Leita í fréttum mbl.is

Ljósstaðir

Bíl- og göngutúr minn fyrir skömmu, sem hófst við Leiru já rétt við norðurendann á flugbrautinni, endaði í Glerárþorpi rétt neðan við gamla Glerárskóla sem síðar var breytt í leikskóla sem fékk nafnið Árholt.  Gamli Glerárskóli stendur syðst á Melgerðisásnum og stendur þar enn. Rétt austan við gamla Glerárskólann stóð hús er Ljósstaðir hétu. Þetta hús byggðu lang - afi og amma mín er þau fluttu í Þorpið 1923. Ekki var verið að byggja of stórt í þá daga því húsið mun hafa verið 50,1 m2 að stærð, hæð og kjallari. 

Íbúðarhæðin einföld. Inn af anddyri var stuttur gangur og inn af honum eldhús. Úr anddyri var gengið til vinstri inn í stofu og inn af henni svefnherbergi. Fólk þurfti ekki að hafa áhyggjur af því að týnast í húsinu. Aðal sport hjá mér sem krakka þegar ég var í heimsókn hjá Frænda var að fara á salernið. Hvað var svo merkilegt við það?. Jú sjáðu. Þá dró Frændi forláta mottu til hliðar sem var ávallt á eldhúsgólfinu og opnaði hlera sem var í gólfinu. Þar var vægast sagt brattur og spennandi stigi sem varð að fara um til að komast niður í kjallara þar sem klósettið var. Auk þess var þvotthús í kjallaranum var anddyri sem notað var þegar komið var inn í kjallarann utan frá, stórt þvottahús og herbergi. Í því herbergi man ég eftir gömlum manni sem bjó þar hjá Frænda. Þeim karli kynntist ég ekki og veit lítið sem ekkert um. 

Ljosstadir

Áfast við Ljósstaði var fjós og hlaða, sem var u.þ.b. 21 m2 að stærð. Fjósið í vestari hluta þess og var rétt um helming plássins og þar voru 3 básar við norðurvegg þess. Að

austan var svo hlaðan, sem seinna meir var notuð sem hænsnahús. Gegnið var inn í hlöðuna um dyr austurvegg hússins. Að sögn Björgvins móðurbróður míns sem ólst upp í húsinu man hann eftir því sem barn að þau hafi haft 1 - 2 kýr og 10-20 kindur auk þess nokkrar hænur. Björgvin segir að svona hafi þetta verið víða í þorpinu á þessum árum. Hann segir að hann hafi verið sendur með mjólk og egg sem þau hafi selt fólki, sem ekki hafði skepnur.

Ljósstadir

Engar minningar á ég um lang-afa og ömmu mína enda lést afi 1935 og amma 1960 og þá var ég einungis 2 ára gamall. Hins vegar á ég margar og ljúfar minningar tengdar þessu húsi og þá nær einvörðungu vegna ömmubróður míns hans Þorvaldar sem í daglegur tali var aldrei kallarður annað en Frændi og þá með stórum staf. Frændi flytur með foreldrum sínum í þorpið árið 1923 og þá voru Ljósstaðir byggðir þá var hann 25 ára gamall. Faðir hans lést 1935 og uppfrá því bjó hann alla tíð með móður sinni. Frændi var einstakur karl. Barngóður, hrekkjóttur og skondinn karl. Hann lá ekki á skoðunum sínum og lét þær óspart í ljósi. Verkalýðssinni. Allt frá því að ég man eftir Frænda vann hann ýmist við uppskipun þ.e. sennilega hjá Eimskip og svo í Krossanesverksmiðjunni. Ég sagði að Frændi hafi verið hrekkjóttur. Eitt sinn kom Frændi inn í kjörbúðina í Höfðahlíð 1 gekk hann að einum rekkanum og tók hitabrúsa sem mikið var auglýst að væri óbrjótandi. Kallaði Frændi í eina afgreiðslustúlkuna og sagði ,,er þetta þessir óbrjótandi hitabrúsar?". ,,Já" hvað afgreiðslustúlkan. Með það sleppti Frændi brúsanum svo hann féll í gólfið og við hvað mikið brothljóð og braml. Frændi beygði sig niður hristi brúsann sem hringlaði svo að engan duldist að brúsinn var mölbrotinn. Frændi glotti og sagði ,,ekki get ég nú séð það" og brosti sínu breiðasta og setti brúsann á sinn stað. 

 

Ein af áhrifamestu minningum mínum úr þessu húsi eru frá því 6. mars 1969 þegar hið svokallaða ,,Linduveður" gekk yfir með miklum látum. Ég var 11 ára gamall og í Glerárskóla sem var handan götunnar. Veðrið skollið á og ekkert barn mátti yfirgefa húsið. En Palli fór yfir til Frænda. Þetta gengur yfir milli kl. 12 og 13. Ég hafði ekki verið lengi inni þegar bárujárnsplata stakkst inn um stofugluggann að austan. Mikið gekk á en allt fór vel hjá okkur frændunum. Í þessu fræga veðri sem kennt er við Súkkulaðiverksmiðjuna Lindu var m.a. sagt frá í blöðum ,, Mest varð tjónið í súkkulaðiverksmiðjunni Lindu, en það tók af þakhæð hússins og vörubirgðir fyrir milljónir eyðilögðust. Þakið var allt boltað niður og fimm sinnum tveggja tommu stálbitar héldu því uppi. Þeir vöfðust upp eins og tvinnaspottar og 12 mm járn, sem steypt var í veggi, rifnaði upp. Þakið af verksmiðjuhúsinu fauk 2 - 3 hundruð metra, og rétt áður höfðu skólabörn átt leið þar um". Þessi veðurofsi gengur dagsdaglega undir nafninu ,,Linduveðrið"  

Frændi flutti úr Ljósstöðum árið 1982 þegar húsið varð víkja fyrir nýju skipulagi. Ný hús með nýtísku búnaði og þægindum skildi koma í stað gamla tímans. Þannig hefur það ávallt verið og þannig verður það trúlega um ókomin ár. Frændi var orðin 84 ára gamall þegar hann yfirgaf húsið og eyddi hann síðustu árum sínum á dvalarheimilinu á Skjaldarvík. Frændi lést árið 1986 þá 88 ára gamall. 

 

Neðri myndin sem fylgir þessari bloggfærslu er af Frænda og Önnu ömmu minni sálugu fyrir framan Ljósstaði. Ljósstaði tengi ég afskaplega mikið við þau tvö.

 

Fróðleikur dagsins:  Fall er fararheill, sagði línudansarinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Jóhannesdóttir

Æj manni hlýnar um hjartarætur að hugsa um gömlu góðu dagana með Frænda heitnum. Guð hvað hann var yndislegur maður og minningarnar um hann lifa um aldur og ævi Þegar hugsað verður til ömmu og afa þá brosir maður úti í eittEkki man ég svo mikið eftir þessu Linduveðri mikla en samt aðeins og heppin að hafa bara verið inni með mömmu enda ekki há í loftinu á þessum árum gaman að rifja svona upp og myndirnar þínar algjöt gull Haltu áfram að ylja manni um hjartarætur. Kveðjur frá suðurnesjum

Hrönn Jóhannesdóttir, 17.2.2009 kl. 21:32

2 Smámynd: S. Lúther Gestsson

Þræl skemmtileg lesing.

Takk.

S. Lúther Gestsson, 18.2.2009 kl. 01:27

3 Smámynd: Ólöf Jóhanna Pálsdóttir

Takk fyrir Palli minn. Gaman að lesa þessar minningar þínar. Ljósstaðir eiga stórt pláss í hjarta mér og margar góðar minninga á ég þaðan. Ég man er ég var lítil og pabbi átti  kú í fjósinu hjá henni ömmu og þangað var sótt mjólkin.

Gamli maðurinn í kjallaranum hét Guðjón og er hann mér og Löllu frænku minni minnisstæður vegna veitinga sem hann bauð okkur upp á eitt sumarið er hún var fyrir norðan. Við rifjum það upp og hlæjum mikið. Nú á ég von á henni hingað og örugglega verður rifjað margt gamalt upp frá þeim sumrum er hún var hér fyrir norðan.

Ólöf Jóhanna Pálsdóttir, 21.2.2009 kl. 12:28

4 identicon

Ég ætlaði að skrifa komment á færsluna um selinn á ísnum en það er ekki lengur hægt. Myndin er engu að síður ágæt.  Svo langaði mig að nefna hvað mér finnst Ljósstaðir gott nafn á húsi. Það ólíkur bragur á því nafni og Ljótsstöðum. Í dag ók ég sem oftar fram hjá Ljótunnarstöðum í Hrútafirði. Sá bær uppfyllir allar þær væntingar sem felast í nafninu.

Gunnar Th. (IP-tala skráð) 21.2.2009 kl. 20:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Páll Jóhannesson
Páll Jóhannesson

Akureyringur, eiginmaður, pabbi, afi, Þórsari,  jafnaðarmaður, City - fan og Áfram Þór alltaf, allstaðar.

Hafi einhver áhuga að senda mér tölvupóst þá sendið á pallijo@internet.is

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

270 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband