Leita í fréttum mbl.is

Heimsmet á heimsmet ofan...

Átök í lagiHér kemur smá hugleiðing sem vaknaði eftir að hafa séð heimildarmyndina um Jón Pál Sigmarsson einn fremsta kraftakarl, sem sögur fara af.  Margar áleitnar spurningar vöknuðu. Hvernig stendur á því  að í dag fer lítið fyrir kraftajötnum úr röðum okkar Íslendinga? Hvernig stendur á því að notkun stera beri svo oft á góma í dag, menn jafnvel dæmdir í keppnisbann o.þ.h.? Er sú kynslóðin sem er að vaxa úr grasi í dag og uppnefnd ,,Cocapuffs-, vídeó- og tölvukynslóðin og sögð ekki nenna hreyfa sig dæmi um að ofeldið sé að gera hana að aumingjum?

 

ÁtökHalldór eldri bróðir minn tók sig til og hóf að æfa lyftingar í kringum 1979-1980 og náði strax góðum árangri. Hann þótti og þykir enn þokkalega sterkur, enda jafnan kallaður ,,Rauða nautið”. Rautt vísar í háralitinn og nautið í að hann var og er nautsterkur. Hann og félagar hans skutust á toppinn og gerðu það gott. Þetta var til þess að pabbi gamli fór þá að mæta á æfingar þegar hann var 49 ára gamall. Hann langaði að vita hvort hann gæti staðið í ungu kynslóðinni? Vildi athuga hvort hann væri í raun sterkur eða hvort allir hinir sem hann hafði verið samtíða voru bara grútmáttlausir aumingjar, sem skekkti samanburðinn? Af honum hafði ávallt farið það orðspor að hann væri hraustmenni mikið og samtíðarmenn hans til sjós sögðu hann heljarmenni.

 

Sá fullorðni reyndist vera full sterkur í meira lagi. Hann reif upp nánast allt sem á stöngina var sett, án þess að blása úr nös. Ungu mennirnir æstu þann fullorna upp og öttu honum út í keppni. Áttu þeir að gera það? Áttuðu þeir sig á afleiðingunum? Árangurinn lét ekki á sér standa.  Hann sló hvert metið á fætur öðru og komst strax í fréttirnar þegar hann fór að tína Akureyrarmetin af Halldóri elsta syni sínum. Ég hef stundum leitt hugann að því hvort hann hafi aldrei séð eftir því að hafa att pabba ,,gamla” út í þessa vitleysu. Reyndar staldraði Halldór stutt við í þeim þyngdarflokki sem sá gamli var í, svo Halldór setti bara met í næsta þyngdarflokki fyrir ofan. Því miður entist Halldór allt og stutt í þessu enda hafði hann fullmikið að gera við aðra hluti sem tóku of mikinn tíma og eitthvað varð að víkja.

 

Ævintýrið var hafið. Pabbi setti hvert Akureyrar- Íslands- og að lokum heimsmet öldunga á fætur öðru. Menn höfðu vart undan því að skrá söguna upp á nýtt. Sá gamli mátti varla snerta lyftingastöng þá setti hann met.

 

Aldrei of seintHann fór þrívegis á heimsmeistaramót öldunga í kraftlyftingum. Varð heimsmeistari 1981 og 1982 og hafnaði í öðru sæti á heimsmeistaramótinu 1983. Fólk var eitt spurningarmerki og spurði sig ,, af hverju er maðurinn svona andskoti sterkur hvað hefur hann verið að gera allt sitt líf?” ,, hvaða maður er þetta eiginlega?” Er nema von að fólk hafi spurt sig? Akureyringar, Íslendingar höfðu eignast heimsmeistara í kraftlyftingum öldunga.

 

Ungu mennirnir stóðu agndofa og horfðu á eftir manninum skjótast fram úr þeim. Þessir ungu strákar rembdust eins og rjúpan við staurinn en ekkert gekk. Maðurinn sem komin var á sextugsaldurinn var einfaldlega óviðráðanlegur. Af hverju? Hvernig stendur á því að sumir sem enn eru að dunda við þetta í sínum frístundum komast ekki einu sinni með tærnar þar sem hann hafði hælana? Hvað veldur? Er það ofeldið?

 

Sá gamli var alin upp við að þurfa vinna nánast allt frá því að hann gat staðið í lappirnar. Sveitastörf þar sem fátt var um tæki og tól til að létta sér störfin. Þá þurfti fólk að taka hendur úr vösum og vinna. Það var engin skólarúta sem flutti hann innan frá Hallandsnesi og út á Svalbarðsströnd þar sem hann sótti skóla. Þú hefur fætur strákur og þú bara labbar, þetta eru nú bara nokkrir kílómetrar.

 

Hóf sjómennsku 14 eða 15 ára gamall. Þar tók við nokkuð sem trúlega herti enn frekar í honum. Bobbingar, hlerar og annað sem nútímamaðurinn veit varla hvað er var hann vanur að henda til og frá fremur en að bíða eftir ,,gilsinum” sem nútíma sjómaður veit varla hvað er. Á síðutogurunum þurftu þeir að drösla heilu trollunum fram og aftur upp og niður berhentir við hrikalegar aðstæður út undir berum himni allan ársins hring rennblautir og kaldir, sem engin léti bjóða sér í dag. Sjómannskynslóðin í dag dræpist úr kulda og hor eftir einn túr ef hún entist svo lengi. Vinnusemi og djöfulgangur mannsins í vinnu þótti brjálsemi líkust. Hann ólst ekki upp við að eta Cocapuffs, Cheerios, og annan álíka næringarsnauðan mat í morgunmat, sem kunnugir segja álíka næringarríkan og umbúðirnar. Þessi kynslóð sem hann er af var alin upp við að eta allt sem að kjafti kemur, sumt, sem í dag þykir allt að því hættulegt. Samt lifir þessi kynslóð ágætislífi á sínum efri árum.

 

Svo kann að vera að þessi samanburður sé ekki sanngjarn. En hann vekur í það minnsta upp margar spurningar. Ég, er samt á þeirri skoðun að sú kynslóð sem faðir minn er af sé harðari af sér en fólk í dag. Þetta fólk kvartaði ekki og gerir ekki enn. Þessi kynslóð segir ekki neitt þrátt fyrir það að henni sé á stundum boðið upp á að búa á dvalarheimilum sem kynslóðin í dag dræpist frekar en að láta bjóða sér. Þessi kynslóð á svo miklu, miklu meira skilið af okkur en henni er boðið uppá. Við getum margt lært af þessari kynslóð, og okkur væri nær að nýta okkar þann möguleika að hlusta og læra, þá myndi okkur vegna vel.

 

Að lokum er eitt sem vert er að hafa í huga í þessu tilfelli eins og svo mörgum öðrum tilfellum og það er, að á bak við þennan mann er kona. Hefði hennar ekki notið við í jafn ríkum mæli og raunin varð á er ekki víst að allt hefði farið eins og raunin varð á. Mamma þú varst og ert líka mikil hetja.

  Málsháttur dagsins: Margir eru linir langir en stuttir stinnir.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Jóhannesdóttir

Mikið er nú gaman að lesa þetta og rifja upp gamlar góðar minningar. Já eitt er víst að sú kynslóð sem er á undan okkur hefur sko heldur betur þurft að hafa fyrir hlutunum. Væri reyndar alveg til i að hafa fengið eitthvað af þeim dugnaði og afli sem pabbi á. Gott að eiga góða foreldra það veður aldrei ofmetið. Kveðja frá snjóhúsinu á suðurnesjum

Hrönn Jóhannesdóttir, 16.1.2008 kl. 19:23

2 Smámynd: Þorsteinn Gunnarsson

Sæll Palli... já kannski hefur atlætið mótað en síðan eru sumir menn heljarmenni að upplagi þ.e eðlisterkari en gengur og gerist og gamli var það sko nokkuð örugglega.

Mér varð hugsað til læknis eins sem ég spjallaði við fyrir nokkru en hann hafði verið í lyftingum fyrir margt löngu og gengið afar vel og ég spurði hann hvað hefði valdið að hann hætti þrátt fyrir svo gott gengi. "Ja það kom að því að ég varð að velja um það að taka stera eða dragast afturúr... og fannst hvorugt ásættanlegur kostur". 

Skilaðu keðju til Fíranna frá mér    

Þorsteinn Gunnarsson, 17.1.2008 kl. 01:51

3 Smámynd: Páll Jóhannesson

Sæll Steini! kveðjan kemst til skila. Já þetta með sterana þá held ég að það sé mikið til í því sem þú segir.

Páll Jóhannesson, 17.1.2008 kl. 09:40

4 identicon

Enda er minningin af pabba þínum að hann var kallaður Jói sterki á mínu heimili.  Ég á mér eina minningu af honum og reyndar vinkona mín líka.  þá hittum við hann í Ásbyrgi og hann hélt á okkur báðum.  Þetta þótti okkar merki um mikið hreystimenni.....þó ekki vorum við háar í loftinu eða miklar í vexti. Bið að heilsa Jóa sterka frænda mínum.

Anna Bogga (IP-tala skráð) 17.1.2008 kl. 09:57

5 Smámynd: Ólöf Jóhanna Pálsdóttir

Já Palli minn, íþróttir hafa alltaf verið í einhverri mynd á okkar heimili. Og stundum var stofan gerð að fimleikavelli. Engin lognmolla yfir því.

Ólöf Jóhanna Pálsdóttir, 17.1.2008 kl. 20:12

6 Smámynd: Páll Jóhannesson

Mikið væri gaman ef maður ætti einhverjar myndir frá þeim tíma þegar við vorum í fimleikum í stofunni í Þverholtinu. Hvernig var það annars varstu ekki búinn að fjárfesta í stafrænni myndavél þá?

Við ættum að setjast niður og skrifa pistil um þessar stundi.

Páll Jóhannesson, 17.1.2008 kl. 20:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Páll Jóhannesson
Páll Jóhannesson

Akureyringur, eiginmaður, pabbi, afi, Þórsari,  jafnaðarmaður, City - fan og Áfram Þór alltaf, allstaðar.

Hafi einhver áhuga að senda mér tölvupóst þá sendið á pallijo@internet.is

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

336 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband