Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Haft-yrðill

haftyrdillTveir ágætir útvarpsmenn voru að lesa upp úr dagblöðum og fræða okkur hlustendur á helstu fréttum í hinum ýmsu prentmiðlum. Annar stjórnandinn les frétt um dauða sjófugla, sem reka á land. Þá grípur hinn stjórnandinn orðið og segir ,,já hér er verið að segja frá dauða Haft - yrðils". ,,hvað ertu að segja hvaða fugl er þetta" útvarpsmaðurinn endurtekur það sem hann hafði sagt og endurtók ,,Haft-yrðill". Hefst nú smá pæling meðal þessara ágæta útvarpsmanna hvaða fugl sé hér á ferð. Þeim tókst með mikilli kænsku að klóra sig fram úr þessu vandamáli nafn fuglsins er auðvitað Haftyrðill. Svona getur fólk fallið í gryfju þegar það les orðin vitlaust. Munið þið eftir Ístru - flanir?

PalliJóh1Eins og ég greindi frá í síðasta bloggi þá hef ég verið að glugga í gömul myndaalbúm og skanna þær inn og gera þær aðgengilegar í tölvuformi. Er hér aðallega um að ræða myndir sem teknar eru fyrir u.þ.b. 20 kílóum síðan. Vekja þær um mikla kátínu meðal barnanna. Ef ég væri viðkvæmur og hefði ekki húmor fyrir sjálfum mér og þessu, þá myndi ég birta myndir af þeim sjálfum, myndum sem mér þykja meir en lítið fyndið. En geri ekki. Set þess í stað enn eina myndina af mér frá þessum tíma, svona rétt til að espa upp egóið hjá sjálfum mér. Hlakka svo til að heyra ákveðna aðila hneykslast á tilgangsleysi skrifa ,,sumra" eins og þeir gjarnan gera. En svo mikið er víst að ég nýt þessa mjög og hef gaman af. Myndin er að öllum líkindum tekin um borð í Sléttbaki EA 304 árið 1976. Var til sjós á því annars ágæta skipi á árunum 1975-1978 með smá útúrdúr þegar ég skrapp á vertíð austur á Höfn í Hornafirði. Fór síðan aftur á Sléttbak árið 1987 þegar honum var breytt í frystiskip og var þar í rúm 10 ár til viðbótar. Samtals eyddi ég því rúmum 13 árum af ævinni á þessi magnaða skipi.

Akurey1Útúrdúrinn, sem ég minntist á þ.e. þegar ég fór fyrst á vertíð austur á Hornafjörð þá kynntist ég útgerðarmanninum Hauki Runólfssyni einn af eigendum og skipstjóra á Akurey SF 52. Var ekki einvörðungu þess aðnjótandi að kynnast honum heldur allri hans fjölskyldu enda bjó ég á heimili hans frá janúar byrjun 1976 til loka vertíðar í maí sama ár. Kynni mín við hann og fjölskyldu hans endurnýjuðust svo þegar ég bjó á Höfn í Hornafirði árin 1983 og 1984. Þá var hann sjálfur skipstjóri á öðru skipi sem hann átti þ.e. Skógey SF en sonur hans tók við Akurey eftir fráfalls frænda míns Sölmundar Kárasonar, sem þá var skipstjóri á því skipi. Sölmundur varð að játa sig sigraðan við illvígan sjúkdóm sem dró hann til dauða. Því miður glímir öðlingurinn Haukur við sama sjúkdóm í dag. Þau tvö ár sem ég eyddi á Akurey þ.e. 83 og 84 var ég fyrst kokkur og síðar vélstjóri. Því er vel við hæfi að setja mynd af líkani sem ég smíðaði af Akurey SF í hlutföllunum 1:25.

Mínir menn í Manchester City etja kappi við Everton í dag á útivelli og vona ég að þeir nái góðum úrslitum þ.e.a.s. sigur. En róðurinn er þungur, þetta er jú einu sinni stóra liðið í Liverpool.

Málsháttur dagsins: Laun gefa erfiðismanninum þol til að þrælka.


Upprifjun

KrossanesVar að enda við að grúska í gömlum myndum frá árunum 1978-1980 kom nú eitt og annað upp sem vakti upp gamlar og góðar minningar. Fyrir fáeinum dögum bloggaði ég um gang mála á athafnasvæðinu við Krossanes, sem tilefni þessa bloggs.

Þar sem ég var að kafa í myndir frá þessum tíma rakst ég á myndir sem teknar eru af athafnasvæði Krossanes frá þessum árum. Enda vinsælt hjá mér að fara með bílana mína á hæðina við Ytra Krossanes og mynda þá í því fallega umhverfi. Fyrri myndin sem tekin var hér fyrir nokkrum dögum sýnir verksmiðjusvæðið séð úr suðri og hvernig verið er að fylla upp í Syðri Víkina og því verki að verða lokið.

Krossanes 1979Seinni myndin sem tekin er 1979 sýnir gömlu Krossanesverksmiðjuna og er myndin tekin af hólnum ofan við svæðið eða nánar til tekið úr hlaðinu á bænum Ytra Krossanes. Á miðri mynd til vinstri má sjá sker sem var í utarlega í Ytri Víkinni en það er löngu horfið vegna languppfyllingar. Þar er nú t.d. athafnarsvæði Olíudreifingar og Skeljungs og einnig er þar nú til bráðabirgða malbikunarstöð sem bíður eftir því að geta flutt starfsemi sína á nýtt athafnarsvæði ofan við Krossanes.  Þegar þessi mynd er tekin er enn gamli löndunarkraninn sem hafði svo mikið aðdráttarafl fyrir okkur krakkana sem ólumst upp í Þorpinu. Ég velti því svo oft fyrir mér af hverju fólk rífist út af því hvort hús eigi að vera 3. 4. 5. eða 6. hæða af því að ekki megi breyta bæjarásýndinni. Á sama tíma er strandlengjunni breytt svo gífurlega að það hálfa væri nóg. þetta gerist beint fyrir framan nefið á fólki án þess að það hreyfi legg né lið til að mótmæla breyttri ásýnt. Hvað ætli valdi því? Hver er annars munurinn? veit ekki, en samt pælið í þessu. 

Eðal vagnAð lokum og til gamans læt ég fylgja með mynd sem ég tók af einum af mínum bílum frá þessum tíma. Er þar um að ræða Willys Jeepster árg. 1968 sem ég átti um hríð mikill eðalvagn. Þessi bíll var með V6 Buick vél skilaði bílnum afar hratt og mjúklega á þann hraða sem maður kaus að vera á.

Í þennan bíl eyddi ég miklum tíma við að gera upp og snurfusa svo að hann liti út eins og ég vildi. Leður og plus að innan í hólf og gólf. Vél, drif og kassar eins og best gerðist á þessum árum. Fjórfandur Holly og Hurst gírskipting og annað sem ekki var standard í honum veitti manni daglegan unað.

Verð að játa að ég hugsa oft til þessara ára og langar að upplifa aftur þessa daga. Þeir voru góðir, það eru dagarnir í dag líka svo maður er og á að vera bara sáttur.

Málsháttur dagsins: Betra er að hafa bein sín heil en brotin illa.

Ljót bremsuför

Er nema von að maður spyrji sig þeirra spurninga ,,af hverju er verið að hafa þess konar matsnefndir ef ekki á að taka mark á þeim?". Eru þessar nefndir settar á bara til skrauts? Af hverju er slíkar nefndir ekki lagðar niður ef ekki á að fara eftir þeim? Getur það verið að það sé svo þægilegt að geta gripið til þeirra ef sú óvenjulega staða kæmi upp að einhver sem hefur enga tengingu í flokkapólitíkina eða er hvergi inn vínklaður skyldi slysast til að sækja um djobb á vegum hins opinbera?

Þetta mál og viðbrögð hans eru Ráðherranum til vansa og það veit hann sjálfur manna best. Þá er það afar gremjulegt að um leið og hann setti Þorstein Davíðsson sem hlaut starfið í afar óþægilega aðstöðu stöðu sem hann sjálfan grunaði eflaust ekki þegar hann sótti um að myndi lenda í. Og sannast hið fornkveðna ,,engin veit sína ævina fyrr en öll er".

Að lokum spyr ég mig ef dómnefndin misskildi hlutverk sitt, hvað með Ráðherrann?

Þessi málsháttur kom upp í huga mér þegar viðbrögð ráðherrans lágu fyrir: Betra er að maðurinn prýði embættið en embættið manninn.


mbl.is Segir dómnefnd hafa misskilið hlutverk sitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósanngjarn samanburður.

Hvar eru dýraverndunarsamtökin núna? las haft eftir ,,söngkonunni" Mariuh Carey að hún ,,vildi fremur syngja dúett með svíni en Jennifer Lopez". Vona dýraverndunarsamtök verði vel á verði ef hún skildi ætla gera alvöru úr þessu. En í raun og sannleika sagt held ég að hún ætti ekki að láta verða að þessu samanburðurinn yrði svo ójafn - svíninu í vil.

Maður heyrir og les af og til um að ,,elsti Íslendingurinn sé látinn". Sérkennilegt hvað hann deyr oft. Eða ætli að það sé engin elstur Íslendingur núna eftir frá fall þess sem féll síðast frá?

Nú er þjóðin að fara á taugum, eins og Óskar á Laugum forðum daga. Stórmót í handbolta á næstu grösum. Við eru bestir að okkar eigin mati. Ættum að geta náð árangri enda ekki mjög margar þjóðir sem eru góðar í þessari annars ágætu íþrótt sem íþróttafréttamenn og fjölmiðlar hafa reynt að tala upp í að vera einhvers konar ,,þjóðaríþrótt". Get ekki sagt að ég bíði mjög spenntur. En samt gef þessu auga af og til, hver veit.

Mínir menn í Þór halda suður með sjó í kvöld og etja kappi við ,,stóra" liðið í Reykjanesbæ þ.e.a.s. liðið sem kemur úr Njarðvíkurborg eins og systir mín elskuleg kallar sinn heimabæ gjarnan. Vona svo sannarlega og tel reyndar komin tími á sigur minna manna í körfunni. Og sigur gegn Njarðvík væri bara ágætlega vel þegin.

Meira tengt íþróttum þá las ég að golfsnillingurinn þurfi ekki að líða mikinn skort hvað aura viðkemur. Stráksi hefur að því er mér skilst litla 7,7 milljarða íslenskra króna. Gott hjá honum. 

Málsháttur dagsins: Þeir eldri eru til ráða en þeir yngri til framkvæmdar.

Biluð vinnubrögð.

Enn og aftur vekja vinnubrögð húsfriðunarnefndar upp furðu. Er nema von að maður spyrji sig þeirra spurninga ,,eftir hvaða reglum vinnur þessi nefnd?" Hvernig stendur á því að nefndin vaknar ekki til lífsins fyrr en í raun allt er komið í kalda kol? hvað veldur því að þessi nefnd sefur værum blundi þar til að hafist er handa við niðurrif, sem hefur oftar en ekki í för með sér óþarfa kostnað vegna skaðabóta? Ætli mönnum þyki ekki komin tími á að vekja nefndina upp og halda henni vakandi?

Miklar eru raunir peningamanna þessa daganna. Hlutabréf snarlækka í Kauphöll Íslands. Menn skjálfa mönnum stendur ekki á sama. Er hin íslenska útrás komin á endastöð? Er hið sérstæða íslenska fyrirbrigði sem sumir hafa kosið að kalla ,,uppgang" að breytast í einn allsherjar ,,niðurgang". Ég veit ekki, óska þess ekki en kannski menn hefðu átt að ganga hægt um gleðinnar dyr og hafa hugfast ,,sigandi lukka er best" kannski á eftir að koma á daginn að ég er of svartsýnn, hver veit?

Dapurlegt til þess að hugsa að slökkvilið höfuðborgarsvæðisins skuli þurfa vera á þönum daginn út og daginn inn við að slökkva elda vegna íkveikju. Erfitt að gera sér grein fyrir því hvort hér er einvörðungu um fikt barna að ræða? Þó læðist að manni sá grunur að jafnvel fullorðið fólk séu sökudólgar eins og sterklega hefur verið gefið í skyn. Dapurlegt svo ekki sé nú meira sagt.

Málsháttur dagsins: Enginn gjörir svo öllum líki, og ekki guð í himnaríki.

Frelsi

Er einn af þeim sem hef gaman af jólaskrauti - og það miklu. Svo einkennilegt sem það kann að virðast þá er það svo, að þegar maður hefur tekið niður allt dótið, pakkað því saman, sett í kassa og uppá loft, er ekki laust við að maður fái einhvers konar frelsistilfinningu. Eftir rúman mánuð er eiginlega komið nóg. Nú getur maður farið að láta sér hlakka til vorsins. Fylgst með sólinni hækka á himni með degi hverjum. Og það sem meira er maður fer bara telja niður til næstu jóla.

Bikarhelgi í enskaboltanum þar sem mínir menn gerðu markalaust jafntefli við lið West Ham á útvelli. Þurfa þeir því að mæta þeim í næstu viku aftur og þá á City of Manchester Stadium. Mínir menn í Þór fóru suður og öttu kapp við bikarmeistara ÍR í úrvalsdeildinni í körfubolta og þurftu að láta í minni pokann, greinilegt að það eru ekki alltaf jólin, enda nýbúinn.

Las frétt að tveir ökumenn hafi verið teknir á 115 km. hraða á Laugarveginum, maður spyr sig hvenær er svo lítil umferð um þennan göngustíg sem bíður uppá þvílíkan akstur? En svona akstur er á engan hátt hægt að réttlæta, gera bíla þessa ökuníðinga upptæka, strax.

Málsháttur dagsins: Einhvern tíma brennir sá sig sem öll soð vill smakka.

Sannur gullmoli

Frænkur.Þennan dag árið 1938 leit þessi heiðurskona fyrst heiminn augum og er því í dag orðin 70 ára gömul. Þeir erfiðleikar sem þessi kona hefur þurft að takast á í lífinu eru meiri en margan grunar. Einungis 33. ára gömul varð hún ekkja með þrjú börn og ófrísk af því fjórða. Hún sá á eftir eiginmanni sínum og bróður í einu og sama sjóslysinu þegar Sigurfari SF fórst í Hornarfjarðarósi 1971. Ég er að tala um hana Guðlaugu Margréti Káradóttir frá Höfn í Hornafirði. 

Hún er ein eftir úr 6 systkinahópi. Fjögur af þeim systkinum sem hún hefur þurft að sjá á eftir létust öll langt fyrir aldur fram. Gulla frænka eins og hún er jafnan kölluð hefur þrátt fyrir ýmsar raunir sem hún hefur þurft að glíma við á lífsleiðinni ávallt komið standandi niður úr hverri raun. Gulla kvæntist aldrei aftur heldur ól hún syni sína fjóra upp með miklum myndarbrag  og má vera stolt af. Kom þeim öllum vel til manna og mættu margir taka sér hana til fyrrimyndar.

Þau tæpu tvö ár sem ég var búsettur á Höfn kynntist ég Gullu alveg upp á nýtt. Hún reyndist mér, konu minni og dóttur okkar algerlega ómetanleg og verður seint full þakkað. Guðlaug þótti hörð í horn að taka með þykkan skráp, en innundir er hún meir, ljúf og hið mesta ljúfmenni. En vissulega varð hún að vera hörð til þess að koma sonum sínum ein á legg svo vel væri í þessum harða heimi, og það gerði hún með glans.

Læt fylgja með eina mynd af Gullu sem ég tók af henni ásamt Sædísi Ólöfu dóttir minni þegar hún var í heimsókn hjá okkur í nokkra daga í júní 1993.

Til hamingju með afmælið Gulla mín.

Málsháttur dagsins: Ekki verður byggt yfir fyrr en grundvöllurinn er lagður.

Krossanes - athafnarsvæði

Krossanes2Mátti til með að verða við óskum bloggvinar míns hans Gunnars Th. og skrapp á athafnasvæðið við Krossanes og kannaði hvað þar er að gerast nú. Eins og fólki ætti að vera kunnugt mun nú á næstu vikum og mánuðum gamla Krossanesverksmiðjan víkja fyrir nýrri og fullkominni Aflþynnuverksmiðju sem taka mun til starfa síðar á árinu. Í áratugi hefur loðna, síld, sem og ýmis fiskúrgangur verið bræddur í verksmiðjunni. Einnig muna þeir sem komnir eru um eða yfir miðjan aldur þegar síld var söltuð á bryggjuplaninu við Krossanes. Ég ólst upp í Glerárþorpi og man þá tíma þegar næstum því dró fyrir sólu þegar mikið var brætt í verksmiðjunni. Þessu fylgdi mikil lykt sem jafnan var kölluð ,,peningalykt". Á fyrstu myndinni má sjá gömlu verksmiðjuna sem smán saman er að hverfa. Vinstra megin við hana er athafnasvæði olíufélaganna en þar er risin birgðastöð, stendur það svæði norðan gömlu verksmiðjunnar. Í víkinni neðst á myndinni má sjá að verið er að fylla upp í víkina sem við krakkarnir kölluðum ytri Sílabás en heitir með réttu Syðri Vík eftir því sem kemur fram í bók Steindórs Steindórssonar ,,Höfuðborg hins bjarta norðurs. Annars er Sílisbás víkin sem afmarkast frá Sandgerðisbót og norður að Langatanga.

MargretEANeðan og austan við gömlu verksmiðjuna liggur Margrétin EA 710 skuttogari í eigu Samherja og bíður örlaga sinna, held ég. Stutt framan við Margréti EA vinna starfsmenn Hringrásar við að búta niður tvö skip sem brátt hverfa sjónum okkar. Annað skipið er svo langt komið í niðurrifi að engin leið er að bera kennsl á það, enda stendur fátt eftir að því annað en kjölur og botn. Hitt skipið er skemur komið í niðurrifi og ætti Gunnar Th. sem er mikill báta og skipa áhugamaður að geta frætt okkur um hvert sé. Það ber einkennisstafina ÍS 605 og var frá Bolungarvík. Vissulega er þetta náttúrulega alger skömm að greinarhöfundur skuli ekki vita meir um þetta, sem gamall sjómaður. Skildi maður ætla að eftir 20 ára sjómennski ætti maður að geta miðlað einhverju til annarra. En svo er nú þetta þarna játa ég á mig vissa fáræði.

TrukkurStarfsmenn Hringrásar hafa greinilega í nógu að snúast og eru að vinna við að brytja niður margvíslegt dót sem áður hefur sinnt mismikilvægum hlutverkum í lífi mannsins. Bílar, bátavélar, vinnuvélar hvers kyns olíutankar svo fátt eitt sé nefnt bíður örlaga sinna þar sem starfsmenn Hringrásar ráðast á þá með skurðartækjum og tólum og búa vandlega undir langan flutning þar sem þeirra bíður heitur ofn til bræðslu. Meðal þess sem vakti áhuga minn var forláta gulur hertrukkur sem bíður niðurrifs. Virðist mér hann vera af ætt við gamla rússajeppans eða álíka. Á vélarhlíf trukksins stendur Oshkosh sem hlýtur að vera tegundanafn. Á hurðum trukksins má lesa USN - FOR OFFICIAL USE ONLY. Gaman væri ef einhver veit meir um þennan grip hvaðan hann er uppruninn o.þ.h.

Brotajarn2Það vakti athygli mína þegar ég fór um þetta athafnasvæði sem er að taka svo miklum breytingum að manni virðist sem vera svo mikil óreiða, rusl og drasl á svæðinu. Kannski virkar það bara þannig þar sem verið er að vinna við niðurrif og því lítur þetta út fyrir að vera bara rusl þegar búið er að safna þessu í stóra hrúgu. En í raun og sannleika er þetta jú rusl. En ég átti erfitt með að átta mig á hvað meira verður á þessu svæði sunnan gömlu verksmiðjunnar þ.e. á landfyllingunni í Sílabásnum/ Syðri Vík. Það varð til þess að ég setti mig í samband við Jón Inga Cæsarsson sem situr í umhverfisnefnd sem og skipulagsnefnd og er manna fróðastur um hvað er þarna á ferð. Stakk hann upp á því að við færum saman í bílferð þarna út eftir og þannig væri auðveldara að útskýra hvað í vændum er.

ÍS605

Á meðan ég veit ekki meir og bíð eftir bíltúrnum, sem ég á vonandi í vændum með Jón Inga þá verðið þið kæru lesendur að bíða eftir því að ég bloggi nánar um þetta athafnasvæði og þá vonandi með meiri fróðleik en nú er boðið uppá. Þegar þið skoðið myndirnar þá er gott að hafa í huga að til að sjá þær stærri þá klikkið á myndirnar eða farið inn í myndaalbúmið ,,Eitt og annað" og þar má sjá þær betri ásamt skýringum, sem ég læt fylgja þeim. En auðvitað er það svo eins og Jón Ingi benti á að það er erfitt að koma öllu til skila í prentuðu máli.

 

KrummiÁ sveimi í kringum skorsteininn/strompinn var krummi á vaktinni og greinilegt að hann er búinn að eigna sér þennan stað. Geri samt ráð fyrir því að strompurinn verði að víkja líkt og annað sem fylgdi ,,gömlu" verksmiðjunni. Þegar maður horfir til baka og rifjar upp minningar frá því að maður var polli að dorga við bryggju kanntinn á þeim tíma sem gamli löndunarkraninn stóð í allri sinni dýrð þá fyrst áttar maður sig á hversu ofboðslega miklar breytingar hafa átt sér stað og hvað stendur til. Og það sem meira er að allt í einu finnst manni eins og maður hafi varla tekið eftir þessu fyrr en allt í einu. Er maður orðinn svona mikið borgarbarn þótt ekki sé nú Akureyri nein stórborg að maður tekur ekki eftir breytingum í sínu nánasta umhverfi ef það er ekki í kringum verslanamiðstöðvar og banka? Ég veit ekki með ykkur en þetta fékk mig til að hugsa og það sem meira er að það skildi vera maður sem býr ekki á staðnum sem náði að vekja mann upp af þessum væra blundi. 

OliulaustEn ekki svo að maður hafi ekki vitað að þeim breytingum sem í vændum er, maður bara las um þær, fagnaði þeim en áttar sig samt ekki á því hversu miklar þær eru. Þessi yfirferð mín um svæðið er aðeins lítill dropi í hafið miðað við allann þann fróðleik sem maður fær hjá Gunnari við lestur á bloggsíðu hans. Gunnar bloggar nefnilega mikið um umhverfið og skreytir sínar frásagnir með flottum myndum sem ég nýt þess að lesa. Þess vegna varð ég að verða við þessum óskum hans, minna gat það ekki verið. Vonandi njóta einhverjir þess að lesa þessa langloku.

Málsháttur dagsins:   Margur er tregur til að trúa nema hann taki á og sjái.


Allt er fertugum fært

Las einhvers staðar að Magni Ásgeirsson efaðist um að rugludallurinn Tommy Lee myndi muna eftir sér. Ekki fylgdi sögunni hvort Magni væri gramur eður ei vegna þess. Ég held þó að hann ætti að líta á það jákvæðum augum og vera stoltur ef þessi rugludallur hefur gleymt honum. Það getur ekki verið annað en neikvætt fyrir Magna ef Tommy man eftir honum.

Sjómaðurinn, húsasmiðurinn og hestatamningamaðurinn Ingólfur Ásgeirsson er fertugur í dag. Ég er ekki frá því að hann beri aldurinn betur en margur. Góðir foreldrar, algerlega frábærir tengdaforeldrar og að lokum eiginkona og synir sem eru svo rúsínan í pylsuendanum. Sendi Ingólfi og fjölskyldu afmæliskveðju og við þessi tímamót er gott að hafa hugfast máltækið góða ,,allt er fertugum fært".

Þá fer körfuboltinn loksins að rúlla hjá mínum mönnum aftur í kvöld. Er orðin rúmur mánuður frá því að þeir léku seinast leik í deildinni eða frá því 1. desember þegar þeir lögðu Fjölni á útivelli. Í kvöld spila þeir gegn liði Snæfells og fer sá leikur fram á heimvelli Snæfells í Stykkishólmi. Vonandi ná mínir menn að kvitta fyrir döpur úrslit úr viðureign þessara liða í Lýsingarbikarnum frá því um miðjan des.

Fróðleikur dagsins: Samkvæmt fyrstu Mósebók 1:20 - 1:22 kom hænan á undan egginu.

Á uppleið.

Góður útisigur minna manna í kvöld gegn liði Newcastle í ensku úrvalsdeildinni og 4. sætið staðreynd, alla vega í bili. Liðið unnið 11 leiki gert 6 jafntefli og tapað 4 leikjum og komið með 39 stig sem er vonum framar. Greinilegt að Sven Göran Erikson er að gera fína hluti með liðið.

Málsháttur dagsins: Margur vill fljúga sem náttúran hefur ekki vængi gefið.
mbl.is Sven Göran: Langþráður útisigur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Páll Jóhannesson
Páll Jóhannesson

Akureyringur, eiginmaður, pabbi, afi, Þórsari,  jafnaðarmaður, City - fan og Áfram Þór alltaf, allstaðar.

Hafi einhver áhuga að senda mér tölvupóst þá sendið á pallijo@internet.is

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

336 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband