Leita í fréttum mbl.is

Þakklátur og auðmjúkur

Það er svo langt síðan að ég gaf mér tíma til að blogga síðast, að ég verð að hlaupa yfir æði margt sem á daga mína hafa drifið. T.d. Afmælisdagar sem eru nokkrir húsbóndinn í Drekagilinu, brúðkaupsafmæli hans og frúarinnar, afmæli Gústa mág og litlu systur og síðast en ekki síst afmæli Jóns Páls  sem varð 6 ára þann 8. mars.  Vegna veikinda hefur Jón Páll blessaður ekki enn geta haldið uppá þessi tímamót en það stendur til bóta á sunnudaginn og síðast en ekki síst stórafmæli Ólafar Helgu mágkonu minnar. Hamingóskir til allra afmælisbarna.

Nú eins og allir mínir bloggvinir vita þá ritstýri ég vefsíðunni www.thorsport.is sem er heimasíða Íþróttafélagsins Þórs, þar fær karlinn að skrifa um sín helstu hugðarefni og nýtur þessi 100%.. Það er gríðarlega skemmtilegt og gefandi starf með öllu. En til að víkka sjóndeildarhringinn hef bætt aðeins við í verkefnalistann og tekið að mér að ritstýra vefsíðunni www.akureyri.net. Þar gefst mér kostur á að skrifa fréttir um nánast allt milli himins og jarðar ekki bara íþróttir. Þetta verður spennandi.

Stóru tíðindin frá síðasta bloggi eru þau að stórt skarð var höggið í stórfjölskylduna mína þegar faðir minn féll frá þann 20. febrúar. Faðir minn var í orðsins fyllstu merkingu þess orðs goðsögn í lifanda lífi. Um hann verður ekki ritað í stuttu máli á tæmandi hátt. En skrifin ættu að vera tæmandi þá kæmi ekki annað en bók til greina. Það voru forréttindi að fá að eiga hann að í 53 ár. Og í raun væri það eigingirni að vera ekki þakklátur að hafa fengið að umgangast hann í öll þessi ár. Hann var á 81. aldursári þegar hann lést.

Ég ætla enda þetta blogg með því að birta minningargreinina sem ég skrifaði um föður minn og birt var í Morgunblaðinu þann 3. mars þegar hann var jarðsettur.

Þegar ég lít um öxl til þess að gera upp samleið okkar feðga í lífinu í stuttri minningargrein er manni vandi á höndum. Við þá staðreynd að faðir manns var sannkölluð goðsögn í lifanda lífi verður verkið enn vandasamara. Fyrir mig voru það alger forréttindi að eiga föður með svo breitt bak, stórar og þykkar hendur  með krafta í kögglum, pabba sem var fær í flestan sjó.         

Til að byrja með stóð hann vaktina í lífsins ólgu sjó í orðsins fyllstu merkingu, hann var einn af hetjum hafsins. Hann var þannig maður að, sem barni í uppvexti vildi maður ólmur feta í fótsport hans, vera eins og pabbi. Kæmist maður með tærnar þar sem hann hafði hælana, gat maður talist bara nokkuð góður. En að ætla sér að feta í öll hans fótspor var einfaldlega ekki á hvers manns færi. Pabbi var í orðsins fyllstu merkingu ótrúlegur maður hvernig sem á það er litið. Hann skildi eftir sig djúp fótspor hvar sem hann staldraði við. Hann var ósérhlífin vinnuþjarkur og eins og einn frændi hans sagði ,,Jói var eins og traktor, sem stoppaði ekki fyrr en allt var búið og hvergi eldsneyti lengur að fá".  Hann kunni ekki að gefast upp, uppgjöf var orð sem var ekki til í hans orðabók. Það sást ágætlega á því þegar hann á fullorðins árum tók upp á því að reyna fyrir sér í kraftlyftingum. Byrjaði smátt, prufaði að setja nokkur Akureyrarmet, síðan ófá Íslandsmet  og  fáein heimsmet og að lokum bættist heimsmeistaratitill við í safnið, ekki einu sinni heldur tvisvar. Ekkert hálfkák, þannig var pabbi. Áhugi pabba á íþróttum var með eindæmum. Þá körfubolta- og fótboltaleiki hjá Þór, sem hann missti af síðastliðin 20 ár mætti telja á fingrum annarra handar. Væri hann staddur erlendis þegar leikir fóru fram heima mátti ekki draga það um of að senda sms til mömmu svo hann gæti verið rólegur ytra.                                                                                                                

Það verður skrítið að venjast því fyrir okkur feðga að hafa hann ekki með á Þórsleikina. Fyrir son minn verður það líka undarlegt að hafa ekki þann fullorðna með í að horfa á Arsenal og taka með honum einn og einn hring í golfi. Einnig er höggið skarð í hóp félaganna sem hittast alla föstudagsmorgna í Hamri, þar sem öll vandamál heimsins eru rædd og leyst.                                                                                                                                   

Já þegar menn eins og pabbi hverfa af sjónarsviðinu breytist margt,  stórt skarð sem verður vandfyllt. Ég er afar þakklátur fyrir það að hafa fengið að hafa átt hann að. Sjóarann, verkamanninn, bílstjórann, íþróttamanninn, vininn og Þórsarann pabba minn, afa barna minna og langafa barnabarna minna kveð ég með virtum. Ég er þakklátur fyrir öll þau ár sem við áttum samleið í lífinu. Pabbi, þú veittir mér og mínum svo ótal margt. Þökk sé þér að ég get haldið áfram að halda í humátt á eftir þér, hafa þig sem fyrirmynd, láta mig dreyma um að koma tánum þar sem þú hafðir hælana.                                                                                 

Komið er að leiðarlokum, leiðir skiljast í bili a.m.k. Pabbi minn ég mun reyna halda eins vel utan um mömmu og veita henni styrk í að halda áfram lífinu án þín enda missir hennar mikill. Lokaorð mín eru þessi ,,Hver minning um þig er sem dýrmæt perla".

Pabbi

Oddfellow maðurinn 

Pabbi

Alvarlegur í passamyndatöku

Pabbi Þórsari

Og Þórsarinn 

Að lokum og enn og aftur: Takk fyrir allt pabbi ,,Hver minning um þig er sem dýrmæt perla"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Jóhannesdóttir

Til hamingju Palli minn með ritstjórnina á akureyri.net á örugglega eftir að kíkja þangað inn Og takk fyrir afmæliskveðjurnar til okkar hjóna Falleg minningargrein um pabba okkar, já það er erfitt að gera stutta grein um hann þessa perlu sem við fegnum að hafa Knús í bæinn og vona að Jón Páll sé að hressast og veit að afmælisveislan hans var flott enda ekki við öðru að búast

Kveðja frá suðurnesjum 

Hrönn Jóhannesdóttir, 24.3.2011 kl. 08:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Páll Jóhannesson
Páll Jóhannesson

Akureyringur, eiginmaður, pabbi, afi, Þórsari,  jafnaðarmaður, City - fan og Áfram Þór alltaf, allstaðar.

Hafi einhver áhuga að senda mér tölvupóst þá sendið á pallijo@internet.is

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

337 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband