Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Aðeins á annað kíló

Allir hlægja á öskudaginn ó mér finnst svo gaman þá........ hver man ekki eftir þessu? Það var líf og fjör út um allan bæ frá því snemma í morgun og fram undir hádegi en þá fór að fjara undan eins og venja er til. Þá snúa börnin til síns heima og þá tekur við annars konar vinna - skipta nammi.

Það er af sem áður var þegar ég var krakki að maður gekk bæinn þverann og endilangan milli fyrirtækja og verslana til að hefja upp söng og þiggja góðgæti að launum. Í dag er umferðarþungi bíla með ólíkindum. Börnum er ekið milli staða af miklu kappi. Börnin mega jú ekki ganga of mikið - eða kannski er þetta af hagkvæmni ástæðum - þ.e.a.s. til að börnin komist yfir nægilega mikið.

oskudagur.jpg

Tvö af barnabörnum mínu sem eru hér í fallegu Þórsbúningunum fóru eins og önnur börn í bæinn og í hin ýmsu fyrirtæki og hófu upp raust sína og þáðu eitthvað af góðgæti í staðin. Afraksturinn eitthvað á annað kíló á barn, aðeins. 

logga.jpg

Sumir eru of ungir til að vera gerir út af örkinni í nammi söfnun en samt ekki of ungir til að klæðast löggubúningi. Ábúðarmikill og alvöru svipur leynir sér ekki á andliti unga löggumannsins. Hann fylgdist grannt með systrum sínum þegar namminu var skipt, í von um að þær sæju aumur á sér. Þetta eru slíkir gullmolar þ.e. systurnar og kom á daginn að hann fékk talsvert úthlutað úr þessum feita sjóði.

handtekin.jpg

Þegar líða tók á daginn og sykursjokkið virtist ætla bera suma ofurliði og hiti færðist í leikinn voru sumir sem urðu full æstir og handtaka lá í loftinu. Spurningin er bara sú hver var það sem varð æstur, löggan eða barnið.

 

Af því að engin kennsla er í grunnskólanum á morgun var ákveðið að skvísurnar fengju að gista hjá afa og ömmu. Þegar það gerist  þá er það venja að afi poppi fyrir börnin og þau fá að fara í alvöru freyðibað. Við slíkar aðstæður er gjarnan brugðið á leik í baði, eins og sjá má á þessari mynd. 

Málsháttur dagsins:  Oft er bráð reiði runnin fyrr en af veit.

 


Já sprengidagur það verður gaman

Ágætur bloggvinur minn hafði af því áhyggjur að fólk vissi ekki lengur hvernig öskupokar væru notaði og þaðan af síður þeir vissu hvernig þeir væru búnir til. Ég deili þessum áhyggjum með honum sannarlega.

Ég sagði við barnabörnin mín í gær ,,Jæja á morgun er Sprengidagur hlakkar ykkur ekki til?". Það lifnaði yfir þeim þó aðallega stelpunum og sú eldri sagði jíbí jú það verður gaman. Ertu búinn að kaupa svona sprengi....?". Börnin litu stórum spurnaraugum á afa. Jú ég er sko búin að því ég reddaði því sko fyrir helgi. ,,Megum við sjá" sagði sú eldri. Jebb komið með afa. Ég fór með börnin fram í þvottahús þar sem gamalt ísskápshró er geymt og geymir ýmsar krásir. Ég opnaði skápinn og sagði ,,Sjáið allt klárt svo er bara bíða til morguns og þá setur afi upp kjötið og allt tilheyrandi". 

Börnin litu skilningssljó á afa. Þau litu á afa sinn og sögðu ,,nei afi við erum að meina þetta sprengi, svona sem fer upp í loftið". Aaaaaaaaa eru þið að meina flugelda? haldið þið að það sé þannig dagur? afi glotti. Börnunum var ekki skemmt svona í fyrstu undrunarsvipur á andlitum þeirra leyndi sér ekki. Eftir útskýringar þá þótti þeim þetta bara nokkuð fyndið. 

Flugeldar

Í tilefni dagsins þá skaut ég upp nokkrum flugeldum sem ég tileinka afmælisdegi Hrannar systur.

Annars sat öll familían til borðs í kvöld og át saltket og baunir, en túkallinn átum við ekki enda kreppa og túkallinn fer í matarsjóðinn. Á morgun er svo öskudagur og þá verður maður trúlega með myndavélina á lofti hingað og þangað. Frí í skólum og eftir hádegi koma svo barnabörnin til afa og ömmu og fá að gista þar sem engin kennsla er í skólunum á fimmtudag.

Nóg í bili.

Málsháttur dagsins: Alls staðar er sá nýtur er nokkuð kann


Konur, konur af aftur konur

Dagurinn í gær og í dag eru fyrir margra hluta sakir dálítið merkilegir. Í gær átti Bryndís vinkona okkar hjóna afmæli. Komst ekki í kaffi til hennar sökum anna, en Gréta stökk til og heilsaði uppá frú Bryndísi.

Dagurinn í dag þ.e. 24. febrúar er líka ansi merkilegur. Magga tengdamóðir Döggu á afmæli í dag. Ég sé fram á að geta gefið mér tíma til að rölta upp í Snægilið og sníkja kaffi og með því - ég mun klárlega gera það. 

Síðast en ekki síst á ,,litla" systir mín Hrönn afmæli. Vegna þess hve langt er á milli okkar þ.e. í kílómetrum talið verð ég eina ferðina enn að verða af því að geta skroppið í kaffi til hennar. Seinast sótti ég hana heim þegar hún átti afmæli sem stóð á tug. 

Sæt saman

Hrönn er kraftakona sannkölluð. Hún uppgötvaði á fullorðins árum að henni standa allar dyr opnar, bara ef hún vill að svo sé. Þannig var það að hún sá opnar dyr og skellti sér í nám. Já og það með stæl. Kláraði það verkefni með einar hendi eins og stundum er sagt.  Þá sá hún aðrar dyr, sem stóðu opnar uppá gátt. Hrönn gekk inn.... um dyrnar...inn í háskólann. Snilld. 

Eftirlit

Með dugnaði, vilja og þrautseigju leggur hún að baki allt sem hana langar til. Bara spurning um tíma. Eins og ég sagði verð ég eina ferðina enn að láta það duga að hugsa hlýtt til Hrannar á hennar afmælisdegi og vona að hún hafi það gott í faðmi fjölskyldu sinnar. 

Eftir myndin sem fylgir þessari færslu er af Hrönn og Gústa og er tekin í London fyrr ári síðan, þegar við dvöldum þar með þeim hjónum. Neðri myndin er tekin á kaffi húsi Starbucks þar sem Hrönn er að sinna skyldustörfum við að kanna hvað væri í samlokunni áður en eigandinn legði sér hana til munns. Myndin er tekin í Londonferðinni góðu. 

Þessum þremur heiðurskonum sendi ég mínar bestu afmæliskveðjur. 

Málsháttur dagsins: Ekki þarf að verjast ef enginn sækir á


Skemmtileg tenging, ekki satt?

Þrátt fyrir að; í þjóðfélaginu megi skynja vonleysi, pirring og reiði vegna efnahagshrunsins er ekki hægt annað en að njóta lífsins og vera þakklátur fyrir það sem maður þó hefur. Á næstu vikum munu bloggheimar loga vegna skrifa manna um prófkjör, hanaslagur og allur pakkinn, þó ekki þessi bloggsíða, því get ég lofað ykkur. Ritstjóri þessarar bloggsíðu hefur ákveðið að hér verður bara bloggað á jákvæðum og skemmtilegum nótum.

Þegar kona kemst í ham er stundum betra að gefa henni næði, það skilar sér. Dagurinn í dag hófst á því að mín setti í gírinn og hóf að baka bollur. Til að gera engan óskunda skrapp ég í laugardags labbi- og bíltúr með viðhaldinu. 

fylgst_me.jpg

Á leið minni rétt fyrir neðan Kjarnalund sem er við Kjarnaskóg urðu á vegi mínum þessir sallarólegu hestar. Í þessu hreint út sagt yndislega veðri nutu þeir matar síns í mestu makindum og voru lítt að amast yfir nærveru minni. Og þó jú sá grái rétt gjóaði augunum að mér svona rétt til að kanna hvort ekki sé allt með feldu. Í fjarska má sjá hvar menn eru enn að vinna við framkvæmdir vegna lengingu flugbrautarinnar.

kyrr.jpg

Já það ríkti kyrrð hjá hestunum rétt neðan skógarins og þegar litið var inn eftir einum stígnum virtist allt með kyrrum kjörum. Þrátt fyrir að allt liti út fyrir að vera með kyrrum kjörum var samt talsvert líf í skóginum þ.e. fólk á göngu. Nema hvað í svona veðri og í slíkri blíðu þá hreinlega er ekki annað hægt en að njóta lífsins.

rei_skoli.jpg

Eins og ég sagði ,,allt með kyrrum kjörum" þarna líka. En svona rólegt er þetta ekki allt árið um kring. Reiðskóli já yfir sumartímann iðar þarna allt af lífi. Þarna lærir fólk að sitja hest og umgangast þessar tignarlegu skepnur. Og í jafn fallegu umhverfi og raunin er á - bara snilld. En staðurinn er sefur og varla nokkur sála á ferli. Og þó ekki alveg.

 woffi_a_gongu.jpg

Þar sem ég var eins og í leiðslu með myndavélina framan á andlitinu fannst mér eins og ég skynjaði hreyfingu út undan mér. Hljóðlaus hreyfing til að byrja með. Tvær rosknar konur með greinilega vel roskinn hund á labbi. ,,Já þú ert bara að mynda góðan daginn" sagði önnur frúin þegar þær gengu framhjá, voffi sagði ekki boffs. 

horft_til_himins.jpg

Já það fer vel á því að enda þessa myndasyrpu á þessari mynd. Þessa styttu má sjá rétt neðan við andarpollinn. Tvær konur horfa til himins. Ætli þær séu að fylgjast með flugumferð fuglanna sem koma að eða fljúga af andarpollinum? veit ekki. En það er kannski táknrænt að enda þetta hér því handann götunnar er gamla kartöflugeymslan, sem Logi Einarsson arkitekt breytti í vinnustofu fyrir fyrirtækið sitt Kollgáta. Logi er nefnilega sérlegur áhugamaður um uppbyggingu miðbæjar Akureyrar ásamt Ragnari Sverrissyni stórkaupmanni í J.M.J. Já og ég var á leið á fund í Amtbókarsafninu þar sem nýtt miðbæjarskipulag er til kynningar. Talandi um tengingar og annað þá lýk ég þessu með því að segja ykkur frá því að þegar ég hafði tekið mér sæti og setið þar í u.þ.b. 5 mínútur og beið eftir að fundurinn byrjaði er bankað í bak mér og kunnugleg rödd sagði ,,Logi við bara tillum okkar hér við hliðina á Palla stór Þórsara" og viti menn þarna komu þeir félagar Ragnar og Logi og tók sæti við hlið mér - táknrænt og vel tengt ekki satt?

Ef þið hafið áhuga á að sjá þessar myndir í bestu gæðum þá kíkið á www.flickr.com/pallijo  þar er hægt að stækka myndirnar upp og sjá í góðum gæðum. 

Fróðleikur dagsins:  Sir Winston Churchill skammtaði sjálfum sér 15 vindla á dag.


Ljósstaðir

Bíl- og göngutúr minn fyrir skömmu, sem hófst við Leiru já rétt við norðurendann á flugbrautinni, endaði í Glerárþorpi rétt neðan við gamla Glerárskóla sem síðar var breytt í leikskóla sem fékk nafnið Árholt.  Gamli Glerárskóli stendur syðst á Melgerðisásnum og stendur þar enn. Rétt austan við gamla Glerárskólann stóð hús er Ljósstaðir hétu. Þetta hús byggðu lang - afi og amma mín er þau fluttu í Þorpið 1923. Ekki var verið að byggja of stórt í þá daga því húsið mun hafa verið 50,1 m2 að stærð, hæð og kjallari. 

Íbúðarhæðin einföld. Inn af anddyri var stuttur gangur og inn af honum eldhús. Úr anddyri var gengið til vinstri inn í stofu og inn af henni svefnherbergi. Fólk þurfti ekki að hafa áhyggjur af því að týnast í húsinu. Aðal sport hjá mér sem krakka þegar ég var í heimsókn hjá Frænda var að fara á salernið. Hvað var svo merkilegt við það?. Jú sjáðu. Þá dró Frændi forláta mottu til hliðar sem var ávallt á eldhúsgólfinu og opnaði hlera sem var í gólfinu. Þar var vægast sagt brattur og spennandi stigi sem varð að fara um til að komast niður í kjallara þar sem klósettið var. Auk þess var þvotthús í kjallaranum var anddyri sem notað var þegar komið var inn í kjallarann utan frá, stórt þvottahús og herbergi. Í því herbergi man ég eftir gömlum manni sem bjó þar hjá Frænda. Þeim karli kynntist ég ekki og veit lítið sem ekkert um. 

Ljosstadir

Áfast við Ljósstaði var fjós og hlaða, sem var u.þ.b. 21 m2 að stærð. Fjósið í vestari hluta þess og var rétt um helming plássins og þar voru 3 básar við norðurvegg þess. Að

austan var svo hlaðan, sem seinna meir var notuð sem hænsnahús. Gegnið var inn í hlöðuna um dyr austurvegg hússins. Að sögn Björgvins móðurbróður míns sem ólst upp í húsinu man hann eftir því sem barn að þau hafi haft 1 - 2 kýr og 10-20 kindur auk þess nokkrar hænur. Björgvin segir að svona hafi þetta verið víða í þorpinu á þessum árum. Hann segir að hann hafi verið sendur með mjólk og egg sem þau hafi selt fólki, sem ekki hafði skepnur.

Ljósstadir

Engar minningar á ég um lang-afa og ömmu mína enda lést afi 1935 og amma 1960 og þá var ég einungis 2 ára gamall. Hins vegar á ég margar og ljúfar minningar tengdar þessu húsi og þá nær einvörðungu vegna ömmubróður míns hans Þorvaldar sem í daglegur tali var aldrei kallarður annað en Frændi og þá með stórum staf. Frændi flytur með foreldrum sínum í þorpið árið 1923 og þá voru Ljósstaðir byggðir þá var hann 25 ára gamall. Faðir hans lést 1935 og uppfrá því bjó hann alla tíð með móður sinni. Frændi var einstakur karl. Barngóður, hrekkjóttur og skondinn karl. Hann lá ekki á skoðunum sínum og lét þær óspart í ljósi. Verkalýðssinni. Allt frá því að ég man eftir Frænda vann hann ýmist við uppskipun þ.e. sennilega hjá Eimskip og svo í Krossanesverksmiðjunni. Ég sagði að Frændi hafi verið hrekkjóttur. Eitt sinn kom Frændi inn í kjörbúðina í Höfðahlíð 1 gekk hann að einum rekkanum og tók hitabrúsa sem mikið var auglýst að væri óbrjótandi. Kallaði Frændi í eina afgreiðslustúlkuna og sagði ,,er þetta þessir óbrjótandi hitabrúsar?". ,,Já" hvað afgreiðslustúlkan. Með það sleppti Frændi brúsanum svo hann féll í gólfið og við hvað mikið brothljóð og braml. Frændi beygði sig niður hristi brúsann sem hringlaði svo að engan duldist að brúsinn var mölbrotinn. Frændi glotti og sagði ,,ekki get ég nú séð það" og brosti sínu breiðasta og setti brúsann á sinn stað. 

 

Ein af áhrifamestu minningum mínum úr þessu húsi eru frá því 6. mars 1969 þegar hið svokallaða ,,Linduveður" gekk yfir með miklum látum. Ég var 11 ára gamall og í Glerárskóla sem var handan götunnar. Veðrið skollið á og ekkert barn mátti yfirgefa húsið. En Palli fór yfir til Frænda. Þetta gengur yfir milli kl. 12 og 13. Ég hafði ekki verið lengi inni þegar bárujárnsplata stakkst inn um stofugluggann að austan. Mikið gekk á en allt fór vel hjá okkur frændunum. Í þessu fræga veðri sem kennt er við Súkkulaðiverksmiðjuna Lindu var m.a. sagt frá í blöðum ,, Mest varð tjónið í súkkulaðiverksmiðjunni Lindu, en það tók af þakhæð hússins og vörubirgðir fyrir milljónir eyðilögðust. Þakið var allt boltað niður og fimm sinnum tveggja tommu stálbitar héldu því uppi. Þeir vöfðust upp eins og tvinnaspottar og 12 mm járn, sem steypt var í veggi, rifnaði upp. Þakið af verksmiðjuhúsinu fauk 2 - 3 hundruð metra, og rétt áður höfðu skólabörn átt leið þar um". Þessi veðurofsi gengur dagsdaglega undir nafninu ,,Linduveðrið"  

Frændi flutti úr Ljósstöðum árið 1982 þegar húsið varð víkja fyrir nýju skipulagi. Ný hús með nýtísku búnaði og þægindum skildi koma í stað gamla tímans. Þannig hefur það ávallt verið og þannig verður það trúlega um ókomin ár. Frændi var orðin 84 ára gamall þegar hann yfirgaf húsið og eyddi hann síðustu árum sínum á dvalarheimilinu á Skjaldarvík. Frændi lést árið 1986 þá 88 ára gamall. 

 

Neðri myndin sem fylgir þessari bloggfærslu er af Frænda og Önnu ömmu minni sálugu fyrir framan Ljósstaði. Ljósstaði tengi ég afskaplega mikið við þau tvö.

 

Fróðleikur dagsins:  Fall er fararheill, sagði línudansarinn.


Ótrúlegt en satt

  Sæt saman

Sjáið þessa fegurð..... er nema von að maður viti varla hvað maður eigi að segja.  Þessi ungi maður (ekki pólverji þrátt fyrir húfuna) er orðin árinu eldri en á sama tíma í fyrra. Skrítið. Sumir segja að maður sé ekki deginum eldri en maður vill vera og svo skemmi það ekki að eiga góða maka. Það á nú greinilega við hjá þessum skötuhjúum. 

Fyrir réttu ári hélt hann upp á 50. afmælisdaginn sinn og gerði það í London. Þá átti ég og kona mín þess kost að dvelja þar með Gústa og Hrönn. Það var algerlega ógleymanlegir dagar. Ég vissi að þau væru skemmtileg úr hófi fram svo það kom í sjálfu sér ekkert á óvart að ferðin var snilld. 

Tekið í spil

Meðan á dvöl okkar í London stóð var margt brallað. Gústi tók í spil í góðum félagsskap.  Enda ekki á hverjum degi sem maður verður 50 ára og hittir svona snillinga. 

Með goðinu

Sumir voru jú afturgegnir eða þannig. 

Hvað um það Gústi mágur minn á sem sagt afmæli í dag. Hann er einu árinu eldri en í fyrra þegar hann varð 50 ára.  Ég sendi Gústa og Hrönn systir bestu kveðjur héðan að norðan og vona að þau eigi góðan dag. Væri samt alveg til í að eyða deginum með þeim líkt og í fyrra, en það bíður betri tíma. 

Þótt liðin séu mörg, mörg ár,

síðan Gústi kom í heiminn.

Flottur karl með grásprengt hár,

og fráleitt orðin gleymin.

 

 

Málsháttur dagsins: Hællinn finnur helst hvar skórinn kreppir.

 


Stærsti bryggjupolli í heimi

Nægar ástæður er til að láta það eftir sér að fara út og líta örlítið í kringum sig þá sumum hrylli við sökum kulda. Ekki bara að blessað hagkerfið sé kalt, heldur er í kaldara lagi út fyrir. Sumir segja að það sé ekkert til sem heitir kalt eða vont veður. Bara spurning um réttan klæðnað.  Ég notaði þessa visku og brunaði út. Blandaði saman laugardagsgöngu- og bíltúr í eitt með myndavélina góðu.

Fyrsti áfangastaður inn við Leirunesti. Séð þaðan til norðurs er nægt myndefni. Í 13 gráðu frosti er pollurinn fallegur og bærinn í heild. Snjór og sólin skreyta umhverfið.

ak_kirkja.jpg 

Akureyrarkirkja hefur löngum þótt vera eitt af helstu kennileitum bæjarins. Falleg bygging teiknuð af miklum meistara þ.e. Guðjón Samúelssyni. Verk hans eru mörg og flest þekkt, enda mikil augnayndi.

ice_fresh.jpg

Þrátt fyrir lágt hitastig þ.e. 13 gráður eins áður er getið mátti samt sjá einn harðjaxl róa til fiskjar á pollinum. Sjáið á myndinni rétt neðan við ,,Ice Fresh" á Akureyrinni, sem áður hét Sléttbakur sést í lítinn bát. Um aflabrögð er ekki vitað en trúlega ögn minna dregið að landi þar en á togaranum. 

bryggjupolli.jpg

Nýtt kennileiti á miðbæ Akureyrar hvort sem það mun verða jafn frægt og kirkjan skal ósagt látið er menningarhúsið sem er í byggingu og heiti Hof. Þetta er umdeilt hús. Ýmist er fólk ánægt með húsið og finnst það fallegt en öðrum þykir húsið ljótt og sjá því allt til foráttu. Bjarni Hafþór Helgason er gamansamur maður og sér hlutina oft í öðru ljósi en samferðamenn hans. Bjarni segir að sökum þess hvernig þetta hús sé í laginu (sívalningur) gætu ferðamálasamtök bæjarins grætt stór fé á því að markað setja húsið sem stærsta bryggjupolla í heimi. Húsið stendur jú við sjávarsíðuna og nánast við bryggju. Skemmtilegt, ekki satt?

Friðsældin alger og ég var farin að fíla mig eins og í sögunni ,,Palli var einn í heiminum" en þá var krunkað, ég var ekki einn í heiminum. Krummi fylgist með öllu og bíður átekta. Eftir hverju? kannski matarafgöngum frá fólki sem heimsækir nesti, hver veit?

krummi_789433.jpg

Hélt því næst í þorpið. Gleráin mér oft hugleikin. Skammt neðan stíflunnar er gamla Glerárbúin sem má muna sinn fífil fegurri. Komin til ára sinna og hefur svo sannarlega skilað sínu. Eitt sinn var hún eina brúin yfir Glerár og brúaði Glerárhverfi, sem eitt sinn var ekki hluti af bænum og Akureyrarbæ. 

glerabru_789437.jpg

En Glerá og gilið allt er fallegt hvernig sem á það er litið. 

gleragil.jpg

Styttist í að góðum göngu- og bíltúr fari að ljúka. En rétt ofan við gömlu Glerábrúnna má sjá gamla Glerárskóla, sem hefur nú fengið annað hlutverk. Fyrst var honum breytt í leikskóla og nú þjónar hann einstaklingum með einhverjar sérþarfir sem ég þekki eigi svo gjörla. En í þess húsi hóf ég mína skólagöngu ef frá er talin nokkra mánaða vist í smábarnaskóla Jóhannesar Óla. Á bæði ljúfar og sárar minningar úr þessu húsi. 

gleraskoli.jpg

Handan götunnar stóð eitt sinn hús sem hét Ljósstaðir. Þar bjó lengst af langamma mín og síðar ömmubróðir minn sem daglega var kallaður ,,Frændi". Ég mun fljótlega smella inn myndum af því húsi og blogga eilítið um það hús sem ég og fjölskylda mín á svo ljúfar minningar frá. Læt þessu myndabloggi lokið að sinni og vona að þið hafið haft gaman af líkt og ég sjálfur.

gleraskoli01.jpg

Málsháttur dagsins: Snemma beygist krókurinn sem verða vill.


En jédúdda mía hvað ég þurfti að taka á honum stóra sínum til að snappa ekki

Eins og svo oft áður hefur komið fram þá er viðhaldið mitt afar oft með í ferðum, maður veit aldrei hvenær maður þar á henni að halda og því eru hún oftast með. Íhaldssamur, jafnaðarmaður. Maður veit aldrei hvenær eitthvað poppar upp sem maður vill festa á flögu. Í gær brá svo við að ég var á ferð við fremstu og nýjustu brúna sem brúar Eyjafjarðará. Þar sá ég sel liggja í mestu makindum á ísnum. Eins og sannur papparassi þá stöðvaði ég bílinn við vegkantinn og setti upp 70-200 linsuna og skaut einni mynd.

Ég hugði mér gott til glóðarinnar og fór út úr bílnum og tók að fikra mig skref fyrir skref eins hljóðlega og hægt og þolinmæði mín leyfði í átt að árbakkanum. Gekk vel. Eða hvað? Þar sem ég hafði þokað mér u.þ.b. 10 - 15 metrum nær stoppar bíll aftan við minn bíl. Og viti menn út koma tveir öskrandi krakkagemlingar ,,selur, selur mamma sjáðu selinn". Á einu augabragði stakk Kobbi sér niður um vökina. 

Ég get lofað ykkur því að mér langaði að senda þessa krakkagrislinga með á eftir selnum. En af því að það er Kryppa eins og sú Tælenska sagði þá taldi ég upp að 10 snéri mér við og sagði ,,nei krakkar það er engin selur". En jédúdda mía hvað hann Palli þurfti að taka á honum stóra sínum til að snappa ekki. 

En þessi eina mynd sem ég tók er ekki góð sökum þess að fjarlægðin var full mikil en hún verður að duga þökk sé....... 

Kobbi

Annars bara allt í góðu hér norðan heiða. Alvöru vetur með frosti, stillu og notalegheitum. Lopapeysa, úlpur, vettlingar og tilheyrandi og veðrið er bara hið besta.

Fróðleikur dagsins: Dagur á Júpíter er u.þ.b. 9 klst. 50 mínútur og 30 sekúndur við miðbaug


Það er sama hvert litið er fegurðin er allstaðar

Dagurinn í dag er svona einn þeirra daga þar sem menn sem þola ekki veturinn af því að úti er frost og snjór. Fólki hrýs hugur við að fara út af því að það getur ekki farið út á hlýrabolnum og í strigaskóm.  Aðrir fagna þessu og segja ,,þegar er vetur þá á að vera snjór og kalt".

Þegar maður var barn elskaði maður þennan árstíma. Skíði, skautar, sleðar ásamt óteljandi leikjum sem svo auðvelt var að framkvæma í snjónum. Engar tölvur og endalaust sjónvarp daginn út og daginn inn truflaði líf manna. Ekki óalgengt að fjölskyldan öll færi svo öll í fjallið (eins og við Akureyringar köllum Hlíðarfjall)  á skíði um helgar.

Minna er í dag um að maður verði var við að fólk nýti sér veturinn til leikja, nema þá að fara á staðin og kíkja. Ég brá mér út í morgun með viðhaldinu til að mynda enda kjöraðstæður til slíkra athafna þegar veðrið er eins og það er þessa daganna, frost, stilla og fjöllin yndislega falleg, hvít af snjó.

1.feb

Fyrsta stopp fyrir framan gömlu vélsmiðju Odda og smellti af mynd séð til suðurs. Eyfirðingar myndu reyndar segja að á þessari mynd væri horft fram í fjörð. Ég segi horft inn í fjörð, en svona eru málvenjur misumunandi. Veit samt ekki hvað er rétt og hvað er rangt. Alla vegar er horft til suðurs.

Hlidarfjall

Hér er horft yfir hluta mið bæ Akureyrar og til fjallsins sem er svo þekkt fyrir að vera eitt besta skíðasvæði landsins. Já þetta er Hlíðarfjall sem við bæjarbúar köllum bara ,,Fjallið". Ef að líkum lætur er gríðarlegur mannfjöldi þar þegar myndin er tekin á skíðum, skíðabrettum eða bara njóta lífsins við fallegar aðstæður, fallegu veðri og nýtur lífsins. 

Snjosledi

Ekki svo ýkja langt frá er annað fjall sem ég hef miklar mætur á og er mikið augnayndi. Það eru Súlur. Ég brá undir með 4 hjólum og ók upp að rótum fjallsins eða því sem næst. Þangað lá talsverður straumur fólks sem allt var á jeppanum eða pallbílum allir með snjósleðakerrur í eftirdragi. Þetta er fólk sem kanna að nýta sér snjóinn á sinn hátt. Þeytast um á snjósleðum. Þótt ekki sé ég einn þeirra sem stunda þessa iðju þá geri ég mér grein fyrir þvílíkt frelsi það er að þeytast um á snjósleða og njóta náttúrunnar í fallegu veðri. Ímynda mér að það frelsi sé líkt og að horfa á knapa á hesti þeytast um grænar grundir þar sem knapi, hestur og náttúran er eitt. Maður lætur sig dreyma og heldur heim á leið lætur hugann reika. 

fjardarmynni.jpg

Stutt stopp rétt ofan við gömlu malbikunarstöðina er horft út fjörðinn í átt að Kaldbak. Fallegt.

Raflina

Næsta stopp rétt neðan við gömlu malbikunarstöðina. Já í raun er sama hvert litið er sé maður í stuði til að mynda þá er myndefni út um allt. Raflínur og hvað eina getur heltekið hug manns. Sumir pirrast yfir þeirri sjónmengun sem raflínur geta verið og vilja grafa þær í jörð. Það er sjónarmið út af fyrir sig. 

Raflina1

Ég er einn þeirra sem læt raflínur ekki trufla líf mitt dagsdaglega þ.e. út frá sjónmengun. Án rafmagns er vandlifað í dag. Víst er að margt annað í lífi okkar nútímamannsins ætti eigi síður að hafa truflandi áhrif út frá sjónmengun en raflínur. 

Dagurinn í dag er einn þeirra þar sem mér finnst vera nokkuð sama hvert ég lít, ég sé allstaðar eitthvað sem gleður augað, sálina. Næg næring og full ástæða til að halda áfram inn í daginn sama hvað öllu argaþrasi líður. Njótið dagsins. 

Málsháttur dagsins:  Best er að sníða sér stakk eftir vexti


Höfundur

Páll Jóhannesson
Páll Jóhannesson

Akureyringur, eiginmaður, pabbi, afi, Þórsari,  jafnaðarmaður, City - fan og Áfram Þór alltaf, allstaðar.

Hafi einhver áhuga að senda mér tölvupóst þá sendið á pallijo@internet.is

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

336 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband