Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

BÚMM, BÚMM og svo bara búið

Flugeldar

Ég og vinur minn eigum það sameiginlegt að hafa mikið gaman af því að horfa á brennur á gamlárskvöld og góða flugeldasýningu. Við töldum að heldur hafi hlaupið á snærið hjá okkur í kvöld. Skátarnir auglýstu flugeldasýningu og við félagarnir þangað, konurnar fengu að fljóta með og viðhaldið mitt. Ég var þó efins um að mér tækist að ná alvöru myndum þar sem þrífóturinn varð eftir heima. Jæja hvað um það við mættum tímanlega og völdum okkur flott stæði. Nokkrir félagar úr hjálparsveitinni gengu milli manna og sögðu að þeir gætu still á Voice og hlustað á þulin lýsa hvaða tertur væri verið að skjóta upp hverju sinni. Við Félagarnir brostu út að eyrum. Metnaðurinn mikill við máttum eiga von á mikilli sýningu - BúMM.

Herleg heitin byrjuðu á slaginu.... BÚMM - BÚMM og BÚMM. Þögn............. aðeins lengri þögn. Við litum hvor á annan......... getur verið að þetta sé búið og ég varla búin að finna réttu stillinguna á vélinni? Félagarnir úr hjálparsveitinni fóru að tínast inn, bílarnir tóku að tínast í burtu............. við Ívan stóðum þarna eins og álfar út úr hól...... júbb þetta var greinilega búið. Ívan það er greinilega komin kreppa. Ég er enn að reyna átta mig á því hvort við höfum verið að hlægja eða gráta var þetta djók eða. Ég held satt best að segja að þetta sé eitthvert mesta flopp sem ég hef orðið vitni af. Þessi flugeldasýning mun lifa lengi, lengi í minningu minni á neikvæðan hátt. Þetta er það daprasta sem ég hef orðið vitni af og þeir hefðu grætt meira á því að gera ekki neitt. Alla vega er ég klár á því að Brói í Eyfjörð hafi í venjulegu gamlárskvöldi skotið meira upp en þarna. 

Já þegar líða tók á kvöldið rifnuðum við félagarnir úr hlátri mikið fjandi verður gaman að geta rifjað upp þessa stórkostlegu flugeldasýningu kreppuárið mikla 2008.

Ef myndin sem ég tók af þessu sem fylgir þessari færslu er ekki nægilega góð þá hef ég mér það til afsökunar að flugeldasýningin stóð svo stutt yfir að það gafst ekki tími til að stilla græjurnar.

Málsháttur við hæfi: Ekki er kálið sopið þótt í ausuna sé komið


Stelpur, konur og meiri konur, nema hvað?

MP3 stelpur

Það bar til tíðinda að skvísurnar Margrét Birta og Elín Alma fengu Mp3 spilara í jólagjöf. Það er kannski ekki í frásögur færandi nema hvað að Sædís Ólöf er sú eina sem má vinna í því að setja inn lög fyrir þær. Þess vegna brugðu þær undir sér betri fætinum í morgun og komu labbandi í heimsókn til afa og ömmu til þess að geta nýtt Sædísi áður en hún færi í vinnuna. Þegar búið var að lúðra inn slatta af lögum náðist þessi mynd af þeim systrum þar sem þær voru að hlust.

ÍþróttamaðurÞórs2008

Í gær var svo mikið um dýrðir þar sem hin árlega hátíð sem jafnan er kölluð ,,Við áramót" var haldin í Hamri félagsheimili Þórs. Þar er árið gert upp og íþróttamaður Þórs hvers árs er kynntur. Nokkrir einstaklingar heiðraðir fyrir störf sín í þágu félagsins, landsliðsfólkinu færðar gjafir, látinna félaga minnst og fleira. Skemmst er frá því að segja að landsliðskonan og fyrirliði Þór/KA hún Rakel Hönnudóttir var valin íþróttamaður Þórs 2008. Flottur fulltrúi og frábær fyrirmynd. Þá var Jón Orri Kristjánsson kjörin körfuboltamaður Þórs og Björn Heiðar Rúnarsson Taekwondomaður Þórs. Hægt er að lesa ítarlega frétt um þennan viðburð á heimasíðu Þórs, nema hvað? og meira hér. Og auðvitað eru komnar myndir frá deginum í myndaalbúm sjá hér.

Að öðru leiti gengur lífið allt sinn vanagang. Maður etur reglulega yfir sig, sefur og liggur á meltunni og safnar kröftum fyrir næstu stórmáltíð sem er vanalega innan skamms. Og talandi um mat þá bíður enn ein stórmáltíðin þar sem okkur er boðið í mat til vina okkar í Hraungerði og ef að líkum lætur verður ekki etið í neinu hófi þar. Það er jú kannski bara allt í lagi enda getur maður alltaf á sig blómum bætt, ekki satt?

Málsháttur dagsins: Sá sem stelur kálfinum horfir ei í að stela kúnni


Gleðileg jól

Eftirfarandi er sagt um jólasvein dagsins sem er Kertasníkir

 

KertasníkirÞrettándi var Kertasníkir,

-þá var tíðin köld,

ef ekki kom hann síðastur

á aðfangadagskvöld.

 

Hann elti litlu börnin,

sem brostu glöð og fín,

og trítluðu um bæinn

með tólgarkertin sín.

Af því að það eru að koma jól birti ég svo mynd af jólakettinum fræga sem allir vilja forðast að lenda í enda ekki frýnilegt kvikindi það.

Kiss kiss

Ég vil svo nota tækifærið og senda öllum bloggvinum mínum mínar bestu jóla- og nýárskveðjur.

Gleðileg jól


Skata - nei takk

Möndlugrautur

Þorláksmessa runnin upp með öllu sínum dyntum og tiktúrum. Óþefur hér og hvar og sumstaðar, en ekki á mínu heimili. Þegar ég stofnaði heimili setti ég lög sem banna kæsta skötu á mínu heimili um aldur og ævi. Hins vegar er alltaf grjónagrautur með möndlu í hádeginu. Á því var engin undantekning í dag þar sem fjölskyldan kemur saman.  Jón Páll datt í lukkupottinn og fékk möndluna í ár. Sumir eru farnir að væna afann um að brögð séu í tafli þar sem barnabörnin fái alltaf möndluna, piff ég blæs á svona ásakanir. Geisladiskur með Glám og Skrám var möndlugjöfin í ár.

Ef allt var eðlilegt þá kom Kjötkrókur til byggða í nótt. Trúlegt að svo hafi verið enda fengu barnabörnin sitthvað í skóinn. Um Kjötkrók var ort forðum daga.

KetkrókurKetkrókur, sá tólfti,

kunni á ýmsu lag,--

hann þrammaði í sveitina

á Þorláksmessudag.

 

Hann krækti sér í tutlu,

þegar kostur var á.

En stundum reyndist stuttur

stauturinn hans þá.

Á morgun aðfangadag kemur svo sá seinasti til byggða og er það Kertasníkir, meira síðar um hann.

Spenningurinn í hámarki. Í dag verður rápað milli húsa og tíminn notaður í að slæpast og bíða eftir jólunum. Út að borða með fjölskyldunni í kvöld á Greifann, nema hvað?

Málsháttur dagsins: Tvisvar verður sá feginn sem á steininn sest

Ég svíf um á rósbleiku skýi

Ég svíf............... já í alvöru það er engu líkara en ég svífi um á rósbleiku skýi. Palli fór í fótasnyrtingu í morgun og svífur....

Jólasveinn dagsins er Gáttaþefur og um hann var ort forðum daga

 

GáttaþefurEllefti var Gáttaþefur,

-aldrei fékk sá kvef,

og hafði þó svo hlálegt

og heljarstórt nef.

 

Hann ilm af laufabrauði

upp á heiðar fann,

og léttur eins og reykur,

á lyktina rann.

Á morgun kemur svo hinn geðþekki Ketkrókur. Hann fær sína vísu á morgun. Ætli Skúli viti af þessu?

Málsháttur dagsins: Það er tungunni tamast sem hjartanu er kærast

Hvernig má það eiginlega vera?

Ég hreinlega sprakk úr hlátri þegar ég horfði á fréttatíma sjónvarpsins í kvöld. Frá því var sagt að öryrkjum og öldruðum fjölgaði mjög á krepputímum...............  Ég veit ekki með ykkur en þetta finnst mér í meira lagi undarleg fullyrðing. Það kann að vera að öryrkjum fjölgi á þeim tímum en ég get ekki með nokkru móti skilið það að öldruðum fjölgi við það eitt að kreppi að...... ég hélt að það væri aldurinn á fólkinu sem réði þessu en ekki efnahagsástandið. Það skildi þó aldrei vera að fólkið eldist hraðar í kreppunni. Vá hvað ætli ég verði gamall á morgun?

Þá var einnig greint frá því að hr. Ólafur Ragnar Grímsson forseti lýðveldis Íslands hefði farið fram á það skriflega að ríkisstjórn Íslands lækkaði sig í launum. Fín hugsun en hversu djúpt ristir hún? Laun forseta Íslands er bundinn í landslög og þarf að breyta stjórnarskránni til þess að koma þessu í gegn, því samkvæmt stjórnarskránni er bannað með lögum að lækka laun forseta Íslands. Það er hins vegar ekkert sem bannar honum að gefa þann hluta launa sinna sem hann vill lækka. Ég vil benda honum á að drífa í því til eru mörg samfélagsleg samtök sem gætu nýtt þessa peninga t.d. Mæðrastyrksnefnd.

Hvað um það. Í morgun kom hin skrítni jólasveinn til byggða sem Gluggagægir heitir. Allt annað fólk sem stundar þessa iðju sem Gluggagægir stundar er kallað ,,perrar". Um þennan jólasvein var ort forðum daga

 

GluggagægirTíundi var Gluggagægir,

grályndur mann,

sem laumaðist á skjáinn

og leit inn um hann.

 

Ef eitthvað var þar inni

álitlegt að sjá,

hann oftast nær seinna

 

í það reyndi að ná.

 

Á morgun kemur svo Gáttaþefur til byggða og er hann sá 11. í röð þeirra bræðra sem heimsækja mannabyggðir með brölti og bramli um hver jól.

Málsháttur dagsins: Manneskjan er það stærsta furðuverk í heiminum

Flottir tónleikar

 

BjúgnakrækirNýundi var Bjúgnakrækir,

Brögðóttur og snar.

Hann hentist upp í rjáfrin

Og hnuplaði þar.

 

Á eldhúsbita sat hann

í sóti og reyk

og át þar hangið bjúga,

sem engan sveik.

 

Ef allt hefur farið að óskum þessi skrítni karl til byggða í dag sem heitir því undarlega nafni ,,Bjúgnakrækir".  Á morgun kemur bróðir hans sem haldin er þeirri undarlegu áráttu að stunda þá iðju að kíkja á glugga.

Fór á kertatónleika í Glerárkirkju í gærkvöldi með Æskulýðskór þeirra kirkju. Með kórnum sögn Magni Ásgeirsson. Fínir tónleikar. Vissi um getu kórsins og hann stóð undir væntingum, Magni hefði geta betur en samt í lagi, en undirleikarinn Valmar fór á kostum þvílíkur snillingur hann er ótrúlegur. Set myndir af þessum tónleikum síðar.

Að lokum sendi ég svila mínum Theódór Halldórssyni óskir mínar í tilefni dagsins en þetta er fæðingadagur hans. Til hamingju með daginn Teddi.

Málsháttur dagsins: Betra er að hafa bein sín heil en brotin illa

Það sem kisa nær með klónni.......

Gluggagæir

Það var mikið fjör og mikið gaman hjá henni Elínu í gær. Hún hélt litla afmælisveislu fyrir skólasystur sínar. Óvæntan gest bar að garð í miðri veislunni. Var þar engin annar en Gluggagægir sem kom og kíkti á alla glugga. Honum var boðið inn eins og vera ber og gert er að gömlu gestasið. Tók jólasveinninn lagið með krökkunum færði þeim góðgæti í poka og hvarf síðan á braut. Þessi óvænta heimsókn hitti í mark hjá krökkunum.

Í gærkvöld svo leikur í höllinni þar sem mínir menn tóku á móti hinu ógnarsterka lið KR í körfubolta. Gestirnir úr vesturbænum reyndust einum og stór biti fyrir mína menn og fór svo að lokum að þeir unnu öruggan sigur 69-97. Verður var séð að eitthvað lið nái að ógna þessu sterka liði að nokkru gagni. Fyrir þá sem vilja er hægt að lesa nánar um leikinn á heimasíðu Þórs http://www.thorsport.is/

Dagurinn hófst með morgunkaffi í Hamri eins og venja er alla föstudaga. Í kvöld er svo tvennt á dagskrá. Fyrst að fylgjast með fimleikasýningu þar sem Elín Alma verður meðal annars að sýna listir sýnar. Svo síðar um kvöldið eru tónleikar í Glerárkirkju þar sem Æskulýðskór Glerárkirkju verður með Kertatónleika. Með kórnum kemur fram m.a Magni Ásgeirsson söngvari í hljómsveitinni ,,Á móti sól".

Í dag kom Skyrgámur (eða Skyrjarmur eins og hann var kallaður til forna) til byggða og er hann að sögn kunnugra 8. í röð þeirra bræðra. Um hann var ort forðum daga.

SkyrjarmurSkyrgámur sá áttundi,

var skelfilegt naut,

hann hlemminn o´n af ánum

með knefanum braut.

 

Svo hámaði hann í sig

og yfir matnum gein,

uns stóð hann á blístri

og stundi og hrein.

 

Á morgun kemur svo Bjúgnakrækir til byggða þangað til bara bíða.

Málsháttur dagsins: Þar sem hún kisa nær með klónni kemst hún upp

Þvílíkt endemis rugl

Hvað rugl fyrirsögn er þetta eiginlega? Dettur einhverjum í hug að Inter eigi séns í United? Roma þeir eiga eftir að finna rækilega til tevatnsins gegn Byssunum. Chelsea mun leika sér að Juventus eins og köttur að mús og þá mun Liverpool geta farið afslappaðir í viðureignina gegn mafíósunum í Real.

Svo fyrirsögnin hefði klárlega átt að vera ,,Ensku liðin duttu í lukkupottinn". Kannsk þetta sé bara í anda dagsins þeirra á sportinum hjá Morgunblaðinu þegar þeir fundu út að 97 mínus 69 væri 34.

Speki við hæfi: Fólki má skipta í þrjá hópa annars vegar þá sem kunna að telja og svo hina.


mbl.is Erfiðir leikir hjá ensku liðunum í Meistaradeildinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gullmoli dagsins

Fótboltastelpa

Í dag eru liðin nákvæmlega 7 ár frá því að þessi ljúfa stelpa leit dagsins ljós. Elín Alma er næst elst barnabarna okkar. Hún er líkt og systkini sín þvílíkur gullmoli og gleðigjafi að stór orð þarf til að lýsa henni. Elín er skýrð að hluta til í höfuðið á móður sinni sem ber Elínar nafnið sem sitt annað nafn og einnig er þetta komið frá langömmu hennar í móðurætt. Í dag verður eðlilega boðið uppá kaffi í tilefni dagsins þótt aðal veislan verði ekki fyrr en um helgina. En það er ljóst að afi mætir í dag og morgun og aftur um helgina og sér til þess að góðgæti sem  borið verður á borð skemmist ekki. Elsku Elín Alma til hamingju með afmælið.

Óhætt að segja að það verði mikið að gera í dag. Í hádeginu verður haldinn 23. súpufundur Þórs, Greifans og Vífilfells. Það verða góðir gestir sem sitja við háborðið og flytja framsögu og svara fyrirspurnum. Þetta eru Ólafur Rafnsson Forseti ÍSÍ og Helga Steinunn Guðmundsdóttir formaður Samherjasjóðsins. Ef þið viljið lesa meira þá farið á heimasíðu Þórs. Fundurinn hefst kl. 12:00 og stendur til kl. 13:00. Endilega drífa sig súpa, brauð og kaffi og ávaxtatoppur á aðeins 500 kr.

Í kvöld verður svo stórleikur í höllinni þar sem án efa sterkasta körfuboltalið Íslands í dag kemur í heimsókn. Ég er að tala um vesturbæjarstórveldið KR með þá Jón Arnór og Jakob Örn innanborðs. Í gær birti ég viðtal á heimasíðu Þórs við Benedikt þjálfara KR. Þar má sjá m.a. hverju Benni svaraði þegar hann var spurður að því hvort hann ætli að fá sér bauk eða fara á Bautann, farið og lesið viðtalið það má sjá hér. Einnig getur fólk lesið upphitunarpistil á heimasíðunni þar sem ég spái örlítið í spilin og birti einnig stutt viðtal við Hrafn þjálfara Þórs sjá hér. Leikurinn hefst kl. 19:15. Áfram Þór alltaf, allstaðar.

Í morgun kom Hurðarskellir til byggða hann er sjöundi í röð bræðra sinna. Sá skrítni karl kemur venjulega með brölti og braki og brestum miklum og hurðarskellum. En hér í Drekagilinu varð fólk lítið vart við hann enda engir skór út í glugga. Um hann var ort forðum daga.

 

HurðarskellirSjöundi var Hurðaskellir,

- sá var nokkuð klúr,

ef fólkið vildi í rökkrinu

fá sér vænan dúr.

 

Hann var ekki sérlega

hnugginn yfir því,

þó harkalega marraði

hjörunum í.

Á morgun kemur svo Skyrgámur og hann fær sína lesningu þegar þar að kemur.

Málsháttur dagsins: Betra er bæn að neita en með eftirtölum veita


Næsta síða »

Höfundur

Páll Jóhannesson
Páll Jóhannesson

Akureyringur, eiginmaður, pabbi, afi, Þórsari,  jafnaðarmaður, City - fan og Áfram Þór alltaf, allstaðar.

Hafi einhver áhuga að senda mér tölvupóst þá sendið á pallijo@internet.is

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

271 dagur til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband