Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Að standa við gefin loforð

Þegar maður gefur loforð er heillavænlegast að standa við þau. Ég hafði lofað ykkur smá myndasyrpu frá ferð minni til Húsavíkur í gær þar sem barnabörnin mín þær Margrét Birta og Elín Alma voru að keppa í fótbolta.Það var mikið fjör og mikið gaman. Liðið sem Margrét Birta keppir í þ.e. 6. fl. vann alla leiki sína á mótinu. Liðið hennar Elínar Ölmu 7. fl. vann 2 leiki og gerði 2 jafntefli og Elín skoraði þar m.a. síðasta mark liðsins á mótinu, skotið náðist á mynd en ekki þegar boltinn hafnaði í netinu. 

Ekki var keppt um sæti á mótinu og því engin hefðbundin verðlaun. Það er á margan hátt mjög jákvætt enda er hér um leik að ræða þar sem allir eiga hafa gaman og koma glaðir heim og lausir við allt stress og óþarfa karp.

Stelpu-snillingar

Hér eru svo bæði liðin 6. og 7. fl. kvenna ásamt þjálfurum sínum þeim Evu Hafdísi og Bojönu Besic. Snillingar 

Á fleygi ferð

Elín Alma í leik gegn Völsungi

Einbeitt

Einbeitingin leynir sér ekki

Snögg

Margrét Birta á fleygi ferð

Flottur þjálfari

Bojana gefur fyrirskipanir af línunni.

Mark

Markskot sem endaði sem mark flott hjá Elínu

7. fl.

7. fl. liðið hennar Elínar flottar stelpur

Margrét Birta

Margrét Birta dansar með boltann

Skot

Og skotið ríður af

6.fl. Margrét

Liðið hennar Margrétar 6. fl. ásamt þjálfaranum Bojönu Besic

Jón Páll

Sumir voru of litlir til að fá að vera með að þessu sinni, en hann veit að hans tími mun koma.

Húsavík er höfuðborg Hvalaskoðunar Íslands og þar er stærsta reðursafn í heimi. Heimsókn á þann ágæta stað bíður betri tíma

Reðursafnið

Hvort sem þið trúið því eður ei þá kom þessi kona í bláu treyjunni út úr safninu þegar ég mundaði myndavélina. Hún fór í bílinn og sótti karlinn og fór með hann inn..... var hann hræddur?

Fróðleikur dagsins: Getnaðarlimur fíls er sá þyngsti í heimi, eða u.þ.b 27 kíló


Afrek

Ef ég spóla 6 ár aftur í tímann og ímynda mér að einhver hefði spurt mig þeirra spurninga hvort ég ætti eftir að fara í fjallgöngu, hefði ég eflaust svarað þeirri spurningu einhvern vegin svona ,,Ert´eitthvað bilaður?". Þeir sem til þekkja skilja þetta án efa. En samt er það svo að í dag jaðra göngutúrarnir hjá okkur hjónum við að geta kallast fjallgöngur. Og í gær fórum við hjónin í einn slíkan ásamt Nunnu vinkonu okkar, labbitúr sem tók 5 og 1/2 klukkutíma. Lagt var upp frá vatntönkunum við Súluveg og gengið sem leið lá upp í Fálkafeill. Þaðan var stefnan tekin upp á Súlumýrar og svo í suður og sem leið lá niður að Gamla sem er bústaður sem Skátarnir eiga. Þaðan var svo göngunni haldið áfram til suðurs alla leið inn í Hvammsskóg og úr honum inn í Kjarnaskóg. Þangað létum við svo sækja okkur.

Já fyrir 6 árum síðan sat ég í hjólastól og hefði aldrei geta séð fyrir mér að ég ætti eftir að ná því að leggja svona gönguleiðir að baki. Ein stærsta hjálpin í minni endurhæfingu eru skór sem ég fékk fyrr á árinu frá snillingi sem heitir Kolbeinn og rekur skóvinnustofu hér í bæ. Skór þessir eru með svokölluðum veltisóla og ná upp fyrir talsvert upp fyrir ökla og þeir gera mér kleift að ganga lengra en áður. Já snilldin ein.

Sennilega hefði gönguferðin geta tekið skemmri tíma en hún gerði en á vegi okkar urðu margar hindranir sem höfðu þau áhrif að konurnar settust niður. Blá- og Krækiber og sveppir. Á meðan Gréta og Nunna tíndu ber og sveppi lagðist ég í jörðina og tók myndir af berum, sveppum og bara öllu því sem  í kringum okkar er. Myndir úr þessari ferð eru svo hér að neðan og njótið þeirra. 

En upp úr stendur að ég lít á þessa gönguferð sem stórt afrek hjá mér eins bæklaður og ég er til fótanna. Þetta færir mér sönnur á að með vilja og trú þá kemst maður langt. Slíkir göngutúrar eiga í náinni framtíð eftir að verða fleiri. 

Í dag brá ég mér á Húsavík og fylgdist með barnabörnunum keppa í fótbolta. Þær systur keppa í sitthvorum flokknum og gaman að geta sagt frá því að þær komu taplausar heim. Skemmtilegur dagur. Ég mun blogga meir um þann viðburð t.d. á morgun eða hinn. En mynd fylgir með þar sem liðin sem þær systur spila með.

Stelpurnar okkar

Í upphafi móts

Akureyri séð frá Fálkafelli

Horf yfir bæinn frá Fálkafelli

Áð í Fálkafelli

Nunna og Gréta fyrir framan Fálkafell

Berjatínsla

Stoppað til að tína nokkur ber

Bláber

Girnileg bláber

Krækiber

Krækiber

Alger sveppur

Alger sveppur

Öðruvísi sjónarhorn

Öðru vísi sjónarhorn af Akureyri

Kynjamyndir

Ýmsar kynjamyndir má lesa úr landslaginu

Í sveppum

Nunna komin í sveppina

Gamli

Við Gamla bústaður í eigu Skátanna

Krökt af sveppum

Hvert sem litið var, var krökkt af sveppum.

Af tilefni færslunnar: Betra er að ganga á fjöll en hurðir.

 


Nýtt hlaup

Það er ekki að spyrja að því þegar myndavélin var komin til síns heima þá lifnaði bloggið við á ný. Við hjónakornin byrjuðum á því að sjóða niður rifsber í gær. Gerðum tilraun með að nota hrásykur í rifsberjahlaup nú og útkoman snilld. Svo nú er og verður boðið uppá nýtt rifsberjahlaup í Drekagilinu, verð ykkur að góðu. 

Rifsber

Snemma sumar taldi ég mig góðan að hafa fundið múrara sem var reiðubúinn að flísaleggja stéttina fyrir framan húsið hjá foreldrum mínum. ,,Já ég þarf bara skreppa til Eyja með stráknum svo kem ég" dagar líða, vikur líka nú er hægt að telja hér um bil í mánuðum og ekki hefur múrarinn sést. Þolinmæðin brast og haft var samband við Björgvin Pálsson hin mikla þúsundþjalasmið úr Hrísey sem er reyndar að verða áttræður. Björgvin móðurbróðir minn er húsasmíðameistari og er þekktur fyrir að hlaupa í öll störf, rafmagn, pípulögn, blikk, skipaviðgerðir, bíla, sláttuvélar og guð má vita hvað. Þessi maður er hið mesta ólíkindatól. Verður 80 ára gamall í janúar næstkomandi vinnur fullan vinnudag ekki bara í Hrísey, nei hann tekur að sér verk út um allan Eyjafjörðinn. Já nagli hann Björgvin Pálsson.

Gamall... nei

Hér má sjá karlinn á hnjánum við vinnu sína. Hjá honum stendur pabbi sem er jafnaldri hans og í dyragættinni er móðir mín og systir Björgvins. 

Var orðin þreyttur á því að prentarinn minn var búinn að vera að pirra mig. Var að því komin að henda honum í ruslið þar sem ekkert gekk að koma kvikindinu í lag.  Fékk upphringingu og var beðin að sækja saumavél í viðgerð hjá fullorðnum manni hér í bæ. Þessi maður er þekkur fyrir að geta gert við nánast allt rafmagnsdót, saumavélar og hverskyns dót. Þegar ég sótti saumavélina sá ég skanna á borðinu hjá honum og spurði hvort hann gerði við prentara. Já já ekkert mál. Varð úr að ég sótti kvikindið heim og fór með til hans. Viti menn í dag fékk ég svo prentarann aftur og hann er hreinlega eins og nýr. Og þessi heiðursmaður sagði, iss þetta var svo lítið að ég get ekki einu sinni rukkað þig fyrir viðgerðinni. Gaman að geta sagt frá því að þessi snillingur er komin á áttræðisaldurinn. Já einn af þeim sem kunna að bjarga sér og sínum og eiga ráð undir hverju rifi Ásmundur takk fyrir. 

Helgin framundan með öllum þeim tækifærum sem hver og einn vill sjá og nýta sér. Þangað til næst ...................

Fróðleikur dagsins: Er til nokkurt lyf við einmanaleik? Já. Það er til fyrsta flokks lyf, sem hefur skjót áhrif til bóta. Heimsæktu einmana fólk


Komin á kreik

Loksins, loksins, loksins. Langþráð bið á enda. Í morgun fékk ég myndavélina loks í hendur en þessi elska hefur verið í viðgerð frá því 6. júlí. Því var ekki laust við að ég hafi látið eins og smábarn sem sloppið hefur eftirlitslaust á nammibarinn í Hagkaup þegar ég handlék myndavélina aftur.

Ekki var kæti mín minni í kvöld. Leikur á Þórsvellinum þar sem mínir menn tóku á móti toppliði Selfoss. Skemmst er frá því að segja að mínir menn unnu þar sigur 1-0 með marki frá gamla brýninu Hreini Hringssyni sem hann gerði úr vítaspyrnu. Þórsliðið er nú búið að leika 3 leiki á nýja Þórsvellinum og unnið sigur í þeim öllum. Eins og þið getið rétt gert ykkur í hugarlund þá var ég með myndavélina á lofti og tók fullt af myndum.

Marki fagnað

Mikil stemming var á áhorfendapöllunum (þetta er fyrir einn góðan bloggvin) sem ég kalla venjulega stúku. Mjölnismenn skemmtu sér hið besta og voru líflegir og afar skemmtilegir í kvöld eins og þeim var von og  vísa. 

thor_selfoss_1_0_009_897469.jpg

Fyrir þá sem vilja og hafaáhuga geta lesið upphitunarpistil um leikinn sem ég birti í gær á heimasíðu Þórs og umfjöllun um leikinn líka. Fyrir leikinn var einnar mínútu þögn til að minnast Jóns Kristinssonar heiðursfélaga Þórs og fyrrum formann félagsins sem lést 16. ágúst. 

Þögn

Jón Kristinsson var merkilegur maður fyrir margra hluta sakir. Hann starfaði mjög lengi fyrir Íþróttafélagið Þór og var m.a. formaður þess á árunum 1941-1944. Þá var hann einnig formaður Leikfélags Akureyrar og einnig starfaði hann lengi fyrir Góðtemplararegluna. Jón var menntaður rakari og starfaði sem slíkur fram á miðja 6. áratug síðustu aldar. 

Palli er sem sagt komin á kreik að nýju með myndavélina og næsta stórverkefni verður n.k. sunnudag þegar ég mun bregða mér á Húsavík með barnabörnunum sem þar munu keppa í fótbolta. Ef að líkum lætur verða margar myndir teknar þar og þeim mun ég án efa deila með ykkur.

Fróðleikur dagsins: Ef allt virðist ganga vel, þá hefur þér yfirsést eitthvað.


Mikið var

Það er óhætt að segja að talsvert vatn hafi runnið til sjávar frá því að ég bloggaði síðast. Allar götu frá því að ég bloggaði hafa verið leiknir 3 leikir á Þórsvellinum sem ég á alveg eftir að segja frá. Stelpurnar okkar í Þór/KA tóku t.d. á móti Fylki og úr varð bráðfjörugur leikur sem endaði 3-3. Svo héldu stelpurnar suður yfir heiðar og mættu Íslandsmeisturum Val á Vodafonevellinum og höfðu þar langþráðan sigur 1-2 þar sem sigurmarkið kom í uppbótartíma. Svo í gærkvöld komu Stjörnukonur í heimsókn á Þórsvöllinn og lokatölur þess leiks urðu 1-1. Nú þegar aðeins 3 umferðir eru eftir er Þór/KA í 4 sæti deildarinnar með 30 stig en Breiðablik og Stjarnan jöfn í 2-3 sætinu með 33 stig og Valskonur eru efstar með 35 stig. Flottur árangur hjá Stelpunum okkar. Áfram Stelpur í Þór/KA.

Á sama tíma og Stelpurnar okkar spiluðu fyrir sunnan tóku Strákarnir okkar á móti Víkingi R. á Þórsvellinum.  Rétt eins og hjá Stelpunum var boðið upp á spennu, drama og allan pakkann. Sigurmarkið kom í uppbótartíma. Leikurinn var tiltölulega tíðindalítill framan af en úr rættist þegar á leið og ungur og efnilegur knattspyrnumaður að nafni Kristján Steinn Magnússon skoraði sigurmark heimamanna í uppbótartíma 1-0. Aldrei skemmtilegra að upplifa sigur þegar hann kemur þegar maður er búinn að sætta sig við jafntefli. Flottur leikur. Áfram Þór alltaf, allstaðar 

Brugðum undir okkur fjórum hjólum á laugardag og ókum sem leið lá út á Siglufjörð þar sem barnabörnin okkar Margrét Birta og Elín Alma voru að keppa á Pæjumótinu. Náðum að horfa á 3 leiki 2 hjá liðinu sem Margrét spilaði í  og 1 með liðinu hennar Elínar.

Elín Alma í leik

Hér má sjá Elínu í leik með sínu liði. Hún er býsna lunkinn í fótbolta þótt ekki sé hún há í loftinu. Sannast þar máltækið góða ,,margur er knár þótt hann sé smár"

Margrét Birta innkast

Hér má aftur á móti sjá Margréti Birtu taka eitt af sínu frægu innköstum. Hún hefur vakið gríðarlega athygli fyrir sérdeilis löng innköst svo þykir furðum sæta. 

Og þá er svo komið að stóru fréttinni frá því að bloggað var síðast. Á mánudeginum 10. ágúst fjölgaði í stórfjölskyldunni þar sem Dagbjört dóttir mín sú elsta ól enn eitt barnið í heiminn. Hún er frjósöm mjög og var að koma með sitt fjórða barn. 15 merkur stúlka sem ku hafa mælst 53 sm löng með dökkt mikið hár. 

Með Pabba

Það var óneytanlega mikill spenningur þegar við afi og amma fórum með hin barnabörnin uppá sjúkrahús til að leyfa þeim að sjá nýjasta fjölskyldumeðliminn í fyrsta sinn.  Reyndar var spenningurinn hjá Jón Pál sem nú er ekki lengur yngstur á heimilinu ekki eins mikill og hjá systrunum. Nú eru barnabörnin orðin fjögur og ljóst að það verður mikið fjör á næstunni. 

 Með Mömmu

 Það rifjast upp fyrir manni að þegar fyrsta barnið manns kom í heiminn og maður var orðin pabbi þá var maður örugglega óþolandi og óferjandi monthani fyrstu daga og vikurnar. Grobbið varð örlítið minna við annað barnið, þótt stoltið væri enn til staðar og svo við þriðja barnið var maður orðin sjóaður og fór vel með grobbið, en samt grobbinn, þetta gat maður. 

Svo þegar maður varð afi þá varð maður ekki bara grobbinn og góður með sig heldur bara hrikalega montinn. Við annað barnabarnið dró úr grobbinu, maður var að verða sjóaður. Við þriðja barnabarnið var maður orðin svo mikill reynslubolti að það hálfa væri nóg, grobbið komið aftur. En nú við fjórða barnabarnið er maður orðin svo svakalega meyr..... mjúkur sjóaður reynslubolti. Hvar enda þessi ósköp?

Þessi síðustu tíðindi hafa fengið mig til að gleyma þeim pirringi að ég hef nú verið án myndavélarinnar minnar sem ég kalla viðhald allar götur frá því 6. júlí. Ég fékk þó þau gleðitíðindi á mánudaginn að varahlutirnir í vélina kæmu á fimmtudag svo ég el þá von í brjósti mér að fá myndavélina senda til mín á föstudag. Já pælið í því þá lifnar sko myndabloggið mitt á ný. Þá byrjar sko myndagrobbið mitt aftur og nýjasti fjölskyldumeðlimurinn sem fæddist á mánudaginn verður sko myndaður í bak og fyrir með minni myndavél. Ég er þó þakklátur konu minni fyrir að haf lánað mér sína vél af og til. 

Þangað til næst

Málsháttur dagsins:  Allir fingur eru jafnlangir þá þeir eru í lófann lagðir.

 


Höfundur

Páll Jóhannesson
Páll Jóhannesson

Akureyringur, eiginmaður, pabbi, afi, Þórsari,  jafnaðarmaður, City - fan og Áfram Þór alltaf, allstaðar.

Hafi einhver áhuga að senda mér tölvupóst þá sendið á pallijo@internet.is

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

248 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband