Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Gleði og sorgir

Suma dagana er maður í meira stuði til að blogga en aðra. Í gær var lítið um skriftir enda var sá dagur ekki eins og flestir aðrir í fjölskyldunni. Sorgin barði að dyrum. Bragi Viðar Pálsson móðurbróðir minn lést í gær. Bragi var hinn mesti ljúflingur og hvers manns hugljúfi. Sendi Hafdísi og sonum þeirra og fjölskyldu mínar dýpstu samúðarkveðjur. Þá þarf hún mamma mín ekki síður á hlýjum kveðjum að halda og á nærveru að halda þar sem mikill vinskapur var með þeim systkinum.

Í dag eins og all flesta aðra daga voru barnabörnin hér hjá afa og ömmu. Misjafnt hvernig þau koma stefnd heim úr skóla og leikskóla. Þegar þær Margrét Birta og Elín Alma hafa lokið sér af við heimanámið þá er oftar en ekki sest við eldhúsborðið þar sem listsköpunin fær sína útrás. Sennilegast að þær sæki þessa miklu teiknihæfileika í hana Ólöfu langömmu sína.

Margrét Birta. 

MargrétBirta

Jón Páll

JónPáll

En stundum þarf að sína afa og ömmu frá báttið sem stundum hlýst í hita leiksins í skólanum. En þau sár eru jafnan gróin þegar heim er komið en engu að síður þarf að segja frá og fá smá koss á báttið og málið er dautt.

Elín Alma.

 ElinAlma

Fundur í kvöld í aðalstjórn Þórs þar sem ýmis mál eru á dagskrá. Loka undirbúningur fyrir næsta aðalfund sem haldinn verður snemma í mars. Körfuboltalið Þórs leikur í kvöld gegn Skallagrími í Borgarnesi og vona ég að mínir menn láti heimamenn finna til tevatnsins.

Málsháttur dagsins: Þá verður eik að fága sem undir skal búa.


Vonandi jákvætt.

Vona svo sannarlega að þessi ákvörðun sé tekin vegna þess að komið hefur í ljós að loðnustofninn þoli þessar veiðar og sé stærri en fyrri mælingar gáfu til kynna, en ekki vegna þrýstings. Nóg hefði verið fyrir þá sem starfa við sjávarútveginn að takast á við skerðingu á þorskveiðum.

Málsháttur dagsins: Sá kennir öðrum vaðið sem undan ríður.
mbl.is Loðnuveiðar heimilaðar á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju eru þessir trúðar að gefa kost á sér?

Ný vika með nýjum tækifærum á víð og dreif, en ekki allstaðar. Vandræðagangur í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna halda áfram og engar líkur á að það sjái fyrir endann á þeim. Morgunblaðið greinir frá því í dag á forsíðu að ,,þrjú gefa kost á sér" sem borgarstjóra ef Villi guggnar. Ég spyr af hverju ætti Villi að guggna, hefur hann eitthvað gert af sér til að svo geti orðið? Af hverju gefa þessir trúðar kost á sér ef Villi guggnar? Eru þau ekki búinn að gefa það út að þau standi 100% að baki hans? Þegar þessi meirihluti var myndaður var þá ekki ákveðið að Villi yrði næsti borgarstjóri á eftir Ólafi F. Magnússyni?  En stóra spurningin er þessi af hverju í fjandanum er þetta fólk í pælingum um að taka við af honum ef hann þetta eða hitt - þau styðja hann 100% er það ekki - Æi hvað þetta fólk á mikið bágt, það liggur við að maður vorkenni því.

Regína Ósk og Friðrik Ómar sendu sterabúntin og Dr. Gunna heim með öngulinn í rassinum á Júravísíon, gott hjá þeim. Gat ekki annað en skellt upp úr þegar ég heyrði Friðrik Ómar senda vissum aðilum tóninn þegar hann sagði eftir sigurinn ,,glymur hæst í tómri tunnu".

Spaugstofan klikkaði ekki frekar enn fyrri daginn. Gaman að rifja upp lögin þeirra í gegnum tíðina og tel ég næsta víst að þeir hefðu komist langt í þessari keppni hefðu þeir tekið þátt. Alla vega góð skemmtun.

Var rétt að stoppa loðnuveiðar? ég veit ekki. Sumir spyrja sig ,, hvað ef fiskifræðingar hafa rangt við hvað þá?" ég velti því hins vegar fyrir mér hvort menn hefðu vilja taka áhættuna á að halda ótrauðir áfram loðnuveiðum í von um að fiskifræðingar hefðu rangt við? Hvað hefðu við þá gert ef það hefði leitt okkur í þrot? ég veit ekki. En ljóst er að þetta hefur mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þjóðarbúið og sérstaklega þá sem hafa lífsviðurværi sitt af þessum veiðum. Eitthvað verður að koma í staðin það er ljóst.

Þá er von um að komin sé friður innan raða HSÍ. Þorbergur búinn að eta ofan í sig stór orð sem stóðu ekki bara í honum heldur stórum hluta þjóðarinnar, að því er manni er sagt. Ég veit samt ekkert hvað það var sem fór fyrir brjóstið á fólki, mér stendur á sama. Alla vega búið að ráða Guðmund Þ. Guðmundsson. Hann hefur áður komið nálægt þjálfun liðsins með ágætum árangri svo kannski er þetta bara ágætis lausn, vonandi?

Mínir menn í Manchester City taka á móti STÓRA liðinu í Liverpool sem heitir Everton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. El ég vonir í brjósti mér um að þar landi mínir menn sigri og hífi sig örlítið ofar á stiga töfluna. En spyrjum að leikslokum.  

Fróðleikur dagsins: Dagur á Júpíter er u.þ.b. 9 klst, 50 mínútur og 30 sekúndur við miðbaug.

Heiðurskonur

HrönnÍ dag eiga tvær heiðurskonur afmæli. Fyrst skal telja hana ,,litlu" systir mína Hrönn sem er í dag orðin 45 ára. Hrönn systir býr ásamt manni sínum og börnum í Reykjanesbæ eða í ,,Njarðvíkurborg" eins og hún kallar bæinn sinn gjarnan. Um það leyti sem Hrönn náði þeim áfanga að verða fertug, lét hún verða að því að sanna máltækið ,,allt er fertugum fært". Þá tók hún sig til og settist á skólabekk og lærði félagsliða. Námið kláraði hún með miklum stæl eins og sönn hetja. Hún hefur síðustu ár helgað líf sitt störfum tengdu fólki sem á við ýmiskonar erfiðleika að etja þ.e. við umönnunarstörf. Ég óska Hrönn systir og fjölskyldu til hamingju með daginn. Hefði verið gaman að geta eytt deginum með þeim í góðra vina hópi En ég geri ég ráð fyrir því að mamma og pabbi sem brugðu sér suður yfir heiðar ásamt tveimur systkinum okkar sem búa hér norðan heiða haldi uppi fjörinu og skemmti sér hið besta.

Hrönn er ein af hetjum dagsins, til hamingju.

Magga1Önnur hetja á afmæli í dag, sem ég vil nefna örlítið hér. Það er tengdamóðir hennar Döggu dóttur minnar - Margrét Pálsdóttir. Magga eins og hún er kölluð í daglegu lífi er fimmtug í dag. Í gær hélt Magga uppá þennan áfanga með sínu nánasta fólki þ.e. börnum, tengdadætrum og barnabörnum. Í dag tekur hún á móti vinum og ættingjum á heimili sínu og verður þá væntanlega mikið um dýrðir.

Ef að líkum lætur þá verða á borð bornar miklar kræsingar enda er Magga afar snjall bakari og terturnar hjá henni eru hrein listaverk. Óska Möggu til lukku með áfangann og við hana segi ég ,,það sem fertugur getur gerir fimmtugur betur.

Til hamingju með daginn Margrét Pálsdóttir og fjölskylda.

Bryndis_46 001Þriðja hetjan sem ég blogga um í dag átti afmæli í gær og heitir Bryndís Karlsdóttir. Bryndís er mikil og góð vinkona okkar hjóna og hefur verið í tæp 29 ár. Bryndísi kynntumst við hjónin í gegnum manninn hennar sáluga hann Áka Elísson sem var einn af mínum kærustu vinum. Bryndís varð ekkja allt of ung þar sem að Áki lést árið 1994 aðeins tæpra 36 ára gamall.

Bryndís sem stóð þá uppi sem ekkja með 4 börn á aldrinum 2-14 ára hefur staðið sína plikt með stæl og hefur reynst börnum sínum hin besta móðir. Vinskapur okkar hefur haldið stöðugur allar götur frá því að hann hófst og verður þá seint eða aldrei ofmetið að eiga slíka vini. Eins og vera ber heimsóttum við hana á afmælisdeginum og þáðum veitingar að hætti hússins eins og vera ber.

Til hamingju með daginn Bryndís.

Málsháttur dagsins: Að því spyr veturinn hvað sumarið aflar.

Góð kvöldstund með viðhaldinu

TunglskinÍ gærkvöld hentist ég með viðhaldið mitt út í sveit og átti með henni yndislegar stundir. Ég ók með hana þó ekki langt en við fórum samt nægilega langt útúr til þess að fá næði. Áningastaðurinn var við gömlu Eyjafjarðarbrýnnar rétt innan við flugvöllinn á Akureyri.

Til þess að halda græjunni uppi var þrífóturinn tekin með enda verkfærið nokkuð stórt og myndarlegt, og læknirinn minn hefur bannað mér að halda á nokkru þungu. En kvöldið var notalegt í alla staði. Heiður himinn, stjörnubjart tunglið fullt, marr í klakahringlum sem hreifast ofurhægt vegna frostsins, þokkafullt.

Afrakstur erfiði okkar kannski ekki fullkomið, en ég er sáttur. Kannski ég hefði átt að taka með mér aðstoðarmann, veit ekki hvort það hefði verið við hæfi? Hugga mig við að æfingin skapar meistarann. Hugga mig líka við að viðhaldið mitt hefur aldrei kvartað yfir frammistöðu minni, enn sem komið er. Meðan svo er þá get ég ekki verið annað en sáttur.

Þegar við höfðu lokið okkur af hentumst við í bæinn og tókum smá rispu þar þótt svo að ekki hefðum við sama næðið þar og í sveitinni.

Stundir mínar með viðhaldinu eru ávallt í fullu samræmi við konu mína sem er afar sátt við samband okkar. Viðhaldið mitt er heldur ekkert venjulegt viðhald, ég er að tala um myndavélina mína. Læt eina mynd fljóta með sem ég tók í tunglskininu. Ef þið viljið sjá meira þá getið þið farið á www.flickr.com/pallijo og skoðað fleiri myndir.

Fróðleikur dagsins: Á hverju ári deyja fleiri af völdum býflugnastungna en af völdum snákabits.

Sigþór pípari

Sterkur pípariÍ dag á systur sonur minn hann Sigþór Viðar Ragnarsson afmæli, hann Sigþór pípari er þrítugur. Sigþór pípari er hvers manns hugljúfi og vel gerður í alla staði. Ef leki kemur hér og hvar í röralögnum hjá ættingjunum þá er Sigþór mættur með rörtöngina.

Sigþór er boðin og búin þegar einhvern vantar hjálp. Sigþór er einn af þeim sem gengur hægt um gleðinnar dyr og fer ekki mikið fyrir honum í daglegu lífi. Hann fer ekki með neinu offorsi en hann fer þangað sem ferðinni er heitið hvað sem það kostar.

Eins og mamma sagði á blogginu sínu fyrir skömmu þá er fjandanum erfiðara að ná honum einum á mynd. Myndin sem ég læt fylgja þessari færslu er tekin í júní á síðasta ári á árlegu fjölskyldumóti sem haldið var þá að Melsgili í Skagafirði. Myndina klippti ég til og þótti bara vel við hæfi að hún amma hans fengi að fljóta með enda einu sinni annað af tveimur ættarhöfðunum í þessari ætt. Sigþór var í liði með ömmu sinni m.a. þar sem keppt var í Kubb. Óska Sigþóri til hamingju með daginn, sem og fjölskyldu hans allri.

Annars allt gott að frétta sól fer hækkandi á lofti og léttist lundin hér og hvar. Og vel við hæfi að flækja þessa bloggfærslu svo sem ekkert meir að sinni.

Málsháttur dagsins: Það er margt fagurt undir himinblámanum


Skammt stórra högga á milli

Í öruggum höndumÓhætt að segja að mikið sé um afmæli í febrúar í minni fjölskyldu og tengdu fólki mér. Í dag er eitt ár liðið frá því að Ívan Freyr sonur Anítu og Davors leit dagsins ljós. Verður haldið upp á afmælið hans með pompi og prakt um helgina og þar með slegnar tvær flugur í einu þar sem móður amma hans hún Hrönn 24. sem er á sunnudag. Vil nota tækifærið og óska Anítu og Davor til lukku með strákinn. Myndin sem ég birti með þesasri færslu er af Ívani Frey þar sem hann er í öruggum höndum ömmu sinnar hennar Hrannar. Myndin er tekin á fjölskyldumótinu Fíraþing 2007 sem haldið var að Melsgili í júní 2007. Því miður á ég enga góða mynd af Ívani með foreldrum sínum, en vonandi verður ráðin bót á því síðar.

Skammt verður stórra högga á milli og á morgun á svo einn úr stór fjölskyldunni afmæli og fær hann af því tilefni sitt pláss á morgun á blogginu af því tilefni.

Meistaradeildin komin á fullt og eftir leiki gærkvöldsins ýmist gráta menn eða hlægja. Læt mér úrslit kvöldsins litlu skipta. Spaghettíæturnar frá Ítalíu voru rassskelltir á Englandi svo fátt eitt sé nú nefnt. Önnur úrslit komu heldur ekkert á óvart.

Sjálfur eyddi ég kvöldinu í félagsheimili Þórs þar sem haldin var aðalfundur knattspyrnudeildar Þórs. Tók að mér fundarstjórn og held að ég hafi sloppið nokkuð skammlaust frá því verki. Deildin skilaði tæplega 4. milljón króna hagnaði sem er hið besta mál. Lárus Orri Sigurðsson og Páll Viðar Gíslason eru nýbúnir að framlengja þjálfara samninga sína við félagið og verða í það minnsta við völd til loka ársins 2011.

Meðan ég sit við þessar skriftir standa yfir leikir í meistaradeildinni og prinsinn á heimilinu lagði skólabækurnar til hliðar og fylgist með sínum mönnum í Arsenal etja kappi við spaghettíætur frá Ítalíu þ.e. AC Mílan er eru núverandi meistarar.

Að lokum deili ég áhyggjum mínum með sjómönnum og öllu því fólki sem hefur viðurværi sitt af sjómennsku eftir atburði dagsins. Loðnuveiðar stoppaðar á morgun. Sorglegt en kannski óumflýjanlegt. En alla vega held ég að nú sé loksins að koma í bakið á okkur Íslendingum að við skulum hafa búið við það að hafa setið uppi með stjórnmálamenn s.l. áratug og rúmlega það sem hafa aldrei farið að óskum fiskifræðinga. Hvern á svo að hengja? Eigum við að hengja menn fyrir það að þora loksins að taka á vandanum? eða hvað finnst ykkur?

Fróðleikur dagsins: Elding lýstur Jörðina u.þ.b. 200 sinnum á sekúndu.

Heillandi hlussa.

London augaðHún er lítil og mjó, stór og feit, skítug og hrein hún er heillandi en getur verið fráhrindandi. Hún bíður uppá þokka og er tælandi. Ef það er eitthvað sem þú hefur aldrei séð en hefur alltaf langað til að sjá þá getur þú séð það hjá henni.

Sé eitthvað til sem þú hefur aðeins geta látið þig dreyma um að sé til þá gætir þú séð það hjá henni. Sé eitthvað í veröldinni til sem þig grunar að sé alls ekki til hjá henni, þá skjátlast þér alveg 100%. Það er einmitt vegna þessa alls sem hún er svona eftirsótt og fær mann til að langa heimsækja hana aftur og aftur og einu sinni enn.

Þetta er London.

Í góðum fílingEyddi 4 dögum í London þ.e. frá miðvikudeginum 13. febrúar og til sunnudagsins 17. feb ásamt konu minni, Hrönn systir og manni hennar honum Ágústi Hrafnssyni. Á miðvikudag sl. fögnuðum við ég og Ágúst 50 ára afmælinu okkar og samanlagt því einni öld, hvorki meira né minna. Í leiðinni fagnaði ég 26 ára brúðkaups afmæli mínu og minni heittelskuðu. Meðal þess sem við gerðum meðan á dvöl okkar stóð var að fara í Madame Tussauds safnið, Imperial War Museum skoðunarferð um lítinn hluta borgarinnar sem tók aðeins 3 klukkustundir ásamt mörgu, mörgu öðru. Mun henda inn einhverjum myndum á bloggið á næstu dögum fyrir þá sem vilja og hafa gaman af.

Ferðin var snilld frá upphafi til enda hennar hvernig sem á hana er litið. Þegar svona ferðir eru farnar skiptir miklu máli að hafa góða ferðafélaga og það er nákvæmlega það sem var í þessu tilfelli. Vil ég því nota tækifærið fyrir hönd okkar hjóna og þakka Hrönn systir minni og Ágústi manni hennar fyrir ógleymanlega daga og mega þau svo sannarlega vita að þau gerðu ferðina bara skemmtilegri.  Hrönn og Gústi takk fyrir okkur.

Svo á næstu dögum verður tekið til við að blogga um eitt og annað og púlsinn tekin hér og hvar. Þarf að senda Staksteinum tóninn vegna skrifa sem birtust föstudaginn 15. febrúar og hef ég eitt og annað við þau skrif að athuga.

Málsháttur dagsins: Lengi jórtrar tannlaus baula á litlu fóðri.

Góðs vinar minnst

ÁkiElíssonÍ dag vil ég minnast látins vinar. Hann leit dagsins ljós í fyrsta sinn árið 1958 og hefði því orðið 50 ára í dag væri hann á lífi.

Áka Elíssyni kynntist ég árið 1979 þegar ég hóf nám í húsasmíði. Þá unnum við saman hjá bygginga fyrirtæki, sem þá var starfandi hér í bæ og hét Smári h/f. Áki hóf smíðanám strax að loknu grunnskólanámi svo að þegar við kynntumst var hann útlærður og naut ég liðssinnis hans meðan ég var í námi.

Með okkur Áka tókst mikil vinátta. Ekki bara vinátta með okkur heldur varð mikil vinátta milli fjölskyldu okkar, sem varir enn. Áki veiktist mjög alvarlega og þau veikindi drógu hann til dauða á örfáum dögum. Hann lést árið 1994  aðeins 36 ára gamall.

Þegar Áki lést höfðu þau hjónin eignast 4 börn. Þrjár stúlkur og einn son. Sonurinn yngstur ekki tæplega tveggja ára gamall og elsta dóttirin á 14. ári og var fermd skömmu eftir andlát föður síns.

Ég er þakklátur fyrir það að hafa fengið að kynnast þessum mæta manni. Ég er einnig þakklátur fyrir það að hafa fengið að kynnast fjölskyldu hans og þá tryggð sem ríkt hefur á milli okkar. Ég sakna þessa mikla vinar míns, en ég læt þær góðu minningar sem ég á um hann verða mér hvatning í lífinu.

Málsháttur dagsins: Oft er sorgfullt brjóst undir sjálegri skikkju


Flogið á vit ævintýranna

FimmtugurÞennan dag árið 1958 leit hann dagsins ljós í fyrsta sinn. Ég fjandakornið vissi ekkert um þennan mann fyrr en ,,litla" systir mín kynnti mig fyrir honum, hún varð ástfangin af honum. Síðan er talsvert mikið vatn runnið til sjávar. Þegar ég kynntist honum var hann bæði ungur og myndarlegur. Í dag stendur hann á fimmtugu, og er enn myndarlegur ,,ungur?" alla vega ungur í anda.

Í dag lætur hann ,,gamlan" draum rætast og flýgur ásamt konu sinni á vit ævintýranna. Þegar þessi bloggfærsla birtist þá er hann á loftinu á leið til London. Óska Ágústi Hrafnssyni mági mínum til hamingju með daginn, sem og ,,litlu" systur til lukku með góðan eiginkarl. Tek mér það bessaleyfi og birti mynd af þeim hjónum Ágústi og Hrönn af tilefni dagsins, mynd sem er trúlega tekin fyrir u.þ.b. 20+ árum. Myndin er að öllum líkindum tekin á lyftingamóti þar sem trúlega pabbi  hefur verið að henda lóðum til og frá, þá gæti einnig verið að stóri bró hann Halldór hafi keppt á þessu móti.

13.feb1982Þessi dagur er einnig merkilegur fyrir fleiri. Því þennan dag árið 1982 gengu foreldrar þessara litlu stúlku í hjónaband. Samkvæmt mínum útreikningum eru þá eiga foreldrar stúlkunar 26 ár ára brúðkaupsafmæli í dag.

Ekki endilega víst að allir segi að það sé mikið afrek að eiga 26 ár að baki í hjónabandi, en sumum finnst það. Alla vega hef ég fyrir því áræðanlegar heimildir að karlinn í þessu hjónabandi dáist enn að konunni fyrir alla þá þolinmæði sem hún hefur sýnt með því að hanga enn inni með hann sér við hlið.

Þetta fólk er líka flogið á vit ævintýranna. Það ætlar líkt og fólkið hér að ofan njóta lífsins í höfuðþorpi Englands þ.e. London næstu 4 daga.  Börn og barnabörn þessara hjóna sem bloggað er um í dag verða bara gjöra svo vel að sjá um sig sjálf að öllu leiti meðan á þessu stendur. En víst er að fólkið mun snúa til baka aftur endurnært á sál og líkama og þá verður friðurinn úti.

Málsháttur dagsins verður í boði Margrétar Þórhildar danadrottingar og hljóðar svo;

Við giftum okkur með það í huga, að hjónabandið skyldi heppnast – þess vegna lögðum við okkur frá byrjun fram um að láta svo verða.

Margrét 2. Danadrottning á silfurbrúðkaupsdegi sínum.  


Næsta síða »

Höfundur

Páll Jóhannesson
Páll Jóhannesson

Akureyringur, eiginmaður, pabbi, afi, Þórsari,  jafnaðarmaður, City - fan og Áfram Þór alltaf, allstaðar.

Hafi einhver áhuga að senda mér tölvupóst þá sendið á pallijo@internet.is

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

270 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband