Leita í fréttum mbl.is

Rannsóknarvinna

Í dag var til grafar borin útgerðarmaðurinn og skipstjórinn Haukur Runólfsson. Haukur varð undir í baráttu við illvígan sjúkdóm. Hauki og konu hans Ásdísi Jónatansdóttir sem lést fyrir 24 árum síðan kynntist ég árið 1976. Ég fór þá austur á Höfn á vertíð á bát hjá Hauki sem hann átti og var skipstjóri á Akurey SF52. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að búa heima hjá þeim heiðurshjónum í tæplega hálft ár. Þau kynni gleymast aldrei. Þvílík heiðurshjón. Ég sendi fjölskyldu Hauks Runólfssonar mínar dýpstu samúðaróskir og segi enn og aftur ,,Hver minning er dýrmæt perla". Hvíl í friði Haukur Runólfsson.

Af frumkvæði bloggvinar míns hans Gunnar sem er mikill skipa áhugamaður hefur ferðum mínum í ,,Bótina" fjölgað svo um munar. Allt hófst þetta með því að ég birti mynd í vetur af hinu stórkostlega fley er ber nafnið Smugan. Tók það mig u.þ.b. 2 mánuði að leysa þá rannsóknarvinnu af hendi. Ég verð að reyna standa mig því ég á enn óleyst verk sem hann lagði á mig fyrir nærri ári síðan ef ekki lengra. Ekki svo að skilja að ég hafi ekki reynt - það hefur bara engin geta veitt mér svör við gátunni miklu - en leitinni verður haldið áfram.

Ingibjorg 5411 1Fyrsta verk dagsins var að finna bát sem heitir Ingibjörg og er með skráningarnúmerið 5411. Bátur sem smíðaður er 1972. Samkvæmt mynd sem Gunnar sá af þessum bát sem tekin var 1997 er hér um bát að ræða sem er sannkallað augnayndi.

Bátinn fann ég strax og óhætt að segja að báturinn er fallegt fley. Fallegar línur og í alla staði er greinilegt að hann ber skapara sínum góða sögu um gott handbragð.

Fegurðarskyn manna er mismunandi. Það sem einum finnst fallegt getur öðrum þótt ljótt og þar fram eftir götunum. Mér finnst báturinn fallegur og sýnist á öllu að um hann sé vel hugsað.

Nú svo nú legg ég þá spurningu á Gunnar hvort hann sjái á myndinni hvort bátinum sé nægilega vel við haldið og standi undir merkjum?

MániVerkefni nr. 2. Finna bát sem stendur á vagni stutt frá þeim stað sem Smugan er nú. Þar á ég að finna hraðbát af gerðinni Shetland sandgulur með rauðum röndum og heitir Máni. Eins og við manninn mælt báturinn var þar sem Gunnar hugði.

Hann var jú eitt sinn eigandi þessa báts. Hann var víst upphaflega með blæju en á hann smíðaði hann hús úr áli ásamt vini sínum. Sprautaði svo gripinn með eðal lakki og efnum sem erfitt eða nánast útilokað er að verða sér úti um í dag. Gunnar á víst margar gullnar stundir á þessum bát ásamt föður sínum á ferðum þeirra um Ísafjarðardjúp.

En ég veit ekki við hverju Gunnar átti von. En víst er að Máni þar á því að halda að fá smá andlits upplyftingu. Báturinn er skítugur og í honum er brotin rúða og hálfgerð óreiða um borð. Og auðvitað smellti ég af einni mynd svo Gunnar geti séð í hvað ástandi þessi kostagripur er í dag.

NóiAf því að ég var komin í Bótina og farin að skoða myndir þá komst ég ekki hjá því að sjá einn bát sem vakti óskipta athygli hjá mér. Sá bátur heitir Nói og hefur skráningarnúmerið 5423.

Fallegar línur og allt handbragð er hreint fullkomið í þessum bát. Og ekki bara handbragðið fallegt heldur er þessi bátur greinilega í góðum höndum eiganda síns og viðhaldið á honum eins og best verður á kosið. Þegar maður var lítill pjakkur að hrærast í bótinni og var að fylgjast með Begga og félögum þá fannst manni bátar eins og Nói hreinlega vera stór skip, sem þau eru í sjálfu sér.

GunnarRétt í lokin set ég svo inn mynd af lítilli trillu sem stendur á þurru rétt hjá Nóa. Af útliti bátsins og ástandi er greinilegt að komið er að leiðarlokum þar á bæ eða bát.

Og það skondna við allt þetta er að sá bátur ber nafnið Gunnar.

 Svo til að loka þessari færslu vil ég benda á að ég er búinn að búa til nýtt myndaalbúm sem heitir Bátar og skip. Þar er ég strax búinn að setja inn myndir frá ferð minni í Bótina í dag.

Hver veit nema ég haldi áfram þessari rannsóknarvinnu í Bótinni, hver veit?

Fróðleikur dagsins: Muhammed Ali heitir réttu nafni Cassius Marcellus Clay.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Maður er eiginlega bara orðlaus eftir þennan pistil, því hann er næstum of stór biti í einu. Mér rennur til rifja að sjá hirðuna á Mána mínum. Páll, veistu hvað ég hafði mikið fyrir því að draga þessar framrúður í gúmmíkantinn og síðan að "kíla" kantinn á eftir?? Nei, eflaust ekki, en það var gríðarleg fyrirhöfn og kostaði mikinn uppþvottalög, því sá vökvi smyr gúmmí án skaða betur en annað efni. Margri bóndósinni var pabbi gamli búinn að smyrja á þennan skrokk, og enn þegar bátar berast í tal okkar á milli þá spyr hann hvort ég viti hvort Máni standi enn á sama stað. Nú veit ég það.

Máni var hins vegar jafn lélegur sjóbátur eins og hann var fallegur. Þegar horft er framan á hann sést vel hversu rýr hann er til bóganna, enda kannski fyrst og fremst hraðbátur en ekki sjóskip. Hann var eins og hugur manns á sléttu vatni en svo varð mér á að bjóða brottfluttri systur minni í veiðiferð, þegar hún var eitt sinn í heimsókn vestra. Þetta var um kvöldtíma, og það var vindgjóla og talsverð ylgja úti á Djúpinu þó slétt væri inni á Skutulsfirðinum. Þar voru hins vegar engin fiskimið og ég afréð því að sigla út úr firðinum og rétt út fyrir Hnífsdal. Þar lentum við í grunnbrotum af svokölluðum Vallarboðum, og það skipti engum togum að um leið og ég sló af ferð svo Máni stykki ekki hreinlega fram af öldunni, þá stakk hann sér á kaf uppí neðri gluggana. Það var einungis traustum frágangi þeirra að þakka að þeir komu ekki inn í bátinn. Ég sneri um leið og fært var, hélt beina leið til hafnar á Ísafirði og mér vitanlega hefur systir aldrei stigið fæti út í bát síðan. Meðan við böksuðum við að snúa Mána í brotunum duggaði "Jóhanna" gamla fram hjá okkur. Þar var Gulli á peysunni að koma úr veiðiferð með þennan gamla súðbyrta tréhnall talsvert hlaðinn. "Jóhanna" hafði hins vegar ekkert fyrir buslinu yfir Vallarboðana og skreið þá án þess að hreyfast. Það var mikill munur á bát og bát í það skiptið.

Og nú liggur Máni þarna á kantinum við smábátabryggjuna á Akureyri í algeru reiðileysi með brotna framrúðu og fleira gengið úr lagi. Hann er ekki skráningarskyldur og því óskaeign hvers þess sem hefur getu og vilja til að halda honum úti. Vélin er -eða var- Volvo Penta bensínvél, samskonar og var í öllum Volvo 244 bílum og því auðfengnir varahlutir í hana víðast hvar. Hældrifið var einnig Volvo, af gerð 270.

Í sannleika sagt hélt ég að "Ingibjörg EA" liti betur út. Ég giska þó á að miðað við að báturinn er orðinn 36 ára, en þeim aldri ná súðbyrðingar ekki nema með mjög góðri umönnun, þá eigi enfaldlega eftir að skvera hana af fyrir vorið. "Nói" er einstaklega fallegur bátur og í góðri hirðu að sjá. Þessir bátar eru hreinir safngripir og svona útlítandi eins og Nói eru þeir eigendum sínum til sóma.

Það er verra að sjá nafna minn, "Gunnar". Líklega er honum farið eins og Þjóðvaka forðum, hans tími kom og fór. Ég átta mig ekki alveg á þessum bát, því þeir bátar sem taldir eru upp með þessu nafni og stöfunum EA í bókinni "Íslensk skip/bátar" 1 bnd. virðast ekki eiga við þennan bát. Það má samt nefna að svona gamall, illa farinn súðbyrðingur er aldrei ónýtari en svo að eljusamur og handlaginn skipasmiður ræður venjulega við að gera við hann. Margir slíkir hafa verið gerðir upp sem safngripir og það ræðst eiginlega meira af þeim fjármunum og tíma sem menn er tilbúnir til að leggja í slíkt verk en af öðru. Svo eru sumir þessara báta tilfinningalega tengdir eigendunum eða ættingjum þeirra og því ræður oft tilfinningasemin ein hvort bátur er lagfærður eða brenndur.

Einn bát þekki ég enn þarna í höfninni. Það er "Þristur", blámálaður Færeyingur með rauðum þakkanti sem sést vel lengst til vinstri á myndinni af Ingibjörgu. Þristurinn var í eigu Dóra Jónasar, Bolvíkings, þá óbreyttur. Dóri vildi láta slá honum út og fékk Frigga vin minn hjá Bátasmiðju Vestfjarða til að annast verkið að vetri. Undir áramót var byrjað á verkinu en vegna anna dróst það úr hömlu. Þegar Dóri var orðinn langeygur eftir árangri fékk Friggi þá Árna smið Árnason og Einar gamla Guðnason, f.v. skipstjóra og þúsundþjalasmið á Suðureyri til þess að smíða mótið um skrokkinn á Þristi. Sú vinna tókst prýðilega en verkið var svo kórónað með þessum líka svakalega plasttoppi sem Friggi átti einhversstaðar á lager. Þessi "húfa" var raunar nokkrum númerum of stór fyrir Þristinn en Dóri var ánægður og það var fyrir öllu. Það er þess virði að leggja leið sína aftur niður í Bót til að skoða Þristinn með rauðu húfuna. Ég átti nokkur handtök í járnavinnu um borð í Þristinum meðan breytingaferlið stóð yfir, og líklega eru þau verk enn á sínum stað.

Þakka fyrir stórkostlegan pistil, Páll. Þetta var virkilega vel gert og gaman að lesa.

Gunnar Th. (IP-tala skráð) 6.5.2008 kl. 20:16

2 Smámynd: Páll Jóhannesson

Sæll Gunnar! þetta kalla ég alvöru athugasemd. Næst þegar ég á leið í Bótina dreg ég upp Canon vélina góðu og smelli einni á Þristinn ef ekki tveimur og jafnvel af einhverjum fleiri, hver veit?

Páll Jóhannesson, 6.5.2008 kl. 23:23

3 Smámynd: Hrönn Jóhannesdóttir

Innlit og kvitt

Hrönn Jóhannesdóttir, 8.5.2008 kl. 07:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Páll Jóhannesson
Páll Jóhannesson

Akureyringur, eiginmaður, pabbi, afi, Þórsari,  jafnaðarmaður, City - fan og Áfram Þór alltaf, allstaðar.

Hafi einhver áhuga að senda mér tölvupóst þá sendið á pallijo@internet.is

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

336 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband