Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Þeir hljóta bjóða mér starfið..

Bíð spenntur eftir því hvort þeir á DV muni ekki hringja í mig og bjóða mér ristjórastarfið. Annað er óhugsandi. Reynir er með rák sem hann losnar seint við, og ég væri fínn í að spreyta mig á þessu. Tæki þetta í hjáverkum með ritstjórnarstarfinu á http://www.thorsport.is/.  

Frekar mikið að gera þessa daganna. Stíft fundað hjá okkur í Þór - undirbúa opið hús um hverja helgi, kjör íþróttamann Þórs 2008 undirbúa þrettándagleði og svo leikur gegn stórliði KR á morgun.

Í nótt kom hinn geðþekki Askasleikir til byggða. Hefur hann án efa verið gjafmildur eins og bræður hans. Á hins vegar eftir að heyra í barnabörnunum og taka púlsinn. Um Askasleikir var ort forðum daga.

 

AskasleikirSá sjötti, Askasleikir,

var alveg dæmalaus.

Hann fram undan rúmunum,

rak sinn ljóta haus.

 

Þegar fólkið setti askana,

fyrir kött og hund,

hann slunginn var að ná þeim,

og sleikja á ýmsa lund.

 

Á morgun kemur svo Hurðarskellir. Já til er ágætis saga innan fjölskyldunnar sem barnabörnin kunna segja frá þ.e. þegar Hurðarskellir kyssti Grétu ömmu, það er önnur saga.

Málsháttur dagsins: Sá fer ekki sekur af þingi sem sjálfur dæmir

Gjafmildi blaðamaðurinn

Jólasveinn dagsins nefnist Pottaskefill. Um hann var ort forðum daga.

 

PottaskefillSá fimmti, Pottaskefill,

var skrítið kuldastrá.

- Þegar börnin fengu skófir,

hann barði dyrnar á.

 

Þau ruku´ upp, til að gá að,

hvort gestur væri á ferð.

Þá flýtti´ ann sér að pottunum,

og fékk sér góðan verð.

Á morgun kemur Askasleikir. Gæti verið að honum yrði ekki mjög ágengt blessuðum enda allir hættir að nota aska.

Horfði á skemmtilega upptöku í gær sem sýndi blaðamanninn gjafmilda sem gaf Bandaríkjaforsetanum skó sína. Skemmtilegt og í anda jólanna. Þetta gefur gott fordæmi og vonandi fær herra Bush eitthvað í skóna, sem hæfir.

Málsháttur dagsins:   Ekki tjáir að fresta því sem fram á að ganga


Bévítans.....

Ef ég væri ekki þolinmóður maður þá hefði ég bölvað helvítis netinu undanfarna daga. Bévítans ráderinn búin að gera mér lífið leitt. Loksins komið í lag og geðheilsunni bjargað og hinir óþolinmóðu geta hætt að bölva helvítis netinu.

Í dag kom Þvörusleikir til byggða og er hann fjórði í röð bræðra sinna sem leggur leið sína til byggða um hver jól. Um hann var ort forðum daga

 

ÞvörusleikirSá fjórði, Þvörusleikir

var fjarskalega mjór.

Og ósköp varð hann glaður,

þegar eldabuskan fór.

 

Þá þaut hann eins og elding,

og þvöruna greip,

og hélt með báðum höndum,

því hún var stundum sleip.

Ef að líkum lætur þá mun Pottaskefill koma til byggða á morgun.

Málsháttur dagsins: Þeim þarf ekki að verða bragðafátt sem hefur

Óþarfa áhyggjur

Í gær tók ég mig til  og bauð börnum mínum tengdasyni og barnabörnum í rjómavöfflur, kakó og kaffi. Reyndar þurfti ég lítið að hafa fyrir þessari veislu. Ég boðaði þau niður í Hamar félagsheimili Þórs þar sem að við Þórsarar erum með opið hús á laugardögum í desember og bjóðum fólki upp á þess konar kræsingar frítt. Þetta er okkar innlegg í að létta lund bæjarbúa á aðventunni. Á laugardeginum eftir viku þá koma m.a jólasveinar í heimsókn.

Ritzkex bollugerð

Eftir að þessari veislu lauk tókum við ,,gamla" settið við barnabörnunum enda stóð til að þau fengju að gista hjá afa og ömmu. Krakkarnir höfðu pantað Ritzkexbollur að hætti afa og ömmu í matinn. Ekki einvörðungu vegna þess hve góður matur þetta er haldur vegna þess að þau fá að taka þátt í matargerðinni. Eins og sjá má á myndinni hér að ofan þá var þetta ekkert leiðinlegt hjá sumum a.m.k. Þó ekki öllum.

JónPáll sofandi

Já það voru ekki allir tilbúnir að taka þátt í þess konar dundi. Jón Páll vildi horfa á Latabæ og að sjálfsögðu var það látið eftir honum. Eru jú ekki ömmur og afar til þess að spilla börnum? ég held það. Nú það er svo í verkahring foreldranna að stilla af síðar. En án þess að nokkur veitt því eftirtekt fyrr en um síðir skrapp sá stutti í heimsókn í draumaheima. Safna kröftum fyrir kvöldið.

Um kvöldið þegar Spaugstofunni og þætti Ragnheiðar ,,Gott kvöld" var lokið var sett Mamma mía í tækið. Afapopp, svali smá laugardagsnammi við höndina og svo byrjaði fjörið. Kvenþjóðin skemmti sér greinilega öllu betur og lagið tekið af og til. Já mikið fjör og mikið gaman. ,,Afi mun Stúfur rata" voru áhyggjur hjá sumum. Afi reyndi af fremsta megni að skýra út að svo myndi verða. Svo var lesin saga um Stúf áður en ljósin voru slökkt. En til er vísa sem ort var forðum daga um þennan skrítna jólasvein og hljóðar hún svo

StúfurStúfur hét sá þriðji,

stubburinn sá.

Hann krækti sér í pönnu,

þegar kostur var á.

 

Hann hljóp með hana í burtu,

og hirti agnirnar,

sem brunnu stundum fastar

við barminn hér og þar.

 Svo er nú það. Á morgun kemur svo hann Þvörusleikir til byggða. Hvort hann þurfi að koma í Drekagilið er ekki gott að segja. Við bíðum og sjáum til.

Málsháttur dagsins:  Örlætið má ei vera meira en efnin til hrökkva


Ætli hann muni.....................?

Í gærkvöld voru tónleikar í íþróttahöllinni þar sem stórhópur listamanna kom fram og skemmti þ.e. Frostrósirnar. Það væri afar ósanngjarnt að taka einhvern eitt út úr og gefa hæstu einkunn. Ég segi bara og fullyrði ég var einn af liðlega 2000 manns sem fékk ríkulega skemmtun fyrir þann pening sem ég greiddi í aðgangseyri. Dóttirinn Sædís Ólöf var einn af þeim sem söng með kórnum sínum og barnabörnin Margrét Birta og Elín Alma komu fram í einu lagi með barnakór, já stoltur pabbi og afi. Einkunnargjöf mín hljóðar svo GÆSAHÚÐ.

Seinna í dag munu svo öll barnabörnin koma til afa og ömmu. Borða kvöldmat og svo gista. Börnin pöntuðu Ritzkex bollur í kvöldmat og afapopp eftir kvöldmat. Svo pöntuðu stelpurnar það að fá að fara í freyðibað. Já það verður líf og fjör í Drekagilinu í kvöld.

Nú svo kom til byggð jólasveinn nr. 2 og nefnist sá skrítni karl Giljagaur. Um hann var ort forðum daga eftirfarandi vísa.

 

GiljagaurGiljagaur var annar,

með gráa hausinn sinn.

- Hann skreið ofan út gili

og skaust í fjósið inn.

 

Hann faldi sig í básunum

og froðunni stal,

meðan fjósakonan átti

Við fjósamanninn tal.

Svo er bara bíða og sjá til hvort Stúfur sem er sá 3. í röðinni viti af því að börnin verði hér hjá afa og ömmu. Trúlegt má telja að ekki þurfi að hafa áhyggjur af því að hann rati ekki.

Málsháttur dagsins: Oft bætir hjartað upp það sem heilann skortir

Á ég að trúa þessu?

Ef að líkum lætur þá kom fyrsti jólasveinninn til byggða í nótt. Ekki varð ég var við hann og ekki fór skórinn út í glugga sökum reynslunnar. Var skíthræddur um að fá afþurkunarklút og þess háttar dót í skóinn.

En í dag þegar barnabörnin koma í heimsókn þá mun ég án efa fá að heyra um gjafmildi þessa annars ágæta karls sem heitir Stekkjastaur. Um hann var eitt sinn ort vísu sem er svo

StekkjastaurStekkjarstaur kom fyrstur,

stinnur eins og tré.

Hann laumaðist í fjárhúsin

og lék á bóndans fé.

Hann vildi sjúga ærnar,

þá varð þeim ekki um sel.

Því greyið hafði staufætur,

það gekk nú ekki vel.

Morgunkaffi dagsins í dag er jú með félögunum í Hamri. Þar verður mikið fjör og mikið gaman. Í kvöld ætla ég að bregða mér á tónleika með Frosrósunum. Dóttirin syngur þar með Æskulýðskór Glerárkirkju líkt og gert var í fyrra. Nú bregður svo við að barnabörnin koma þar einnig fram í síðasta laginu með öllum flytjendunum. Þetta verður gaman, já bara gaman.

Málsháttur dagsins: Illt er að neyta brauðs með öfundsjúkum

Hefð fyrir þessu

Kirkjugarður2008

Eitt af því sem er árvisst í desember er að setja skreytingu á leiði látinna ættingja og vina. Í dag fórum við hjónakornin og settum skreytingu á leiði tengdaforeldra minna og ömmu konunnar. Ferðirnar í kirkjugarðinn eru hefð. Á vorin tekið til og sett sumarblóm - heimsóknir af og til til þess að vökva og laga til.

Leiðaskreiting

Á aðfangadag um hádegisbilið verður svo farið með friðarkerti að leiðunum það bara tilheyrir jólunum. Aftur á gamlársdag á svipuðum tíma. Talandi um hefð. Þá er einnig farið í tvo aðra kirkjugarða til að minnast ættingja og vina sem farnir eru yfir móðuna miklu.

Prófin búin hjá heimasætunni og prinsinn á eftir að skila einu verkefni og þá er hann komin í jólafrí. Heyrst hefur að jólasveinar muni koma til byggða þrátt fyrir kryppuna miklu. Félagi minn sem er náin vinur Hurðaskellis, og Kertasníkis og virðist þekkja Ketkrók betur en flestir þótt aldrei hafi þeir sést saman - fullyrðir að hjá jólasveinunum sé engin kryppa, en hvað veit ég? Ég veit þó fyrir víst að ef allt fer að óskum kemur Stekkjastaur fyrstur til byggða og ef reiknikúnst mín er í lagi þá mun það gerast aðfaranótt föstudagsins. Ég ætla gera eins og ég er vanur að gera undanfarin ár þ.e.a.s. birta myndir og gömlu vísurnar um þá bræður í réttri röð eins og þeir koma til byggða.

Söngur

Nú styttist óðfluga, eins og óðfluga í að Sædís fái forláta bassa til yfirráða. Þar með mun tónlistarflutningur okkar feðgina taka talsverðum breytingum. Nú verður gaman að taka þátt í að spila undir með henni. Hef trú á því að hún verði snögg að tileinka sér þetta nýja hljóðfæri. Nú vantar bara trommuleikara í lið með okkur. Reyndar á Jón Páll leikfangatrommur sem Sædís gaf honum eitt sinn í jólagjöf. Já svei mér þá ef það bara styttist ekki í að við Sædís getum stofnað tríó. Hvað um það ég segi bara eins og skáldið ,,lífið er yndislegt ég geri það sem ég vil" Pálmi tengdafrændi fær góðar kveðjur héðan fyrir lánið á bassanum.

Málsháttur dagsins: Illa má yggla sig ef fjandann skal fæla

Loksins blogg

Í gær átti stór systir afmæli og því miður gat ég ekki á nokkurn hátt komið því við að sækja hana heim vegna anna - sorry Anna. Alla vega fór frúin sem fulltrúi í okkar. Nú Anna er enn á lang besta aldri eða þannig rétt rúmlega aðeins eldri en ég og yngri en stóri bró þannig að hún getur ekki annað en verið í góðum málum. Í dag 5. desember hefði Ólöf amma mín orðið 105 ára ef hún væri á lífi. Amma lést árið 1991. Blessuð sé minning ömmu minnar.

Ástæða þess að langt hefur liðið milli bloggfærsla er ekki sú að ekki sé nægilega mikið um að vera í þjóðfélaginu sem hægt væri að pirrast yfir. Dabbi fer á kostum þótt að mínu mati vilji ég kalla það fremur ókosti. Krónan komin á flot - og flýtur. Fyrsta sólarhringinn flýtur hún þokkalega - nú er bara vona að hún sökkvi ekki aftur.

Hvað um það er ekki málið bara að gleyma sér á aðventunni - það styttist í jólin og allir eiga vera glaðir, ekki satt? Í anda þess setti ég mynda af karluglunni í hausmynd með jólahúfu og ku fara vel enda segja sumir að höfundurinn sé hálfgerður jólasveinn. Einnig komin ný mynd í toppinn sem ég tók fyrir skömmu. Myndina tók ég frá lóninu við Glerá í átt að Háskólanum. Stoltur af þeirri mynd. Sendi hana í ljósmyndakeppni og verður fróðlegt að vita hvernig henni mun ganga þar.

Mínir menn í körfunni sækja ÍR heim í kvöld og þar vona ég að þeir sæki bæði stigin sem í boði er. Stuttan upphitunarpistil má sjá á heimasíðu Þórs fyrir þá sem vilja. Hvað um það Áfram Þór alltaf, allstaðar.

Rúnar Júlíusson rokkkóngur Íslands er allur. Hann var litríkur tónlistarmaður. Hvort sem fólk fílaði tónlistina hans eður ei þá er mikil sjónarsviptir af honum og auðvitað missir fjölskyldunar mikill. Blessuð sé minnig Rúnars og takk fyrir hans framlagt til íslenskrar tónlistar.

Fróðleikur dagsins: Í Cleveland er bannað að veiða mýs án veiðileyfis.

« Fyrri síða

Höfundur

Páll Jóhannesson
Páll Jóhannesson

Akureyringur, eiginmaður, pabbi, afi, Þórsari,  jafnaðarmaður, City - fan og Áfram Þór alltaf, allstaðar.

Hafi einhver áhuga að senda mér tölvupóst þá sendið á pallijo@internet.is

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

270 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband