Leita í fréttum mbl.is

Gáfaður afi

Eitt af því sem er svo gaman við að foreldri er að uppfræða.... já þá finnst manni maður vera svo gáfaður. Eftir því sem börnin stækka og þroskast fækkar þeim stundum sem maður fær að vera í friði í þessu eftirsóknarverða hlutverki þ.e.a.s. að vera uppfræðari. Það kemur nefnilega að því að börnin vaxa manni yfir höfuð svo yfir höfuð. En þegar neyðin er hæst er hjálpin næst.   - Afi -. Mikið ofboðslega er það dásamlegt að verða afi þá kemur nefnilega aftur þessi tími sem er svo skemmtilegur, Uppfræðari. Jebb back to the future.

Í gær fór ég í göngutúr með elsta barnabarninu mínu henni Margréti Birtu. Reyndar fór hún á hjóli, afi á tveimur haltrandi en þó jafnfljótum. Rétt austan við Hlíðarbrautina nær þeim hluta sem brúin við gamla Möl og Sand er þar er göngustígur sem ekki allir vita um. Nálægt einni af stærstu umferðargötum bæjarins fallegur stigur og ég skora á fólk sem ekki hefur farið hann að gera það.

Sú stutta átti það til að segja ,,afi þú bara labbar áfram og ég kem bráðum, ég næ þér". Svo kom þessi skotta á fleygi ferð fram úr afa. Á u.þ.b. miðri leið hafði hún leikið þennan leik og þegar afi náði henni hafði hún stillt upp og sviðsett slys. Afi varð að ganga í gildru en fékk að smella af henni mynd.

Slys?

Þegar komið er upp úr stignum að sunnan er maður rétt við göngubrúna yfir Glerá. Horft til suðurs í átt að Súlum. Ofan við brúnna sem bílarnir aka yfir má sjá undir henni í gömlu Glerárbrúnna sem muna má sinn fífil fegurri. 

Brýr og Súlur

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Nú ef maður snýr sér í 180 gráður og horfir til norðurs sést vel að Glerárgilið er fallegt. Í fjarska má sjá hið tignarlega fjall Kaldbak

Glerárgil

Á baka leiðinni var tekin annar hefðbundinn göngustígur. Við ræddum örlítið um hvað er stórt og hvað er lítið á víðum grunni. Já það fer vissulega eftir því hvernig maður litur á hlutina. Við Hlíðarbrautina standa m.a. 4 blokkir sem eru 8 hæðir. Daglega eru þessar blokkir kallaðar ,,Mjólkurfernurnar". Ef þú horfir á blokkirnar út frá þessu sjónarhorni þá virðist blokkin ekki vera svo ýkja há miðað við Grenitréð sem við stóðum við.

Stór eða lítill

Eftir smá labb til viðbótar var húsið skyndilega orðið risa stórt. 

Tröllaborgir

Það er ekki alltaf allt sem sýnist eða þannig. Við héldum áfram og gengum sem leið lá uppá Hlíðarbrautina og stoppuðum við nyrsta hringtorgið við Hlíðarbrautina og þá mátti sjá allar Mjólkurfernurnar. Í fyrstu fannst barninu sú sem næst vera  hlyti að vera sú stærsta. En eftir stutta útskýringu þá skildi barnið

Mjólkurfernur

Já nú kemur smá tenging sem barninu þótt gaman af. Blokkin sem næst er á myndinni er byggð sem stúdentagarðar fyrir nema í Háskólanum á Akureyri. Og það sem meira er að á neðstu hæð hússins er leikskóli sem heitir Tröllaborgir. Við gegnum upp fyrir húsið og virtum börnin í leikskólanum fyrir okkur sem voru að leik á lóð leikskólans.

En hvað sér maður þegar maður horfir í austur? Jú Háskólann. Þangað munu vonandi flest ef ekki öll þessi börn fara síðar á lífsleiðinni. Eins og mamma og pabbi sagði barnið og Sölli frændi sem er að fara útskrifast á laugardaginn. 

HA

Þar sem Háskólinn stendur í dag var áður rekin stofnun fyrir þroskaskert fólk og hét sú stofnun Sólborg. Austast á lóð háskólans er tignarlegt hús þ.e. Rannsóknarhús Háskólans. Falleg bygging sem hlaut nafnið Borgir.

Borgir

Færum okkur aðeins um set. Þá sjáum við fallegt listaverk sem heitir Íslandsklukkan. Á vef háskólans er sagt um þetta verk  „Íslandsklukka - Þetta verk var gert til minningar um 1000 ára kristnitökuafmæli og landafundi í vesturheimi og sögu þjóðarinnar í stóru og smáu. 1. desember ár hvert verða slegin saman saga þjóðarinnar og hljómur samtímans.“

Íslandsklukkan

Þessi mynd var þó ekki tekin í göngutúrnum og ekki heldur síðasta myndin þar sem sést heima að Sólborg séð frá bílaplaninu við búðina Strax við Hlíðarbraut.

Sólborg

Göngutúrnum lauk. Barnið var miklu mun fróðara. Afinn grobbinn og fannst hann vera ofboðslega gáfaður. Barnið naut stundarinnar með afa og afi naut stundarinnar með barninu og endurheimti máske glatað stolt, já hann var svo gáfaður. Trúlegt að göngutúrarnir með barnabörnunum eigi bara eftir að fjölga á komandi misserum svona ef guð og lukkan og heilsan leyfir. 

Málsháttur dagsins: Ungur nemur gamall temur

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Páll Jóhannesson
Páll Jóhannesson

Akureyringur, eiginmaður, pabbi, afi, Þórsari,  jafnaðarmaður, City - fan og Áfram Þór alltaf, allstaðar.

Hafi einhver áhuga að senda mér tölvupóst þá sendið á pallijo@internet.is

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

249 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband