Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Svo set ég allt á hausinn og þið borgið

Ég og kunningi minn sem er haldin svipaðri áráttu og ég þ.e. að vera húkt í ljósmyndadellunni látum okkur dreyma af og til um að eignast rándýra aukahluti til að fullnægja þörfum okkar. Af því að virkilega góðar græjur eru rándýrar verður sjaldnast af því að við látum til skarar skríða.

Við látum okkur stundum dreyma þegar við spjöllum á msn um linsur, afsmellara, húdd og allskyns græjur. Einfót, þrífót og guð má vita hvað. 

Ég stakk upp á því við hann í kvöld að við stofnuðum hlutafélag/eignarhaldsfélag um flottar og rándýrar græjur stofnuðum svo dótturfélag á Tortilla eyjum (sem ég hélt lengi að væri pönnukökur) tækjum svo lán í banka með veð í hinu íslenska hlutafélagi. Keyptum græjur fyrir fúlgur fjár og færðum þær eignir undir merki félagsins á Tortilla. Svo myndum við taka kittlinsurnar og ódýra draslið sem við eigum fyrir og færðum til eignar á hið íslenska félag. Þegar kemur að afborgunum þá setjum við hið íslenska félag á hausinn og skuldin fellur á velsettan sauðsvartan almúgann. Og við verðum í góðum málum. Við förum svo að græða fúlgur fjár sem paparasar út um allar trissur, sérhæfum okkur í íþróttamyndum og öðru sem hægt er að græða á.

Þetta er náttúrulega allt gott og bessað en of gott til að geta orðið að veruleika, því miður. Við félagarnir höfum nefnilega samvisku sem er kannski ekki alveg snjóhvít en samt í lagi. Svo þangað til að við höfum efni á að kaupa þetta eins og heiðarlegum mönnum sæmir verðum við að láta okkur duga að birta myndir eins og þær sem maður hefur verið að dunda sér við og  vera bara ánægður með það sem maður á og hefur hverju sinni.

Var um það bil að deyja úr leiðindum yfir Ædolinu - af hverju? best að segja ekki meir þá særir maður engan.

Myndir dagsins er teknar í smábátahöfninni í Sandgerðisbót. Dásamlegt veður og kyrrðin og fegurðin fær mann til að gleyma öllum áhyggjum. En um leið potar í gamla sjómanninn sem blundar í manni.... hafið lokkar og laðar á ný....

botin1.jpg

botin_806842.jpg

Að lokum langar mig að minnast á að frændi minn hann Stefán Steinar Tryggvason sem hjá mínu fólki var aldrei kallaður annað en Stebbi lögga var borin til grafar í dag. Stefán var fæddur árið 1931 og því á 78. aldursári. Blessuð sé minning Stefáns  Steinars Tryggvasonar.

Fróðleikur dagsins: Sir Winston Churchill fæddist á kvennasalerni í Blenheim höllinni, en móðir hans var þar á dansleik.


Aldrei aftur Sigur Rós - aldrei

Ég endaði síðust bloggfærslu á því að segja ykkur frá veru minni inná kaffihúsinu Kofi Tómasar frænda, innan um Trefilmenni og miðbæjarrottur, eins og Gunnar kallar ákveðin hóp manna. Mér finnst það bísna góð nafngift. Það reyndi talsvert á mig að halda úti að sitja inni. Af hverju?. Forsaga málsins er að ég er einn þeirra fjölmörgu sem hreinlega þoli ekki Sigur Rós. Ég tek út þvílíkar kvalir við það að þurfa heyra þessa tónlist að það hálfa væri nóg. Þess vegna er ég vanur að skipta um rás eða slökkva á útvarpinu þegar þetta heyrist.

Hvað um það. Frændi minn hann Ævar Már sem er með afar sérstakan tónlistarsmekk (Þetta er hrós í garð Ævars, sem afar vandaður ungur maður) sagði við mig eitt sinn ,,Palli minn þú verður að gefa þér nægan tíma til að hlusta á Sigur Rós ekki bara eitt lag í einu".

Þar sem ég kom inn á umrætt kaffihús fór um mig undarlegur hrollur þegar ég settist og byrjaði að sötra kaffið. Sigur Rós hljómaði í kerfinu. Þegar laginu lauk var mér létt, í 10 sekúndur þá fór aftur um mig hrollur, enn meiri en í fyrra sinn - Sigur Rós hljómaði áfram. Ég tók á honum stóra mínum og varð hugsað til ráða Ævars hlusta meir og dæma svo. Þegar öðru laginu lauk fóru um huga minn milljón hugsanir - heldur þessi skelfing áfram?

Hálfri annarri klukkustund eftir að ég hafði sest inná kaffihúsið lauk þjáningum mínum  þegar konurnar hringdu og sögðu mér að verðkönnunarvinnu þeirra væri lokið og ég gæti hitt þær í bílahúsinu hafði Sigur Rós hljómað / öskrað í eyrum mér allan tímann.

Eftir þessa reynslu er ég bólusettur til lífstíðar. Á þess tónlist get ég ekki hlustað. Held svei mér þá að ég myndi frekar ganga fram af björgum en að leggja í það aftur að hlusta á þess ósköp. En ég held að þessi gerð tónlistar sé inni hjá Trefilmennum, það er þeirra vandamál.

Mynd dagsins hjá mér kemur þessum skrifum hér að ofan ekkert við. En bara af því að hún sýnir vel hve veðrið er yndislegt þessa daganna alla vega hér norðan heiða þá bara mátti ég til að leyfa henni að fljóta með. Sólin hækkar á lofti með hverjum deginum sem líður og það lifnar innra með manni von um bjarta tíma framundan. 

Málsháttur dagsins: Sá kann ei gott að þiggja sem ei þakkar


Ég hefði kannski betur elt þá í bankann

Föstudagsmorgun og ef allt hefði verið með feldu þá hefði leið mín legið í Hamar félagsheimili í morgunkaffi. En aldrei þessu vant þá brá ég þess í stað undir mig betri fætinum og fjórum hjólum og brunaði út úr bænum. Endastöðin höfuðþorp Íslands sem liggur við sundin blá. Með í för frúin, dóttirin og viðhaldið. Fyrsta augnablikið sem mér þótti við hæfi að mynda voru Hraundrangar mikil náttúruperla. Við rætur fjallsins stendur hið forna býli Hraun þar sem skáldið Jónas Hallgrímsson er jafnan kenndur við.

hraundrangar.jpg

Eftir því sem lengra var haldið dró meir og meir fyrir sólu og fátt sem fékk bílstjórann til að stoppa. Um hádegisbilið var komið til þorpsins sem Kári vinur minn kallar jafnan ,,Borg Óttans". Kvenpeningurinn vildi fara á Laugarveginn og ganga hann þveran og endilangan. Verðkönnun. Palli var lítt spenntur fyrir þess konar uppátækjum. Ég hugði mér gott til glóðarinnar. Hengdi viðhaldið um háls mér og gekk á hólinn sem kenndur er við landsnámsmanninn Ingólf. Heilsa uppá hann. 

ingolfur.jpg

Ingólfur heima eins og vanalega. Þarna stóð hann eins og hann hefur gert svo lengi og getur ekkert annað, kemst ekkert frá.  Á vinstri hönd er svo bankinn sem á að gæta aura okkar og koma í veg fyrir klúður og vitleysisgang. Handan þess mikla hús má sjá í byggingakrana því þar er að rísa hið mikla hús er Bjöggi og félagar hófu að reisa og var fyrsta skrefið í yfirtöku landsins alls. Neðan jarðargöng voru víst á dagskrá yfir í Seðlabankann. 

se_labankinn.jpg

Hversu oft hafði ég ekki horft heim að þessum banka án þess að hafa nokkurn tíman lagt leið mína svo nálægt. Skildi vera óhætt að fara alla leið að anddýri þessa mikla hofs þar sem Dabbi réði þar til að heilög Jóhanna rak hann? Ég lét á það reyna.

se_labankinn01.jpg

Þar sem ég stóð fyrir framan innganginn í bankann fór um mig einkennilegir straumar. Hvað er í gangi. Mér fannst ég skynja eitthvað en áttaði mig ekki á þessu. Ég setti mig í stellingar og smellti mynd af merki bankans við anddyri hússins. Hvað heyri ég? þar sem ég var að munda myndavélina heyrði ég talað á framandi tungumáli. Fannst samt eins og ég kannaðist eitthvað við skylt tungumál minni ástkæra móðurmál. Ég leit við og hvað sá ég? út gekk hinn nýi Seðlabankastjóri sem heilög Jóhanna hafði ráðið fyrr um morguninn. Nú hafði hlaupið á snærið hjá Palla. Ég snéri mér við og smellti af kauða einni mynd.

stjorinn.jpg

Ljósmyndari og aðstoðarmaður með í för. Nú var ég spenntur. Ekki var ég boðaður en skyndilega komin í feitt. Hver verða næstu skref. Jú þeir ganga að stað og taka strauið upp að  styttu Ingólfs. Ég gekk upp að rótum styttunnar og smellti í gríð og erg ó áreyttur.

stjorinn01.jpg

Ég velti því fyrir mér ,,ætli ég hafi verið fyrsti úr hópi hins sauðsvarta almúga sem tók mynd af manngarminum í embætti Seðlabankastjóra? ég veit ekki en ég sá ekki fleiri á vettvangi. En ég var þó hugsi og velti því fyrir mér hvað var maðurinn að gera við rætur Ingólfs og láta mynda sig? Var hann að veðsetja karlinn? er nema von maður spyrji sig. 

Skyndilega tók ljósmyndarinn saman föggur sínar og þeir tóku á rás. Ég beið átekta, hvert voru þeir að fara. Kom á daginn að leiðin lá bara í bankann aftur. 

stjorinn03_803743.jpg

Ég lét ekki verða af því að elta þá en hefði kannski betur gert það. Hver veit hvað þeir væru að fara bralla?

Leið mín lá niður hólinn í átt að Stjórnarráðinu og ætlaði að vita hvort ég næði á heilagri Jóhönnu. En ég lét ekki reyna á það heldur lét mér duga að stoppa og taka myndir af útvörðunum sem þar eru þ.e. Stjáni 10. og Hannes Hafstein.

Það vakti þó athygli mína það sem einhverjir höfðu skrifað í snjófölina við rætur hólsins sem Ingólfur stendur á.

girls2009.jpg

Og...

island2009.jpg

kristjan10.jpg

Kristján 

hanneshafstein.jpg

Og Hannes.

kofitomasar.jpg

Þegar hér var komið við sögu var löngun í kaffi orðið óbærilegt. Stefnan tekin á kaffihús. Kofi Tómasar frænda þangað skildi haldið. Þar sem ég sat og sötraði kaffi innan um ,,Trefilmenni" eins og Gunnar bloggvinur minn kallar þetta lið sem sækir kaffihúsin hvað mest varð mér hugsað til þess hvað Ísland í dag er skrítið. Báðir afgreiðslumennirnir af erlendu bergi brotnir og töluðu vægast sagt undarlega Íslensku. Og ekki nóg með það mér fannst eins og að það væri bara töluð erlend tungumál á þessu kaffihúsi. Eftir óformlega könnum taldist mér til að Íslenska hafi verið töluð á tveimur borðum en nótaben ég taldi mitt borð með og ég hafði engan til að tala við enda sat ég einn við það borð. Ofan á allt þetta lögðust svo vangaveltur mínar um hvert Ísland er komið Norskur seðlabankastjóri og guð má vita hvað. 

Mér varð óneytanlega létt þegar síminn hringdi og kunnugleg rödd í símann sagði ,,við erum búnar hittu okkur í bílahúsinu eftir 10 mínútur. Leið mín lá í Engjaselið til Helgu og Tedda. Þar beið okkar um kvöldið dýrindis steik að hætti húsbóndans. Já lífið er undarlegt, en samt dásamlegt, stundum og alla vega þegar maður kemst í svona feitt.

teddi.jpg

Já læt ég þar með þessari langloku skrif og myndabloggi lokið að sinni. Meira síðar. 

Málsháttur dagsins: Þeim er frama von sem fer á milli kónga


« Fyrri síða

Höfundur

Páll Jóhannesson
Páll Jóhannesson

Akureyringur, eiginmaður, pabbi, afi, Þórsari,  jafnaðarmaður, City - fan og Áfram Þór alltaf, allstaðar.

Hafi einhver áhuga að senda mér tölvupóst þá sendið á pallijo@internet.is

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

248 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband