Leita í fréttum mbl.is

Aðfangadagur

Kæru vinir nær og fjær til sjávar og sveita! Vonandi munið þið eiga gleðileg jól með ástvinum ykkar og njóta hins sanna jólaanda.

 KertasníkirJólasveinn dagsins og sá seinasti í röðinni er Kertasníkir. Hann fær sitt pláss hér eins og bræður hans, nema hvað? Um hann var ort:

Þrettándi var Kertasníkir, -þá var tíðin köld, ef ekki kom hann síðastur á aðfangadagskvöld. Hann elti litlu börnin, sem brostu glöð og fín, og trítluðu um bæinn með tólgarkertin sín.

Verð að játa að þetta þótti mér undarlegt þegar ég var lítill drengur. ,,Elti börnin" skildi engan undra ef einhver börn hafi verið skelkuð ef satt reyndist. En, hef þó engar sönnur fengið á þessari undarlegu hegðun þessa annars geðþekka jólasveini.

Leiði tengdaforeldrana.Eins og venjulega var tekin rúntur upp í kirkjugarð og leiði látinna ættingja heimsótt og gætt að hvort ekki væri allt með felldu. Læt mynd fylgja með sem ég tók við leiði látinna tengdaforeldra minna.

Meðal þeirra leiða sem maður vitjar í kirkjugarði Akureyrar eru: leiði föðurforeldra minna, tengdaforeldra.  Í kirkjugarði Lögmannshlíðar hvíla m.a. móður foreldrar mínir sem ég vitja ásamt leiði Áka heitins vinar míns, sem lést langt fyrir aldur fram árið 1994 þá einungis 36 ára gamall. Áki var jafnaldri minn og besti vinur. Áka sakna ég oft en minningin um þann góða dreng er ljúf, og ég er ævinlega þakklátur fyrir það að hafa fengið að kynnast þessum ljúfa dreng.

 Eins og sjá mér er komin örlítil snjóföl og er óhætt að segja að lifnað hafi yfir mörgum sem ekki geta hugsað sér jól á snjóa.

AkureyrarkirkjaAð morgni Þorláksmessudags skrapp ég á rúntinn og skoða jólaskreytingar enda skartar bærinn sínu fegursta og jólaskreytingar með meir glæsibrag en áður hefur sést.

Akureyrarkirkja er jú eitt að þekktari kennileitum bæjarins, fallegt hús sem hannað var af húsameistara ríkisins Guðjóni Samúelssyni.

Guðjón Samúelsson fæddist árið 1887. Hann var fyrstur Íslendinga til að ljúka námi í byggingarlist 1919. Guðjón gegndi embætti húsameistara ríkisins um nokkurt skeið og hannaði fjölda bygginga og hafði mikil áhrif á byggingarlist síns tíma.

Akureyrarkirkja var byggð á árunum 1940-1941.

Í Akureyrarkirkju er mikið og stórt pípuorgel sem þótti afar mikið hljóðfæri á sínum tíma þegar það var tekið í notkun. Sumum þótti nóg um hve mikið það kostaði. Páll afi minn Friðfinnsson sem var hagmæltur mjög orti m.a. við þetta tækifæri.

Í kirkjunni okkar var hátíðardagur í dag, dunandi hljómur um hvelfingu hennar liðu.

Á orgelið nýja er leikið var lag eftir lag, ja, loks er hún komin, stundin, er snobbarnir biðu.

Ó, himneski faðir, hreyfst ekki líka af því, að heyra þessa voldugu orgelsins tóna

Og eiga slíkt hljóðfæri okkar guðshúsi í. Fyrir eina milljón og tvö hundruð þúsundir króna.

GlerárkirkjaGlerárkirkja, er nýjasta guðshúsið á Akureyri og þjónar það prestakall Glerárhverfi, Lögmannshlíðarsókn sem og Grímsey. Glerárprestakall var stofnað árið 1981. Pétur Sigurgeirsson þáverandi Biskup yfir Íslandi tók fyrstu skóflustunguna að byggingunni árið 1984. Fyrsta messan var svo 7. júní 1987. Kirkjan var svo formlega vígð 15. febrúar árið 1987 og þar var á ferð Biskupinn Pétur Sigurgeirsson.

Móður foreldrar mínir þau Páll Friðfinnsson og Anna Ólafsdóttir sungu um langt skeið með kirkjukór Lögmannshliðar sem síðar sameinaðist Glerárkirkjuprestakalli. Myndin af Glerárkirkju er hins vegar tekin að morgni aðfangadags. Eins og sjá má hafa veður guðirnir bænheyrt þá sem vilja hvít jól og örlítil föl liggur yfir nú, þó varla hægt að kalla snjó, frekar smá sýnishorn.

GuðshúsÍ lokin læt ég svo fylgja mynd sem ég tók fyrir réttu ári af ,,gömlu" Lögmannshlíðarkirkju. Þessi gamla kirkja var vígð á aðventunni árið 1986 eftir því sem ég næst kemst.

Eftirfarandi fróðleik fann ég á netinu um Lögmannshlíðarkirkju. ,, Þó svo að Lögmannshlíð hafi aldrei verið eiginlegt prestssetur hefur staðið kirkja þar frá fornu fari. Núverandi kirkja er arftaki torfkirkju sem hafði verið reist 1792. Það var Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni (1796-1882) sem hafði frumkvæði að kirkjubyggingunni, útvegaði efni og réði smið. Yfirsmiður var Jóhann Einarsson frá Syðri-Haga á Árskógsströnd. Endanlegur reikningur vegna kirkjusmíðarinnar sem var gerður 31. ágúst 1866 sýnir að bygging kirkjunnar kostaði 1.157 ríkisdali og 11 skildinga.

Í vísitasíubók Eyjafjarðarprófastsdæmis er að finna lýsingu Daníels prófasts Halldórssonar frá 1862. Þar er kirkjan sögð 15 og 1/2 al að lengd, byggð á fótstykkjum með bindingsverki allt um kring, klædd að utan með slagborðum og alþiljuð að innan með slagborðum. Smíði á húsinu er sögð vönduð og tekið fram að máttarviðir kirkjunnar séu sterkir.

Með nýrri prestakalla- og sóknaskipan árið 1880 varð Lögmannshlíðarsókn hluti af Akureyrarprestakalli og tilheyrði þá ekki lengur Glæsibæjarprestakalli. Árið 1981 var prestakallinu skipt og nýtt prestakall varð til á Akureyri, Glerárprestakall. Lögmannshlíðarsókn og þar með Lögmannshlíðarkirkja tilheyrðu hinu nýja prestakalli. Lögmannshlíðarkirkju er vel við haldið í dag og fara þar fram stöku sinnum kirkjulegar athafnir og helgihald".

Að svo sögðu sendi ég ykkur öllum mínar bestu jóla- og nýjárs óskir Gleðileg Jól.

Málsháttur dagsins: Varastu það sjálfur sem þú vítir á öðrum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Páll Jóhannesson
Páll Jóhannesson

Akureyringur, eiginmaður, pabbi, afi, Þórsari,  jafnaðarmaður, City - fan og Áfram Þór alltaf, allstaðar.

Hafi einhver áhuga að senda mér tölvupóst þá sendið á pallijo@internet.is

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

241 dagur til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband