Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Í guðsbænum segið nei....

Las mér til furðu að Íslendingar séu reiðubúnir að sækja um aðstoð í neyðarsjóð innan Evrópusambandsins. Forsætisráðherra vor sem ekki vill ganga í Evrópusambandið er reiðubúinn að fara á skeljarnar þegar á móti blæs, hvað svo? Er hann tilbúin að sækja um aðild?.  Mikið þykir mér þetta undarlegt - við erum enn eina ferðina tilbúin að hrifsa til okkar eitthvað en ekki tilbúin að gefa neitt af okkur. Vona svo sannarlega að við fáum neitun um aðstoð. Við komum okkur sjálf í vandræði með fíflagangi, hroka og asnaskap og yfirgengilegri græðgi og verðum bara að vinna okkur út úr þessu sjálf.  Vonandi segja menn sem ráða í þessum neyðarsjóði ,,komið inn og við hjálpum ykkur annars etið það sem úti frýs".  

Mitt í öllu góðærinu sem er á hröðu undanhaldi, þar sem það á annað borð var til staðar sendu Stelpurnar okkar í A- landsliði Íslands alvöru hlýinda strauma inn í hið ískalda íslenska þjóðlíf með sigri á Írum 3 - 0. Stelpurnar eru þar með búnar að tryggja sér þátttökurétt í lokakeppni EM 2009. Þetta er frábært hreint út sagt geggjað. Siggi Raggi landsliðsþjálfari og allt hans fólk á þakkir skildar fyrir ná öllu því besta út úr þessu lið, verum þakklát fyrir það. Reyndar var ég dálítið mikið hissa á því að þessi leikur skildi yfir höfuð fara fram við þær aðstæður sem voru á Laugardalsvelli í gær, kannski lýsandi fyrir hið ört kólnandi hagkerfi Íslands. Segi bara takk fyrir Stelpur fyrir að vera okkur miklir gleðigjafar - Áfram Ísland.

Á sama tíma og landsleikurinn fór fram átti sér stað annar viðburður sem kom mér talsvert mikið við. M'inir menn í körfuboltaliði Þórs tóku á móti FSu í úrvalsdeild karla. Fór svo að mínir menn unnu sannfærandi 99 - 89 sigur á nýliðum FSu. FSu veitti Þór harða mótspyrnu framan af leik og það er greinilegt að þetta lið á eftir að hala inn slatta af stigum. Fyrir þá sem vilja vita meir um þennan leik er hægt að lesa um það á heimasíðu Þórs. Upphitun eftir mig,  umfjöllun um leikinn og ummæli leikmanna og þjálfara í leikslok sem Sölmundur skrifaði. Áfram Þór.

 Haust lmk

 

 

 

 

 

 

 

Er alla daga nú í endurhæfingu á Kristnesi þar sem farið er um mann mismjúkum höndum. Það er jú einu sinni svo að t.d. sjúkraþjálfarar þurfa vera vondir til að vera góðir. Finnum óbeint fyrir sveitasælunni þarna þar sem lítið er um stress. Þar kemur skýringin á myndunum sem ég tók af Súlutindum fyrr í vikunni. Skrítið hvað maður uppgötvar ýmsa hluti eru rétt við bæjardyrnar hjá manni en tekur ekki eftir dags daglega.

Myndin sem fylgir þessari færslu kemur þó Kristnesi og dvöl minni þar nákvæmlega ekkert við. En hana tók ég fyrir hálfum mánuði eða svo áður en það fór að snjóa á fullu. Nú hins vegar tekur snjóinn hratt upp enda mikill vindur og talsverð hlýindi og stefnir í að verði næstu daga. Það þykir mér bara allt í lagi. Snjórinn má hins vegar vera í fjallinu mín vegna og þótt ekki snjói þar þá bara framleiða þeir snjó með þar til gerðum tækjum.

Við gamla settið ætlum að dvelja hjá barnabörnunum í kvöld. Borða með þeim kvöldmat - poppum og gerum eitthvað ferlega gaman í allt kvöld. Já það verður ferlega gaman - saman.

Málsháttur dagsins: Fjarlægðin gerir fjöllin blá og mennina mikla

Að bera í bakkafullan lækinn

Jæja þá er fyrsta hret vetrarins búið að berja landann. Ég er að sjálfsögðu að tala um hret í skilning þess orðs veðrið. Hretið í gær fór mildum höndum um okkur Akureyringa a.m.k. Dimm él tiltölulega lítil ofan koma svo í dag er bærinn hvítur og fallegur. Í dag var bílaplanið okkar rutt í fyrsta sinn á þessum vetri. Örugglega ekki í síðasta sinn. Svona var umhorfs þegar ég rak út nef og lagði upp í smá bíltúr með konunni á aðra hönd og viðhaldið í fanginu.

Andyri

Var búinn að lofa ykkur að fylgjast vel með uppbyggingunni í Krossanesi þar sem nú er að rísa Aflþynnuverksmiðja. Ítalir seldu þetta og nú byggja þetta og eiga Þýskir. Þar sem ég stend á hæðinni ofan og sunnan við Krossanes horfi í norðaustur. Svona líta framkvæmdirnar út í dag.

 Aflþynna

Hvað ætli sé í baksýn? Súlur nema hvað svona líta þær út héðan séð.

EnnEinSúla

Færði mig upp í hverfið ofan við Krossanes þar sem mörg fyrirtæki hafa byggt upp á síðustu árum. Iðnaðarhverfið í Krossanesborgum þar sem svo margir bæjarbúar vildu byggja íbúðir. En hvað um það sjáið sjónarhornið héðan að Súlum.

Tindar

Takið eftir á myndinni er blokk með súlum / turnum, sem og kirkjuturninn á Glerárkirkju. Blokkin þarna með turnunum / súlunum er teiknuð af konu sem er fræg fyrir að hafa turna og súlur á öllum sínum byggingum komi hún því við. Nú hún á ekkert í Glerárkirkju þrátt fyrir að þar sé turn. Kannski var þetta að bera í bakkafullan lækinn með að birta enn eina myndina af Súlum? ætli þetta sé að verða að þráhyggju....... hver veit?

Svo verður slappað af í kvöld fyrir framan sjónvarpið það er alveg á hreinu. Að lokum óska ég frænda mínum honum Jóhannesi Óla og kærustunni hans til lukku með dótturina, sem þeim fæddist í gær. Og í dag hefði hún amma mín sáluga orðið 96 ára ef hún hefði lifað. Blessuð sé minning hennar þessara miklu konu sem í daglegu tali var kölluð ,,Drottningin" af svo mörgum sem hana þekktu.

Málsháttur dagsins: Hnýsnin hefur augun bæði í bak og fyrir


Það fer allt eftir því hvaða sjónarhorn maður notar

Sumt í umhverfinu okkar er þannig að þeir þekkjast frá hvaða sjónarhorni sem er. Svo eru aðrir staðir þannig að séu þeir litnir frá öðru sjónarhorni en maður er vanur að sjá þá eru þeir vand þekktir. Tökum dæmi úr náttúrunni. Þessa mynd tók ég þegar ég fór  í sögusiglingu á Húna ll og er horft í c.a. suðvestur. Fallegur, ekki satt? 

 Súlur í baksýn

Nú svo ef maður fer upp fyrir bæinn nánar upp að Rangárvöllum og horfir á Súlur þaðan þá lítur hann út svona - fyrir ókunnuga gæti þetta verið allt annað fjall  annað sjónarhorn, áfram fallegur.

Súlur

Þriðja myndin af þessum fallega tind er tekin frá afar ólíku sjónarhorni. Myndin er tekin af bílaplaninu við Kristnesspítala og er þá horft að Súlum úr austri. Tindurinn séð frá þessu sjónarhorni virkar ekki jafn tignarlegur en samt augnayndi.

Súlur 

Súpufundaröð Þórs, Greifans og Vífilfells hófst að nýju í dag eftir talsvert hlé. Því miður varð ég af þeirri skemmtun að mæta. Er nú í smá uppherslu á Kristnesi og verð það næstu 6 vikurnar. Bregð mér þó heim af og til á kvöldin. Kannski maður fari að ganga á Súlur þegar þessari klössun lýkur, hver veit? 

Í kvöld tóku strákarnir okkar í Akureyri handboltafélagi á móti bikarmeisturum Vals í N1 deildinni í handbolta. Skemmst er frá því að segja að heimamenn lögðu Valsara 24-22. Glæsilegur sigur og þar með eru Akureyringar búnir að tylla sér á topp deildarinnar. Flott hjá þeim Áfram Akureyri.

Ef veður leyfir munu mínir menn í Þór sækja Snæfell heim í Stykkishólminn í úrvalsdeild karla í körfubolta. Deildin nýbyrjuð og vart farið að skýrast hvernig deildin mun spilast. Bæði liðin hafa leikið tvo leiki. Bæði hafa unnið 1 og tapað 1. Vonandi ná mínir menn að landa sigri. Kíkið síðar á upphitunarpistil á heimasíðu Þórs.

Slagorð dagsins: Öll él birtir upp um síðir


Næring hugans

Hér á Íslandi líkt og út um allan heim er hafin vinna við að byggja upp hagkerfi heimsins eftir að pýramída byggingar fjármálasnillinga heimsins hrundu. Þeir hrundu af því að þeir stóðu á haus. Nú sem aldrei fyrr er nauðsýnlegt fyrir land og þjóð að snúa bökum saman og sýna æðruleysi. Menn mega ekki gleyma því að næra sálina til að halda geðheilsunni í þokkalegu standi. Í kvöld ætla ég að næra sálina sérlega með því að fara á völlinn. Fyrsti heimaleikur minna manna í Þór þegar þeir taka á móti nýliðum Breiðabliks í körfubolta á nýlögðu parketgólfi íþróttahallarinnar. Fyrir þá sem vilja er hægt að lesa ítarlegan upphitunarpistil á heimasíðu Þórs. Ég og Sölli mætum á svæðið með penna og myndavél og færum svo fréttir af gangi leiksins að honum loknum. Þú mætir á völlinn nýtur þess að horfa á skemmtilega íþrótt og öskrar þig hásann - Áfram Þór.

Að horfa á körfubolti er góð afþreying og það er einnig svo margt fleira sem hægt er að gera til að dreifa huganum. Góðir þættir í sjónvarpi t.d. er ein góð afþreying þó í hófi. Spaugstofan sýndi okkur í gær hvaða augum þeir sjá ástandið í dag. Þátturinn í gær var hreinlega snilld. Fær 10 af 10 í einkunn. 

Senn er sá tími liðin sem við köllum haust. Vetur konungur mun hægt og bítandi taka völdin. Spurningin er svo bara hversu hörðum eða mjúkum höndum hann mun fara um okkur? Snjólétt, snjóþungt, mildur, vætusamur, hlýr eða frostharka gildir einu. Það eina sem við verðum að hafa hugfast er að vera meðvituð um hvar landið okkar er staðsett á móður jörð. Eftir vetur kemur vor og svo sumar og........ gengur þetta allt sinn vanagang málið er bara vera sáttur við það sem maður hefur og kunna meta það.

Í lokin læt ég fylgja með mynd sem ég tók í byrjun mánaðarins þar sem ég reyndi að festa á kubb stemmingu haustsins. Stilla falleg litabrigði og fyrstu snjókorn haustsins fallin. Myndin er tekin af Drottningabrautinni í átt að Minjasafninu, sem þó sést ekki lengur vegna trjáa.

Haust í innbænum

Málsháttur dagsins: Sjáðu hvað þér sæmir, hugsaðu hvað þér hæfir

Bretar hafa aldrei unnið stríð gegn Íslandi og mun aldrei gera - ALDREI.

Jæja - það er fjandakornið ekkert að frétta héðan frekar en þaðan. Lífið gengur sinn vanagang og ekkert nýtt gerist. Annars gaman að hugsa til þess að sauðheimskir Bretar hafi látið sér detta í hug að þeir gætu knésett Ísland. Við höfuð farið í stríð við þessa tindáta þeirra á hriplekum ryðdöllum sem eru lítið stærri en þvottabalar í þorskastríðum. Haldið til móts við freigátur þeirra og rassskellt þá. Við höfum aldrei tapað stríði gegn  Bretum og förum ekki að taka upp á því nú. Á sama tíma hafa Bretar aldrei unnið stríð gegn Íslandi sem er Stórasta land í heimi og það mun ekki breytast. Trúið mér að áður en langt um líður mun máltækið góða ,,sá hlær best sem síðast hlær" hljóma og BRETAR flýja í bólið með skottið á milli lappanna.

Ísland skrapp með skrekkinn í dag þegar þeir unnu Makedóna í landsleik í knattspyrnu. Sannast sagna var sigurinn algera hundaheppni. Ekki að það sé ekki í lagi heldur bara svo sjaldgæft að það gerist. Og þegar upp er staðið og sagan verður skoðuð man engin efir því hvernig sigurinn kom.

Meira af íþróttum. Á morgun hefst körfuboltavertíðin formlega. Mínir menn halda suður með sjó og mæta Íslandsmeisturum Keflavík í fyrsta leik vetrarins. Þið megið sem sagt eiga von á því að ég bloggi talsvert um körfubolta næstu mánuðina. Eins og þið kannski munið þá er ég ritstjóri á heimasíðu Þórs www.thorsport.isog þar eru margir nýir og spennandi hlutir að gerast. Margir gestapennar sem nú skreyta síðuna með ýmsum skrifum. Nýjasti penninn heitir Tinna Stefánsdóttir og er sjúkraþjálfari. Fyrsti pistillinn hennar sem ég birti í gær er tær snilld. Ég hvet ykkur til að fara á heimasíðuna og lesa þann pistil. Þar skrifar Tinna um forvarnir og krossbandaslit. Pistillinn. Einnig langar mig að benda ykkur á pistil dagsins sem er upphitunarpistill frá mér um leik kvöldsins milli Keflavíkur og Þórs sjá hér

Að öðru leiti bara allt í góðu. Svo endilega takið utan um hvort annað og gefið hressilegt knús og koss og segið við náungann hvað ykkur þyki vænt um hann. Það er gefandi.

Málsháttur dagsins: Flest allt sem er í kaf flýtur upp um síðir


Flottur kór

Undanfarnir dagar hafa verið afar annasamir þótt ekki sé dýpra í árina sé tekið. Er þjóðin að fara á hausinn eða heimurinn allur? Veit ekki. Ætla ekkert að velta mér upp úr ástandinu bara ekki neitt. En verð að játa að ef ég hefði einhvers staðar áhrifa og gæti beitt mér þá væri Dabbi kóngur orðin atvinnulaus.

Í gær var opið hús í Hamri félagsheimili Þórs. Tók talsverðan þátt í þeim undirbúningi. Körfu- og handboltafólk ásamt Taekwondo deild kynntu starfsemi sína. Leikmenn úrvalsdeildarliðs Þórs kynnt ásamt mörgu öðru skemmtilegu. Þrír einstaklingar voru heiðraðir. Fyrstan skal nefna Gunnar Jónsson sem er eiginlega faðir Taekwondo innan Þórs hann fékk gullmerki félagsins. Árni K. Bjarnason sem starfað hefur á annan áratug í stjórnum körfuboltadeildar Þórs m.a. sem gjaldkeri og formaður unglingaráðs fékk silfurmerki. Þá fékk Vignir Traustason sem starfað hefur um langt árbil fyrir handboltadeild Þórs silfurmerki. Flottir karla. Til hamingju. Meira er hægt að lesa um þetta á heimasíðu Þórs. Því miður gat ég ekki verið viðstaddur sjálfa athöfnina. Á  sama tíma var dóttir mín að syngja með æskulýðskór Glerárkirkju á tónleikum ég fór þangað.

Æskulýðskór Glerárkirkju hélt sem sagt kaffitónleika í kirkjunni. Það var hin besta skemmtun. Það er reyndar ávallt þannig þegar þessi góði kór er annars vegar. Flottir unglingar og ekki skemmir kórstjórinn sem á heiður skilið fyrir sitt frábæra starf. Undirleikari á þessum tónleikum eins og stundum áður var  Valmar Väljaots. Valmar þessi er þvílíkur fádæma snillingur. Hann leikur með stórhljómsveitinni Hvanndalsbræður. Það er nokk sama hvaða hljóðfæri honum er fengið, hann kann á allt. Og það sem þessum manni tekst að töfra út úr hljóðfærunum er snilld. Tónleikarnir sem sagt í heild frábær skemmtun. Ég fékk kórinn til að stilla sér upp eftir tónleika og afraksturinn af þeirri myndatöku má sjá hér.

Kórinn2008    

Eftir tónleikana var chillað. Við gamla settið skruppum á Glerártorg með Elínu Ölmu ömmu á Glerártorg en hún fór með okkur á tónleikana. Elín Alma ásamt stóru systir sinni henni Margréti Birtu er farin að syngja með barnakór Glerárkirkju. Um kvöldið svo farið í mat til Döggu og Jóa. Spaugstofan algerlega frábær. Svo var restinni af kvöldinu eytt í að horfa á myndir sem Sædís vinkona Döggu bauð uppá. Sædís er nýkomin heim frá Kenýju þar sem hún var um tíma í hjálparstarfi. Frábært kvöld - takk fyrir okkur.

Málsháttur dagsins: Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni.


Lífið er yndislegt ég geri það sem ég vil......

Sædis1Dagurinn í dag er dálítið merkilegur fyrir margra hluta sakir. Mér finnst eins og ég standi frammi fyrir því að vera opna búr og sleppa lausum fugli og kalla á eftir honum ,, nú er þinn tími komin nýttu frelsið til hins ýtrasta". Kannski flögrar fuglinn út í lífið frelsinu fegin?. Kannski sé ég og heyri fuglinn fljúga nokkra hringi kringum húsið söngla fyrir munni sér ,,frelsið er yndislegt ég gera það sem ég vil....." svo kannski flýgur hann á vit ævintýranna og snýr ekki aftur nema rétt til þess að kíkja í heimsókn. En trúlega gerist það ekki vegna þess að þessi fugl er svo svakalega skynsamur. Hann flögrar þótt síðar verði en tíminn er ekki komin, þótt lagalega geti hann gert það.

Þetta ævintýri hófst fyrir sléttum 18 árum. Fuglinn kom inní heiminn með látum. Sædís Ólöf náði í dag þessu langþráða áfanga að verða lögráða. Nú hafa mamma og pabbi nákvæmlega ekkert yfir vald yfir henni. Hún getur gert nákvæmlega það sem hún vill.

Sædis2Sædís Ólöf er hreint út sagt yndisleg dóttir. Sædís er sú manneskja sem býr yfir mestri réttlætiskennd sem ég þekki. Hún hefur allar götur frá því að hún fór að tala haft skoðun á öllu alltaf, allstaðar. Öll börn eiga sér drauma, og það átti og á hún. Sædís ætlaði sér þegar hún var á leikskólaaldri að verða forseti Íslands og ekkert minna. Talandi um réttlætiskennd og jafnaðarmanna hugsun hennar þá sagði hún ávallt þegar hún var lítil ,, ef strákar mega þetta þá má ég líka" ef Sædís sagði svona þá stóð það PUNKTUR.

Sædís býr yfir mörgum afbragðs mannkostum. Hún er sögð afar lík pabba sínum að skapgerð og ýmsu háttalagi, en kannski ekki svo í útliti sem betur fer, hennar vegna. Sædís horfði iðulega á pabba sinn glamra á gítar í tíma og ótíma. Hún setti sér það markmið að gera það sjálf síðar. Fyrir hluta af fermingarpeningnum fór mín út í Tónabúð til Pálma og keypti sér rafmagnsgítar og magnara og sagði við pabba sinn. ,,Þú kennir mér í hvelli" Það voru í sjálfu sér ekki margar kennslustundirnar hún er óþolinmóð stelpa og lærði vel á milli tíma svo að stórum hluta til má segja að hún sé sjálfmenntuð. Í dag er hún fínasti gítarleikari og gaman að stilla saman strengi með henni og taka lagið.

SöngurSædís hefur afar næmt eyra fyrir tónlist. Hún var í mörg ár í barnakór Glerárkirkju og nú er hún í æskulýðskór sömu kirkju. Já kirkjustarfið hefur skipað talsverðan þátt í lífi hennar. Kirkjuskólinn, barnakór og nú æskulýðskórinn ásamt ýmsu öðru tengdu innan kirkjunnar.

Hvort draumar litlu telpunnar sem ætlaði sér að verða forseti þegar hún yrði stór rætast eður ei skiptir ekki öllu. Í dag virðist hún hins vegar stefna á leikskólakennaranám eftir því sem mér skilst. Það yrði mjög vel við hæfi. Hún er eins og kvenleggurinn allur afar barngóð og ljúf. En hvað sem verður ofan á skiptir ekki öllu, heldur að það sem hún tekur sér fyrir hendur muni hún gera af virðingu við starf sitt og sjálfa sig það skiptir öllu. En þar sem ég veit hversu heiðarleg þessi snjalla unga kona er þá er engin vafi að hún mun vanda til verka hvað sem hún mun taka sér fyrir hendur.

Sædís Ólöf sem er afmælisbarn dagsins hún kom í heiminn á FSA þennan dag árið 1990 kl. 10:45. Síðan þá hefur engin lognmolla verið í kringum hana og hennar nánustu. Það stóð heldur aldrei til, það á ekki að vera nein lognmolla í kringum börn. Sædís verður að heiman hluta dagsins og hluta til tekur hún á móti gestum, gæti verið að mamma sé búin að redda 1 eða kannski 2 smátertum hver veit?

Sædis18Fyrsta myndin með þessar færslu er tekin á hennar fyrsta afmælisdegi. Ef myndin er grand skoðuð sést að hún er að tjá sig bæði með munni og höndum. Næsta mynd er tekin tæplega ári síðar og ef þið skoðið þá mynd nánar sést þessi frægi grallarasvipur á henni þegar allra veðra er von, hrekkur og prakkaraskapur í nánd.

Þriðja myndin er svo tekin í afmælisveislu Jóhanns þar sem við feðginin tókum lagið eins og okkur einum er lagið - hey þetta var cool.

Seinasta myndin er svo tekin fyrir tveimur dögum við eldhúsborðið heima í Drekó. Af þessari mynd að dæma vildi ég að allir segðu að hún væri lifandi eftirmynd föður síns þá myndi trúlega lifna yfir pabbanum því megið þið trúa. En það sem upp úr stendur er að hún er sjálfri sér líkust. Og þegar maður er sjálfum sér líkur og trúr sjálfum sér þá er maður í góðum gír. Já þetta er eiginlega bestu lokaorðin í þessar langloku afmælisbloggfærslu. Til hamingju elsku Sædís.

Málsháttur dagsins: Það eru ekki allt klerkar sem síða hafa kápuna

Botn... ekkert svona ég stend á lokinu

Aaaaaa stormasamri helgi lokið. Sagt er að umferðin í ráðherrabústaðnum hafi verið með ólíkindum og í raun álíka mikil og á Oxford Street under ground station. Samt skilst manni að niðurstaðan sé nánast engin. Hvað um það. Hér er andskotans engin kreppa.

Krossanes 29 septGunnar hinn ógnar skemmtilegi bloggvinur minn ýjaði að því að botninum hjá mér væri náð eða allt að því voru einhverjar pælingar í gangi hjá honum og félaga hans. Ég hafði jú lofað að koma reglulega með fréttir af brotajárnshaugnum í Krossanesi. Kannski af því að ég er með of mörg járn (ekki brotajárn) hefur liðið full langt á milli færsla þar að lútandi. Gunnar þið þurfið ekki að hafa af því neinar áhyggjur að hjá mér sé einhver kreppa. Botn ekkert svona ég snéri helv.... tunninni við og stend því nú á lokinu. Þetta kalla ég að bjarga hlutunum, í hvelli.

Brotajárnhaugurinn í Krossanesi er ekki lengur til staðar. Þó er unnið þar með mikið járn, ekki brotajárn. Byggingaframkvæmdir eru komnar á fullt við byggingu aflþynnuverksmiðjuhússins. Seinast smellti ég af mynd af byggingaframkvæmdum þar 29. september og læt hana fylgja með þessari færslu. Það er óneytanlega skemmtilegra að horfa yfir svæðið eftir að vinnslan með brotajárnið vék af staðnum. Einhvers staðar þarf jú þessi vinnsla að fara fram en fjanda kornið ekki við þess konar aðstæður þ.e. nánast inní bænum.

Lokahóf knattspyrnudeildar Þórs var haldið á föstudagskvöldið. Mikil og góð skemmtun þar sem knattspyrnufólk ásamt stjórnarmönnum, styrktaraðilum, stuðningsfólki kom saman og skáluðu í malt og appelsín sem það drakk með þegar það gæddi sér á dýrindis lambi. Landsliðskonan og fyrirliði Þór/KA og silfurskóhafinn Rakel Hönnudóttir var kjörin besti knattspyrnumaðurinn hjá konunum en varnartröllið Atli Jens Albertsson sá besti hjá körlunum.

M'inir menn í Manchester City köstuðu frá sér sigrinum gegn litla liðinu í Liverpool. Sá ekki leikinn að undanskildum síðustu 10 mínútunum. Sanngjarnt veit ekki og er í raun saman. Það liðið sem skorar fleiri mörg sigrar punktur og basta.

Fróðleikur dagsins: Minnisbækur Pierre og Marie Curie voru seldar á uppboði árið 1984 eftir að geislavirkni þeirra hafði verið könnuð


Einstakar konur

Í afmælisdagabók fjölskyldunnar sem gefin var út árið 1943 af Fjallkonuútgáfunni segir um afmælisbörn dagsins í ljóði eftir Kristjón Jónsson 

GullmoliMóti brosir heiður, hár

himinn stjörnum búinn,

fylgi þér um æfiár

ástin, vonin, trúin.

Þetta á vel við afmælisbörn dagsins. Góð vinkona okkar hjóna þ.e  Dagný Elfa sem er annað afmælisbarn dagsins. Dagnýju höfum við þekkt í rúm 20 ár. Allt þetta hófst þegar ég kynnist manni hennar þegar við vorum samtíða til sjós á Svalbaki EA 302 og síðar á Sléttbaki EA 304. Sú vinátta sem tókst með okkur er ómetanleg. Ég ætla ekki að fara út í langa upptalningu á öllum hennar kostum eða göllum. Kostirnir eru margir og liggja alveg fyrir hverjir eru, en gallana þekki ég ekki. Séu gallar eru þeir ekki meiri en svo að ég hef ekki tekið eftir því, þannig eru vinir þeir eru bara góðum kostum búnir.

En stutt útgáfa af mannlýsingu gæti verið svona ,, Dagný er afburða greind vel menntuð kona sem veit hvað hún vill.  Hún er tryggur vinur vina sinna, hún er kona sem maður vill frekar hafa með sér en á móti. Allt sem hún tekur sér fyrir hendur leysir hún 100%. Dagný hefur þannig viðmót að manni líður bara vel í návist hennar. Hún er sannur vinur, sem ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst. Kæra vinkona til hamingju með daginn.

Hitt afmælisbarn dagsins er kjarnakonan Hrafnhildur Elín. Hrabbý er líkt og vinkona mín hér að ofan mörgum kostum búin. Mannlýsing hennar harmonerar ágætlega við þá sem var viðhöfð um Dagný. Hrabbý er nefnilega feiknalega vel greind kona og vel menntuð. Hrabbý hefur ávallt vitað hvað hún vill í lifinu og það segir henni engin fyrir verkum. Hrafnhildi kynntist ég þegar hún var að skríða inn í unglingsárin þar sem hún er frænka konu minnar. Við nutum góðs af henni m.a. við barnapössun. Um Hrabbý er hægt að segja svo margt gott. Hún er af góðu fólki komin og hefur það án efa haft áhrif á hversu vel hún komst til manna. En fyrst og síðast er Hrabbý í dag það sem hún er vegna þess hversu vel gerð hún er að upplagi. Hrabbý mín til lukku með daginn.

Þótt ekki eigi að þurfa taka það fram þá ætla ég samt að gera það að þessar konur eru jú báðar á besta aldri og það hafa þær verið allar götur frá því ég naut þeirra gæfu að hafa kynnst þeim. Til hamingju enn og aftur.

Í kvöld verður svo farið á djammið, eða þannig. Lokahóf knattspyrnudeildar Þórs þar sem meistara- og 2. flokkur karla og kvenna gera upp árið. Þar verður mikið um dýrðir og leikmenn verða heiðraðir hægri vinstri fyrir þeirra afrek á knattspyrnuvellinum. Lokahófin eru ávallt góð skemmtun og geri ég ekki ráð fyrir því að á því verði nein breyting í ár.

Að lokum myndin sem fylgir þessari færslu er af vinkonu minni Dagnýju og var hún tekin á afmælisdegi Margrétar Guðrúnar dóttur hennar í janúar sem leið.

Speki dagsins er tekin upp úr bókinni alveg einstök móðir; Við höfum breyst með árunum - en færst nær hvor annarri. Móðir og dóttir - vinir ævilangt. 


Höfundur

Páll Jóhannesson
Páll Jóhannesson

Akureyringur, eiginmaður, pabbi, afi, Þórsari,  jafnaðarmaður, City - fan og Áfram Þór alltaf, allstaðar.

Hafi einhver áhuga að senda mér tölvupóst þá sendið á pallijo@internet.is

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

270 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband