Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Loksins, loksins.

Talsvert er liðið síðan ég bloggaði síðast og nú verður gerð bragabót á. Bloggleysið orsakast ekki af leti  heldur fremur af tímaleysi. Mikið annríki. Hvar skal byrja?

Mér finnst vel við hæfi að byrja á grobbi. Miðvikudaginn 22. júlí vígðum við Þórsarar uppgerðan Þórsvöllinn sem nú er einn glæsilegasti knattspyrnu- og frjálsíþróttavöllur landsins. Knattspyrnuvöllurinn er með hitalögnum og mjög fullkomnu vökvunarkerfi svokölluðu springler þar sem nóg er fyrir starfsmenn að kveikja á kerfinu í stúkunni og tölvubúnaður sér um að vökva. Kringum völlinn er svo 8 hlaupabrautir þar sem 2 innstu brautirnar eru upphitaðar þannig að hægt verður að hlaupa þar í öllum veðrum. Við völlinn er svo glæsileg stúka sem rúmar 1008 manns í sæti með tilheyrandi búnaði fyrir blaðamenn og annað starfsfólk. 

Þótti vel við hæfi að hafa vígsluleikinn leik milli Þórs og KA í 1. deildinni. Mikil eftirvænting ríkti í bænum enda kom á  daginn að 1500 manns mætti á leikinn sem reyndist hinn mesta skemmtun. Stuðningsmannalið beggja liða héldu uppi miklu fjöri og fá mikið hrós skilið. Það sem mestu skipti var að Þór vann leikinn 3-2 og það var Þórsarinn Matthías Örn Friðriksson sem skoraði fyrsta mark leiksins. Og eins og vanalega var ég með myndavélina á lofti. Þó ekki mína sem enn er biluð en naut velvildar kunningja míns Þórólfs Sveinssonar framkvæmdastjóra knattspyrnudeildar Þórs sem lánaði mér sína vél. Umfjöllun og ummæli í leikslok er að finna á heimasíðu Þórs og þar er ég ábyrgur þess sem skrifað var. Ummæli - umfjöllun

Þór - KA

Glæsilegt 

 Mjölnismenn

Mjölnismenn skemmtu sér og áhorfendum frábærlega

 

Sigri fagnað

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sigri á KA fagnað og áhorfendum þakkaður stuðningurinn.

Það má eiginlega segja að hátíðin hafi haldið áfram daginn eftir þar sem Stelpurnar í Þór/KA spiluðu sinn fyrsta leik á vellinum. Þær tóku á móti GRV í Pepsí-deild kvenna. Þar var ekki um eins spennandi leik að ræða þar sem mikill styrkleikamunur er á þessum liðum. Skemmtunin var samt góð. Þór/KA vann 7-0 sigur í þeim leik. Hægt er að lesa um ummæli leikmanna í leikslok sem og nánari umfjöllun á heimasíðu Þórs sem við feðgar berum ábyrgð á. Hér eru svo hlekkir á ummæli og umfjöllun úr þessum leik. Já og myndir úr leiknum fylgja með

Byrjunarlið Þór/KA og GRV

Byrjunarliðin

Skalli og mark

Rakel Hönnudóttir með skalla sem endaði í netmöskvunum

Mark!!!!

Fagnað

Á hliðarlínunni

 Dragan Stojanovic þjálfari er líflegur á hliðarlínunni

Sigri fagnað

 Í leikslok er áhorfendum þakkaður stuðningurinn.

Margt fleira en fótbolti hefur verið á döfinni hjá mér og mínum. Pínulítið fjölskyldumót var haldið á laugardaginn. Skroppið inn í Kjarnaskóg og svo kvöldvaka heima hjá ættarhöfðingjunum sjálfum. Góð kvöldstund.

Í dag eiga svo þeir feðgar pabbi minn og bróðir afmæli í dag. Sá eldri leit dagsins ljós fyrst 1930 en sá yngri nokkru síðar eða 1964. Já sá fullorðni er því orðin 79 ára gamall. Býsna sprækur þótt árin færast yfir. Má að sjálfsögðu muna sinn fífil fegurri eins og stundum er sagt. Hann er þekktur fyrir allt annað en að hafa farið vel með sig í gegnum árin. Sumir segja það með ólíkindum hvað hann er eftir þá meðferð sem hann boðið sjálfum sér. Alger víkingur til vinnu og veit ekki hvað það er að gefst upp. Sjómennska, bílstjóri, handlangari, verkamaður, dyravörður, pabbi, afi, langafi, heimsmeistari í kraftlyftingum öldunga er meðal þess sem karlinn hefur afrekað í gegnum ári. Og síðast en ekki síst afrekað það að lifa af þá þrekraun að ala upp 5 snarvitlaus börn. En hann er uppistandandi í dag og bara þokkalegur. Ég óska þeim feðgum báðum til hamingju með daginn. Í dag ætla ég klárlega að heimsækja þann fullorðna sem er og verður heima við og þiggja nokkra bolla af kaffi.

Pabbi

Hér er svo mynd af höfðingjanum tiltölulega ný mynd. Flottur karlinn. 

Málsháttur dagsins: Lengi lifir í þeim kolunum sem illa brenna.


Undirbúningi lokið.... kom inn

Ég endaði síðustu bloggfærslu á því að segja ykkur frá því að frúin í Drekagilinu sem hefur verið mín stoð og stytta í hart nær 31 ár hafi hafið undirbúning vegna 13. júlí. Já þann dag á hún afmæli. Í morgunsárið dreif ég mig á lappir bjó til eggja- og hangiket salat og dágóðan slatta af pönsum. Allt annað sér frúin um. Undirbúningi er lokið

Já fyrir þá sem leggja leið sína í kaffi koma ekki að tómum kofanum frekar en endranær. Og þeir sem til þekkja vita að ég er ekki að ýkja. Hvað um það þið komið kíkið inn og þiggið veitingar og takið létt spjall. 

Frúin sem ræður ríkjum í Drekagilinu leit sem sagt dagsins ljós fyrst augum þennan dag árið 1957 á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki og bjó inní Lýtingsstaðhreppi í eitt og hálft ár er hún fluttist með foreldrum sínum til Akureyrar. Þessi dagur er merkilegur fyrir þær sakir einnig vegna þess að amma og afi hennar í föðurætt fæddust bæði þennan dag. Stóra spurningin er hvað gerir Dagga í dag?

Ég kyssi konuna sérstökum afmæliskossi í dag.

Málsháttur dagsins:  Enginn hefur allt, og engan vantar allt


Vá hann hlýtur þá að vera fæddur 1980 eða eitthvað.......

Var í ökuferð með barnabörnin þ.e. systurnar Margrét Birtu og Elínu Ölmu á föstudag þá segir allt í einu Margrét Birta ,,Afi á Óla langamma afmæli á morgun?. Jebb hún á afmæli á morgun. ,,Hvað verður hún gömul?" Hún verður 74 ára. Stutt þögn og þá spyr Elín Alma ,,Afi hvenær á Jói langafi afmæli?" Hann á afmæli seinni partinn í júlí. ,,Hvað verður hann gamall þá?". Hann verður 79 ár segi ég. Nú kemur örlítil þögn og þá segir Margrét Birta ,,Vá hvað hann er orðin gamall hann hlýtur að vera fæddur örugglega 1980 eða eitthvað svoleiðis......"

 Já þetta var í gær svo að í dag á mamma mín afmæli og af því tilefni sóttu við hana heim og þáðum ýmsar veitingar í veðurblíðunni. Til hamingju með daginn mamma. 

Við hjónakornin byrjuðum daginn á því að fara í alvöru gönguferð. Lagt upp í göngutúrinn úr Kjarnaskógi og farið upp í hlíðina ofan við tjaldstæðin við Hamra. Þegar komið var upp á Hamrabeltið þá var stefnan tekin til suðurs allar götur (göngustíga) þar til við vorum komin ofan við Hvamm þá var stefnan tekin niður á við og inní Kjarnaskóginn að nýju. Þvílíkur snilldar göngutúr. Útsýnið út fjörðin og fram í fjarðarbotn ef svo má að orði komast. Þetta er enn ein perlan við bæjardyrnar, sem ég vissi ekki af fyrir nokkrum misserum. Á miðri gönguleiðinni datt mér í hug máltæki sem ég ætla nota sem fróðleik dagsins í enda bloggfærslunnar. Göngutúrinn tók litla 4 klukkustundir og þegar komið niður að bíl aftur var Palli fótafúni orðin æði þreyttur, en sæll og ánægður. 

Fína stóra og fullkomna myndavélin mín sem ég lengi hef kallað ,,viðhaldið" bilaði óvænt og er í viðgerð og fæ hana ekki til baka fyrir en undir mánaðarmótin júl/ágúst. Notast nú við myndavél frúarinnar sem er hið ágætasta vél en vandamál við að ná út myndum úr þeirri vél gera það að verkum að ekki verða birtar myndir úr þessari gönguferð eða öðrum atburðum að sinni. 

Í gær fórum við hjónakornin á nýja Þórsvöllinn og fylgdumst með setningu Landsmótsins. Frábær stemming í flottu veðri og svæðið þvílík dýrð og dásemd. Ég á svo sannarlega eftir að birta myndir af svæðinu eins og það lítur út í dag eftir endurbætur. klárlega flottasta íþróttasvæði landsins að mati forráðamanna Landsmótsins. 

Hafin er svo undirbúningur að næstu afmælisveislu sem verður á mánudaginn sem er 13. júlí. Fyrir þá sem til þekkja þá munu gestir ekki koma að tómum kofanum í Drekagilinu þann daginn þá er alveg á hreinu. 

Þangað til 

Fróðleikur dagsins: Til hvers að fara yfir lækinn til að sækja vatn


Með rönd

Það er mikið að gera þessa síðustu daga og lítill tími fyrir blogg. En í fljótu bragði þá hefur m.a. þetta gerst frá því síðast. Stelpurnar okkar í Þór/KA skruppu í borg óttans og sóttu heim ÍR í Pepsí-deildinni og skemmst er frá því að segja að þær komu heim með öll stigin sem í boði voru. Sigur 0-4. Það var svo s.l. föstudag að liðið fékk stórlið Breiðabliks í heimsókn á Akureyrarvöll en viðureignir Þór/KA og Breiðabiks eru að verða hinar skemmtilegustu. Skemmst er frá því að segja að Stelpurnar í Þór/KA unnu sannfærandi 2-0 sigur þar sem Rakel Hönnudóttir skoraði bæði mörkin. Er liðið nú í 4. sæti deildarinnar með 23 stig og er aðeins 4 stigum á eftir toppliðunum. Palli var með myndavélina á lofti og tók nokkrar myndir þar á meðal þessa. Hér er á ferð Vesna Smiljkovic mikill snillingur klárlega ein besta knattspyrnukonan í Pepsí-deild kvenna. 

Snillingur

Á morgun fara svo stelpurnar suður og mæta Blikum í Vísa-bikarnum. Ljóst að Blikar munu taka á móti Stelpunum okkar af fullri hörku og hyggi á hefndir. Við spyrjum að leikslokum. 

Ekki gengur jafn vel hjá Strákunum okkar. Eitthvað sem ekki er að ganga upp en ég hef þó fulla trú á því að þetta fari að smella saman. Kannski þeir séu að bíða eftir því að komast á nýja völlinn - hver veit? Alla vega verður næsti leikur liðsins á Akureyrarvelli gegn Aftureldingu og verður það trúlega síðasti heimaleikur Þórs á þeim ástkæra velli. Nýi knattspyrnuvöllurinn við Hamar verður vígður innan tíðar. 

Pollamót Þórs var um síðustu helgi og þar var margt um manninn og mikið líf og fjör. Knattspyrnumenn sem komnir eru af léttasta skeiði spreyttu sig og á tilþrifum þeirra mátti glöggt sjá að talsvert var í að löngu gleymd tilþrif voru ekki innan seilingar. En mótið allt hið glæsilegasta og gaman af. Myndavélin á lofti þar eins og gera mátti ráð fyrir. Þó lítur allt út fyrir að Valdi Páls hafi engu gleymt......

Tilþrif

Svo rúllar þetta bara áfram - menn rífast um Icesave og guð má vita hvað - Davíð Gunnlaugs og Odds báðir komnir með rönd en hvað um það og þangað til 

Fróðleikur dagsins: Rotta þolir að vera vatnslaus lengur en úlfaldi.


Höfundur

Páll Jóhannesson
Páll Jóhannesson

Akureyringur, eiginmaður, pabbi, afi, Þórsari,  jafnaðarmaður, City - fan og Áfram Þór alltaf, allstaðar.

Hafi einhver áhuga að senda mér tölvupóst þá sendið á pallijo@internet.is

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

242 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband