22.4.2008 | 23:27
Af hverju þegir hún, eins og hann?
Máltækið segir ,,ýmist í ökkla eða eyra". Það getur verið stutt á milli sorga og gleði. Um helgina missti elsta barnabarnið fyrstu barnatönnina og skartar nýju og öðruvísi brosi um stundar sakir. Var búin að bíða talsvert eftir þessu. Það undarlega er að hún varð ekki vör við það strax og tönnin finnst ekki. Kannski tannálfurinn hafi verið á undan og látið hana hverfa, hver veit. Venjan í okkar fjölskyldu er sú að setja fyrstu barnatönnina sem dettur undir koddann og svo
kemur þessi blessaður tannálfur og framhaldið...... Finnist ekki þessi blessaða tönn þurfa foreldrarnir að tækla nýtt ástand, gaman af þessu. Litla systir hennar pælir talsvert í þessu en virðist samt ekkert ætla fara á límingunum og er undrandi á þessu tilstandi hjá stóru systir, hvað er svona merkilegt við að missa tönn? Áhugaverð pæling hjá henni. Hún stendur eins og venjulega álengdar og lætur lítið fyrir sér fara. Hún veit að þetta er nokkuð sem á eftir að koma hjá henni og tekur bara á því þegar þar að kemur.
Skrapp í gær í Seljahlíðina. Þar fóru klippurnar á loft og sá fullorðni fékk sína hefðbundnu klippingu sem einhvern tíman hefði kallast ,,næstum allt af". Ekki svo að skilja að það þurfi mikið til að allt fari af en það má ekki. Sá gamli verður jú að líta vel út. Já líta vel út.... Eftir því sem hann segir sjálfur er hann í virtri leynireglu og þar vill hann líta út eins og maður en ekki útigangsmaður. Þessi leyniregla er svo leynileg að maður veit nánast ekkert hvað er í gangi. Hvað geri þið þarna? af hverju mega ekki konur vera á fundum með ykkur? hann þegir og segir ekkert. Setur upp undarlegan og dularfullan svip og segir þú verður að ganga inn til að komast að öllum leyndardómunum. Má ég þá segja öllum frá........? spyr ég......... nei þú segir nákvæmlega engum frá..... Kannski þetta sé ekkert fyrir mig ef ég þarf að þegja?
Hrönn ,,litla" systir þegir eins og gröfin um hvaða nám það sé sem hún er að pæla í. ,,Það kemur bara í ljós þegar þar að kemur" segir hún og setur upp undarlega svip og verður dularfull. Hvað veldur, af hverju getur hún þagað? ætli hún sé í þessari reglu með þeim gamla, veit ekki en.... hlakka til að fá að vita hvað hún ætlar sér.
Ýmist í ökkla eða eyra, stutt á milli hláturs og grátur og allt það. Litli frændi minn hann Ívan Freyr sonur Anítu frænku minnar sem er systurdóttir mín og býr suður með sjó eða nánar tiltekið i Njarðvíkurborg var fyrir því óláni að fá yfir sig sjóðandi heitt vatn og brenndist illa á fótum. Litli snáðinn hlaut 2. stigs brunasár á tám beggja fóta sem og á ristum. Sem betur fer lítur allt út fyrir að sárin séu minni en horfðist á í upphafi. Vonandi mun þetta ekki há honum í framtíðinni, en ljóst er þó að hann muni bera ör á fótunum. Við höldum í vonina að máltækið góða ,,allt er got sem endar vel" muni eiga við þegar upp verður staðið. Sendi þeim öllum baráttukveðjur og held áfram að senda þeim hlýjar hugsanir.
Horfði á sjónvarpsþáttinn Kompás í kvöld. Eftir að hafa horft á þáttinn þá velti ég því fyrir mér hvernig maður fái sig til þess að væla yfir smámunum sem margur glímir við. Þvílíkt æðruleysi hjá þessu fólki sem þar var tekið fyrir. Ef þetta ætti ekki að vera manni næg hvatning til þess að horfa björtum augum til framtíðar og þakka fyrir það sem maður hefur og á. Auðvitað á maður að ganga út í hvern dag þakklátur fyrir það sem maður hefur. Ég bara má til með að taka mér þetta fólk og sérstaklega þennan dreng til fyrirmyndar, bara má til.
Í lokin kemur læt ég svo fylgja með eina mynd sem ég tók af Jón Páli í dag hér á sólpallinum þar sem kappinn naut lífsins með bíla í ró og næði. Sá stutti neitar að taka niður húfuna þrátt fyrir mikla sól og talsverð hlýindi. Greinilegt að hann kann að haga seglum eftir vindi og klæða af sér hitann.
Málsháttur dagsins: Svo er frágangurinn sem fingurnir er unnu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.4.2008 | 23:27
Frábærir tónleikar
Annasöm helgi að renna sitt skeið. Horfði á föstudagskvöldið á bandið hans Bubba. Ágætis skemmtun, fyrirsjáanleg úrslit. Tveir góðir söngvarar en að mínu mati sigraði sá betri. Dottað yfir öðru í imbanum. Spaugstofan stóð fyrir sínu. En, enn og aftur sama sagan, þeir þurfa ekkert að brillera til þess að manni finnist þeir standa sig með ágætum. Sá loksins bíómynd í gærkvöld með Rowan Atkinson þar sem hann lék alvarlegt hlutverk. Flott mynd.
Í dag var svo vægast sagt mikið að gera. Afmælistónleikar í Glerárkirkju. Óhætt að segja að þeir hafi staðið undir væntingum. Ríflega 300 manns komu sáu og hlýddu á stórkostlega listamenn þenja raddböndin. Álftagerðisbræður og Konnararnir ollu engum vonbrigðum. Þeir fluttu hverja perluna á fætur annarri eins og þeim einum er lagið. Í lok tónleikanna létu þeir tónleikagestina rísa úr sætum og syngja með sér lagið ,,Undir bláhimni". Það var geggjað. Konnararni og Álftagerðisbræður ásamt tónleikagestum fá 10 af 10 mögulegum í einkunn. Verð að gefa tengdasyninum stóran plús fyrir flotta kynningu í upphafi tónleika.
Aðeins að boltanum. Í gær héldu stelpurnar úr Þór/KA suður yfir heiðar og kepptu við Aftureldingu í Lengjubikarnum. Skemmst er frá því að segja að norðan stúlkur unnu 0-5 sigur og eru efstar í keppninni. Flott hjá þeim.
Mínir menn í Manchester City fengu í dag Hermann Hreiðarsson og félaga í Porstsmouth í heimsókn í dag. City vann 3-1 sigur og það sem meira er að Hermann okkar Hreiðarsson lét reka sig af velli fyrir brot og á yfir höfði sér allt að þriggja leikja bann. Ekki gott fyrir þennan Eyjapeyja. Gat ekki horft á þennan leik þar sem hann bar uppá sama tíma og tónleikarnir og vinir mínir í City reyndu allt hvað þeir gátu ti að hliðra fyrir og færa leikinn en allt kom fyrir ekki. Hef það fyrir satt að það sé Hemma og félögum að kenna. En allt í góðu.
Deginum slúttað svo með því að fara heim og grilla. Komu mamma og pabbi og Anna ,,stóra" systir en þau voru einnig á tónleikunum.
Lamb, svín og kjúlli með maís og jarðeplum rataði á glóðirnar. Þessu gerði fólk ágæt skil.
Set svo inn eina mynd sem ég tók af þeim fullorðna þar sem hann fór út á sólpall eftir matinn saddur og sæll með bokku í hönd.
Bara til að fyrirbyggja allan misskilning þá var ekkert hættulegt í bokkunni sem sá fullorðni tók sér í hönd og dreypti á. Enda þótt svo hefði verið þá er hann þekktur fyrir hófsemi af hæstu gráðu svo þetta hefði hvort eð er orðið í góðu lagi.
Málsháttur dagsins: Það er stutt brú milli klókinda og lymsku.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
20.4.2008 | 13:55
Álftagerðisbræður og Konnarar - þú mætir.
Brjálað að gera enda tónleikarnir að bresta á. Nú er um að gera drífa sig í sitt fínasta púss og mæta á Tónleikana í Glerárkirkju með Álftagerðisbræðrum og Konnurunum.
Sjáumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2008 | 22:55
Álftagerðisbræður og Konnararnir - þú mætir
Veðrið leikur við landann. Maður hoppar og skoppar út um allar koppagrundir eins og belja að vori. Reyndar hoppa ég ekki mikið í orðsins fyllstu, en hugurinn ber mann hálfa leið. En kannski limaburðurinn minn, minni á belju á vori, hver veit? Á gamla blogginu sem ég var með á blog.central.is var ég með svæði sem ég kallaði ,,Vísnahorn Páls afa". Þar birti ég margar vísur eftir Pál heitinn afa. Ég hlaut ekki þá náðargjöf að yrkja vísur. Mamma og pabbi eru liðtæk í þessari list. Og nú er svo komið að Jói Mar ,,litli" bró stekkur fram á vísnasviðið og hendir fram hverri perlunni á fætur annarri. Er svo komið að manni er svaraði í bundnu máli, sem er bara snilld. Flottar vísur og greinilegt að þessi list hefur a.m.k. fallið honum í skaut. Hver veit nema maður komi með vísnahorn Jóa? væri í.þ.m. vel við hæfi. Hvet Jóa til að halda þessu áfram - go Jói go.
Í kvöld var talsvert um að vera í Hamri. Þar var verið að taka í notkun nýja aðstöðu sem hefur hlotið nafnið Friðriksstofa. Þar er gufubaðs- og nuddpotts aðstaða með sjónvarpi og öllu tilheyrandi lúxus. Þá var einnig tekin í notkun svonefnt þjálfarasetur þar sem þjálfurum gefst kostur á að koma með íþróttahópa og lið til þess að horfa á fræðsluefni eða leiki sem teknir hafa verið upp. Þarna er stefnt að því að þegar fram líða stundir verði til mikið safn fræðsluefnis úr öllum greinum íþrótta. Og að lokum er gaman að segja frá því að Ragnar Sverrisson kaupmaður í JMJ gaf Íþróttafélaginu Þór fullkomið hjartastuðtæki sem staðsett verður í Harmi til taks ef eitthvað ber út af. Ragnar sagði við þetta tækifæri að sér væri þetta ljúft og skylt að gefa félaginu tækið en um leið vonaðist hann til að aldrei þyrfti að koma til að nota þurfi tækið, það vona að sjálfsögðu allir.
Ætla nota tækifærið og minna fólk á Afmælistónleikana sem körfuknattleiksdeild Þórs stendur fyrir og verða í Glerárkirkju sunnudaginn 20. apríl og hefjast kl 16:00. Gæti þó farið að auka tónleikar verði settir á sem myndu hefjast kl. 18:00. Við sjáum til. En víst er að það verður gaman að hlusta á þá Álftagerðisbræður og Konnaranna koma saman og hefja upp raust sína.
Ég held að þetta sé viðburður sem óhætt er að mæla með að fólk mæti á. Aðgangseyri er kr. 2500 sem getur ekki talist hátt verð fyrir svona viðburð.
Föstudagur á morgun með föstu liðum. Kaffi í Hamri eins og vanalega alla föstudaga.
Fróðleikur dagsins: Betra er að ganga of langt en standa í stað.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
16.4.2008 | 23:51
Veldur reiðhjólanotkun svifriksmengun?
Bloggaði í gær um að vorhugur væri í fólki. Það er engin lygi. Maður opnar vart útvarpið án þess að heyra að rætt sé um svifrik hér og þar og allstaðar, nagladekk eða loftbólur, heilsársdekk....... eða guð má vita hvað. Maður er komin með samviskubit af því að eiga þátt í að slíta þessum andsk... götum. Hvað er til ráða? ætli maður myndi svifrik á því að hjóla, stunda göngutúra? rafskutlur sem auglýstar eru í gríð og erg?
Með hækkandi sól og þegar snjórinn er á hröðu undanhaldi og snjóruðningar bráðna hægt og bítandi fylgir því mikil drulla og sóðaskapur. Veit ekki með ykkur en stundum læt ég þetta fara í taugarnar á mér svona pínulítið. Þótt veðrið sé fallegt er þetta skítugt veðurfar. Maður kemst varla milli bílaþvottastöðva án þess að bílinn verði.......
Hvað með það. Tók mig til og þreif hann hátt og lágt í dag. Tjöruþvottur, ryksuga sleiktur stuðaranna á milli. Þetta hafði smitandi áhrif. Dagga sem var í heimsókn með krakkana tók sig til og réðist á sína japönsku drosíu í gegn. Jón Páll var alveg að fíla þetta uppistand allt saman í kringum bílanna. Afi bíla, afi bíla..... Sá stutti var orðin rennandi blautur, sæll og ánægður með lífið þegar þvottinum var lokið. Fékk að hjálpa til - enda ekki seinna vænna að fara kenna honum réttu handtökin.
Fundur í kvöld í safnaðarheimilinu þar sem undirbúningur að Þýskalandsför æskulýðskórsins er að komast á lokastig. Löngum og ströngum vetri að ljúka í þeim málum en þó umfram allt skemmtilegum vetri. Verður mikið um dýrðir þegar hópurinn fer til Þýskalands í byrjun júní.
Körfuboltinn rúllaði í kvöld. Ég sem hafði vonast til að ÍR - ingar myndu koma á óvart og slá Keflvíkinga út, stóðu ekki undir mínum væntingum. Þeir sprengdu sig á fyrstu tveimur leikjunum þar sem þeir komust í 2-0. En í raun geta þeir borið höfuðið hátt. Verður gaman að fylgjast með rimmu Snæfells og Keflavík í úrslitum. Vona að Snæfellingar nái að klára og vinna sinn fyrsta Íslandsmeistaratilill í körfubolta. Það yrði sigur fyrir íþróttina að fá nýtt nafn skráð í sögubækurnar.
Fróðleikur dagsins: Sjaldan er konan reið eftir reið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.4.2008 | 17:38
Kraftur í kellu
Það er klárlega komin vorfiðringur í fólk. Með hækkandi sól og ört hækkandi hita hverfa snjóruðningar hægt og bítandi. Nagladekkin fjúka brátt og sett í geymslu. Sjá má fólk út um allar trissur pjakka í snjóruðninga og þannig reyna flyta fyrir bráðnun. Lundin léttist á fólki, nema hvað?
Horfði á beina útsendingu í gærkvöld frá leik Snæfells og Grindavíkur í undanúrslitum í Íslandsmótsins í körfubolta. Hélt á tímabili að Grindvikíngar væru að klára leikinn. Heimamenn voru höfðu þagnað þegar liðið var komið 19 stigum undir í 4. leikhluta. Gaupi sagði ,,nú eru lömbin þögnuð hér í Fjósinu" eins og íþróttahúsið í Stykkishólmi er kallað. En hann hafði vart lokið við að segja þetta þegar Snæfellsliðið hrökk í gagn og þaggaði niður í Gaupa. Æsispennandi lokamínútur og framlenging og Snæfell er komið í úrslit. Flott hjá þeim. Svo er bara bíða og sjá hvort það verði ÍR eða Keflavík sem komast í úrslitaleikinn gegn Snæfelli.
Verð að játa að ég er dálítið spenntur. Auglýsingar um næsta Kompás sjónvarpsþáttinn gefa til kynna að einhver sori sé þar í gangi. Eru glæpamenn á bak við þessa fyrirhuguðu olíuhreinsunarstöð? Er þetta ráðlegt að rjúka út í þessa framkvæmd? Væri kannski betra að finna eitthvað minna í sniðum og ráða vel við án þess að flytja inn erlent vinnuafl til að vinna fyrir okkur? Ég veit ekki en ætla gefa þessu auga og eyra í kvöld.
Las á bloggi Hrannar systur minnar að hún sé aftur farin að spá í að fara í skóla. Ekki svo langt síðan hún lauk námi með stæl. Ég tek ofan fyrir henni og ef hún hyggur á frekara nám þá set ég upp hatt og tek hann svo ofan fyrir henni. Greinilegt að með aldrinum færist bara kraftur í þessa ,,litlu" systir - go Hrönn go.....
Málsháttur dagsins: Lempinn maður hefur lykil að annars vilja.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
13.4.2008 | 00:28
Eins og sannur Íslendingur
Við hjónin buðum vinum okkar þeim Ívani og Dagnýju í heimsókn í gær. Dró af því tilefni upp úr pússi mínu dýrindis uppskrift af kjúklingapottrétti sem eldaður var í fermingarveislu um árið þegar Sædís var tekin í fullorðinsmannatölu. Uppskriftin kemur frá kunningja mínum honum Peter Jones sem lést fyrir skömmu langt fyrir aldur fram. Peter var afar snjall kokkur og ekki á hvers manns færi að fara í fötin hans. Peter sagði mér um árið þegar hann lét mig fá þessa uppskrift - þessi klikkar aldrei - aldrei, nema maður vilji endilega láta hana klikka. Og, í gærkvöld fór ekkert úr skorðum.
Eftir mat horfðum við á Bubbabandið. Kom á daginn enn og aftur þvílíkur snilldar listamaður hinn Dalvíski Eyþór Ingi er. Hef sagt það áður og segi það enn það er engin spurning hver vinnur þessa keppni þetta er aðeins spurning um hver lendir í öðru sætinu. Og þar sem aðeins tveir keppendur eru eftir eru úrslitin ráðin og óþarft að setja úrslitaþáttinn í loftið.
Laugardagurinn nokkuð rólegur svona framan af. Dagga kom í heimsókn með allann skarann að fyrirvinnunni undanskilinni - hann var auðvitað að vinna, enda fyrirvinna. Restin af pottréttinum etinn upp til agna svo ekki var tangur né tekur eftir.
Fylgdist með beinni lýsingu á www.bbc.uk.co þegar mínir menn í Manchester City léku gegn Sunderland á heimavelli þeirra Stadium of light ,,leikvangi ljóssanna". Ekki spyrja að því að mínir menn ollu mér engum vonbrigðum og unnu sætan 1-2 sigur. Sitja nú í 8. sæti úrvalsdeildarinnar með 52 stig. Það er bara í fínu lagi.
Úrslitakeppnin í körfubolta heldur áfram. Suðurnesjaliðin Keflavík og Grindavík komu tvíelfd til baka og unnu sannfærandi sigra á andstæðingum sínum. Þau neita að gefast upp. Eins og ég sagði áður þá endurtek ég ,,spyrjum að leikslokum".
Íslendingar eru stundum dálítið klikkaðir. Og ég er örugglega engin undantekning. Enn er kalt í veðri þrátt fyrir þá staðreynd að sólin sýndi sig af og til, það er jú enn vetur. Sannkallað gluggaveður. Grillið komið undan snjónum og sæmilega fært að því. Hvað þá?. Útá pall gera klárt - grilla. Hugsið ykkur það er enn vetur og maður lætur sig hafa það að klæða sig í flíspeysu og allar græjur fer út að grilla með bros á vör eins og ekkert sé eðlilegra - er þetta eðlilegt? Kvef á morgun, hver veit, ekki ólíklegt.
Eftir stuttan undirbúning var tekið til við að kveikja upp í græjunni. Í gang í fyrsta, nema hvað?. Þannig er það með alvöru græjur þær hrökkva í gang við fyrsta hanagal. Og eins og sannur Íslendingur þá á maður náttúrulega ekki neina druslu, heldur alvöru græju sem alltaf fer í gang í fyrsta starti. Dagga, Jói og krakkarnir létu sig ekki vanta, hver lætur sig vanta þegar grill ilminn leggur og liðast um loftin blá? Reyndar var grillað vegna síendur tekins nöldurs sumra, sem ekki nenntu sjálfir að standa í þessu. En þeir höfðu þó með sér nesti sem þeir fengu húsbóndann til að grilla.
Þegar grillilmur leggur og fer að liðast um loftin blá dregur hann fleiri að en boðnir eru. Mávagerið rennur fljótt á lyktina. Ekki hafði ég lengi staðið við grillið þegar mávagerið fór að sveima yfir Drekagilinu með tilheyrandi gargi. En ólíkt gestunum sem hafði verið boðið var hinum óboðnu gestum ekki boðið og urðu þeir að láta lyktina nægja. Ég er einn þeirra sem þykir vera heldur mikið til af þessum fiðurfénaði þ.e. mávum.
Spaugstofan klikkaði ekki. En er samt farin að halda að þótt þeir kæmu með þátt sem ekki væri séns á að hlægja af þá myndi maður samt hafa gaman af, þótt ekki væri nema af gömlum vana. Þetta eru jú alveg einstakir vitleysingjar sem alltaf standa fyrir sínu.
Fróðleikur dagsins: Reynsla er nokkuð sem maður fær ekki fyrr en eftir að maður þarf á henni að halda.Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.4.2008 | 08:30
Af hverju byrgja menn brunninn alltaf eftir á?
Veit ekki hvort það er ráðlegt að skrifa um efnahagsmál? Davíð spáir hruni á fasteignamarkaðnum, hann hækkar stýrivexti svo nú eru þeir svo háir að ekki er þorandi að hafa orð á. Dabbi segir staða íslensku bankanna svo sterka að ekki þurfi að hafa af þeim áhyggjur ,,þeir bjarga sér sjálfir". Davíð vill harða lendingu. Samfylkingin sagði þegar hún var í stjórnarandstöðu að ef ekki yrði tekið í taumanna þá fengjum við harða lendingu. Því miður virðist í augnablikinu sem Samfylkingarfólk muni reynast sannspá. En það sem meira er að þegar menn hófu máls á þessu fyrir 2-3 árum spýttu framsóknarmenn og sjálfstæðismennirnir bara í lófana og gáfu í og lokuðu augunum. Óttast að mitt fólk í ríkisstjórninni eigi eftir að blæða vegna stjórnleysi undangenginna ára undir stjórn Sjálfstæðis- og framsóknar, því miður. Gott og vel ætli það sé nokkuð ráðlegt að fara meira út í þessa sálma? næsta mál.
Körfuboltavertíðinni ekki lokið og enn og aftur eru við að verða vitni af skemmtilegum hlutum. Allt stefnir í að Snæfell og ÍR leiki til úrslita, en þó ekki 100% öruggt því Keflvíkingar eru jú deildarmeistarar með snjalla leikmenn og frábærann þjálfara og geta komið til baka. Grindvikíngar eru komnir með bakið upp að vegg komnir undir 2-0 en líkt og hjá nágrönnum þeirra í Keflavík þá er þetta ekki búið.
Fyrir tveimur árum lentu mamma og pabbi í alvarlegu bílslysi á Reykjanesbrautinni á stað þar sem framkvæmdir stóðu yfir. Þau munu aldrei bíða þess bætur - ALDREI. Hvar var fjölmiðlafólk þá? af hverju var ekki fjallað um það slys með mjög áberandi hætti í fjölmiðlum? Hvernig stendur á því að Vegagerðin og ráðamenn ruku ekki upp til handa og fóta?. Af hverju voru þeir ekki boðaðir í viðtöl og látnir svara fyrir af hverju aðstæður væru svona en ekki einhvern vegin öðru vísi? Getur það verið vegna þess að þetta fólk er ekki frægt? Voru fjölmiðlar búnir að gleyma því að sá ,,gamli" er fyrrum tvöfaldur heimsmeistari í kraftlyftingum öldunga? Eða getur það verið að þetta sé allt skeytingaleysi ættingjanna að fara ekki út um allt og krefjast bóta? Ég veit ekki, en það er sorglegt að það lítur út fyrir að það sé ekki sama hvort um Jón eða sr. Jón er að ræða. Vonandi fara menn að byrgja brunna áður en blessuð börnin detta ofan í hann.
Nú á eftir ætla ég líkt og venjulega fara í Hamar og drekka kaffi og eta mitt ristaða brauð með félögum mínum sem þangað koma alla föstudaga. Við munum ræða öll helstu vandamál sem steðja að í lífinu og leysa þau, eins og þessum hóp einum er lagið.
Málsháttur dagsins: Oft falsar fögur mynd og lýgur ljúf ásýnd.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
9.4.2008 | 12:01
President Palli
Óhætt að segja að dagurinn í gær hafi verið annasamur í meira lagi. Barnapössun fram eftir degi og snúningar í kringum það.
Sat 58. ársþing ÍBA í gær sem hófst kl. 18:00. Á síðast þingi ÍBA sem haldið var fyrir tveimur árum var ég skipaður Þingritari. Án þess að hafa stefnt að því þá varð það embætti stökkbretti í eitthvað meira og hærra. Fór svo að ég var skipaður Þingforseti nú og naut þess í nærri þrjár klukkustundir að vera ávarpaður hr. Forseti. Skemmtileg nýbreytni. Er samt ekki viss um að þetta eigi eftir gerast aftur að maður geti notið þess, en hver veit, maður skal aldrei segja aldrei.
Strax að loknu þingi var stefnan tekin út í Hamar og þar tók næsti fundur við sem hófst kl. 21:00. Þótt körfuboltavertíðinni hjá meistaraflokkum sé lokið þá er nóg framundan. Skipulagning tónleikanna sem fram fara í Glerárkirkju þann 20. apríl þar sem Álftagerðisbræður og Konnararnir koma fram. Þar verður mikið um dýrðir og komin er mikill spenningur í fólk. Fundi lauk ekki fyrr en rúmlega 23:00 þokkalega fundarseta þennan daginn.
Meira tengt íþróttastarfi Þórs. Þá tókum við Þórsarar við lyklavöldum í Boganum og nú er framkvæmdastjóri félagsins forstöðumaður Bogans. Búnir að berjast fyrir þessu allar götur frá því að húsið var tekið í notkun. Á þessu sést að maður má aldrei gefast upp, aldrei.
Fagna nýjum bloggvini í dag. Er þar Margith Eysturtún hin Færeyiska listakona, sem er eiginkona systursonar míns Vigfúsar Má Ragnarssonar en þau búa í Danmörku landi Margrétar drottningu. Margith er mikil listakona í víðri merkingu þess orðs. Hún er gríðarlega góð söngkona, hreint út sagt frábær kökuskreytingamaður og afar fær í skrautskrift. Ég get því miður ekki leitt ykkur sem ekki til þekkja í sannleikann um hversu góð söngkona hún er en ef ég segi að hún kalli fram ,,Gæsahúð" í jákvæðum skilningi þegar hún syngur þá vitið þið hvað ég á við. Kökurnar hennar er hægt að sjá á blogginu. Og þegar svona listaverk eru skoðuð þá segir maður bara eins og gæinn á ,,Næturvaktinni" ,,Já sæll". Margith velkomin í bloggheiminn.
Fróðleikur dagsins: Þann 9. febrúar 1942 hófst sápuskömmtun í Bretlandi.Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
7.4.2008 | 22:11
Einstakur viðburður - ekki klikka á að mæta.
Gaman að fylgjast með úrslitakeppninni í körfubolta karla. ÍR -ingar hafa svo sannarlega komið á óvart í 8 liða úrslitum. Byrjuðu á að taka Íslandsmeistara KR og slá þá út. Fóru svo til Keflavíkur og lögðu deildarmeistarana sjálfa í ,,Sláturhúsinu" í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum. Snæfell hóf í kvöld sína rimmu gegn Grindvíkingum í ,,Röstinni" heimavelli Grindvikínga og höfðu þar sigur. Alla vega er ljóst að nýir Íslandsmeistarar verða krýndir í ár - það er bara hið besta mál og gerir þetta meira spennandi.
Um helgina stóð körfuboltadeild Þórs fyrir körfuboltaskóla fyrir grunnskólakrakka krakka úr 4. - 9. bekk. Körfuboltakappinn Baldur Ingi Jónasson sá um skipulagningu og stjórnaði æfingunum eins og honum einum er lagið. Tókst skólinn með miklum ágætum og mikið fjör og mikið gaman hjá krökkunum. Sérstaklega gladdi hversu margar stúlkur mættu og reyndu sig. Vonandi boðar það gott.
Meira af íþróttatengdu málum úr Þór. Körfuboltastjórn Þórs er 50 ára á þessu ári og af því tilefni verða haldnir ,,Afmælistónleikar" í Glerárkirkju þann 20. apríl. Þar munu Álftagerðisbræður og ,,Konnararnir" leiða saman hesta sína. Er óhætt að segja að þessi atburður sé einstakur í sinni röð enda ekki á hverjum degi sem þessir snjöllu listamenn koma fram saman. Forsala miða hefst á föstudag og verður hægt að kaupa þá í Pennanum/Eymundsson í Hafnarstræti sem og í Hamri félagsheimili Þórs. Skora á fólk að tryggja sér miða í tíma enda verður takmarkað framboð miða.
Í dag var endanlega ákveðið að líkan af Snæfellinu sem sá fullorðni hefur verið að dunda sér við að smíða verður varðveitt á matsölustaðnum Friðriki V. Verður skipið sett í glerbúr og haft til sýnis þar og er það vel við hæfi þar sem þessi matsölustaður er í gömlu Bögglageymslunni sem KEA átti. Snæfellið EA 740 var smíðað í skipasmíðastöð KEA og var ef ég man rétt stærsta skipið sem sú skipasmíðastöð smíðaði.
Sól hækkar á himni með hverjum deginum sem líður og lundin léttist á fólki. Er komin vorfiðringur í fólk og óhætt að segja að fólk sé í alvöru farið að biða eftir vorinu. Fór með bílinn í skoðun í dag og er skemmst frá því að segja að kagginn fékk ég fullt og óskorað umboð um að mega aka honum áfram um götur bæjarins og kagginn fékk sitt heilbrigðisvottorð stimplað ,,Í lagi"
Slagorð dagsins las ég einhvern tímann einhverstaðar og hljóðar svo: Ég gat ekki gert við bremsurnar í bílnum svo ég hækkaði bara í flautunni.
Bloggar | Breytt 9.4.2008 kl. 16:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
235 dagar til jóla
Bloggvinir
Tenglar
Flickr myndasíður
- Palli Jóh Hér birti Palli Jóh uppáhaldsmyndirnar sínar.
- Dagga -flikkar
- Runólfur
- Svanný
- Rúnar Haukur
- Merkjamanni
- Þórólfur Sveinsson
- Þórður Halldórsson
- Bói Flickr
- Ívan flikkar
- Sigfríður Guðný
Íþróttaklúbbar.
- Íþróttafélagið Þór
- Manchester City
- Chicago Bulls
- Arsenal fyrir Sölla
- Knattspyrnusamband Íslands
- Körfuknattleikssamband Íslands
- Karfan.is
Áhugaverðar síður.
- Pólitíkin
- Gunnar Ísfirðingur
- Hallandsnes
- Ljósstaðafólkið
- Samfylkingin á Akureyri
- Ungir jafnaðarmenn á Akureyri
- Skúli miðill
- Vísisblogg hjá Gunnari Th. Afbrags góður bloggari.
- Gummi Odds í Ameríku Doktor í smíðum
- Valberg og Steinun blogga
- Palli Jóh á Youtube Myndbönd Palla Jóh
Fjölskyndan bloggar.
Nýjustu færslur
- 4.4.2012 Myndbands- og myndablogg
- 14.3.2012 Smá uppfærsla
- 24.12.2011 Gleðileg jól
- 1.8.2011 Á lífi
- 25.4.2011 Að leika við hvurn sinn fingur
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.5.): 2
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 190842
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 11
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar