yrði góður dagur. Eins og í alvöru bíómynd. Ég raulaði fyrir munni mér lagstúfinn ,,Lítill fugl á laufgum teigi, losa blund á mosasæng...." já í A-dúr.

Eins og næstum alla aðra föstudaga myndi þessi dagur hefjast á því að fara í Hamar og drekka morgunkaffi með félögunum. Málin rædd og leyst í eitt skipti fyrir öll.

Hryssingslegt veður í morgunsárið, blaut og skítug og heldur kalt. Hitinn rétt skreið yfir frostmarkið, þetta hlýtur að skána, eða hvað?

Fór í dag með barnabörnin í bíltúr. Bryggjurútur. Var staðráðin í að þegar á bryggjuna kæmi þá yrði ferið í stutt labb og kíkt á bátanna. Þegar í Bótina var komið var farið að snjóa og ég sem hélt að það væri komið sumar, eða í.þ.m. vor? Kannski ekki rétt að segja snjókomma, nær að segja slydda.

OjÞótt maður búi á landi vatns, elds og ísa brennir maður sig sífellt á að fara vanbúinn að heiman. Auðvitað klæddi ég börnin eins og um hásumar væri og sjálfur klæddur eins og ég væri staddur á Spáni. Svo lítið varð úr að við færum á labb.

Ekki festi þó snjó - þ.e.a.s. ekki strax. Þegar heim var komið vakti mikill fjöldi ánamaðka á bílaplaninu athygli Jón Páls. Við félagarnir fórum í smá rannsóknarvinnu. Eftir samningaviðræður sem stóðu yfir í stutta stund fékkst sá stutti til þess að handleika einn.  Það fór hrollur um þann stutta. Hann hristi sig og ýldi - oj-barasta afi oj.

Eftir að hafa staðið eins og frosin í stutta stund og harkað af sér meðan afi smellti af einni mynd tók sá stutti undir sig stökk hentist inná miðja lóð og losaði sig við ,,Skrímslið". Afi koma inn.

VorkomaÞað létti heldur á manni brúnin eftir að hafa séð veðurspánna í varpinu í kvöld. Því það birtir upp öll él um síðir. Og víst er að á því verður engin undantekning nú.

Ég ætla þó að vona kæru bloggvinir að halda ekki að ég sé að fyllast einhverju vonleysi með þessu væli yfir veðrinu. Mér finnst þetta hreint út sagt dásamlegt. En allt þetta pláss sem fór undir þetta blaður um veðrið var bara vegna þess að ég vissi nákvæmlega ekkert hvað ég ætti að blogg annað að viti.

Búinn að fá nóg af vandræðunum í borginni við sundin blá þar sem allt snýst um vandræðaganginn í kringum Magnússynina sem ættaðir eru að norðan þ.e. Ólafur og Jakob.

Fróðleikur dagsins: Að meðaltali eru framkvæmdar þrjár kynskiptiaðgerðir daglega í Bandaríkjunum.

Ekki sama vegalengdin - nei

Í gær brá svo við að þau heiðurshjón og tengdafrændfólk mitt Marta og Jónsi sem búa á Sauðárkróki litu við hjá okkur. Þau hafa verið talsvert mikið duglegri við að renna hingað í heimsókn en við að renna til þeirra. Gæti verið að það sé lengra héðan á Krókinn en fyrir þau að skjótast hingað, varla en hver veit? Greinilegt er að fyrir þau er þetta ekki meira mál en fyrir mig að skutla frúnni í Bónus. Jónsi farin að stríða mér óþægilega mikið á því hve löt við höfum verið að rúlla vestur en hann sem segist vera farin að skutlast þetta vikulega. Ætli maður verði ekki að manna sig upp áður en allt of langt um líður og kíkja á Krókinn, því Jónsi er lúmskt stríðinn og gæti haldið áfram að atast í mér ef ekki verður gerð bragabót á áður en langt um líður. En kannski skekkir það myndina að Jónsi er á nýjum og andskoti flottum jeppling svo kannski er það skýringin á því hve óstöðvandi þau eru? Jónsi, Marta - þetta fer að koma hjá okkur.

Það er heldur farið að róast hér á heimilinu þ.e. það sem snýr að skólafólkinu. Sölli hefur lokið öllum prófum og liggur í leti og nýtur þess að gera andsk... ekki neitt. Styttist í að hann fari að vinna. Búinn að ráða sig í vinnu í bókhaldinu á skrifstofum Akureyrarbæjar. Sædís á eitt próf eftir. Brjálað að gera hjá henni. Strangar æfingar hjá kórnum enda styttist í Þýskalandsferðina. Ekki tjóir að fara illa undirbúinn og fara út af laginu þegar á hólminn verður komið í landi Angelu Merkel.

Eitthvað enn eftir hjá Döggu en hennar sumarvinna hefst á morgun. Munu börnin verða talsvert hér hjá afa og ömmu í sumar. Nú ber svo við að nýju nágrannarnir sem búa í við hliðina á okkur eru með litla stelpu sem er í barnakórnum með Margréti og Elínu svo trúlegt má telja að það verði fjör hér þegar þessar skvísur koma saman.

Nú er heldur betur farið að styttast í að fótboltinn hinn íslenski fari að rúlla. Við feðgar munum sjá um skrif fyrir sameinað lið Þór/KA kvenna sem leikur í úrvalsdeildinni. Það verður mikið gaman og mikið fjör. Þetta verður með svipuðum hætti og við erum að gera fyrir körfuboltann.

Hafði samt gaman að því að horfa á Kastljósið í kvöld þar sem Ólafur F. Magnússon borgarstjóri reyndi af veikum mætti að svara fyrir ráðningu Jakobs Magnússonar. Ég hef svo sem enga skoðun á því hvort þetta er rétt eða rangt, en alla vega held ég að Ólafur ætti að setja sig í langt fjölmiðla bann. Maðurinn tapar öllum orrustum sem hann leggur í. Er svipað og með Sturlu fyrrum samgönguráðherra - ef þeir opna munninn þá klúðra þeir málum. Já ég segi enn og aftur ,, hún er skrítin þessi pólitík".

Málsháttur dagsins: Þar sem hræið er, þangað safnast ernirnir.

Rannsóknarvinna

Í dag var til grafar borin útgerðarmaðurinn og skipstjórinn Haukur Runólfsson. Haukur varð undir í baráttu við illvígan sjúkdóm. Hauki og konu hans Ásdísi Jónatansdóttir sem lést fyrir 24 árum síðan kynntist ég árið 1976. Ég fór þá austur á Höfn á vertíð á bát hjá Hauki sem hann átti og var skipstjóri á Akurey SF52. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að búa heima hjá þeim heiðurshjónum í tæplega hálft ár. Þau kynni gleymast aldrei. Þvílík heiðurshjón. Ég sendi fjölskyldu Hauks Runólfssonar mínar dýpstu samúðaróskir og segi enn og aftur ,,Hver minning er dýrmæt perla". Hvíl í friði Haukur Runólfsson.

Af frumkvæði bloggvinar míns hans Gunnar sem er mikill skipa áhugamaður hefur ferðum mínum í ,,Bótina" fjölgað svo um munar. Allt hófst þetta með því að ég birti mynd í vetur af hinu stórkostlega fley er ber nafnið Smugan. Tók það mig u.þ.b. 2 mánuði að leysa þá rannsóknarvinnu af hendi. Ég verð að reyna standa mig því ég á enn óleyst verk sem hann lagði á mig fyrir nærri ári síðan ef ekki lengra. Ekki svo að skilja að ég hafi ekki reynt - það hefur bara engin geta veitt mér svör við gátunni miklu - en leitinni verður haldið áfram.

Ingibjorg 5411 1Fyrsta verk dagsins var að finna bát sem heitir Ingibjörg og er með skráningarnúmerið 5411. Bátur sem smíðaður er 1972. Samkvæmt mynd sem Gunnar sá af þessum bát sem tekin var 1997 er hér um bát að ræða sem er sannkallað augnayndi.

Bátinn fann ég strax og óhætt að segja að báturinn er fallegt fley. Fallegar línur og í alla staði er greinilegt að hann ber skapara sínum góða sögu um gott handbragð.

Fegurðarskyn manna er mismunandi. Það sem einum finnst fallegt getur öðrum þótt ljótt og þar fram eftir götunum. Mér finnst báturinn fallegur og sýnist á öllu að um hann sé vel hugsað.

Nú svo nú legg ég þá spurningu á Gunnar hvort hann sjái á myndinni hvort bátinum sé nægilega vel við haldið og standi undir merkjum?

MániVerkefni nr. 2. Finna bát sem stendur á vagni stutt frá þeim stað sem Smugan er nú. Þar á ég að finna hraðbát af gerðinni Shetland sandgulur með rauðum röndum og heitir Máni. Eins og við manninn mælt báturinn var þar sem Gunnar hugði.

Hann var jú eitt sinn eigandi þessa báts. Hann var víst upphaflega með blæju en á hann smíðaði hann hús úr áli ásamt vini sínum. Sprautaði svo gripinn með eðal lakki og efnum sem erfitt eða nánast útilokað er að verða sér úti um í dag. Gunnar á víst margar gullnar stundir á þessum bát ásamt föður sínum á ferðum þeirra um Ísafjarðardjúp.

En ég veit ekki við hverju Gunnar átti von. En víst er að Máni þar á því að halda að fá smá andlits upplyftingu. Báturinn er skítugur og í honum er brotin rúða og hálfgerð óreiða um borð. Og auðvitað smellti ég af einni mynd svo Gunnar geti séð í hvað ástandi þessi kostagripur er í dag.

NóiAf því að ég var komin í Bótina og farin að skoða myndir þá komst ég ekki hjá því að sjá einn bát sem vakti óskipta athygli hjá mér. Sá bátur heitir Nói og hefur skráningarnúmerið 5423.

Fallegar línur og allt handbragð er hreint fullkomið í þessum bát. Og ekki bara handbragðið fallegt heldur er þessi bátur greinilega í góðum höndum eiganda síns og viðhaldið á honum eins og best verður á kosið. Þegar maður var lítill pjakkur að hrærast í bótinni og var að fylgjast með Begga og félögum þá fannst manni bátar eins og Nói hreinlega vera stór skip, sem þau eru í sjálfu sér.

GunnarRétt í lokin set ég svo inn mynd af lítilli trillu sem stendur á þurru rétt hjá Nóa. Af útliti bátsins og ástandi er greinilegt að komið er að leiðarlokum þar á bæ eða bát.

Og það skondna við allt þetta er að sá bátur ber nafnið Gunnar.

 Svo til að loka þessari færslu vil ég benda á að ég er búinn að búa til nýtt myndaalbúm sem heitir Bátar og skip. Þar er ég strax búinn að setja inn myndir frá ferð minni í Bótina í dag.

Hver veit nema ég haldi áfram þessari rannsóknarvinnu í Bótinni, hver veit?

Fróðleikur dagsins: Muhammed Ali heitir réttu nafni Cassius Marcellus Clay.

Stórkostlegur listamaður

SnillingurStrembinn gærdagur. Hófst á því að mannskapurinn dreif sig í kirkju. Æskulýðskórinn og barnakórinn sáu um sönginn í fjölskyldumessunni. Nú á maður ekki bara dóttir í Æskulýðskórnum heldur eru báðar stelpurnar hennar Döggu komnar í barnakórinn. Svo maður er bæði pabbi og afi. Í messunni var boðið upp á brúðleikhús. Sú sýning var alger snilld. Veit ekki hvers lenskur þessi snillingur er en ef ég man rétt þá býr hann einhvers staðar í Svallvaðardalnum. Ekki hægt að lýsa þessu með orðum hversu mikil listamaður hér er á ferð. Ef þið hafið tök á að sjá og heyra þennan mann að störfum þá látið það ekki fram hjá ykkur fara.

SöngstjörnurMargrét Birta og Elín Alma eru jú til þess að gera nýbyrjaðar í barnakórnum. Þær þreyttu því frumraun sína í að syngja í messu. Óhætt að segja að hjarta manns hafi slegið örar meðan á þessu stóð.

Eftir messu var svo mikið húllum hæ fyrir utan kirkjuna, nokkurs konar slútt eftir skemmtilegan vetur. Grillaðar pylsur - eða pulsur eftir því sem við á. Leikir og alls konar skemmtun fyrir alla. Gróskan í kirkjustarfinu það sem snýr að börnum og unglingum er algerlega til fyrirmyndar. Ætla ekki að taka neinn sérstakan út hvað það varðar en allir fá hrós frá mér fyrir flott starf.

GuðmundurJonsson til liðs við ÞórNú seinni partinn í dag gekk ungur Njarðvíkingur til liðs við körfuboltalið Þórs. Er um að ræða 24 ára gamlan leikmann Guðmundur Jónsson að nafni. Er þetta gríðarlega efnilegur leikmaður sem miklar vonir eru bundnar við. Vonandi á þessu strák eftir að líða vel. Ég átti langt og skemmtilegt samtal við hann eftir undirritun og smellti myndum af við þetta tækifæri. Kom í ljós að hann þekkir Hrönn systir og Ágúst mann hennar ágætlega enda búa þau í Njarðvík. Það sem meira er að hann bjó í sama húsi og þau um skeið, svona er heimurinn lítill. Guðmundur er lærður smiður og mun hann fara vinna hér við þá iðn þegar hann flytur búferlum. En hann mun flytja norður þann 1. ágúst. Vonandi á honum og konu hans eftir að líða vel hér norðan heiða.

Fróðleikur dagsins: Aðvörun: Dagsetningar á dagatalinu er nær en þær virðast vera.


Bolnum bjargað....... Sumgan

SmuganÍ vetur setti ég á bloggið mynd af bát sem lá við legufæri í Bótinni. Báturinn sem heitir Smugan var hulin að mestu snjó enda lítt farið á sjó yfir háveturinn á þessu fleyi. Það var eins og við manninn mælt bloggvinur minn hann Gunnar (sem er mikill sérfræðingur um báta) var mættur og bað um ákveðnar upplýsingar um þennan merka grip.

Að sjálfsögðu lofaði ég Gunnari að forvitnast um hver væri eigandi bátsins, hvað hann væri stór og það sem meira var - er gripurinn til sölu? Á hraða snigilsins hóf ég könnun. Og þar sem að þetta var gert á hraða snigilsins þá gerðist afar lítið. Gunnar vissi þó hver hafði átt þetta mikla fley fyrir all mörgum árum. Var ég búinn að lofa einhverju upp í ermina?

Leið mín lá svo niður í Sandgerðisbótina þegar snjóa leysti og sól fór hækkandi á lofti. Aftur dró ég myndavélina upp úr mínu fínasta pússi og smelli af Smugunni eftir leysinga. Og eins og við manninn mælt - Gunnar mætti og rukkaði mig um hverju mér hefði orðið áorkað. Nú var mér fátt um svör. Ég hafði þó farið nokkrar ferðir í Bótina án þess að manna mig upp í að spyrjast fyrir um bátinn. Ég varð að passa ermina.....

IMG_0856Dagarnir liðu hægt en svo....  var erminni bjargað...... 

Ég brá mér nefnilega niður í Bótina í dag og þá sá ég mér til mikilla ánægju að báturinn var komin á þurrt. Tveir menn að vinnu við að skrapa, vorverkin hafin. Myndavélin var auðvitað með svo ég vippaði mér út úr bílnum og gaf mig á tal við vinnumenn. Annar mannanna sem var að vinna við bátinn heitir Birgir Guðmundsson sem er Lektor við Háskólann á Akureyri. Hann er einn af eigendum þessa báts.

Birgir tjáði mér að Arnar Páll Hauksson sem keypti bátinn fyrir allmörgum árum hafi gefið bátnum þetta nafn. Um bátinn var stofnað ,,útgerðar- og eigendafélag" sem heitir TÚA ,,Trillubáta Útgerðarfélag Akureyringa". Báturinn er rétt innan þeirra eftirsóttu 6 metra. Í honum er 4-6 hestafla Sabb vél. Segir Birgir að vélin sé algerlega ódrepandi og miðað við meðferð þá undrist hann á hverju sumri hversu viljug þessi elska sé að fara í gang þegar sveifinni er snúið.

13-15.mars 101Nú getur Gunnar bloggvinur minn átt von á því að ég sendi honum tölvupóst um þennan grip þar sem ég hef svör við fleirum spurningum sem hann var með. Kannski var aldrei hætta á ferðum því ég geng ávallt í stuttermabolum.....

Nú eins og þið sjáið þá setti ég inn þrjár myndir af þessu stórmerka fleyi við mismunandi aðstæður. Og ég fékk að sjálfsögðu hann Birgir Guðmundsson einn af eigendunum til að stilla sér upp hjá bátnum og auðvitað var skipshundurinn með á myndinni. Því miður láðist mér að fá nafn skipshundsins, en það kemur síðar.

Þannig ágætu bloggvinir getið þið treyst því að framvegis verður birt af og til mynd af þessum bát þar sem fylgst verður með framkvæmdum, ef Gunnari skildi ekki takast að versl........

 

Fróðleikur dagsins: Sumt fólk er einungis á lífi af því að það er ólöglegt að drepa.

Sambúðaslit

LeiðarlokÞar kom að því að hún fengi nóg. Mikið notuð og sumir myndu kannski segja að stundum hafi notkunin á henni jaðrað við misnotkun. Ég held að það sé kannski full langt gengið að segja að meðferðin á henni geti flokkast undir misnotkun. Hlutverk hennar í lífinu var einfaldlega að þola mikla notkun og það sem meira er hún mátti búast við því að margir myndu nota hana.

Ég greiddi stórfé fyrir hana meir en góðu hófu gegndi að því er mér fannst. En ráðgjafi minn sagði mér að þessar elskur stæðu sig svo vel að ég mætti óhræddur greiða stórfé fyrir hana. ,,Þegar upp verður staðið þá fullyrði ég að þú getur hent henni og keypt aðra með bros á vör og þá munt þú sjá að þetta var góð fjárfesting.

SamsungÉg varð að skipta henni út núna eftir 17 ára sambúð. Hennar verður sárt saknað. En ég er búinn að kaupa aðra og ég bind vonir mínar við hana og el þá von í brjósti mér að sambúðin verðir farsæl og ljúf, eins og hjá þeirri sem nú er kvödd með söknuði. Og frúin mín hin eina sanna var vön að strjúka henni og bjástra við svo að örugglega má segja að góð meðferð af hennar hálfu hafi vegið þungt í hversu vel hún entist.

Gömlu Askó ASEA var sem sagt skipt út fyrir einni nýtískulegri af gerðinni Samsung. Veit ekki hvort óhætt er að gera þær kröfur til þeirra nýju að standast samanburðinn en hver veit? Tengdasonurinn sem er Samsung-fan nr. 1 á Íslandi segir að mér sé óhætt að leggja upp í þessa sambúð poll rólegur.

Ég sagði að tengdasonurinn væri Samsung-fan nr. 1. Á heimilinu eru til 4 Samsung gsm símar tvö heimabíó af þeirri gerð tvö sjónvörp svo fátt eitt sé nefnt, segir kannski meir en mörg orð. Hann var jú sölumaður í Radíónaust og kannski bara gott dæmi um hversu góður sölumaður hann er.

Skaust á sölusýningu hjá handverksfólki út á Árskógsströnd í dag. Alltaf gaman að skoða hvað fólk er að gera. Trúlega var þarna aðallega handverksfólk sem er að stunda sína list heima við í litlum mæli sér til gamans en ekki með fjöldaframleiðslu að leiðarljósi. Fullt af flottum munum og gaman að skoða. Yfirgaf þó svæðið án þess að kaupa nokkurn hlut. Ekki af nísku eða að ég hafi ekki séð eitthvað áhugavert heldur plássleysi heimavið. Á einfaldlega allt of mikið af dóti.

ÖryggiStrax eftir sýningu fórum við Sölli í Bogann og horfðum á leik hjá Stelpunum okkar í Þór/KA í Lengjubikarnum. Þær tóku á móti HK/Víkingi og fór svo að Stelpurnar okkar unnu 1-0 sigur. Leikurinn býsna jafn og skemmtilegur. Leikur Stelpnanna okkar gefa okkur fyrirheit um að við eigum skemmtilegt sumar í vændum. Áfram stelpur í Þór/KA.

Um kvöldið fór ég svo í Hamar og aðstoðaði Skúla Lór miðil þar sem hann var með skyggnilýsingafund. Hjálpin mín fólst í að vera dyravörður (dyravörður milli tveggja heima) og rukka þá sjáanlegu gesti sem komu á fundinn. Þegar svo fundurinn hófst kom í ljós að miklu, miklu fleiri voru á fundinum en ég sá. Vá hvað það voru margir sem Skúli sá og talaði við. Ekki gott ef ég hefði þennan möguleika ég kæmist aldrei yfir að ræða við allt þetta fólk, nóg er nú samt.

EinbeittOg af því að heldur hefur nú dregið úr sumarblíðunni þessa síðustu daga læt ég fljóta með tvær myndir af þeim Margréti Birtu og Elínu Ölmu. Þessar myndir voru teknar fyrir skömmu meðan veðrið lék við okkur. Húlla hringur, fótbolti, golf og ýmislegt annað sem krakkarnir dunduðu við á sólpallinum hjá afa og ömmu.

Margrét Birta virtist fara heldur léttara í gengum þessa þolraun að halda húlla hringnum á lofti. Aftur á móti af svipnum að dæma þurfti Elín Alma að hafa meira fyrir hlutunum. Tungan á sínum stað og meðan hringurinn var á lofti gleymdi hún stund og stað.

En báðar sýndu ótrúlega snilli með hringinn og er mér til efs um að ég hefði nokkurn tíman komist með tærnar þar sem þær hafa hælana.

Fróðleikur dagsins: New York hét eitt sinn New Amsterdam.

Hvað myndu þeir gera?

Harmleikurinn í Austurríki þar sem geðsjúklingurinn Josef Fritzl hefur lagt sína eigin fjölskyldu í rúst er hroðalegri en orð fá lýst. Hvað getur maður sagt? Er mannvonskunni í þessum heimi engin takmörk sett?

Krónan sveiflast og svei mér þá ef maður hefur það ekki á tilfinningunni að allt sé að fara til fjandans. Skondið samt að heyra í stjórnarandstöðunni hrópa á Alþingi. Hvað ætli þeir Guðni, Guðjón og Steingrímur myndu gera ef þeir sætu við stjórnvölinn? Hvernig stendur á því að í öllum þeirra hrópum og köllum þá koma þeir aldrei með neina skýringu á því hvað hægt sé að gera?

Getur verið að ástæðan sé sú að þeir vita ekkert hvað á til bragðs að taka fremur en ríkisstjórnin og Seðlabankinn, er það ekki málið? - ég er viss um það. Ég hef svo sem ekki heldur skýringar á reiðum höndum enda þarf ég þess ekki þar sem ég sit ekki á hinu háa Alþingi né er blýantsnagari í Seðlabankanum og get á engan hátt haft áhrif.

Dropinn sem fyllti glasiðTek þátt í ljósmyndakeppni með nokkrum félögum. Við eigum það allir sameiginlegt að eiga allir eins myndavélar og alvarlega veikir af ljósmyndadellu. Erum innbyrðis með ljósmyndakeppni til að hvetja hver annan til dáða og læra hver af öðrum. Í seinustu viku var þemað ,,Vatn". Ég sendi inn þessa mynd sem birtist með þessari færslu og sú mynd bar sigur úr bítum.

Engin verðlaun í boði enda er þessi keppni meira í gamni en alvöru. Tilgangurinn sem sagt að hafa gaman af og reyna læra hver af öðrum.

Þótt félögum mínum hafi þótt myndin sú besta þá fékk ég þær athugsemdir með myndinni að bakgrunnurinn hafi þvælst örlítið fyrir þeim. Það má vel vera að annar bakgrunnur hefði fallið betur?

En ég tók aðra mynd sem ég var mikið að spá í að senda inn í stað þessara myndar. Hún hefði ekki náð betri árangri þar sem hinn vann, en  bakgrunnurinn var talsvert öðruvísi svo hver veit?

Detta dropar

Hvort sem þessi mynd hefði plummað sig eður ei skalt ósagt látið.

Allt annar bakgrunnur þar sem notast er við Kókómjólkurfernu sem bakgrunn. Klói fær kraft úr kókómjólk, en ætli Klói drekki vatn? spyr sá sem ekki veit.

Engu að síður finnst mér þessi mynd ekki síðri en sú fyrri, kannski betri og í raun kemur eitt og annað í ljós ef hún er skoðuð nánar.

Ef fólk smellir á myndina til að fá hana í fullri stærð og skoðar hana nánar kemur margt forvitnilegt í ljós. Ef dropinn er skoðaður nánar sem er rétt ofan við höfuðið á Klóa má sjá höfuðið á Klóa í gegnum dropann.

Væri kannski hrokafullt að segja að ég hafi einmitt verið að bíða eftir því augnabliki, en svo var þó ekki. Var þó alltaf að reyna fanga dropa en að sjá í gegnum hann höfuð Klóa gerir myndina bara skemmtilegri fyrir vikið.

Best að hætta þessu sjálfshóli og snúa sér örlítið að öðru. Fundur í körfuboltastjórn í gærkvöld. Þar sit ég sem ritari. Þótt körfuboltavertíðinni sé lokið er undirbúningur að næsta tímabili hafinn. Góður árangur í vetur gefur mönnum byr undir báða vængi og stefnan er að gera betur næsta vetur.

Prófin að byrja í framhaldsskólum, sem og í Háskólanum hér á Akureyri. Það þýðir talsvert meira um barnapössun á barnabörnunum. Ekkert væl yfir því. En mikið að gera þegar þau eru öll komin í hús og lært í hverju horni.

Í blálokin hefur því miður komið í ljós að litli drengurinn hennar Anítu frænku brenndist meir en menn héldu í upphafi. Vonandi fer þó allt betur en á horfðist og verður fólk bara bíða, vona og nýta sér að senda litla kút og fjölskyldu hans hlýja strauma.

Fróðleikur dagsins: Á árunum 1931 til 1969 hlaut Walt Disney 35 Óskarsverðlaun.


Gleði og sorg

Lokahof2008_8Fór á lokahóf körfuknattleiksdeildar Þórs í gærkvöld. Mikið um dýrðir og mikið gaman. Íþróttafólkið verðlaunað fyrir frammistöðu sína á íþróttavellinum. Nokkuð góð mæting eða um 80 manns sem komu saman og áttu stórskemmtilega kvöldstund. Góður matur borin á borð að hætti Greifamanna grillað lamb, grís og kjúlli með tilheyrandi. Jói tengdasonur háði sína fyrstu orrustu sem veislustjóri og leysti það bara fjandi vel.

Skelli hér svo inn einni mynd af fjölmörgum sem ég tók á lokahófinu. Myndin er af mömmu minni og Dagbjörtu dóttir minni. Fyrir þá sem ekki vita er nefnilega faðir minn hann Jóhannes Hjálmarsson heiðursfélagi í Íþróttafélaginu Þór.

Fyrr um daginn fór ég ásamt Sölmundi og horfðum á kvennalið Þór/KA í B- deild Lengjubikarsins. Öttu þær kappi við Reykjavíkur Þróttara. Skemmst er frá því að segja að stelpurnar í Þór/KA unnu stóran 6-0 sigur. Skemmtilegur leikur. Vilji fólk lesa meir af leiknum og frá lokahófinu sem og sjá myndir þá endilega kíkið á www.thorsport.is. og njótið.

Þegar við fórum í Bogann hafði ég fylgst með mínum mönnum í City í leik gegn Fulham. Þegar ég yfirgaf skjáinn voru mínir menn með 2-0 forystu. Var því dálítið mikið hissa þegar svo í ljós kom að þeir töpuðu 2-3. En eins og ég sagði í gær, maður spyr að leikslokum.

Akurey1Fékk fréttir af því í dag að minn gamli skipstjóri og útgerðarmaður og góðvinur Haukur Runólfsson frá Höfn í Hornafirði er látinn. Haukur lést í gærkvöld 79 ára að aldri. Hauki kynntist ég fyrst árið 1975 þegar ég fór fyrst á vetrarvertíð hjá honum á Akurey SF 52. Var einnig þess aðnjótandi að búa heima hjá fjölskyldu hans árið 1976. Haukur háði vonlausa baráttu við illvígan sjúkdóm sem að lokum hafði betur. Ég votta fjölskyldu Hauks mínar dýpstu samúð. Með honum er fallinn góður drengur.

Og til heiðurs Hauki skelli ég inn mynd af líkani af Akurey SF sem ég smíðaði fyrir fáum árum. Akurey er bátur sem ég var á hér um árið 1975 aftur 76 og svo árin 1983-1984. Þetta var bátur með góða sál. Seinast þegar ég var á bátnum var Jón Haukur Hauksson skipstjóri en hann er eldri sonur Hauks. Var einnig á bátnum með yngri syni Hauks honum Runólfi Jónatan. Þeim dreng kynntist ég mæta vel og er hann mikill gæðapiltur.

Málsháttur dagsins: Sérhver dygð heiðrar þann sem hana iðkar

Áfram stelpur

Óhætt er að segja að mikið sé um að vera hér og þar og allstaðar. Eitthvað fyrir alla konur og karla. Dagurinn í dag er stútfullur af afþreyingu. Á Brúnni í London fer fram stórleikur í ensku úrvalsdeildinni þar sem heimamenn í Chelsea taka á móti Englandsmeisturum Man.Utd. Vinni gestirnir er titilbaráttan nánast lokið. Nái heimamenn að sigra heldur spennan áfram. Út frá fótboltanum, sem skemmtun bara verða heimamenn að vinna. Skemmtilegast er og verður þegar titlar vinnast ekki fyrr en í blálokin, allra vegna.

Mínir menn eru ekki í neinni titilbaráttu í úrvalsdeildinni að þessu sinni. En um liðna helgi varð Manchester City Englandsmeistari ungliða, gott hjá þeim. Í dag taka þeir á móti Lundúnaliðinu Fulham sem er vægast sagt í vondum málum. Fulham er í næst neðsta sæti úrvalsdeildarinnar og þurfa sárlega á sigri að halda til að eyja von um að halda sæti sínu í úrvalsdeild. En þeirra bíður erfitt verkefni þar sem City hefur aðeins tapað þremur leikjum á heimavelli í vetur gegn Arsenal, Everton og Chelsea. Svo að ef allt fer eftir bókinni ættu City-menn að hafa sigur, en við skulum spyrja að leikslokum, Áfram Manchester City.

Ætla skjótast í Bogann í dag og sjá úrvalsdeildarlið Þór/KA kvenna í knattspyrnu taka á móti Þrótti úr Reykjavík í B-deild Lengjubikarsins. Við Sölmundur höfum tekið að okkur að skrifa um leiki liðsins í sumar með svipuðum hætti og við gerðum fyrir körfuboltann hjá Þór. Spennandi tímar framundan hjá þessu unga og efnilega liði. Á bak við það lið er stór hópur þ.e. kvennaráð sem skipað er kraftmiklu fólki af báðum kynjum sem er að lyfta Grettistaki þar. Liðið er þjálfað af tveimur snjöllum knattspyrnumönnum þeim Dragan Stojanovic og Siguróla (Mola) Kristjánssyni. Áfram stelpur í Þór/KA.

Í kvöld verður svo mikið um dýrðir í Hamri félagsheimili Þórs. Körfuboltamenn loka skemmtilegum körfuboltavetri með hefðbundinni uppskeruhátíð. Ef að líkum lætur verður mikið fjör og mikið gaman. Körfuboltamenn og konur munu troða upp með ýmis skemmtiatriði. Íþróttafólkið verður verðlaunað fyrir frammistöðu þeirra inni á vellinum, sem og aðrir sem koma að rekstrinum með öðrum hætti, fá í.þ.m. hlý orð í eyra og kannski viðurkenningar, hver veit? Ég ásamt minni frú og Sölmundur Karl munum mæta fersk og skemmta okkur. Þá mun Jói og Dagga mæta með og gleðjast. Jói sem verið hefur kynnir á leikjum liðsins í vetur verður veislustjóri, geri ráð fyrir því að hann leysi það verk af höndum með fumlausum hætti eins og honum einum er lagið.

Fróðleikur dagsins: Árið 1896 áttu Bretland og Zanzibar í stríði í 38 mínútur.

Eins og sjálfdauð rolla sem varð fyrir bíl

Rós.Það er komið sumar sól í heið skín....... Vil byrja á því að óska lesendum bloggsins gleðilegs sumars og þakka veturinn.

Gömul þjóðtrú segir að ef vetur og sumar frjósi saman viti það á gott sumar. Hér á árum áður setti fólk gjarnan út skál með vatni til að sjá að morgni dags hvort svo hafi orðið. Gerði þetta stundum sjálfur en ekki í ár. Alla vega byrjar dagurinn með þeim hætti að það er ekkert sem bendir til að frosið hafi í nótt. Samkvæmt þjóðtrúnni ættum við þá ekki gott sumar í vændum. Gef þessari þjóðtrú langt nef og trúi að við eigum gott sumar í vændum.

Sigþór frændi minn sem er píparinn í ættinni mætti fyrir allar aldir með rörtöngina ásamt ýmsum öðrum græjum á lofti. Hafði staðið lengi til að setja upp þrýstijafnara á kaldavatnslögnina. Nú er það búið og óþarfa högg og sláttur í pípulögnum úr sögunni.

Grillum í kvöld íslenskt fjallalamb. Dagga og fjölskylda koma og hjálpa okkur við að gera því góð skil. En af því að við ætlum að byrja sumarið á því að grilla lamb og snæða verður fróðleikur dagsins í boði  fyrrum knattspyrnumanns sem var á keppnisferðalagi með liði sínu. Var liðið að snæða lambakjöt og eitthvað var vinurinn óánægður með hvernig það bragðaðist og sagði þessi fleygu orð  

,,Þetta er eins og sjálfdauð rolla sem, varð fyrir bíl”


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Páll Jóhannesson
Páll Jóhannesson

Akureyringur, eiginmaður, pabbi, afi, Þórsari,  jafnaðarmaður, City - fan og Áfram Þór alltaf, allstaðar.

Hafi einhver áhuga að senda mér tölvupóst þá sendið á pallijo@internet.is

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

235 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband